29.1.12

Trix

Ég er búin að reyna allskonar trix til að lokka ljúfuna út. Undanfarna viku hef ég tekið Evening Primrose Oil sem á að vera voða gott til að mýkja allskonar græjur sem eru inní manni. Yoga kennarinn sver að þetta sé æðislegt og komi fæðingunni í gang.

Á föstudaginn fór ég í nálastungu til Qi Li. Allar konurnar á upper west fara til Qi Li. Og hann er ljómandi góður. Bara ekki alveg nógu góður. Fyrir viku fórum við Óli í 7 rétta máltíð - með öllum milliréttunum voru það 10 eða 11. Vín með hverjum rétti. Það dugði heldur ekki til. Í gær fórum við í bíó á enn eina hasarmynd og síðan á bar því Óli er búinn að vera með craving í buffalo vængi. Svaka spicy og húllum hæ fram yfir miðnætti en barnið er bara alveg í rólegheitum. Syndir makindalega um í mallanum á mér. Hjúfrar sig ofaní mjaðmagrindina mína. Sem er að liðast í sundur að mér virðist. Þá er bara eitt loka trix sem mér dettur í hug.

24.1.12

Due date

Miðað við allskonar líffræðilega tölfræði ætti barnið að fæðast í dag. Það virðist nú ekki ætla að ganga eftir en tölfræðin segir reyndar líka að það séu bara 5% líkur á því. Svo ég held áfram að vera ólétt. Með risa bumbu og manneskju á þyngd við keilukúlu í maganum. Mamma mía. Hún er orðin svo fyrirferðamikil að þegar ég sit verð ég að sitja gleið og leyfa bumbunni að plompsast milli lappanna. Það er ekki hægt að segja að maður sé eitthvað graceful.

Það er samt ekki hægt að láta heimilislífið og lífið almennt fara framhjá. Meðan ég bíð eftir manninum að koma heim úr vinnunni er ég að elda pasta. Með nýju pasta vélinni. Það verður spagetti með ólívuolíu og hvítlauk. Eins einfalt og það gerist en þó heimalagað pasta. Það er smá metnaður í því. Og okkur finnst þessi réttur geðveikur. Síðan er japanskt nammi í desert því Samar kom hingað við að sækja plönturnar sínar og gaf mér eitthvað fínt japanskt og indverska tösku í thank you. Hérna í Ameríku er mjög mikilvægt að þakka fyrir allt. Voða sætt af honum.

Ég er tilbúin fyrir eitthvað einfalt í matinn því í gær fórum við á NOBU í hádegismat sem er frægur japanskur staður. Ég fékk ljómandi góðan mat þó ekki sushi og sashimi eins og Óli, né sake. Samar sagði mér að í Japan borða óléttar konur sushi eins og ekkert sé. Hérna í Ameríku er sushi það fyrsta sem konur fá eftir fæðingu. Þetta er aðal fórnin. Að borða ekki hráan fisk. Mig langar líka í síld og reyktan lax. Fékk reyndar bita af reyktum lax í veislunni á föstudaginn. Það var dúndur veisla þó svo hún hafi ekki haft tilvonandi árhrif. Oh well. Kannski heimalagað spagetti dugi til.

20.1.12

Bóndadagurinn

Í tilefni bóndadagsins er ég búin að panta (og staðfesta) borð fyrir okkur Óla á Tocqueville en það er svaka fínn veitingastaður hér i bæ. Ó svo spennandi. Við föttuðum allt í einu að það gæti liðið svolítill tími þar til við komumst næst út á fínan stað svo nú er síðasti séns.

Einu sinni fyrir langa löngu pössuðum við Óli systkyni hans meðan foreldrarnir spókuðu sig í úlöndum. Þegar þau komu heim sögðu þau við okkur að við ættum endilega að fara eitthvað út að borða á þeirra reikning í þakklætisskyni. Við tókum þau bara á orðinu og fórum á grillið í sjö rétta kvöldverð og fínt vín með. Þvílík upplifun. Ég gleymi henni ekki svo lengi sem ég lifi. Aspasfrauð, uxahali, fiskur líka og allskonar fínt. Það er einmitt boðið upp á sjö rétta seðil á þessum stað. Ég er að hugsa um að agitera fyrir honum. Borða svo mikið að það verði ekki pláss fyrir barnið og það bara skýst út.

17.1.12

Contraband

Við Óli skelltum okkur í bíó á íslensku stórmyndina Contraband um helgina. Urðum svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum með hana. Stanslaus spenna frá upphafi til enda. Það var skrýtin tilfinning að labba inn í salinn hérna á upper west, fullan af fólki að fara að sjá íslenska mynd á laugardagskvöldi kl. 8. Ég varð pínu montin og feimin.

Síðan þegar myndin var búin og allir að labba heim heyrðum við fólkið fyrir aftan okkur vera að rökræða smáatriði í myndinni. Það var gaman. Þessi kvikmynd er náttúrulega ekkert meistarastykki sem situr í manni í marga daga en hún er ljómandi góð afþreying. Sérstaklega fyrir janúar. Ég hafði ekki áttað mig á því en það er víst erfiðara að hafa ofanaf fyrir sér í janúar heldur en í desember.

Það sem Íslendingar hafa áhuga á er hvað hún kostaði og hversu mikið hún þénaði fyrstu helgina. Meira og minna allar fréttir um þessa mynd segja frá því að hún virðist hafa þénaði áætlaðan kostnað en vantar svolítið uppá raunverulegan kostnað. Ég get kannski skilið það. Það er frekar kúl að geta búið til milljarða. Meira kúl en að láta milljarða fuðra upp.

11.1.12

Fæðinganámskeið

Við Óli erum á fæðinganámskeiði. Það er algjörlega the thing to do hérna í Bandaríkjunum. Fyrir pör sem eru að fara að eignast barn það er að segja. Við ætluðum reyndar ekki á svona en síðan kom í ljós að fæðingaheimilið er með það sem inngönguskylirði, svo þá ákvað ég að við skyldum fara. Filosófían sem við fylgjum heitir Bradley method eftir lækni sem fannst lyfjagjafir og læknisinngrip vera komin í ógöngur í kringum 1950.

Þá voru konur gjarnan bundnar við sjúkrarúm með lappirnar upp í loftið, slegnar út með lyfjum og barnið togað út með töngum. Hætt er að binda konur en annars hefur lítið breyst síðan honum ofbauð. Í dag, ef maður vill fæða barnið sitt með svipuðum hætti og konur á sléttum Afríku gera þá verður maður í fyrsta lagi að kunna á kerfið og vita hvernig maður kemst hjá því að lenda á færibandinu og í öðru lagi að læra um það hvernig náttúruleg fæðing gengur fyrir sig því það eru ekkert svo margir sem vita það.

Svo við erum núna á mánaðar löngu námskeiði tvisvar í viku, 3 tíma í senn að læra um öll smáatriðin ásamt nokkrum öðrum pörum. Þetta gera 24 klukkustundir og við vorum nú aðeins efins um að það væri svona mikið sem maður þyrfti að læra en kennaranum tekst bara ágætlega að fylla upp í þennan tíma. Eitt af því sem mér fannst merkilegt var að öll önnur kven spendýr borða fylgjuna þegar hún er fædd. Það stöðvar blæðingu ef einhver er og eykur mjólkur framleiðslu. Þegar kennarinn átti sitt annað barn skar hún nokkra litla bita af fylgjunni og borðaði þá með prjónum. Síðan í marga daga á eftir setti hún smá bita í boostið á morgnanna. Við á þessu námskeiði erum svo sjóuð að allir tóku þessu bara vel þó svo sumir hafi kannski aðeins grett sig. Annars er vinsælt líka að þurrka hana og setja í capsúlur sem maður gleypir, eina á dag í nokkra daga. Svaka áhugavert! Hérna er linkur á rannsóknir um hollustu fylgjunnar.

3.1.12

Áramótaheit

Ég braut heilann um það heillengi hvert árámótaheitið mitt myndi verða þetta árið. Maður verður að vera með eitthvað. Það hlýtur alltaf að vera eitthvað í lífi manns sem má betur fara. Þetta venjulega er bara í góðu standi. Ég þarf ekki að fara í megrun, hreyfa mig meira eða borða hollari mat.

Þar sem ég lá enn í rúminu á nýársmorgun að lesa blaðið í símanum mínum rakst ég á grein sem talaði til mín. The joy of quiet. Hún fjallar um að þögn er orðið það dýrmætasta sem nútímamaðurinn á. Endalaust upplýsingaflæði gerir mann alveg ringlaðann.

Ég var líka nýbúin að lesa blogg eftir annan rithöfund sem var að tala um internetnotkun og hvernig hún er yfirleitt passív og að það hjálpar manni ekki mikið að þroskast eða hugsa skýrar.

Uppfull af hugmyndum um skaðsemi stefnulausts ráfur um vefi internetsins fattaði ég nýársheitið mitt. Og það er að taka einn dag í viku, sunnudag, þar sem ég spái ekkert í internetinu. Nýársdagur var síðan sunnudagur svo ég fékk strax tækifæri til að láta reyna á heitið. Kom í ljós að ég þurfti aðeins að breyta því. Í það að gera ekkert passívt á internetinu á sunnudögum. Má skoða tölvupóst til að athuga hvort það sé eitthvað mikilvægt eða áríðandi, skrifa tölvupóst og spjalla á skype. Því það eru mannleg samskipti og það er svona pointið með þessu. So far so good eins og útlendingar segja. Ég hlakka til að sjá hvort lífið mitt breytist til hins betra með þessu nýársheiti.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?