31.10.06

Hjónaskilnaður

Hjónabandið sem kom í kjölfar hjónavígslu þeirrar er við hjónin urðum vitni að daginn eftir 4 ára hjónabands afmæli okkar entist nákvæmlega jafn lengi og undirbúningsvinnan fyrir þá vígslu tók. Sem eru færri dagar en fjöldi gesta sem beðnir voru að vera viðstaddir athöfnina. Í dollurum talið eru þeir 200 sem hver dagur í hjónabandinu kostaði miðað við heildarkostnað athafnarinnar. Er ekki réttlætanlegt að eyða jafnhárri upphæð og hjónavígslan kostaði í hjónabandsmeðferð?

28.10.06

Sinnep og Zaiqa

Heljarinnar ævintýra laugardagur er á enda. Hann byrjaði með eins og hálfs tíma spjalli til Flórída við frænku okkar Öldu. Síðan héldum við Óli í suburbsin í klifrhúsið og klifrðum þangað til ég fékk stærðarinnar kúlu á ennið. Ég man ekki til þess að hafa fengið kúlu í 17 ár en það er örugglega bara bull. Í klifurhúsinu er urmull af börnum í afmælisveislu um helgar og fá þau alltaf svaka sykurbombutertu að borða en við fáum aldrei neitt og síðan leifa þau mest öllu. Í dag hætti ég að nenna að vera eitthvað ameríkukurteis og sagði bara við pabbann: "ég ætla að fá mér eina sneið". Hann varð eitthvað hvumsa en sagði "já í guðana bænum gjörðu svo vel" Og síðan fékk ég mér sneið og hún var eins og ég hélt, svaka mikið sykurjúmmulaði. En það er bara svo létt þreytandi að hafa þessi börn þarna. Börn eru náttúrulega yndisleg en í afmælisveislum eru þau það ekki. Núna veit ég allavegana af hverju þau leifa svona miklu.

Á fimmtudaginn urðum við hjónin fyrir því áfalli að sinnepið kláraðist. Það man ég ekki til að hafa gerst áður. Við eigum yfirleitt eitt kílógramm af Dijon sinnepi sem við kaupum í World Market á $5.98 (isk. 500). Þetta er meira að segja í ameríku svaka ódýrt. Það var þess vegna sem við héldum í World Market beint eftir klifrið, beint í sinneps-tabasco-ediks deildina. Til þess að komast að tvemur hlutum um sinnep. Annað er að það er sinnepsskortur í ameríku. Dijon sinnep í 1kg krukku er illfáanlegt hjá heildsölunum. Hitt er að sinnep í 1kg krukku er loss leader. Loss leader er vara sem búð selur með tapi til þess að lokka inn kúnna sem munu að öllum líkindum freistast til þess að kaupa allskonar annað sem þá vantar alls ekki og myndu sennilega vera hamingjusamari án. En það var einmitt það sem við gerðum. Keyptum allskonar munaðarvörur sem við þurfum ekki á að halda eins og marsipan kúlur og dýrindis kaffi súkkulaði-vöfflu-kex. Eftir trader og stanleys fengum við loks að borða og enn einu sinni teymdi maðurinn minn mig á þann vafasama stað Zaiqa.

Zaiqa er mest alvöru útlenski veitingastaðurinn í Chicago. Að fara þangað er eins og að labba til Dubai í einu skrefi. Það er enginn íburður, bara karlmenn, frekar skítugt en ljúffengasta lambakarrí sem þú hefur nokkru sinni látið inn fyrir þínar varir. Og nan brauðið, því verður ekki lýst, ekki einu sinni í ævintýri. Ástæðan fyrir því að ég vil ekki lengur borða þarna, er að ég er iðulega eina konan og verð iðulega veik eftirá. Í fyrsta sinn sem ég fór þangað var ég eitthvað að vandræðast um að vilja þvo mér um hendurna því maður borðar jú með puttunum. Ég spyr einn mannanna hvar salernið væri. Hann verður eitthvað hvummsa og ýtir mér bara inn í eldhús. Þá heyri ég konu taka andköf. Hoo á innsoginu. Komdu komdu segir hún og labbar með mig um allt eldhúsið að sýna mér stóru pottana fulla af bauna stöppum og lamba karríi, ofninn með nan brauðunum og stærsta dunk af hrísgrjónum sem ég hef á ævinni séð. Og síðan sýndi hún mér hvar vaskurinn var. Það er ekki einu sinni konuklósett. Og það koma aldrei konur þangað inn. Sennilega vegna þess að engar konur eru leigubílstjórar.

27.10.06

fósfat og nítrat

3-D, fully-coupled atmosphere-ocean climate model er góð lýsing á líkaninu sem ég er að vinna með þessa dagana. Þetta þýðir bara að líkanið er þrívítt og að sjór og loft tala saman, t.d. fer magn CO2 í loftinu eftir því hvað er að gerast með efnafræðina í sjónum. Það er svaka gaman að vinna með þetta líkan, ég er að leika mér við að breyta hraðanum sem agnir sökkva á og sjá hver áhrifin eru. Hingað til er ég bara búin að bera mig saman við hraðann sem var verið að nota þegar ég fékk þetta í hendurnar en rétt í þessu var ég að skoða gögn sem ég ætla að nota til að bera mig saman við. Þetta eru ekkert smá flott gögn. Mig langar að setja mynd inn á bloggið en ég veit ekki hvort ég megi það. Ég er að skoða næringaefnin í sjónum og það er svo gaman því maður getur séð svo greinilega hvar sjórinn streymir upp frá mikly dýpi því hann ber með sér næringaefnin þaðan.

Í gær keypti ég flugmiða fyrir mig í 5 flugvélar. Desember verður sannkallaður ævintýra mánuður. Fyrst fer ég til San Francisco á ráðstefnu. Síðan kemur Óli og við förum til Sonoma í vínsmökkun í 3 daga. Þá fljúgum við eldsnemma á mánudagsmorgninum til Baltimore og síðan áfram til Íslands um kvöldið og verðum komin á þriðjudagsmorgun heim til Íslands. Þetta eru yndislegustu orð sem ég þekki. Heim til Íslands.

25.10.06

Verkefni ekki óleysanlegt!

Allavegana komst ég að einhverri niðurstöðu. Já, sem sagt, eina ferðina enn í tölvuverinu. Í dag er ég búin að skemmta mér við það að skrifa skelja-forrit. Það finnst mér alltaf svaka gaman. Í dag var það sérstaklega gaman. Ég var bara í róleguheitunum inni á skrifstofunni minni með rólega tónlist í gangi, Damien Rice, að skrifa eina og eina línu. Maður er alltaf að gera smá villu, snýr kommum vitlaust eða er að reyna að pípa inn í eitthvað sem vill ekki taka við pípi og svona, svo maður, allavegana ég, er í kannski 5 til 10 mínútur með hverja línu. Heyrðu! Akkúrat þegar ég fæ síðustu línuna til að virka og forritið í heild sinni gerir það sem ég hafði í huga að það myndi gera. Hvað ætli gerist? Svaka rokk-rapp dúndur stuð alltíeinu á skrifstofunni minni. Eminem kominn í gang eins og til að fagna velgengni minnar. Ég hef ekki upplifað áður jafn mikla hamingju við að fá forritsbút til að virka. Þetta var eins og í bíó! Vantaði bara að allir í deildinni gengu niður ganginn í takt við tónlistina, rappandi með Eminem í glansgöllum. Já það er sko gaman að vera til!

24.10.06

Póker æði

Ef einhver kíkti í ávaxtakörfuna þá hefði sá sami komist að því að hér í Bandaríkjunum ríkir póker æði. Sá hinn sami hefði hinsvegar ekki komist að því að Tinna nokkur Jökulsdóttir náði að bjarga heiðri heimilisins með því að vera í öðru sæti í pókerkeppni síðustu helgi og tryggja á sama tíma að fjárhagurinn haldist í svörtu. En þá vita menn það nú.

Ég er að vanda í tölvuverinu að reyna að leysa asnalegt verkefni sem ég hef grun um að sé óleysanlegt. That´s it folks. No more news. Nema það að í blaðinu í morgun var grein um að þessa dagana fer fólk með ungabörnin sín til sálfræðings hér í þessu landi allsnægta. Svo virðist sem ungabörn eru í auknum mæli að greinast með anorexíu, social-anxiety og ýmsa kvilla í þeim dúr. Þetta fannst mér svolítið útí hött en var kannski ekki svo hissa þar sem maður heyrir hér alltaf af og til furðulegar sögur um foreldra og hvað þau láta ungabörnin sín gera. Eins og að læra frönsku og að reikna með græju sem heitir baby-Einstein og á að gera smábörn að snillingum. Ég veit nú ekki, haaa??

21.10.06

deja vu

Þegar ég var í grunnskóla að skrifa stíla í Singapúr þá fékk ég alltaf athugasemdina "waffle". Það þýddi þá að ég var að skrifa í belg og biðu, stefnulaust, og ekki um aðalatriðið. Þetta fannst mér svona, svolítið pirrandi því auðvitað var ég að reyna að svara spurningunni. Það bara tókst ekki nógu vel til. Jæja, núna fæ ég útum allt athugasemdina "vague". Þetta finnst mér alveg óþolandi. Hins vegar er ég hrikalega hamingjusöm yfir að fá yfirhöfuð athugasemdir. Áður fyrr hef ég fengið:

-Reyndu að skrifa eitthvað sem lítur út fyrir að vera grein.
-Lestu literatúrinn
-Skrifaðu heilsteyptar setningar
-Skrifaðu heilsteyptar málsgreinar

Jæja, best að fara að skrifa eitthvað ákveðið.

20.10.06

Ótrúlegur unglingur

Mér finnst fyndið að það að vera unglingur er oft ömurlegt og sökkar feitt en unglingar eru samt yndislegustu og skemmtilegustu manneskjurnar. Hérna í Chicago er ég alltaf aðstöðarkennari fyrir kúrsa sem eru fullir af súrum og yndislegum unglingum. Mín deild sér nefnilega um nokkra core-physical sciences-requirement kúrsa sem eru fyrir krakka sem eru ekki með raungreinar sem aðalval. Og yfirleitt taka krakkar á fyrstu tvem árunum þessa kúrsa, 18 - 19 ára. Allavegana ég ætlaði nú ekki að tala um unglingana mína, heldur þennan ungling, sem er með lag í þriðja sæti á ísraelska listanum og kom í sjö-fréttirnar í Svíðþjóð og er bara algjör snillingur: Herra James Provan!

18.10.06

Get ekki gert 'essi heimadæmi

U-hu-hu. Ég get ekki gert heimadæmin mín. Skil bara ekkert í þeim. Eða ég skil kannski aðeins í þeim en ekki nógu mikið og mér finnst það hundleiðinlegt. Og ég er búin að borða tvö súkkulaði stykki. Mammaaaa!

Siggú vinkona mín á afmæli í dag en ég efast um að hún lesi þetta blogg. Og ég gleymdi að senda henni skeyti. Algjör lúser. Það er svo ömurlega leiðinlegt að geta ekki gert heimadæmin sín að mér dettur ekkert sniðugt í hug að skrifa.

17.10.06

Að vinna í heimadæmunum sínum

Er einmitt það sem ég er að gera núna. Hvernig er líf án heimadæma? Það er nokkuð sem ég myndi vilja vera þáttakandi í. Þó svo það sé alveg gaman að gera heimadæmi. Bara orðið aðeins, tjah, úrelt.

Núna er matlab að reikna fyrir mig. Ég er að læra um leap-frog og backward-time-differencing og allskonar í þeim dúr. Þetta er nokkuð sem allir jarðeðlisfræðingar verða að kunna+skilja. Allavegana þeir sem gera hafslíkön. En sömu aðferðir eru einmitt notaðar í fjármálum, til að reikna út hlutabréfaskrisirús þannig að Óli er búinn að koma með mér í nokkra tíma. Svolítið rómó.

Jæja. Hún er enn að. Dísús hvað þetta er hægvirk tölva.

16.10.06

Góðir hálsar heilir og sælir

Hver haldiði að hafi unnið í póker! Enginn nema ég. Tinna Jökulsdóttir vann vann vann. Póker póker póker. Já þannig var það.

Á mánudögum er Journal Club hjá okkur. Þá hittast allir og einn útskýrir pappírinn sem lesa átti um helgina. Meðan borða hinir hádegismat. Haldiði ekki að ég og leiðbeinandinn minn höfum verið með eins nesti í dag. Ristaða poppy-seed beyglu með smjöri/smurosti, vatnsglas og ávöxt, peru/epli. Kannski ekki alveg eins en einum of svipað. Mér fannst það frekar vandræðalegt.

15.10.06

Helgi alla daga

Mjög notaleg helgi er að líða undir lok. Okkur var boðið í mat til Y-J og Söru. Það er alltaf svo gaman að fara í mat til þeirra því Sara er svakalega góður kokkur og Y-J býður upp á góð vín og síðan eru þau líka svo skemmtileg og yndisleg. Eftir matinn gerðum við smá tilraun á stellinu okkar og bollunum. Það kom í ljós að diskarnir okkar og bollarnir eru ekki með mælanlega (með þessu kit-i) mikið blý í þeim. Sem er náttúrulega gott en það lá við að Y-J varð fyrir vonbrigðum. Hann var alveg viss um að hann myndi finna fullt af blýi í glerungnum á bollunum frá Kóreu.

Í kvöld ætla Angie og Justin að koma til okkar í póker. Það er algjört pókeræði hérna núna. Þau ætla að koma með hundinn sinn hann Bunjie. Ég vona að hann pissi ekki á gólfið. Hann gerir það örugglega ekki.

Project Plates (myPlate) vakti mikla athygli á Blues and Ribs. Slagorð varð til: No plate left behind.

13.10.06

Hvernig maður snýr vondum degi í góðan

Það getur verið missnúið eftir því hvers vegna dagurinn er ómögulegur. Ef hann er bara almennt ömurlegur, t.d. ef maður fór á tvo fyrirlestra sem báðir voru algjörlega ótengdir því sem maður hefur áhuga á, fékk ömurlegt seríós í morgunmat og ýmislegt í þeim dúr. Þá er til MuggleCast sem er Harry Potter útvarp og er hægt að finna í itunes. Maður getur hlustað á það. Drukkið einn bjór sem maður fær ókeypis því maður er svo góður kúnni. Fattað eitt í vinnunni. Og ekkert. Þetta er þá nóg. Núna er ég einmitt að hlusta á einn MuggleCast þátt og það er bara alveg ágætt. Þessir krakkar eru búnir að spá alveg heilmikið í bækurnar. Og viðtölin við JK. Og allskonar teoríur.

elsku besti föstudagur

Ég er frekar fegin því að það sé í dag föstudagur og einnig að hann sé brátt á enda. Þessi vika er búin að vera hálf þunglyndisleg. Ég veit ekki hvert málið er. Lár loftþrýstingur og blóðþrýstingur. Ekki nægur svefn. Við vöknuðum fyrir níu hvern einasta dag í þessari viku nema í morgun. Kannski það sé áhrifavaldur.

En í kvöld er tækifæri til að drekkja sorgum sínum því þá verður ribs and blues hátíðin í skólanum. Alvöru Chicago hátíð. Heilt tonn af rifjum eru grilluð og nokkrar hljómsveitir kíkja út úr frumskóginum á suðurhliðinni hingað til Hyde Park. Síðan á morgun ætlum við að hjóla að vegg sem þykir gaman að klifra á. Hann er aðeins fyrir sunnan, á 65. stræti. Ég hef heyrt um hann talað en aldrei farið sjálf. Loksins læt ég verða að því.

Góða helgi allir saman, vona að þið hafið það gott.

10.10.06

project - Diskar



Þetta erum við að kanó ferð lokinni. Hún er náttúrulega löngu búin en mér datt samt í hug að setja inn eina mynd því það er svo innilega ekki neitt að gerast í Chicago þessa dagana. Svaka lægð eftir stormhviðu sumarsins.

Project diskar er samt að komast á legg. Ég vona að allir muni eftir PROJECT CUPS. Það er núna í góðu gengi. Nokkrir tölfræðingar tóku bollana traustataki og eru hættir að nota frauðplastsbolla. PROJECT DISKAR er samskonar verkefni en samt öðruvísi. Það nær eingöngu til mín og eiginmanns míns, eins og er, vonandi mun það breytast von bráðar. Hugmyndin er að vera alltaf með diska og hnífapör með sér til þess að þurfa aldrei að grípa til þess úrræðis að nota einnota diska. Við fórum í pot-luck í sveitinni og notuðum nýja settið þá í fyrsta skipti. Það er úr steinlausu stáli og gekk ljómandi vel að borða af diskunum og nota hnífapörin. Nú vantar bara heppilega tösku undir stellið sem ég og minn maður getur verið með á öxlinni ALLTAF.

9.10.06

Upp í sveit

Þetta var alveg yndisleg helgi hjá okkur Óla. Við fórum upp í sveit á laugardeginum, keyrðum alla leið til Wisconsin með vini okkar Young Jin og fórum á bóndabæ sem heitir Green Spirit að heimsækja Andrew og Jennifer sem eru bændurnir og þau eru vinir Young Jin og Söru. Mér fannst merkilegt að hitta þau. Þau bjuggu áður fyrr í Hyde Park (eins og við) en einn góðan veðurdag tóku þau saman föggur sínar og fluttu upp í sveit. Fyrst lærðu þau að rækta grænmeti á öðrum bóndabæ í tvö ár eða þrjú, og síðan keyptu þau land sem áður var á mjólkurbú og hófu búskap. Og núna lifa þau af því að rækta grænmeti. Þau eiga þrjú börn, 12, 8 og 3 ára sem eru í svo góðu jafnvægi að Óli hafði orð á því.

1.10.06

Toxic waste

Hér í heimi eru eiturefni á hverju strái. Það er blý í glerungnum á diskunum og bollunum manns. Það eru allskonar efni sem hafa áhrif á hormónastarfsemi fólks í plasti. Í sófasettinu manns eru efni sem minnka eldhættu sófans. Það er kvikasilfur í fiski.

Í óktóber tölublaði National Geographic er grein um eiturefni inn á heimilum fólks. Það eru óteljandi efni sem koma inn á heimili manns með húsgögnum og fötum og dóti. Í WSJ í gær var grein um blýmengun í kínverskum börnum. Í einu þorpi í Kína kom í ljós að hver einasta manneskja var með hátt blýmagn í blóðinu útaf verksmiðju sem í áratug framleiddi sjónvarpsíhluti. Blýeitrun er ennþá vandamál hérna í Bandaríkjunum. Það eru ennþá til fjölmörg dæmi þess að hús eru með málningu sem inniheldur blý og smábörn tína upp í sig málningaflögur og hafa ekki gott af.

Ég er allavegana búin að taka ákvörðun um að henda plast ílátum og skurðbrettum. Nota frekar gler og bambus.

Af öðrum eiturefnum er það að frétta að létt-eitruð konguló beit mig í löppina. Það var svo vont að ég hélt ég myndi deyja. Það gerðist samt ekki. Ekki alveg. En, talandi um kongulær. Bíllinn okkar er orðinn að kongulóa borg. Við vitum ekki hvað við getum gert í þessu. Glærar og ó-gis-legar köngulær búa inní bílnum einhverstaðar og koma síðan út um rifur og loftræstilúgur þegar við erum í róleguheitunum að keyra eitthvað huggulegt. AAArrghh!! Ekki lengur huggulegt. Ojjjjj!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?