30.11.15

Sum börn eiga enga mömmu

Þetta tjáði dóttir mín mér þegar hún átti að fara að sofa í gærkvöldi.  Og síðan spurði hún hvort ég gæti ekki kallað á þessi börn og leyft þeim að koma til okkar.  Dúdda mía.  Ég bráðnaði alveg inní mér.  Henni fannst það vera þjóðráð að fá fleiri börn heim til okkar.  Og ég er nú alveg sammála henni.  Sérstaklega ef þau eru öll svona yndisleg og góð.

26.11.15

Málið er ...

Þetta er nýjasti frasi frumburðarins.  "Málið er að ég þarf að gera þetta."  Ég veit reyndar hvaðan hún hefur þetta og það er frá móður sinni.

Áðan sagði hún "nú er ég reið við þig pabbi" þegar hann vildi ekki leyfa henni að gera eitthvað.  Svo settist hún á móti honum og horfði alvarleg á hann.

Það er thanksgiving og við fengum sennilega bestu thanksgiving máltíð hingað til.  Við Sara voru báðar í allan dag að elda.  Byrjuðum í gærkvöldi og héldum áfram eftir morgunmat.  Hálf átta var hún byrjuð að skera og hræra og gera allt mögulegt og ég tók þátt svona rétt rúmlega átta.  Við fórum út í klukkutíma með krakkaskarann og síðan borðuðum við hádegismat en annars vorum við á fullu í allan dag og útkoman var bara ljómandi góð.  Svaka góður kalkúnn, dressing, kartöflumús, rósakál, bollur, sósur og sultur.  Og að sjálfsögðu pumpkin pie í eftirrétt.  Við vorum öll þakklát fyrir vini og fjölskyldu, frið og stöðugleika í okkar heimaslóðum.  Og fyrir það að vera til yfir höfuð, og það með sjálfsvitund.  Þó það sé nokkuð líklegt að líf finnist á fleiri stöðum en á jörðinni þá er ekki gefið að það geti hugsað og notið lífsins með þeim máta sem við gerum og fyrir það erum við þakklát.

22.11.15

Edda í Kattholti

Fyrsta alvöru skammastrikið kom í dag.  Ég trúði í alvörunni ekki mínum eigin augum.  Sólveig er fárveik, búin að vera með hita í 3 daga þrátt fyrir sýklalyf svo hún er upp í og vaknar lon og don.  Þegar Edda vaknaði um 6 leytið sagði ég Óla að hann yrði að fara með hana upp og reyna að slaka á með henni þar því við Sólveig urðum að fá að sofa aðeins lengur.  Fast forward 20 mín yfir átta.  Edda kemur inn í herbergi til okkar.  Kolsvört.  Hún er kolsvört í framan, á höndum og fótum.  Svört fótspor útum allt.  Þá hafði hún fundið blekbyttuna mína og ætlað að "skrifa bréf" en byttan "pommaði niður á gólf".  Blekið skvettist upp um veggina og húsgögnin, útum allt gólf og barnið fór bara að synda í staðin í pollinum.

Ótrúlegt en satt þá hélt jörðin áfram að snúast.  Edda fór í bað.  Blekið þvoðist af parketinu og húsgögnunum en reyndar ekki af veggjunum.  Ætli það megi ekki mála þá og það er svosem ekkert mjög mikið af skvettum.  Fötin eru reyndar ónýt en það var nú bara tímaspursmál.

Við töluðum svolítið um Emil í sambandi við þetta atvik og að hann hefði alltaf þurft að sitja í skemmunni tímunum saman eftir stór skammastrik.  Og þetta væri skammastrik af því tagi.  En Edda myndi ekki vera sett inn í skemmu.  Henni var nú aðeins létt við það en ég held hún hafi ekki alveg náð hvað ég var að fara.  Síðan töluðum við aðeins um hvað fóstrurnar myndu segja á morgun þegar Edda kæmi í leikskólan öll svört.  Það fannst henni náttúrulega bara fyndið að hugsa til að þær myndu ekki þekkja hana.

11.11.15

Kjánaprik

Af og til þarf ég að útskýra það fyrir börnunum að mamma þeirra getur verið soddan kjánaprik.  Í morgun dreif ég börnin út úr húsi í einu hendingskasti því við vöknuðum ekki fyrr en 20 mínútur yfir 8.  Ég fann það á mér að við hefðum sofið óvenju lengi og þegar Óli sagði að klukkan væri orðin þetta margt þá fannst mér það mjög sennilegt.  Edda var reyndar vöknuð fyrir smá og var að "baka köku" á eldhúsgólfinu.  Það var vatn og tvær sveskjur í stórri skál sem hún setti af og til inn í ofninn og síðan hveiti útum allt gólf.  Við brunum af stað en sjáum engan í leikskólanum inn um gluggann.  Ég skoða klukkuna betur og hún er þá bara korter í átta.  Við höfðum verið að skoða allskonar klukkur sem stilla sig ekki sjálfar þegar vetrartíminn byrjar.  Aðeins of snemmt finnst okkur svo við keyrum aftur heim og fáum okkur hafragraut.

Þetta gerist bara tvem dögum eftir að ég er um það bil að skila greininni minni inn.  Átti bara rétt eftir að breyta nöfnunum á gröfunum og eitthvað svona smotterí.  Ég sest niður aftur eftir mjög vel útilátinn hádegismat; súpa, kúpversk samloka, yukka chips og flan í desert.  Er enn í matarvímu og fipast eitthvað og skrifa óvart :x  .   hmmm?  Ritillinn biður mig um frasa.  Ég held ég skrifi bara q til að komast út úr þessu en hann biður mig enn um frasa.  w finnst mér ég skrifa og síðan einhverja fleiri stafi.  Enn vill hann að ég skrifi einhverja frasa og ég skrifa visual.  Síðan man ég ekki hvernig ég komst út úr þessu en þegar ég opna skjalið mitt aftur er það bara bull. :x þýðir einmitt encryption og ég er búin að enkrypta greinina mína.  Get ekki opnað hana sama hvað ég reyni og sama hvað ég googla vi encryption by mistake.  Svo nú er ég að púsla þessu saman úr mismunandi backupum.

Þá er bara að bíða og sjá hvað gerist eftir tvo daga.

6.11.15

Yes

Sólveig er búin að læra nýtt orð sem hún notar óspart.  Það er Yes.  Nei-skeiðið virðist smám saman vera að renna sitt skeið.  Edda fór aldrei á nei-skeið.  Ég veit ekki útaf hverju.. mér finnst aðeins eins og hún hafi kannski ekki lært að segja nei fyrr en hún var vaxin upp úr því að segja nei við öllu.  En undanfarna tvo mánuði er Sólveig búin að svara meira og minna öllu með "nei".  Ertu södd?  Nei.  Viltu borða meira? Nei.  Eigum við að fara út? Nei  Eigum við bara að vera inni? Nei.  Þetta var orðið aðeins þreytt og núna er hún farin að segja Yes.  Viltu banana?  Yeþ!  Ha, viltu banana?  Yeþ.  Agalega sætt.

Við hjónin fórum í 20 vikna sónar í dag.  Það var svaka skemmtilegt.  Þetta er algjör fjörkálfur eins og systur þess.  Síðan veifaði það og gerði high five, sparkaði út og suður, fyrir ofan höfuð og beint niður.  Konan sagði að þetta fóstur gæti verið fyrirsæta, það var svo photogeniskt.  Okkur Óla fannst það líka hrikaega sætt en ég verð að viðurkenna að mér finnst pínulítið creepy að skoða höfuðin í sónar.  Það er gaman að sjá prófílinn á barninu, það er náttúrulega svo krúttulegt, stórt enni og lítið nef.  En að skoða heilann, hvelin og skiptinguna þarna á milli, síðan augun og nefið og munninn og allt inná milli.  Ég gæti alveg sleppt því.  Við Óli horfðum útí loftið þegar hún fór að telja eistu og eggjastokka.  Hún var viss um að við myndum þekkja það því þessar græjur eru orðnar svo góðar.  Þetta var allt svolítið skýrar en þegar við skoðuðum Sólveigu.

Eftir sónar sóttum við stelpurnar í skólann og fórum á Wasabi í ramen.  Það er svaka vinsæll staður hérna rétt hjá sem við höfum aldrei komist á því það kemur strax röð og þeir taka ekki við pöntunum.  En núna vorum við mætt 20 mín eftir opnun og rétt komumst að án þess að þurfa að bíða.  Stelpunum þykir svaka sport að borða með prjónum og hrísgrjón, núðlur, edamame og smá kjúlli rann ljúflega niður þeirra litlu vélindu.  Tonkotsu ramen mæltist vel fyrir hjá okkur fullorðna fólkinu.  Ég veit fátt betra en alvöru ramen.

2.11.15

Heil málsgrein!

Hú ha.  Skrifaði heila málsgrein.  Ég þarf að senda elsku greinina mína inn á miðvikudaginn og það er ansi margt ógert.

Allavegana hafa börnin mín það gott og öðlast aukinn tilfinninga þroska á hverjum degi.  Við hjónin erum aðeins upptekin af þessari vídd í uppvaxti afkvæma okkar.  Edda fann eitt halloween nammi sem hafði dottið á bakvið eitthvað og var staðráðin í að það myndi hún fá í desert.  Jú jú, ætli það ekki.  Síðan þegar allir eru búnir að borða þá tjáir hún það að nú sé komið að namminu.  Ég opna pokann.  Þetta er svona lítill poki með 5 eða 6 gúmmíböngsum.  Og segi henni að hún verði að gefa Sólveigu með sér.  Hún byrjar á því að rétta mér eitt og segir mér að ég verði að bíða með að borða það þangað til allir eru komnir með sitt.  Síðan gengur hún á milli allra, félagi Óla er hérna - búinn að gista hjá okkur í nokkrar nætur, og allir fá eitt.

Óli skildi ekki í því að hún skildi tíma þessu.  Fyrsti gúmmíbangsinn held ég sem hún fær á ævinni.  Nú heldur verkefnið áfram að skemma þetta ekki.

1.11.15

Baby's advocate

En það er Edda.  Núna hefur hún mestar áhyggjur af því að við séum ekki komin með göngugrind, vöggu né allskonar dót til að halda litla barninu í.  "Mamma, ég er að segja þér að þú verður að fara út að kaupa svona grind fyrir það vegna þess það er svo lítið að það getur ekki talað og ekki labbað."  En þetta er rétt hjá henni, ég losaði mig við allt baby-dótið vegna þess að ég var staðráin í því að eignast ekki fleiri börn.  

Við héldum upp á Halloween með pompi og prakt.  Fyrst var skrúðganga með skólanum á 30.  Síðan fór Edda í búninga afmæli á 31. og þegar dimmdi fórum við út í tick-ó-tít sem var svaka skemmtilegt og tekið vel á móti okkur allstaðar.  Öllum fannst Boots (Sólveig) bilaðslega sæt.  Síðan hittum við Henry, sem er í bekk með Eddu, og fjölskyldu og fórum í Halloween partý heim til þeirra.  Svaka stuð.  Síðan fengu þær systur sér sleikjó og meððí í morgunmat.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?