28.8.09

pund af belgísku súkkulaði

Líkanið mitt er orðið frekar flókið. Næstum því svo flókið að stundum skil ég ekki alveg hvað það er að meina. Eða hvert vandamálið er. Af hverju líkir það ekki eftir heiminum í einu og öllu? Við David spjöllum um sökkvandi agnir á hverjum degi þessar vikurnar. Í klukkutíma í senn. Það er geðveikt. Og framfarirnar eru eftir því. Smám saman hegðar líkanið sér meira og meira eins og heimurinn.

Vandamál eru fjölbreytt. Stundum er villa í kóðanum. Hún getur verið í mekanísmanum eða úrvinnslunni. Hún getur verið í útfærslunni eða hugsunarvilla. Við vorum sannfærð um að villan lægi í kóðanum, ekki í hugsuninni. "Í Treasure Island getur maður keypt pund af belgísku súkkulaði" útskýrir David. Guy Threepwood þeytist í gegnum huga minn og Kalli í súkkulaðiverksmiðjunni. Vó, hvað er að gerast, hvert eru þessar umræður að leiða. Nema hvað, ég er svo góður nemandi, fer eftir ábendingum leiðbeinanda í einu og öllu. Keypti belgíska súkkulaðið og ég er ekki frá því að það hafi gert gæfumuninn.

27.8.09

stress galore

Það er svo snarbrjálað að vera svona stressuð eins og ég er þessa dagana. Cortisol alveg í hámarki og þvílík víma er það. Ha! Blóðsykrinum er dúndrað upp í hæstu hæðir þannig að ég er öll á iði eins og ég sé með add. Stanslaus framleiðsla á magasýrum lætur mig vera með niðurgang og blóðþrýstingurinn í rugli því þarmarnir strika á natríum og klóríð verkefnunum. Þetta er ekki uppáhalds hormónið mitt, það er á hreinu. Þá kysi ég nú frekar progesterone. Eða dópamín.

21.8.09

Lífið er dásamlegt

Á föstudagskvöldi eftir 80 tíma vinnuviku líður manni eins og heilinn hafi verið spældur á pönnu. Kannski aðeins í vandræðum með að púsla saman heilli setningu og með háleitnar hugmyndir í kollinum.

Mér finnst svo magnað hve lífið hefur púslast fallega saman. Fyrst var ekkert. Síðan örlítið salt vatn sem þakti meira og minna alla jörðina. Þá urðu til sameindir sem urðu fyrir áhrifum af efnaorku og seinna sólarorku. Sameindirnar urðu flóknari og stærri og lagskiptar og loks að frumu, með vegg og kjarna. Löngu seinna læra frumurnar að vinna saman og skipta á milli sér verkum. Nokkrar frumur taka að sér að synda, aðrar melta og aðrar nema ljós. Sund-frumurnar læra að fljúga og síðan ganga.

Í dag fæðast verur svo flóknar að þær eru algjörlega óskiljanlegar. Þær halda að þær skilji heiminn en það er tálsýn ein. Þær skilja samt nóg til að geta búið til himneskan mat, dýrindis vín og tónlist sem kemur þeim til að gráta. Sjö milljarðir manns ganga um jörðina allir í mismunandi erindagjörðum en með sömu hugmyndir í maganum um að mennta sig og sína, fæða sig og klæða.

Ég er dolfallin yfir því hvað við, mannkynið, höfum spilað vel úr hendinni okkar. Jú, það er alveg satt að ég æsi mig upp yfir glappaskotunum en við höfum samt alveg vinninginn. Bakteríur til dæmis, þær rústuðu heiminum á miklu afdrikaríkari máta en við höfum gert hingað til. Cyanobacteria breytti metan-andrúmslofti í súrefnis-andrúmsloft og drap meira og minna allt líf á hnettinum fyrir nokkrum milljörðum ára. Við erum með forskot því við getum hugsað og fæðumst með samkennd fyrir öðru lífi.

Hins vegar held ég að hátindi menningar okkar sé náð. Mér finnst erfitt að kyngja því að mín kynslóð ólst upp við að túnfiskur væri matur en upplifði það síðan á miðri leið að hann hætti að vera matur og varð eitur. Það sem gefur manni von er að við, mannkyn, getum hugsað og kunnum að leysa vandamál. Þannig að kannski finnum við útúr þessu. Kannski erum við tegundin sem bjargar sér.

19.8.09

Herbergi og húsaskjól

Það lá fyrir að ég yrði á götunni um mánaðarmótin. Hvernig á maður að nenna að standa í því að finna sér húsaskjól á nokkura mánaða fresti? Ég veit það ekki og ég nennti því ekki. Heimurinn sér um sína og lét ekki bara eitt heldur tvö herbergi detta í fangið á mér í dag. Plús sér baðherbergi. Háaloft hjá hálfdönskum ung-prófessor í deildinni minni sem ég veit fyrir víst að er mjög snyrtileg og vill bara hafa fínt hjá sér.

Ég upplifði nýja vídd á því að "hafa fínt hjá sér" í sumar þegar ég bjó (er meira og minna flutt á skrifstofuna) með grunnnemendum. Þeir sem muna lýsingar á því hvernig var innanstokks hjá galdramanninum Gaunt geta gert sér í hugarlund umgengnina hjá þessum ungmennum. Hún er ekki til fyrirmyndar.

Annars kom ég heim frá New York í gær. Það var ljómandi gott fyrir utan eitt lítið smáatriði sem virðist vera rauður þráður í gegnum líf mitt. Lyklar. Er svaka léleg að stjórna lífi mínu lyklalega séð. Vildi ég gæti hraðspólað í framtíðina þar sem maður opnar dyrnar með fingrafarinu. En við erum víst öll í 2009 og lyklarnir mínir voru í New Hampshire. Allt kisu að kenna.

Þið haldið kannski að ég sé farin að bulla en þetta er allt dagsatt. Sem betur fer er ég fyrir löngu búin að átta mig á mér og því er ég með rúm á skrifstofunni, náttföt og tannhirðudót, jógúrt, wetabix og alla þá ávexti sem hugurinn gæti girnst í morgunmat. Brauð, skinku, ost, sinnep og tómat í hádegismat. Eina sem vantar er lasagna og rauðvín í kvöldmat. Því er annað hvort annar skammtur af morgunmat eða hádegismat í kvöldmat og er það eini vankanturinn á þessu fyrirkomulagi.

16.8.09

Súper frábært klifur

Ég fékk í ammilis klifur ferð í the gunks með leiðsögumanninum sem við elskum, Jason í High Exposure. Að sjálfsögðu vaknar maður fyrir allar aldir til að taka fyrsta rútubílinn upp eftir. Það var þykk þoka yfir öllu þegar við komum á áfangastað en henni létti fyrr en við höfðum kosið. Við ákváðum að klifra eina klassíska braut, directissimo. Hún er 5.9 og þriggja þrepa. Það þýðir að við ráðum ágætlega við hana og þurfum að stoppa tvisvar á leiðinni til að skiptast á með reipið.

Fyrsti leggur gekk ágætlega. Jason klifraði fyrst (leiddi) og ég var númer tvö. Þetta var nú ekkert of auðvelt og ég var aðeins í vandræðum strax í byrjun. Sem betur fer fékk ég svaka gott beta frá Bobby sem gekk óvænt framhjá. Við komumst öll upp fyrsta legginn og stóðum þá öll í einu knippi á smá steinhellu. Létum haádegissólina baka okkur. Jason fór af stað næsta legg sem byrjaði með nokkra metra traverse-i. Á miðri leið snýr hann sér til okkar og segir "úff, þetta er bara aðeins pump-y - haldiði handleggjunum beinum".



Og við vorum mjög sammála. Algjörlega pumpy.



Það tók nokkrar tilraunir að komast framhjá cruxinu sem kom í ljós að var 5.10 gráða en öll komumst við á næsta þrep. Hádegissólin lét ekki sitt eftir liggja og skórnir hans Óla bráðnuðu og spændust upp.



Í dag er ég búin að sofa og borða. Algjörlega búin áðí. En hrikalega hamingjusöm.

14.8.09

Vinningshafi

Já, það er ég! Rétt í þessu fékk ég tilkynningu um að ég hefði unnið a pyranometer. Fyrir að taka þátt í getraun LI-COR fyrirtækisins. En þeir framleiddu co2-mælinn sem ég keypti fyrir kúrsinn hans Davids. Ekki vissi ég hvað pyranometer var og eins og oftar kom alfræðiritið wikipedia mér til aðstoðar. Kynni ég ekki að lesa myndi ég halda að ég hefði unnið geimskip. Gaman að þessu.

Ég held ég hafi ekki unnið neitt síðan ég vann 3 lítra af gelato í Singapúr um árið. Það er nú ekki lítið gaman að vinna eitthvað.

Gaman er líka að fá afmælisgjöf. Á morgun fæ ég loksins afmælisgjöfina mína. Hún er ferð uppí the Gunks að læra á dótaklifur. Jei! Klifurfélagi okkar, Toh, kemur líka og við ætlum að hitta Jason aftur, leiðsögumanninn sem fór með okkur í ísklifur á afmælinu hans Óla. Gaman gaman.

13.8.09

Williamsburg, Brooklyn II

Ég er eitthvað í vandræðum með að einbeita mér í þessum steikjandi hita. Loftkælingin puðar árangurslaust svo ég ákveð að fara út á leikvanginn. Skokka nokkra hringi. Skokk, eða hlaup, er jú all the rage, allavegana á face book. Menn virðast keppast um að segja hvað þeir skokkuðu langt, upp á hvaða fjöll og hve stuttan tíma það tók. Á gervigrasinu eru tvö lið að spila fótbolta. Suður-Amerísk. Eða bara Amerísk. Nokkrar kærustur og kríli að horfa. Eitt þétt Mexíkóskt kríli með meiri áhuga á langhlaupi en fótbolta hvatti mig til dáða með því að standa á línunni tilbúinn með lófann útréttan. Ég sló í þennan litla lófa jafn sæl og eigandinn og hélt áfram að hlaupa helmingi fleiri hringi en ég hafði áður gert. Gat ekki látið eina aðdáandann minn verða fyrir vonbrigðum.

Síðan fórum við Óli á stand up í the cove. Bakherbergi af Lovin Cup þar sem furðulegustu sjov verða til. Furðulegustu og fyndnustu. Ég pissaði næstum því í mig og datt niður í pollinn af hlátri. Aldrei hef ég upplifað jafn litla stjórn á sjálfri mér. Ég grenjaði af hlátri, hristist til og sveiflaðist um hnéin á mér. Vá hvað þessir menn voru ógeðslega fyndir. Fáránlega.

12.8.09

Williamsburg, Brooklyn

Trust fund krakkar í köflóttum skyrtum og skintight gallabuxum. Tattú á hálsinum. Eyrnalokar í kinnunum. Rotta flöt eins og pönnukaka með innyflin útum allt. Ég þarf að svífa yfir hana og passa mig að kasta ekki upp í morgunskokkinu. Krakkar í stickhokkí milli glerbrota. Sætur ilmur kannabis leikur um og house glymur úr öðruhverju húsi. Ég hleyp út á íþróttavöllinn á hlaupabrautina og skokka framhjá 100 ára gamalli konu með kryppu niðrá braut. Gömlum köllum með olíver twist húfu, glæsilegum píum í litlum naríum, aðeins minna glæsilegum píum að hlaupa af sér baby-fat. Her af myndarlegum Mexíkönum hlaupa á fótboltavöllinn. Vicky rokkar í ipodnum.

Þetta hverfi er alveg ágætt. Svolítið eins og MH. Hún Sigurbjörg myndi vera ánægð með íþróttavöllinn. Skrifborðið í herberginu hans Óla er jafn stórt og borðin í skólastofunum. Tölvan mín rétt kemst fyrir. Það er ágætt. Hank og cupcakes eru sæt. Þau setja tahini í allt. Og borða salat í hvert mál. Hrikalega gott salat.

Gömlu skólafélagar Óla voru í bænum í gær. Frá Ástralíu, Boston og Hells Kitchen. Við hittumst á veitingastaðnum Fig and Olive sem er versti staður sem við höfum nokkurntíman farið á. Allt útlit og ekkert innihald. Þjónustan hrikaleg og maturinn verri. Við vorum hins vegar svaka hamingjusöm með að upplifa hversu góð við erum í að velja staði.

6.8.09

Tinna Jökulsdóttir (31)

sást með manni á svipuðu reki á Motorino, ítölskum pizzu stað í Williamsburg, þriðjudaginn 4 ágúst. Virtist fara vel á með þeim.

Það er fáránlegt að vera svona fullorðinn. Þrjátíu og eins. Ég fæ verki í beinin við tilhugsunina.

3.8.09

Fyrsti í teleport

Ég var búin að eiga ljómandi árangursríkan dag í Housing Works þegar ég ákvað að labba í Chelsea Market. Mig var búið að langa að fara í Chelsea Market að versla í nokkurn tíma því hér í Williamsburg höfum við ekki fundið neina góða matvöruverslun.

Housing Works er náttúrulega í Soho svo ég labba af stað í norður og vestur í áttina að Chelsea. Framhjá New York University. NYU er í West Village sem er á milli Soho og Chelsea. Ég er bara að labba, í norður og vestur, þangað til allt í einu er ég komin á Lower East side. Lower East side er fyrir austan Soho. Þetta var svo dularfullt. Ég hef aldrei heyrt minnst á ormagöng í West Village sem er ótrúlegt því þvílíkur aragrúi af fólki er þar alla daga. Hreint ótrúlegt að enginn skuli hafa gengið inn í þau.

En ég gat ekki annað gert en að labba aftur í Soho og síðan sömu leiðina aftur. Ekki alveg sömu leið því ég náði að sveigja framhjá þessum óláns göngum.

Óli trúir mér svona rétt mátulega. Hann þekkir það hversu áttavilt ég er. Hinsvegar, ef ég byrjaði allt í einu að labba í suður og austur eftir að hafa labbað hátt í hálftíma í norður og vestur eins og hann telur sig trú um, þá hef ég gert það á hraða ljóssins, því ég upplifði það ekki. Hvort sem er, þá er ljóst að yfirnáttúruleg öfl eru að spila með mig.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?