28.7.06

Stríðsblogg

Í dag er grein í Wall Street Journal um bloggara í Ísrael og Líbanon sem eru að skrifast á. Á hverjum einasta degi eru blöðin full af greinum um hvað er að gerast fyrir botni Miðjarðarhafs og í mið-austurlöndum. Hversu margar sprengjur voru sprengdar í þessari borg, hversu margir létu lífið, hvað eru politísku leiðtogarnir að segja um hvorn annan og svo framvegis. Maður fær það á tilfinninguna að flestir þarna eru hermenn eða konur með smábörn á hlaupum. Blogg fréttin var svaka góð því hún gaf manni ekki bara innsýn í hvað er venjulegt fólk á báðum vígstöðum er að hugsa, heldur líka áttar maður sig á því að það er bara venjulegt fólk sem býr þarna. Unglingar og fullorðið fólk sem eru nemendur og útivinnandi fólk og alveg miður sín yfir þessu ástandi. Alveg eins og við yrðum miður okkar ef einhver færi að sprengja í sundur Miklubrautina og Borgarspítalann.

27.7.06

Hversdagsleikinn

Vitur kona sagði einu sinni við dóttur sína sem var oft eirðarlaus og ósátt við lífið, "að hún yrði að sættast við hversdagsleikann". Þetta hefur mér alltaf þótt mjög hughreystandi þegar manni finnst lífið manns hundleiðinlegt. Þá þarf maður bara að muna það að það væri aldrei skemmtilegt ef það væri alltaf skemmtilegt og sættast síðan við þennan óhjákvæmilega hversdagsleika.

Þá er maður hamingjusamari fyrir vikið og lífið manns verður aftur skemmtilegt. Jei!

25.7.06

Sumarið er timinn...

sem er dásamlegur.

Þrátt fyrir að frí okkar hafi farið fram úr góðu hófi að mati Bandaríkjamanna létum við það ekki aftra okkur við að hafa það notalegt um helgina. Fórum ekkert í skólann bara dúlluðum við bílinn, heimilið og okkur sjálf. Við fórum í hjólreiðatúr á nýju hjólunum, trú þeirri ákvörðun að hjóla um hverja helgi í allt sumar.

Lestina tókum við lengst í suður í lítið þorp sem heitir Matteson því þaðan liggur stígur, þráðbeinn, alla leið til Joliet. Þarna voru áður lestarteinar og því var gróður, smá rönd, báðum megin við teinana sem var óáreittur. Núna er búið að taka teinana og steypa stíg og villtur gróður vex meðfram stígnum, en í því nútímasamfélagi Illinois er villtan gróður hvergi annarstaðar að finna. Næstum því, allavegana. Í gegnum tréin sér maður síðan glitta í villur og suburban hverfi. En þá er um að gera að einbeita sér að jákvæðu þáttunum. Þetta er mýri og það voru nokkur vötn þarna, við settumst við eitt til að borða nestið og það var ekki nema það en að risa cat-fish, á stærð við þorsk! var þar að sprikla. Við sáum líka kanínur og drekaflugur og svo mikið af fuglum að maður var í mestu vandræðum með að hjóla ekki á þá.

Allt í einu hjólum við inn í smá bæ. Það væri nú ekki frásögufærandi nema því hann er eins og bæir voru fyrir 70 árum. Engar keðjur, bara nammi búð með gamaldagsnammi, kjörverslun með gamaldags gosi og gamaldags mat, gamaldags tavern, gamaldags kornturn og ég veit ekki hvað og hvað. Það var bara eins og að einn góðan veðurdag fyrir 70 árum hefði fólk komið sér saman um að þaðanífrá tæku þau ekki við fleiri nýjungum. Alveg stórfurðulegt. En voða sætt.

21.7.06

Hitnun jarðar: Alvöru vandamál

Ég verð alveg hoppandi þegar ég les skrif nokkurs fyrrverandi skólafélaga míns er hann skrifar á síðum er kenna sig við Heimdall. Þar er að finna setningar eins og "Í takt við trú þeirra sem trúa á hitnun jarðar munu jarðarbúar þurfa búa við hærri meðalhita. " Þetta er ekki spurning um að trúa heldur kynna sér málið. Af hverju neitar fólk að horfast í augun við raunveruleikann? Fólk sem er búið að mennta sig í virtustu menntastofnun Íslands. Fólk sem þykist hafa umfram þekkingu sem almenningur ætti að treysta.

Þetta kennir manni kannski að treysta ekki nokkru sem stendur á internetinu. En það er líka ömurlegt. Netið er svo fullkominn miðill til að ná til margra í rauntíma. Ég er alveg brjáluð yfir þessu. Þess vegna hef ég ákveðið að skrifa grein í moggann um það sem titill þessarar færslu segir. Best ég geri það nákvæmlega núna.

Það hefur borið á því á íslenskum síðum internetsins að staðreindir eru teknar í efa. Það er kannski í málfrelsi í þessu landi og fólki frjálst að hafa skoðun, en það er ekki í lagi að fara rangt með staðreyndir mikilvægra málefna til þess eins að skjóta niður stjórnmálamenn.

Lofttegundir eins og vatnsgufa, koldíoxíð og metan kallast gróðurhúsa-lofttegundir vegna þess að þær gleypa innrauða geislun. Innrauð geislun er hiti sem kemur frá jörðinni sem er heit vegna þess að sólin skín á hana. Gróðurhúsalofttegundir gleypa þessa innrauðu geislun og geisla henni aftur frá sér í allar áttir, en meðal annars til jarðar aftur. Þetta hitar jörðina þónokkuð. Án nokkurra gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar væri hitastig hér um -20 C. Gróðurhúsaáhrifin eru því forsenda þess að á jörðinni er vatn en ekki ís og að við getum lifað hér góðu lífi. Þetta er hvorki álitamál né ný uppfinning. Vísindamaðurinn Svante Arrhenius skrifaði um þetta vísindagrein árið 1896.

Annað sem ekki er álitamál er að koldíoxíð og hitastig hafa jákvæða fylgni. Á ísöldum er magn koldíoxíðs í loftinu lágt (~180 ppm), en á hlýskeiðum er það hærra (~280 ppm). Því hafa vísindamenn komist að með rannsóknum á ískjörnum. Með brennslu jarðefna eldsneytis hefur magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu aukist úr 280 ppm fyrir iðnvæðingu í 380 ppm í dag. Fyrir 50 árum síðan áttuðu menn sig á því að magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu var að aukast þegar ungur nemi að nafni Keeling setti upp mæli á Hawaii og sá að á hverju ári jókst það. Var það kveikjan að því að menn fóru að hugsa um hitnun jarðar sem möguleika og eftir áratuga rannsóknir á öllu sem tengist veðurfari höfum við komist að því að jörðin er að hitna og mun halda áfram að hitna hraðar en nokkurn tíman áður í sögu jarðar.

Ætli ég verði ekki að fínpússa þetta þegar ég er ekki svona BRJÁLUÐ!!! En þetta er allavegana inntakið. Athugasemdir velkomnar.

20.7.06

að koma sér í form

Von er á drengjum hingað til Chicago í byrjun september mánuðs og munu þeir vera í topp formi. Það er hvati þess að við hjónin erum í alsherjar átaki. Eða þannig. Ekkert nammi át og fórum í klifurhúsið í kvöld. Svolítið gott.

Hyggjumst við fara með þessa pilti út í rauða náttúruna sem Kentucky nokkuð fylki hefur upp á að bjóða. Heitir það Red River Canyon eða bara at the Red. Ég veit ekki hvað ég er að reyna að vera svona háfleyg, er bara eitthvað svo ánægð með okkur. Í kvöld var silungur bakaður í ofni með hrísgrjónum og tómat-salati. Voða hollt. Núna er heilhveiti brauð í ofninum, við vöknum fyrir allar aldir og erum svaka dugleg.

Jæja, ég er allavegana svaka spennt fyrir því að fara í klifurferð. Fyrst förum við reyndar í kanó ferð með vinum okkar Angie og Justin sem við sjáum ekkert í allt sumar því Angie er að vinna hjá NASA í DC og hennar ektamaður fylgir henni bara þangað.

19.7.06

Góðan daginn Chicago!

Við komumst heil á höldnu til Chicago. Það var svona passlega mikið ævintýri. Flugið lenti í New York og var það vel. Sóttum við bílinn sem var búinn að vera í pössun hjá herra og frú Bernstein seint um kvöld á íslenskum tíma og hugðumst keyra aðeins út fyrir borgina á mótel. Keyrðum og keyrðum, Tinna steinsofandi og Óli sér ekkert mótel, bara svona holiday inn og best western sem er eiginlega of dýrt fyrir okkur. Síðan, allt í einu sér hann glitta í pínulítið skilti, "Honey Spot - Motor Lodge" í vegakantinum. Skiltið gefur til kynna að þetta gæti verið góður gististaður fyrir pyngjuna.

Hér gæti verið heil málsgrein um hversu hrikaleg mótel geta verið en ég læt það nægja að segja að mér leist ekki á að fara úr hettupeysunni og svaf með hettuna á mér. Eftir þetta fengum við okkur directoryið hjá motel 6 sem er dúndur gott mótel og líka svaka ódýrt. Við vöknuðum náttúrulega fyrir allar aldir sem var gott og vorum komin til Boston til félaga okkar Elliot eldsnemma þrátt fyrir að þurfa að keyra heillengi. Það var mjög gaman að heimsækja hann og hans kærustu en við höfum verið vinir alla okkar tíð hér í Chicago og var hann að flytja í burtu í vor.

Bílferðalagið frá Boston til Chicago var frekar viðburðalaust, en alltof heitt. Bíllinn ofhitnaði og við líka. Við stoppuðum í Buffalo og fengum okkur vængi. Einhversstaðar keyptum við kirsuber og kom það þá í ljós að ég er með ofnæmi fyrir þeim. Uhuhu. Mér sem finnast kirsuber svo góð. En reyndar dettur mér ekkert í hug sem ég væri sátt við að vera með ofnæmi fyrir, nema kannski svið, allt annað finnst mér gott. Jæja, við erum allavegana komin til Chicago og þá er best fyrir mig að reyna að koma mér að verki að skrifa þessa blessuðu grein.

15.7.06

Flutt og farin

Jess! Mamma er flutt í nýja húsið. Til hamingju aftur mamma! Og við Óli erum á leiðinni til Ameríku, södd og sæl með hvalkjöt í mallanum.

Við erum búin að hafa það svo gott hér og það er búið að vera svo yndislegt að vera á Íslandinu okkar með vinum og ættingjum, í náttúrunni og borginni, að ég vil helst ekki fara. Og það er aldrei að vita hvort við komumst. Það ku vera verkfall á vellinum og er ég spennt að vita hvort við verðum í háloftum eða bláa eftir tvo og hálfan tíma.

Hlakka til að sjá ykkur öll sem fyrst aftur. Passið upp á hvert annað og landið mitt meðan ég er í burtu. Bless í bili og takk fyrir mig.

11.7.06

Ellefti júlí

Er merkisdagur. Orri litli bróðir er tuttugu og tveggja í dag. Sæti litli bróðir minn sem er að freista gæfunnar í suður ameríku. Einnig voru Hvalfjarðargöngin opnuð þennan dag fyrir 8 árum. En það er auka.

Loksins gátum við hjónin komist út fyrir borgarmörkin. Á miðvikudaginn fórum við norður í land á Hóla að heimsækja Siggú æskuvinkonu mína. Hún býr þar í sumar meðan hún rannsakar fiskprótein og reynir að finna upp á nýju til surimi. Þegar við vorum búin að njóta sveitasælunnar á Hólum héldum við í sveitasæluna á Snæfellsnesi. Fengum alveg yndislegt veður þar og hittum stórfjölskylduna hans Óla. Hún var að vanda í dúndurstuði og áttum við góðar stundir. En nú má ég ekki vera að þessu blaðri, móðir mín er eins og hvirfilvindur hérna með kassa og poka útum allt og sýnist mér að ég verði að taka þátt í þessum stormi.

4.7.06

Fourth of July

Þjóðhátíða dagur Bandaríkjanna er í dag, dagurinn sem þeir fengu fullveldi frá Bretum. Ljómandi gott mál.

Mér finnst mjög yndislegt að vera hérna á Íslandinu mínu. Þótt allir kvarti og kveini yfir veðrinu er ég hæstánægð með það, það er svo frískandi að hafa rok og rigningu. Fyrirgefðu mamma mín. Það er líka ómetanlegt að eiga svona marga vini og skyldfólk. Ég hugsa að ég vilji flytja hingað hið fyrsta. Þótt það sé alveg ágætt vestanhafs.

Ég lét loks gamlan draum rætast á sunnudaginn. Hóaði saman vinum okkar Óla og við fórum í gönguferð um Reykjadal. Það voru þrettán manns sem héldu af stað upp hlíðina, létt í fasi og klæðaburði. Síðan kom demba og allur skarinn hljóp eins og fætur toguðu aftur í bílana. Þetta hlýtur að hafa verið skondin sjón fyrir aðra ferðamenn sem voru að tína saman dótið sitt þarna á bílastæðinu. En þá höfðum við, flest nema Svava, gleymt að fara í regnkápu, það var jú ekkert svo rigningalegt, en sáum þarna að annað kom ekki til greina. Allavegana, þetta var svaka gaman, allir komust á leiðarenda sem var heitur og notalegur lækur, og höfðu gaman af. Síðan fór hluti ferðafélaga í Sundlaugina í Laugaskarði, þá afbragðs sundlaug. Þar hitti ég Ágústu mína og síðan ömmu mína og afa á heilsuhælinu. Í lok dags var grillað í litla sæta sumarhúsinu hennar Rut heitinnar og við Ásta settum örugglega hálft heimsmet í banana-með-súkkulaði-áti. Ungu mannanna til mikillar skemmtunar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?