29.9.15

Ert þú með barn í mallanum?

Við sátum öll fjölskyldan á bríkinni á hjónarúminu og vorum að gera okkur til fyrir daginn.  Ég var að greiða Eddu og var með hana svona á milli lappanna.  Óli hélt á Sólveigu sem að reyna að láta hann lesa fyrir sig með skapofsa sem einkennir þá sem fá minni athygli en aðrir.  Edda er svona að strjúka á mér minn ört vaxandi maga og er greinilega aðeins misboðið því hún er hugsi og segir síðan
"Ert þú með barn í mallanum?"  Það var skemmtilegt að við vorum þarna öll samankomin.  Mér var aðeins brugðið en gat síðan stunið upp að já, það væri satt.  Það væri barn í mallanum.  Núna vill hún fá að strjúka mig af og til á daginn og er mjög spennt.  Þetta er nú alveg yndislegt.  Sólveig virðist ekki alveg búin að meðtaka þetta en uppáhalds bókin hennar er Lotte og Lillebror.  Þar er reyndar ekkert talað um barnið í mallanum, bara þegar það er komið í heiminn, organdi og með tilheyrandi veseni.

23.9.15

Ó þessi börn

Þau eru svo yndisleg.  Núna segir Edda um það bil í hvert sinn sem við borðum kvöldmatinn "þetta er besti matur sem ég hef smakkað" eða eitthvað í þá áttina.  Og Sólveig lætur ekki sitt eftir liggja og segir "mmmmmmmmm".  Hún er orðið algjört matargat og hámar í sig allt sem ég býð henni upp á.  Í kvöld vorum við hins vegar með grænkáls-pasta, með fullt af ólívu olíu og osti svo þetta var mjög djúsí, en Eddu fannst þetta alveg ótækt og gargaði "Ég vil ekki þetta græna - urrr".  Og var í alvörunni mjög svekkt en mér fannst það bara fyndið.  Passaði mig samt að bæla þá tilfinningu.  Maður verður að sýna samkennd.

12.9.15

Indæll dagur

Þetta var alveg sérlega indæll dagur hjá okkur í dag.  Það byrjaði nú á því að Edda vaknaði klukkan hálf sjö, alveg í spreng, því það fyrsta sem hún sagði var pissa, sundlaug, sundlaug.  En um leið og hún vaknar þá byrjar hún að segja manni frá því sem er að gerast í huga hennar, sama þó maður sé steinsofandi.  Við það vaknaði síðan Sólveig og þá var allt komið á fullt.  Sem betur fer gat ég skúbbað Óla í morgun duty og hann eldaði hafragraut og stóð sig með mikilli prýði.  Síðan fengum við okkur morgunkaffi með brauði og huggulegheitum úr voða fínu bakaríi sem við höfðum heimsótt í gær.  Það er ekki hægt að biðja um það betra.

Upp úr hádegi fóru Edda og Óli í smá leiðangur og Sólveig fór að sofa.  Hún steinsvaf í einn og hálfan tíma og ég skrifaði smá statement.  Er í smá starfshugleiðingum.  Það er bilaðslega spennandi.   Við Sólveig dunduðum okkur aðeins og síðan um þrjú leytið þá fórum við út í block-party þar sem allir nágrannarnir voru saman komnir að chilla.  Börnin fríkuðu út í hoppu kastala, máluðu sig í framan, hjóluðu á þríhjólum og léku á alls oddi.  Fullorðna fólkið sat í stól ef það var svo lukkulegt að eiga ekki eins árs gamalt barn og sötraði eitthvað huggulegt eða elti barnið sitt á röndum ef það var svo lukkulegt að eiga eins árs gamalt barn.

Í kvöldmat fengum við Mexíkóskt hrísgrjónasalat og börnin steinrotuðust kl. átta.  Þá "loksins" gat ég farið að taka til og pakka upp úr enn einum kassanum.  Phú ha.  Svona er nú lífið ljúft í Chicago.  Ég dýrka þessa chilluðu stemmningu hérna.  Svo afslappandi og alúðleg.

11.9.15

Flutt til Chicago 2.0

Þá erum við komin til Chicago og það er bara yndislegt.  Ég elska þessa borg.  Mér líður ekkert smá vel að vera hér.  Stelpurnar eru byrjaðar á leikskóla og bara nokkuð ánægðar með það.  Sólveig volar reyndar svolítið mikið og er búin að taka ástfóstri á allskonar böngsum sem hún hefur ekki litið við til þessa en fer með þá með sér og er með þá í fanginu allan tíman.  Edda unir sér svaka vel.

Við erum að reyna að koma okkur fyrir í íbúðinni.  Fórum í heljarinnar ferð í IKEA um helgina og keyptum tvo bílfarma.  Hillur og borð.  Og teppi.  Fyrir nágrannana.  Það er engin leið að fá börnin okkar til að sitja í innkaupa kerru í meira en 15 mínútur.  Ekki séns í þessa klukkutíma sem maður þarf í IKEA.  Þrátt fyrir að hafa sofið í bílnum í 2 tíma þá voru þær eins og milljón manns og við eins og hauslausir kjúkklingar að elta þær.  Þangað til við föttuðum að setja Eddu í smaland.  Það var pínu breik.

Flugferðin gekk ekkert illa.  Sólveig kastaði reyndar upp yfir okkur Eddu í lendingunni í seinni vélinni og við fengum að bíða á flugbrautinni í hálftíma til að ég gæti þurrkað allt upp.  En síðan hittum við pabba og þá varð allt betra.   Þær voru báðar svo ánægðar að sjá hann það var ekkert smá.  Sólveig mátti ekki líta af honum.  Óli fór að sækja kerru og Edda fór með honum en ég hélt á Sólveigu og það fannst henni bilað ósanngjarnt.  Þegar hann fór að sækja barnastólinn þá hljóp hún á eftir honum, ætlaði sko ekki að missa hann aftur í heilan mánuð.  Annars voru þær bara nokkuð ánægðar í flugleiðavélinni.  Edda horfði á sjónvarpið alla leiðina, hæst ánægð með það og Sólveig dundaði sér við allt mögulegt, sér í lagi við að vinka nágrönnunum og leika týndur - gjúgg við þá.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?