27.2.18

Brené Brown

Var að hlusta á TED fyrirlestra þessara konu og get ekki annað en mælt með þeim 100%.  Hún hittir naglann á höfuðið þegar hún útskýrir fyrir okkur að vulnerability, sem er á íslensku viðkvæmni - getur það verið! sé undistaða heilbrigðs lífs.  Þetta er að gefa færi á sér, leyfa öðrum að sjá að maður er ófullkominn og það sem maður gerir er ófullkomið.  Hún talar líka um skömm sem virðist vera með endurkomu um þessar mundir.




Í næsta fyrirlestri talar hún um hvað hún var miður sín eftir þennan fyrirlestur.  Þetta er alveg stórkostleg kona.  

Við vorum að fá okkur fiska.  Þetta á að vera hringrás þannig að fiskarnir næra plönturnar, plönturnar næra okkur og stelpurnar næra fiskana.  Þær eru mjög duglegar og passa að þeir fái þrjár máltíðir á dag.  Eddu langar í kisu.  Ég held hún sé á einhverju mig-langar-í skeiði.  Hana langar í ipad og síma og kisu og hund.  Sólveig er nokkuð lukkuleg og passar að sín rödd heyrist.  Ásta er hamingjusamasta barnið, syngur og dansar og er farin að tala heilmikið.   Heldur einræður fyrir leikskólakennarana sína á íslensku og þær eru alveg forviða, skilja ekki mikið.  Ég er ein heima hjá mér í fyrsta skipti í margar vikur.  Það er ekkert smá afslappandi.  Hú ha.  Takke gud skalov fyrir leikskóla og grunnskóla.


10.2.18

Frumburðurinn 6 ára

Og formlegur neytandi.  Hún var agalega ánægð með afmælið sitt.  Og flestar gjafirnar.  Það byrjaði nú með því að skólanum var lokað vegna veðurs en sem betur fer bauð ein mamman í skólanum Eddu að vera með þeim sem við þáðum því mínum skóla var ekki lokað og Edda var ljómandi ánægð með það.  Þau bökuðu kökur og skemmtu sér frábærlega.

Ballinu sem við ætluðum á var frestað og pabbinn í Telluride en við hugguðum okkur heima um kvöldið með lax og kökur sem við fengum í nesti frá vinkonunni og opnuðum pakka.  Barnið fékk allskonar fínt.  Nýjan danskjól og náttkjól, fótboltaskó sem hún var bilað ánægð með og fjarstýrðan bíl.  Perludót eitthvað Frozen sem hitti líka í mark.  Og, það sem er búið að vera efst á óskalistanum síðan ég man ekki hvenær er ipad.  En þar sem foreldrarnir eru ekkert á því að gefa sig í þeim efnum fékk ljósið mp3 spilara.  Með vídjói og upptökumöguleika og vekjaraklukku.  Nema hvað.  Það er svona pínu flókið að læra inn á takkana.  Volume sem er niður fer líka til baka en til að fara niður þarf maður að smella á til hægri.  Það er hins vegar orðið nokkuð náttúrulegt fyrir mig að smella á niður þegar ég vil fara niður svo ég ruglast í þessu og við erum aðeins í vandræðum.  Allavegana.  Í kvöld, allir sofnaðir nema Edda enn vakandi klukkan hálf tíu,  staulast hún fram með græjuna í eyrunum að hlusta á eitthvað popp sem fylgdi með því hún er bara ekki áhugasöm fyrir Pétri og Úlfinum sem móðirin setti inn.  Og segir með smá uppgjafatón: mamma, heldurðu að þegar ég verð 7 þá geti ég fengið eitthvað betra tæki?  Þá get ég gefið Sólveigu þetta.  Hún var ekkert volandi, meira bara svona deila þessari pælingu með mér.

Við áttum frábæran dag í dag.  Byrjuðum á vöfflum og heitu súkkulaði og síðan fóru allir út að leika í snjónum.  Beint í bílinn og í kids club meðan mamman fór að lyfta.  Þá á fótboltaæfingu og smoothie í bílnum á leiðinni.  Heim með afmæliskaffi fyrir Megan og Gail.  Ég henti í eina perutertu sem hitti í mark.  Síðan pumpkin súpa í kvöldmat, kardemommubærinn og allir að sofa.

Á morgun erum við að fara á Disney on Ice.  Það verður örugglega alveg stórkostlegt.  Ég er reyndar strax farin að kvíða fyrir að vilja ekki kaupa einhverja ljósa sprota sem verða til sölu fyrir fúlgu fjár.  Um næstu helgi verður afmælið á skautasvellinu.  Það verður örugglega stórkostlegt.  Það eina sem ég man eftir mínu sex ára afmæli er að ég fékk úr frá foreldrum mínum.  Mjög fallegt úr með rauðri skífu en auðvitað fannst mér svekkjandi að fá ekki eitthvað plast dót.  Það þjónaði mér hins vegar vel og ég held ég hafi átt það í mörg ár.

2.2.18

Tinna kennslukona

Þetta er það nýja sem er að gerast hjá mér.  Mér var treyst fyrir tvem bekkjum og nú er ég að reyna að kenna þeim vísindin á bak við veðurfarsbreytingar.   Við vorum að klára þriðju vikuna og ég get ekki sagt að þetta sé það auðveldasta sem ég hefði getað látið mér detta í hug að gera.  En kannski það skemmtilegasta.  Ég er ekkert smá ánægð með lífið og tilveruna.

Börnin eru svaka sæt og indæl.  Stóru börnin.  Litlu börnin mín auðvitað líka.  Þau eru öll búin að vera með flensu sem endaði (vonandi) með því að Óli fékk flensu.  Elsku karlinn.

Það erfiðasta við að kenna er að börnunum finnst þetta svo flókið.  Ég segi þeim eitthvað sáraeinfalt og þau horfa á mig með augum sem segja "jæja, hvenær ætlarðu að kenna okkur eitthvað nýtt".  Síðan segi ég þeim tvo aðra hluti og hvernig þeir púslast saman.  Ég segi þeim þetta svona þrisvar sinnum og síðan eiga þau að gera verkefni þar sem þau fara í gegnum þessi skref sjálf og þau hafa enga hugmynd.  Eru bara eitt spurningamerki og vita ekki hvernig þau eiga að byrja.  Kannski ekki öll.  Sum skilja.  Sum eru svaka dugleg, lesa fyrir tímann og spyrja og þau skilja en nokkur sitja bara og hvíslast á, leika sér með blýjantinn sinn og brosa stundum. 

This page is powered by Blogger. Isn't yours?