25.3.09

Það er gott að vera í Ameríku

Þá getur maður tekið lest og unnið eins og snar brjálaður maður. Ég hugsa að ég hafi aldrei verið jafn dugleg og ég er búin að vera undanfarna daga. Er mætt í vinnuna rúmlega sjö. Komin með kaffi og rúnstykki hálf átta. Borða fyrir framan tölvuna og fer bara heim til að sofa. Ástæðan er job-talk. Minn yndislegi leiðbeinandi er búinn að pota mér í tveggja daga heimsókn til gæja sem gerir svipaða hluti og ég með þeirri von að hann vilji ráða mig. Sjáum til. Ég verð allavegana með flottan fyrirlestur. Finnst mér.

En það var þvílík himnasæla að taka lest í 18 tíma. Hún var meira að segja á undan áætlun. Korteri. Bilaði ekki einu sinni. Ég hugsa að ég kaupi mér áskrift. Málið er náttúrulega að taka með sér nesti, dóp og tölvuna sína. Dópið var bara imovan sem ég var svo lukkuleg að geta betlað af frænku minni henni Snúllu. En það kom að mjög góðum notum, ég svaf í 10 tíma eins og kuðungur. Kom súperhress til Chicago.

20.3.09

Halló

Takk fyrir síðast. Og takk fyrir mig. Takk fyrir morgunkaffi, hádegisverði, kaffiboð, kvöldmat, kvöldkaffi, huggulegheit og knús. Ég hugsa að þetta hafi bara verið með betri heimsóknum til Íslands. Og ég sem hef alltaf haldið að mars sé ómögulegur. Mars er frábær. Alveg súper. Þótt allt sé í volli á Kleppi í mars er allt í glimrandi standi almennt. Það er gott veður og slæmt, bjart og dimmt, afslappelsi og hressileiki, allskonar fjölbreytileiki.

Í fyrsta sinn kaus ég í ríkistjórnarkosningum. Einu sinni áður hef ég reynt að kjósa en setti þá x fyrir aftan V-ið en ekki framan. Mikið var ég svekkt þegar mér var sagt að maður átti að setja það fyrir framan. Núna skrifaði ég bara skýrt V í rammann. Eða eins skýrt og ég gat. Af einhverri ástæðu var ég svolítið skjálfhent, þannig að seinni leggurinn, þessi til hægri, er aðeins með smá haki í. Það sést varla. Ég vona að þessi seðill verði ekki ógiltur eins og sá síðasti.

Ég vona að allir kjósi vinstri græna. Hvað er mikilvægara en sjálfstæði okkar og náttúra? Ha? Þetta er klausa úr stefnuyfirlýsingu vinstri grænna:

Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill beita sér fyrir róttækum þjóðfélagsumbótum almenningi til hagsbóta, hefja vernd náttúru og umhverfis til vegs á Íslandi og treysta byggð um allt land. Hreyfingin er samstarfsvettvangur og baráttutæki þeirra, sem vilja útrýma kynjamisrétti og tryggja jafnrétti, kvenfrelsi og aukinn jöfnuð í samfélaginu.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill byggja upp lýðræðislegt og réttlátt þjóðskipulag grundvallað á virkri þátttöku almennings. Hreyfingin hafnar alræði markaðshyggjunnar og vill varðveita sjálfstæði þjóðarinnar og forræði yfir eigin auðlindum. Vinstrihreyfingin­ – grænt framboð vill binda enda á hersetu í landinu og aðild að hernaðarbandalagi, en leggur áherslu á að eiga gott og friðsamlegt samstarf við allar þjóðir, vernda náttúru og umhverfi landsins og tryggja sjálfbæra þróun samfélagsins.


Ég feitletraði þetta sem mér finnst mikilvægast.

17.3.09

Jæja

Það er nú alveg ágætt að vera heima hjá sér. Heima hjá mömmu og Sunnu, Orra og Mæsu, ömmu og afa, Snúllu og Magga, manns fjölskyldu. Ég eldaði ljómandi góðan mat í Stóragerðinu í kvöld og við borðuðum í eldhúsinu. Ég þurfti aðeins að berjast fyrir því en það er bara miklu betra. Það er ómögulegt að borða í stofunni. Ómögulegt.

Við vorum með brokkolí með sinnepssmjöri og kapers. Það er súper. Kartöflugratín með púrrulauk, bakaða sæta kartöflu, salat og gufusoðið fennel. Ávextir í desert og síðan kaffi og súkkulaði. Eins gott og lífið getur orðið. Og við sátum sjö í kringum borðið í eldhúsinu, alveg eins og í gamladaga nema það voru engin olnbogaskot eða fólk að kvarta undan plássleysi. Orri og Mæsa sátu í Villu og Böddu sæti. Nonni í Snúllu sæti og við Sunnsa í pabba og Nonna sæti. Amma og afi sátu þar sem þau hafa setið í 50 ár. Í tvo hálfan þriðja áratug.

Núna er ég að bíða eftir að forritið keyri. Það er eitthvað hægfara þessa dagana, ég veit ekki hvað er að. Eitthvað lítið bögg. Afmælisdagurinn hennar Sunnu fór vel fram. Við vöknuðum snemma og vorum með hlaðborð af ristabrauði og sultu, möffin og allskonar. Jamm, það er ekki hægt að segja annað en að lífið er dásamlegt.

12.3.09

Hvert ert þú að fara?

Spurði konan sem stoppaði fyrir mér við veginn þar sem ég stóð með þumalfingurinn upp í loftið, alveg að verða of sein í matarboð. Ég veit það náttúrulega ekki, sagði ég því þótt ég vissi alveg hvert ég væri að fara, í mat til Patriciu, vissi ég ekki hvaða orð myndu best koma að gagni við að finna húsið. Og konuna hafði ég nýverið hitt í blómabúðinni þar sem hún hafði rekið upp stór augu þegar ég sagði nei, ég veit kannski ekki hvar kaupfélagið er er hún ráðlagði mér að fara þangað.

Síðan sagði ég, svona til að segja eitthvað, þetta er þarna inn eftir, og bætti við í gulu húsi, og það er lítill skúr við. Þau keyrðu aðeins áfram þangað til maðurinn hægði á sér og ég sagði, eruð þið að fara þangað líka? Við förum bara þangað, flýtti konan sér að segja og maðurinn hætti að hægja á bílnum. Ég varð nú aðeins vandræðaleg þegar ég áttaði mig á því að annað hvert hús á Sauðárkrók er gult. Við vorum búin að keyra framhjá þó nokkrum gulum húsum þegar við loks fundum það rétta, og ég gat þakkað þessum indælu hjónum kærlega fyrir elskulegheitin og farið í matarboð til Patriciu og Arnljóts.

Í rjúkandi lax og rækjurétt ala Siggú, sammenskuð á útlenska vísu. Það má segja að ég hafi komið með grænmetið því mitt framlag voru fræ, tómat og grænkáls, sem Patricia var að vonum lukkuleg með og hyggst sá og vonandi skera upp í sumar.

10.3.09

Norður á Krók

Hér er dásamlega fallegt og friðsælt. Í raun alveg yndislegt. Úti er allt hvítt. Sólin skín og það er stillt. Ég er með aðstöðu á ljómandi góðri skrifstofu. Það er voða notalegt hjá Siggú og Hjössa, þau eru hér eins og blóm í eggi.

Ég er að skipuleggja fyrirlestur. Ég er að fara í mína fyrstu heimsókn í annan háskóla og bauðst náttúrulega til að halda fyrirlestur. Það er ekki skylda en samt, eiginlega. Gaman að þessu. Eeek.

8.3.09

Komin heim til mömmu

Það er nú alltaf best að kúra undir vængnum, svo hlýtt og notalegt og síðan fær maður væna, feita ánamaðka beint oní kok. Eða eitthvað sambærilegt, sætar kartöflur og nautakjöt á Singapúrska vísu.

Óli er í flugvélinni á leið til fyrirheitna landsins. Ég er að fara norður í fyrramálið, á Sauðárkrók, að finna mína æskuvinkonu. Við héldum súpergott partí á föstudaginn. Þrátt fyrir klaufaskap við boðun vina og vandamanna þá mættu flestir sem við vonuðum að myndu mæta og sýndu af sér mikið kæti. Takk kærlega fyrir skemmtilegheitin alle mine venner.

2.3.09

Ljúfa land

En hvað það er nú notaleg að vera hérna á landinu manns. Gærdagurinn var alveg frábær hjá mér. Hann byrjaði eins og endranær með smá hafró en síðan var göngutúr um Elliðavatn. Við sáum Elliðabæ, fengum obama kökur og kaffi, gengum síðan að Þinganes sem var víst bráðabirða þing áður en Alþingi varð til.

Eftir kaffi og hummus hjá mömmu kíkti ég í eldhúsið í Stóragerðinu, fyrir utan ömmu og afa hitti ég föðursystur mína brúna og sæla nýkomna frá Madeira og hennar mann. Síðan hélt ég áfram í Miðleitið í skyr og heimalagaða kæfu með rúgbrauði hjá ömmu og afa Bí og síðast til Böddu minnar. Alveg yndislegt að hitta hjörðina sína aftur.

Núna tekur síðan bara við huggulegheit þangað til á föstudaginn, en þá verður partý, svona gamaldags, engin huggulegheit, og öllum boðið. Jei! Hlakka til. Vona að þið komist.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?