30.5.08

Thesis mode

Það hlaut að koma að því að maðurinn minn færi að skrifa doktorsritgerðina sína. Reyndar er orðið svolítið síðan hann byrjaði, en nú sér fyrir endann á því. Því er það að ég finn mig niðri í kjallara í Eckhart, lengst innaf ganginum í gluggalausri skrifstofu kompu að vinna að kvikmyndagerð, seint á föstudagskvöldi. Ég er að búa til "kvikmynd" af ögnunum mínum þar sem þær sökkva, brotna og finna hvor aðra í myrkrinu. Býst ekki við að kvikmynd þessi nái inn fyrir sýningasali sambíóanna, en sennilega í fyrirlestrasal jarðeðlisfræðideildarinnar í næstu viku, þar sem hún mun án efa vekja mikla lukku áhorfenda. Kannski. Frumsýning er semsagt á expo, uppskeruhátíð nemenda í deildinni minni.

27.5.08

Plastpokar

Árum saman var ég haldin þráhyggjulegri söfnunaráráttu á plastpokum, móður minni til ómældrar óánægju. Ferðatöskur í tugatali, fullar af pokum, voru fluttar heimshornanna á milli. Að lokum kom að því að ég sættist á að nota þessa poka undir rusl. Þá voru þeir orðnir fúnir og rifnuðu við minnsta átak.

Mér finnast plastpokar vera einkennandi fyrir okkar kynslóð. Þeir eru varla endurnýtanlegir, varla endurvinnandi og enda að öllum líkindum innan árs á ruslahaugum. Samt geðveikt flottir. Margir eins og listaverk. Litríkir og eftirsóknaverðir. Það er einskonar status symbol að koma með nestið sitt í flottum tísku-búðar poka.

Næstu helgi, á sunnudaginn, er stór dagur í sögu plastpoka. Eftir 1. júní verður bannað að gefa plastpoka í búðum í Kína. Kínverjar nota 3 milljarða nýja poka á dag en talið er að nýju lögin verða til þess að sú tala minnki um 80-90%. Sumir telja að ekki eigi að setja lög sem koma neytendum illa. Ég er að hluta til sammála því. Neytendur eru fólk. Manneskjur. Við, sem manneskjur eigum náttúrulega að setja lög sem koma okkur vel, til þess eru lög. Þau aðstoða okkar tegund að lifa saman í sátt og samlyndi. Um helmingur mannkyns eru ekki neytendur. Sjálfsþurftar bændur eru ekki neytendur held ég. Þeir neyta frá jörðinni sinni og skila aftur til hennar næringu þannig að heildarsumman er núll. Þessu er ekki þannig varið hjá flestum vesturlandabúum. Við tökum en borgum ekki til baka, hendum úrgangnum okkar á ruslahaug þar sem hann er einangraður frá jörðinni. Pointið er að þessi lög koma neytendum í rauninni vel, þeir átta sig bara ekki á því. Áður eru neytendur að skemma, þessi lög verða til þess að sá hópur skemmir minna. Ég get ekki með nokkru móti séð neitt neikvætt við þessi lög.

Ég myndi segja að þessi nýju lög í Kína eru stórt framfaraskref fyrir okkar tegund. Við erum að komast til vits og ára. Eins og frændi okkar Armstrong sagði, "lítið skref fyrir einstaklinginn, stórt skref fyrir mannkyn allt."

21.5.08

Spennandi tímar

Það er svaka spennandi að vera vísindamaður. Ég vildi óska að ég gæti verið það alla ævi. Sjáum til.

Að skrifa úrdrátt að fyrirlestri er alltaf sérstaklega spennandi. Núna er expo að koma, eitt skiptið enn. Expo er uppskeruhátíð nemenda, þá halda flestir nemendur fyrirlestur um rannsóknir sínar. Ég var einmitt núna að skrifa úrdráttinn. Ég er að fara að tala um nýjungina í líkaninu sem ég er búin að vera að vinna í í vetur. Það eru bara nokkrir dagar síðan við sannfærðumst um að þetta er sennilega góð líking svo engar niðurstöður eru komnar. En það er nú það áhugaverða. Niðurstaðan, ekki aðferðin. Aðferðin er kannski áhugaverð en ekki ein og sér. Það væri eins og Anna Hrund myndi sýna öllum skæri, límband og málningaprufur. Sumum myndi finnast það áhugavert en aðalatriðið er flennistóra meistaraverkið sem hangir á veggnum.

Svo nú taka við spennandi tvær vikur. Að fá niðurstöðurnar sem ég lofa að koma með. Og hverjar verða þær? Það er ekki gott að vita. Að sumu leyti er auðveldara að skrifa úrdrátt ef maður veit ekki um hvað maður mun tala. Þá þjappast heil málsgrein niður í setninguna "við munum sýna niðurstöður úr líkaninu".

Annað spennandi sem er að gerast í Bandaríkjunum þessa dagana eru forkosningarnar. Obama er kominn með meirihlutann sem hann þarf. Það virðist vera ljóst að hann muni verða forseta efni demókrata. En það er eitthvað óljóst samt. Ég myndi segja að þetta sé farið að verða aðeins einkennilegt. Hillary bara neitar að horfast í augu við að hún hafi beðið í lægri hlut gegn Barak. NPR getur ekki leynt því að þar halda menn með Barak. Fréttastofan lýsti því yfir að samkvæmt þeim væri Barak næsta forseta efnið. Það er ekkert smá góð og algjörlega ný tilfinning fyrir mig að sá sem maður heldur með sé að vinna. Auðvitað er þetta rétt að byrja en þetta fer vel af stað.

16.5.08

Mohito íþóttaálfsins

Á svo mikið af myntu þar sem hún vex hér eins og fjólur í Bjarmalandinu, en ég er ekki með nógu gott hugmyndaflug um hvernig ég get notað hana. Er búin að búa til myntusalat. Það var svona la-la. Á líka svaka margar sítrónur, smá hrásykur og klaka. Upplagt að merja þetta saman þangað til ég átta mig á því að klakinn er sveppasoð. Sleppi klakanum. Allavegana, súper drykkur. Mæli með honum. Sérstaklega eftir smá skokk út með vatninu.

Maðurinn á efri hæðinni gaf mér blóm í dag. Morgun-frúr. Held ég. Ég gróðursetti þær ásamt lotnarblómunum, hör-plöntunum og ýmsu öðru sem bara kom af sjálfu sér. Það er nú aldeilis ekki á hverjum degi sem maður fær blóm, en það er mjög indælt. Garðurinn er allur að koma til, ánægðust er ég með sítrus trén.

Ég er að reyna að skrifa svona langan póst eins og systir mín gerir. Það gerist bara ekki eins margt frásögu færandi hjá mér. Ég reyndi að skrópa í fyrirlestur í dag en náðist. "Tinna! Hvert ert þú að fara? Það er efnafræði fyrirlestur um manganese! Komdu." Ég átti ekki annara kosta völ. Síðan skoðaði ég 10-15 greinar og fann eina góða og las hana.

Í kvöld er ég að fara á tónleika með þessum gæja. Það líst mér vel á. Emilia skrifstofunágranni minn er með vinkonu sína frá Port í heimsókn og langaði að hlusta á smá blús. Spurði mig hvort ég vildi með og í framhaldi af því hvort ég gæti ekki valið fyrir þær tónleika því hún treysti mér svo vel til þess! Ég var nú ekki lítið upp með mér.

Útséð er um það og var fyrir löngu að ég get ekki skrifað jafn langa og ítarlega pósta og hún Sunna svo ætli ég hætti bara að reyna það.

15.5.08

Óli selebrití

Eða svona næstum því skulum við segja. Þar sem Óli er á leið heim úr vinnu ákveður hann að koma við í bókabúðinni á 57. stræti. Hvern ætli hitti nema frægasta Hyde Park búann. Þið megið giska hver það er. Og það er reyndar kannski ofsögum sagt að þeir hafi hisst.. frekar sá Óli hann og hann sá Óla kannski.

Annars er ég búin að finna hvernig bíl ýmsir í fjölskyldunni minni, stór, ættu að fá sér: Bíll fyrir fjölskylduna.

14.5.08

Sigling á vatni Michigan

Það varð úr að ég skellti mér bara í nágranna fylkið Michigan á sunnudaginn. Tilefnið var vettvangsferð á vatnið á báti NOAA (ekki Nóa) (ha ha) til að taka set-kjarna. Ég var bílstjóri og keyrði mini-van fullan af krökkum og barnalegum prófessorum. Fólkið í toll-básunum kepptist við að óska mér gleðilegan mæðradag, krökkunum til mikillar ánægju.

Fyrrverandi nemandi í deildinni minni sem er núna rannsóknamaður hjá haf og loft rannsóknastofnun ríkisins var að prufukeyra nokkur tæki í fyrstu ferð ársins og bauð okkur að koma með, bara svona til að prófa að vera á alvöru hafrannsóknaskipi. Þetta er gamall rækjubátur sem breytt var í rannsóknaskip eða bát. Við tókum 4 kjarna og fyrirhugað er að mæla magn kvikasilfurs í honum. Það er að segja, láta nemendurna í umhverfis-efnafræði mæla það.

Alveg ljómandi góð ferð nema hvað það er vonlaus matur þarna í Michigan. Annaðhvort var hann djúpsteiktur eða sætur.

Við skoðuðum líka miðstöð óvenjulegra og endurnýtanlegra orkugjafa. Grand Valley State University lét byggja svaka flotta lead-certified byggingu þar sem eru sólarrafhlöður á þakinu, vindmylla í garðinum, einhverskonar fuel cell raforkuver og micro-túrbína sem bæði ganga fyrir metani. Það fyndna var að þetta var svakalega tilkomumikið og glæsilegt en leiðsögumaðurinn var andsnúinn framtakinu. Ekkert þessara tækja borga sig peningalega og háskólinn er búinn að missa áhugann á multi-milljóna dollara verkefninu svo hann hafði ekkert gott um málið að segja. Það var aðeins spaugilegt. Við vorum svaka imponeruð en hann var bara "nei þetta er ömurlegt!"

6.5.08

Húrra fyrir mönnum á hestbaki

Þykja mér þeir Benedikt og Hilmir Snær hafa verið þjóð sinni til mikils sóma er þeir riðu til borgar, inn í miðstöðvakerfi hennar, og mótmæltu því að menn í jakkafötum láti menn í vinnugöllum þekja sælureit rándýru malbiki.

Ég er einmitt líka mikið á móti því að litla brekka verði gerð að bílastæði. Átta menn sig ekki á því að við þurfum ekki á fleiri bílastæðum að halda? Hátindi bílríkis er náð. Framundan eru hjól, strætó og tveir jafnfljótir.

Annars get ég svarað minni eigin gátu þar sem enginn, eða hvorki, Vala né Orri, náðu að giska á rétt svar. Gæludýrin eru ormar. Ánamaðkar. Sérstök lína. Mjög svöng tegund. Alltaf. Ég er með þá í kassa, með götum. Þeir fá rifin dagblöð, aðeins bleytt, salat, saxaðan appelsínubörk, og fleira. Ánamaðkarnir heita red wiggler worms og þeir eru í alvörunni fyrstu gæludýrin mín. Reyndar eru þeir ekki gæludýr, frekar húsdýr.

Okkur Óla finnst blaðamenn koma frekar illa fram við borgastjóra. Þó hann komi ekki vel fyrir og sé hálf væskilslegur að sjá virðist hann vera að vinna að miklum heilhug. Mér myndi finnast það vera þróun í ranga átt ef Íslendingar kysu aðeins myndarleg selebrití. Ég er hrifin af Degi en það er að miklu leyti bara vegna þess að ég hef heyrt hann tala, hann er vel máli farinn og kemur vel út í Kastljósi. Krakkarnir í kastljósi eru líka hrifin af honum. Þó svo ég sé harðandsnúin því að hafa flugvöll í miðri borginni þá virði ég Ólaf því hann vinnur mjög hörðum höndum að því sem hann trúir á. Og honum virðist vera mjög annt um þau mál. Satt að segja er ég ekki hrifin af honum Ólafi né hans baráttumálum, en framkoma kastljóss gengisins fer í taugarnar á mér. Hvað halda þau eiginlega að þau séu?

3.5.08

Hugmyndaríki

Hvernig verður maður hugmyndaríkur? Kreatívur. Hvað getur maður gert til að fá fleiri góðar hugmyndir? Amy Tan segir að hugmyndir fæðast úr reynslu í barnæsku, sérstaklega átakanlegri reynslu. Ég finn mig ekki í því sem hún segir, satt að segja. Kannski útaf því að ég er ekki að skrifa skáldsögu.

Maður verður náttúrulega fyrst og fremst að vera með eitthvað viðfangsefni eða vandamál sem krefst lausnar. Hvöt til þess að gera eitthvað. Síðan þarf maður að hafa áhuga á að leysa vandamálið, það þarf að vera manni hjartnæmt. Þá er grunnurinn kominn.

Kannski það sé aðalmálið við að fá góðar hugmyndir: að finna vandamál. Finna mál sem gæti þurft lausnar. Vera með augun og hugann opinn fyrir atriðum sem mega betur fara. Æ, Þið verðir að fyrirgefa mér þessar barnalegu vangaveltur. Mig langar bara svo að fá góðar hugmyndir. Reyndar fæ ég af og til góðar hugmyndir en ég geri aldrei neitt til að útfæra þær. Þyrfti að vera með bílskúr eða smíðaherbergi og logsuðutæki.

Mig langar í baðstofu. Þegar ég eignast mína eigin íbúð þá vil ég vera með baðstofu þar sem má setja tréspæni á gólfið. Mér finnst baðstofupælingin vera mjög aðlaðandi. Miklu skemmtilegri en að hver fjölskyldumeðlimur sé hólfaður í hvert hornið á fætur öðru. Stásstofa og sparistell eru lykkjufall í fjölskyldunetinu. Við ættum að vera búin að átta okkur á því að það var feilspor að fara þá leið.

Niður með sparistell, lengi lifi baðstofan!

Annars erum við Óli komin með gæludýr, nokkur meira að segja. Svaka sætir gæjar sem éta og kúka. That´s all. Húsfreyjunni til mikillar ánægju, húsbónda minni. 50 stig fyrir þann sem giskar á rétt dýr.

2.5.08

Skáldið sem sólin kyssti

Já, ég er að lesa ævisögu. Ævisögu Guðmundar Böðvarssonar. Þykir mér hún mikið skemmtileg. Það er gaman að lesa um Guðmund því hann var svo duglegur og hæfileikaríkur á öllum sviðum að aðdáun er að. En sagan er vel skrifuð, mikill fróðleikur um lífið í gamla daga og fólkið sem byggði Borgarfjörðinn á síðustu og þarsíðustu öld.

Þetta er mín fyrsta ævisögu lesning og núna fyrst finnst mér ég í raun og veru vera komin á þrítugasta aldursárið. Ég hafði bara ekki áttað mig á því að ævisögur gætu verið svona spennandi. Hreint ekki.

Um daginn las ég bókina Músin sem læðist. Það eru hátt í 50 ár síðan hún kom út og fyrst hún þykir (enn) vera stórverk ákvað ég að lesa hana. Það má vera að þetta sé merkileg bók en svo leiðinleg þótti mér hún að kvartandi og kveinandi lyppaðist ég í gegn um hana. Óli skildi ekki í þessu framferði mínu. Jæja.

Skemmtileg lesning eru bækurnar hans Jóns Kalmans. Helvíti og himnaríki og Ýmislegt um risafurur og tímann. Að lesa þær er eins og að sitja útí garði í 25 stiga hita, sólin að setjast og salat úr garðinum á borðinu, nýbakað brauð, Rhónar vín, ostur frá bóndanum uppi í hlíðinni, börnin farin að sofa, einhver að spila á gítar neðar í götunni

This page is powered by Blogger. Isn't yours?