23.8.06

Á leið í kanó ferð

Trallarí-jei, við erum á leið í kanó ferð. Eða, eins og kínversku krakkarnir í deildinni hans Óla segja, we enjoy life very much.

Haldið verður vestur til Minneapolis þar sem við munum hitta fyrir hjónin Angie og Justin. Jei jei jei! Á morgun munum við keyra þangað en það tekur um 8 tíma. Við munum stoppa í Madison og borða Nepalískan mat í hádeginu og fá fínt kaffi eða ís til að taka með. Síðan gistum við eina nótt hjá herra og frú Snyder og höldum svo af stað enn vestar en aðalega í norður til the Boundary Waters. Það tekur svona 6 tíma að keyra þangað en það er ekkert mál því þá munum við öll fara í einn mini-van, sem er miklu skemmtilegra en að vera bara með Óla. Djók. En samt, það er það.

Nágrannarnir eru hættir að vökva.

óþolandi færsla - ekki lesa hana

Mér finnst pirringur vera mest leiðinlega tilfinningin. Sennilega vegna þess hve hún er illviðráðanleg. Ef eitthvað fer í taugarnar á manni er geðveikt erfitt að sannfæra sjálfan sig um að láta það ekki fara í taugarnar á sér og maður er pirraður. Það sem fer í taugarnar á mér er hvað nágrannarnir vökva svakalega mikið. Jú, það verður að vökva svo gróðurinn skrælni ekki. En fyrr má nú vera. Þau vökva þannig að vatnið flæðir útum allt. Og þau spá ekkert í þessu. Þótt það fari að rigna vökva þau og vökva.

Óli verður geðveikt pirraður ef dótið hans brotnar. Hann getur látið það fara í taugarnar á sér í marga mánuði að eitthvað brotnaði eða týndist. Þetta fer svakalega í taugarnar á mér. Það er óhjákvæmilegt að hlutir brotna og týnast. Ef það gerist kaupir maður nýtt. Mér finnst það vera algjörlega órökrétt að eyða svaka miklum tíma í að pirra sig yfir svoleiðis smámunum og verð nú til dags brjáluð yfir því hvað Óli verður súr ef ég óvart brýt eitthvað sem hann á. Vegna þess að hann brýtur af og til eitthvað sem ég á og þá segi ég bara "Allt í lagi. Annað hvort kaupi ég nýtt eða ekki. Leiðinlegt að þetta skyldi brotna en shit happens." Það sem fer eiginlega mest í taugarnar á mér er hversu erfitt er að stjórna þessum tilfinningum um pirring. Það er svo óþolandi að vera pirraður. Og óþolandi að vera í kringum fólk sem er pirrað.

22.8.06

Plutita

Það sem mér finnst um hvort Plútó eigi að fá að vera memm eða ekki er að hann eigi það. Það er ömurlegt að vera skilinn útundan og þó svo hann sé lítill og skítugur, þá er það engin afsökun. Við þurfum á öllum plánetunum okkar að halda þegar óvinirnir koma og þá er ekki gott að vera búinn að úthýsa okkar eigin liðsmönnum. Ég segi að við eigum að vera góð við minni máttar því það er fallegt og líka líklegt að þeir séu ekki minni máttar. Hver veit nema Plútó sé að þróa einhverja sniðuga tækni sem mun hjálpa okkur í framtíðinni. Plútó! Þú mátt vera með mér.

21.8.06

Collapse

Núna er ég að lesa um það hvernig siðmenningar liðu undir lok í gamla daga. Eins og til dæmis víkingabyggðin á Grænlandi, Maya siðmenningin og Páskaeyjar. Það er mjög merkilegt finnst mér, og greinilegt að okkar siðmenning er í sama fari og þessar. Núna er tildæmis blaðið fullt af greinum um stríð og stríð og ósætti og vandamál. Ekki er hægt að segja fyrir hvað mun taka við fyrir Líbanon og Ísrael eða Palestínu og Ísrael. Iraq, Pakistan og Afganistan eru líka með mjög óstöðugt ástand og hvað þá Íran. Eitthvað undarlegt er að gerast með Venezúela, þeir eru búnir að fá sig kappsadda og eru farin að vingast við Írani. Hryðjuverka vandamál er í Bretlandi. Maður fær bara sting í magan hvert sinn sem maður flettir. Það er svoleiðis allt í rúst í Afríku að meira segja dagblöðin nenna ekki að skrifa um það lengur. Ég er svo svartsýn á framtíðina að það hálfa væri nóg. En maður getur ekki að því gert. Maður getur ekki lifað gegn sinni sannfæringu. Látið eins og allt sé í lagi. Lifað í blekkingu. Kannski er svona að trúa á Jesú. Eða Muhammed.

Fólk segir "það hefur alltaf verið til fólk sem trúði því að heimsendir væri á næsta leyti." Já, en vissi það fólk eitthvað um hvað var að gerast í næsta héraði við það? Hafði það upplýsingar og gröf um mengun og sjúkdóma? Þetta er vandamál, en vandamálin eru jú til þess að takast á við þau. Ég er svoleiðis alveg hrikalega ósammála biskupnum um það sem hann sagði fyrir nokkru og allir eru að hafa eftir honum. Áhyggjur leiða ekki til neins. Það er bara algjörlega bandvitlaust. Þær leiða jú til þess að fólk geri eitthvað í málunum sem það hefur áhyggjur af. Hvernig heldur hann að heimurinn væri ef allir myndu bara ypta öxlum og hugsa "jah, ég hef áhyggjur af syni mínum, honum gegnur ekki nógu vel í skólanum, en, áhyggjur leiða ekki til neins. Best ég hætti að hugsa um það."

Yndisleg helgi

Ein önnur helgi farin heim til sín. Það er alveg ótrúlegt hvað þær vilja stoppa stutt þessar helgar. Eins og það er gaman að hafa þær. Það mætti halda að þær séu ekki sama sinnis. Alltaf þegar þær koma reyni ég að skemmta þeim eins vel og ég get, en, alltaf sama vanþakklætið, þær bara rjúka á dyr eftir tvo daga.

Á laugardaginn slakaði ég alveg sérstaklega vel á. Fór ekki út úr dyrum. Ég las svolítið í bókinni sem ég er að lesa, Collapse eftir Jared Dimond, bakaði eplaköku, spilaði tölvuleik, horfði á video og spilaði eve við manninn minn. Stundum þarf maður bara að vera heima hjá sér til að fylla upp í comfortið.

Gærdagurinn var líka mjög afslappaður. Við fórum að klifra í úthverfinu með félaga okkar Young Jin. Sarah ætlaði að koma líka en á leiðinni mundi hún að hún átt að vinna svo við urðum að skutla henni akút í vinnuna. En klifrið var súper og við Óli klifruðum bæði eina 5.10a! Það er geðveikt og við vorum bæði mjög ánægð með okkur. Eftir klifur, sturtu og gufubað hittum við Söru þar sem hún var búin að vinna og fórum á the Hopleaf í kræklinga. Mmm, kræklingar eru svo mikið lostæti.

En síðan komst ég að því að við hjónin eigum eitt annað sameiginlegt en allt það sem ég hélt að við ættum sameiginlegt. Við erum bæði í SimCity, förum saman að klifra, erum að fara saman í kanó ferð, spilum eve af mikilli innlifun og núna, þá erum við bæði bloggarar. Jei! Ávaxtakarfan fylltist bara allt í einu af ávöxtum.

19.8.06

EVE

Jæja, þá erum við búin að spila eve-spilið. Og hversu spennandi er það? Það er svo spennandi að ég get varla róað mig niður. Ég var MinMatar og þeir voru ekki nógu sterkir. Allavegana ekki núna, en það er aldrei að vita hvað verður þegar ég verð búin að opna alla booster pakkana sem indælu eve-strákarnir gáfu okkur og kaupa 70 booster pakka í viðbót fyrir öll mánaðarlaunin hans Óla. Það er orðið nokkuð ráðið hvernig félagarnir Leifur og Raggi verja tímanum sínum hérna í Chicago.

17.8.06

Vinna í verkefni

Líkanið er komið inn á tölvu hérna á efri hæðinni og ég er farin að geta leikið mér að því. Ég hafði nú ekki alveg áttað mig á því hversu stór þetta dæmi er, en ekki kannski svo undarlegt þegar það er tekið inn í reikninginn hversu lengi og hversu margir menn eru búnir að vinna við gerð þess.

Þetta er líkan af meðal stærðargráðu (intermediate complexity). Árið 1969 bjó skrifaði maður nokkur lítið líkan sem aðrir hafa síðan verið að bæta við smám saman og skeyta saman við önnur líkön. Til dæmis ef einn maður skrifa líkan af sjóstraumum og annar af þörungum sem ljóstillífa í sjónum og sá þriðji um agnir sem sökkva í sjónum. Þá væri sniðugt að skeyta þessum líkönum öllum saman svo hægt væri að fá heilsteyptari mynd af því sem er að gerast í sjónum. Síðan gæti verið að einhver hafi áhuga á að vita hvernig rækjur hafa áhrif á allt kerfið og þá myndi hann bæta þeim inní. Rækjurnar borða þörunginn en ferðast með hafstraumum og ef menn gera þetta vel og eru búnir að spá heilmikið í hegðun rækja, þá kannski tekst þeim að líkja eftir fjölda rækju á hverjum stað. Þetta er svona saga fyrir 7 ára um líkana gerð. Allavegana skiljum við núna mikilvægi þess að nota fortran í jarðeðlisfræði. Það er bara svo mikið vesen að byrja á nýju líkani frá grunni.

En núna er ég að láta líkanið keyra í 1000 ár til að skoða hvernig það virkar og hvernig það heldur að sökkvandi agnir muni breytast á þessum tíma, meðan koldíoxíð eykst í andrúmsloftinu. Síðan ætla ég að setja inn aðeins öðruvísi spekulasjónir með á hvaða hraða agnirnar sökkva og sjá hvaða áhrif það hefur. Svaka spennó. Það góða er að það tekur um það bil klukkutíma fyrir líkanið að reikna hvað gerist á þremur árum sem þýðir að þetta verður til eftir TVÆR VIKUR!! Jæja, þá verð ég í kanó. Hmm, eða kannski komin aftur. Best ég fari heim og setist út á svalir.

15.8.06

GenCon 2006

Þar vorum við þessa helgina. Algjör nostalgíu ferð fyrir Óla og svaka góð skemmtun fyrir okkur bæði. En fyrir þá sem ekki eru með á nótunum þá er þetta samkoma super-nörda af hæstu gráðu. Þetta er stærsta spila ráðstefna í Bandaríkjunum ef ekki öllum heiminum. Og það er spilað í fjóra daga samfleytt. Hlutverkaspil, borðspil, teningaspil, spil-spil, allskonar spil. Þetta var geðveikt.

Við fórum í eitt roleplay og börðumst við svartálfa og tröll. Síðan spiluðum við settlers, rústuðum fólkinu og ég vann. Fjögur stig í lokaumferðinni! Við prófuðum allskonar spil og kíktum aðeins á EVE. EVE var með lang lang svalasta básinn þarna. Hann var á tvem hæðum og allur svartur og rauður. Í fyrsta lagi var enginn annar með tvær hæðir, og í öðru lagi var enginn annar með BAR á efri hæðinni!! Við Íslendingarnir tókum náttúrulega beina stefnu á barinn og komum okkur vel fyrir. Skildum ekkert í því að þar var varla nokkur hræða. Hittum fyrir nokkra Íslendinga og fengum okkur bjór. Menn voru nú svolítið hissa á að hitta okkur þarna. Síðar áttuðum við okkur á því að þetta var bara fyrir stórjaxlana sem vildu gera bissness díla við EVE-menn. Svona VIP hæð. En, fyrsta skrefið við að vera VIP er að hegða sér eins og VIP. Við höfðum það allavegana svaka huggulegt að skoða EVE spilið og drekka kaldan bjór í þægilegasta sófanum í 7 mílna radíus.

Þetta var alveg súper helgi og næsta ár ætlum við að mæta á fyrsta degi og ég ætla að vera með í settlers-championship-tournament og Óli ætlar að spila þangað við hann verður rauðeygður eins og allir hinir.

10.8.06

Talnatök !!

Þá lítur ný heimasíða Talnataka loksins dagsins ljós. Þetta er nú ekki búið að vera neitt stórmál nema það að tölvuverið sem ég nota er bara opið í takmarkaðan tíma svo það er alltaf verið að henda mér út. En hér getið þið skoðað afrasksturinn. Er þetta ekki bara fínt?

Núna er ég á leiðinni heim að búa til mango-sherbet og horfa á bride and predujice. Alltaf svo gaman hjá mér. Þetta er nú bara áframhald af lúxus kvöldi sem byrjaði um kvöldmatarleytið. Lax á franska vísu. Þá létt steikir maður sveppi úr smjöri og lætur þá síðan malla í hvítvíni í smá stund. Síðan tekur maður sveppina upp og "sýður" laxinn í sveppa-hvítvínssoðinu, en bara á vægum hita og ekki láta sjóða, í korter. Með þessu er blómkál með estragoni (þetta passar alveg sérlega vel saman) og líka hollandaise sósa. Þvílíkt lostæti. Með þessu dugar svo ekkert minna en verðlauna vín. (Um þar-síðustu helgi fórum við í vínsmökkunarpartí með þessa flösku og unnum verðlaunin fyrir að koma með bestu vínflösku miðað við verð. Við vissum alveg að hún myndi vinna því þetta er svo gott vín, og þess vegna keyptum við heilan kassa með félaga okkar fyrir nokkru.) En sérhver Íslendingur getur eldað svona fisk því uppskriftin er bara úr osta og smjörsölu bækling. Þeim bæklingum er ég sérstaklega hrifin af örugglega vegna þess að mér finnst smjör svo gott. Nammi nammi smjör.

8.8.06

Samstarfsmaðurinn minn, hann ...

Núna get ég farið að byrja setningar á þessa leið. Ég er eins og setningin gefur til kynna, nefnilega komin með samstarfsmann, collaborator. Það finnst mér mjög gaman. Hann býr í Oregon sem er einmitt fylki sem ég á eftir að heimsækja. Við ætlum að setja mitt líkan inn í hans, sem er ekki bara hans heldur á öll hans grúppa það, og athuga hvort við getum líkt eftir því sem vitað er um fyrri alda veðurfar betur. Við höldum náttúrulega að við getum það og þá er næsta skrefið að athuga hverjar spárnar okkar verða. Verða þær öðruvísi en þær sem nú liggja fyrir? Sennilega, höldum við. Hvernig þá? Jahh, þær munu allavegana ekki batna. Sorrý jöklaunendur. Þið hefðuð átt að taka strætó eða hjóla!

Sorrý hvað ég er brjáluð. Get bara ekki að því gert. Allavegana gott meðan ég tek það út á síðum ljósvakans en ekki á eiginmanninum. Óli hefur það annars svaka gott, um það bil jafn gott og ég. Þrátt fyrir vandamál jarðarinnar er lífið ljúft sem útsprungin rós í eggi.

4.8.06

Afmælisbarn

En það er einmitt ég í dag. Takk fyrir kveðjurnar og afmælisóskirnar. Þetta er hingað til búinn að vera frábær afmælisdagur. Óli reiddi fram dýrindis franskan morgunverð með croissant og allskonar góðgætum og við erum búin að sitja að snæðingi í þrjá heila klukkutíma með hléum fyrir gjafaupptök og spil. Ég fékk spil fyrir tvo, Carcasson, sem er súper og þar sem ég á afmæli leyfði ég Óla að vinna. En núna erum við að fara í LPAC sem er klifurhús á norðurhliðinni með útivegg því hér er sól og blíða eins og alltaf á afmælinu mínu. Síðan ætlum við að rölta aðeins um niðrí bæ og skoða segl skipin sem eru hér í nokkra daga og borða síðan á svaka fancy veitingastað, Salpicon. Uppáhaldið hjá mér þessa dagana er nefnilega nútíma mexíkönsk matreiðsla og þessi staður er með þesskonar eldhús. Svaka spennandi. Hann er ekki ósvipaður Frontera Grill sem við höfum núna farið tvisvar á og því tími til að prófa annan. Jei!!

2.8.06

Eld og brennisteini

Er það sem rignir hérna í Chicago. Eftir 3 eða 4 daga af hitabylgju byrjaði að rigna núna rétt áðan, á þeirri sömu mínútu og ég gekk út af mínu heimili til að fara hingað, sem ég er núna komin, en það er í tölvuver skólans. Það er elding á 15 sekúnda fresti og vatnið flæðir um göturnar. Alveg ótrúlegt. Það er eins og maður sé kominn aftur til Singapúr nema, affallssystemið hér er ekki eins skilvirkt. Mér skilst að það sé project í gangi við að byggja svona affallssystem, en sagan af því líkist New York sögunni um "nýju" vatnsgöngin. En þeir sem ekki kannast við þá sögu þá eru að vinna við gerð þeirra ganga barnabörn þeirra sem byrjuðu að vinna við hana. Samt gott að það skuli rigna.

1.8.06

Johnny Cash

Núna held ég að ég sé búin að vera optimal lengi í Bandaríkjunum. Það sem lætur mig segja þetta er það að ég er orðin hrikalega hrifin af Johnny Cash. Þessi hrifning byrjaði þegar ég horfði á myndina um hann Walk the Line. Ég horfði meira segja á hana tvisvar. Síðan vaknaði ég í morgun, klukkan sjö með laglínurnar dansandi í höfðinu mínu og ég gat ekkert að gert, og alls ekki sofnað. Núna er ég í skólanum og takk-e-gud og lov að ég er með einkaskrifstofu, ég veit ekki hvort Olga hefði þolað þetta. Ég myndi segja að tónlistastefna Johnny Cash sé blues, upphaf rokksins, svolítið útí folk með áhrifum frá kántrí.

Ágúst er tíminn..

Það er svo heitt hérna að ég get ekki hugsað um það. 100 gráður! Það eru 38 gráður í C. En það er einmitt hitastigið sem brauð er bakað við í RAW fæðuspliffinu.

Nú er semsagt kominn ágúst og umfram hitastigið, þá hefur það merkingu í akademíska dagatalinu mínu. En það er þá sem ég byrja að collaborata með vísindamanni á vesturströndinni. Í febrúar þegar við hittumst töluðum við um að byrja samstarfið einmitt í ágúst. Ég er svo spennt að collaborata með manni að ég get ekki slakað á hérna á skrifstofunni minni.

Ég setti hann í samband við tölvugæjann og nú bíð ég bara eftir því að forritið hans verði komið inn á tölvu hjá okkur. Svo spennandi. Síðan ætla ég að smella mínu forriti yfir í fortran og reyna að púsla því inn í hans forrit. En meðan ég bíð ætti ég kannski að vinna í greininni minni. Sem er víst farin að líkjast grein! Jei!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?