29.7.09

Gott veður

Loksins er sumarið komið til Chicago. Þótt það sé reyndar þægilegra að hafa endalaust vor verður maður órólegur við það að árstíðirnar rúlla ekki eins og vera ber.

Ég var svo heppin að fá far með seglbát í partí í gær. Það er lífið, að sigla á vatni í 6 hnúta rólyndis vindi. Partíið var í siglingaklúbbi hérna rétt fyrir norðan. Prófessor sem ég borða hádegismat með heldur svaka grand partí með opinn bar þegar hann útskrifar nemendur. Við lögðum skútunni við bryggjuna þar sem partíið var. Það er fyrir hafrannsóknamenn eins og rappara að koma í hummerlímósínu.

27.7.09

dýragarður

Hann byrjaði ekki vel þessi dagur. Rúmlega eitt vakti mig kór af ámátlegu jafnframt ákveðnu mjálmi. "Hleyptu mér inn, ég vil kúra hjá þér" var viðlagið. Ég tróð töppum í eyrun og náði að sofna aftur þangað til kór af hrafnakrunki vakti mig tvem tímum seinna. Ég var því í meðallagi hress þegar ég loks teygði mig snooze takkann á vekjaraklukkunni þegar hún fór að pípa klukkan átta.

En hvað á maður að halda þegar maður hellir granola ofaná jógúrtina og finnur fuglaþyt ofan á höfði manns? Inni í manns eigin eldhúsi! Er það fyrirboði um góðan dag eða slæman. Það vissi ég ekki enda nokkuð óreynd varðandi fuglahald í elshúsum. Hinsvegar, þegar ég sá svipinn á kisunum sem deila með mér híbýli þá var það ljóst að dagurinn yrði sennilega mjög góður. Allavegana fyrir þær. Augu eins og undirskálar. Ég vildi óska að hver dagur byrjaði með fuglaþyt í eldhúsinu.

Ég eyddi allri helginni í að búa til graf af útgefanlegum gæðum. Það var endalaust vesen og ekki bætti úr skák að aðaltölvan gaf sig fyrir viku síðan og því erum við öll, heila grúppan, að deila tiltölulega nýrri tölvu sem hingað til var aðeins notuð til að keyra metan-ís-líkanið hans David og er þar af leiðandi ekki með nein forrit. Tölvugæjinn eignaðist sína aðra dóttur daginn sem gamla tölvan gaf sig og tvem dögum seinna fékk eldri dóttirin flensu. 15 ára sonur Davids er nýji tölvugæjinn og þar sem gamla tölvan var svo gömul og keyrði á annari tíðni (eða eitthvað) þá kompælast forritin ekki alveg eins og nýja tölvan skilur allskonar gamalt slangur ekki vel. Eins og ef maður segir lummó eða fiffí við tiltölulega nýtt fólk, þá segir það bara "jeez hvað þú ert eitthvað old school" og spekulerar ekki í því sem maður er að reyna að segja. Þannig var það með tölvuna og þeir sem hafa reynt að díla við fólk með unglingaveikina, það skilur hvernig er að díla við nýjar tölvur.

Á endanum tókst það. Þótt ég gjarnan myndi vilja það þá get ég ekki sett það hingað inn.

Pointið er að ég gat byrjað daginn á því að monta mig yfir þessu flotta grafi (þetta eru notabene gögn sem við söfnuðum og eru einstök) og grúppan, David og Patrick, voru mjög imponeraðir. Patrick, post-docinn hans Davids, sýndi okkur vandamál sem hann var með í sambandi við forritið sem teiknar gröfin, ferret. Það var búið að plaga hann í 4 daga. Og ég gat leyst það fyrir hann. Ekki nóg með það heldur kom ég með tvær lausnir á vandamálinu. Hann var alveg í skýjunum og ég líka. Það er geðveikt gaman að geta hjálpað öðrum.

En þetta er ekki endirinn á deginum. Nýr prófessor í deildinni okkar, Fred heitir hann, er með líkan af ögnum í geimnum og er að spá í því hvernig stórar agnir eins og loftsteinar verða til úr geimryki. Hann sá fyrirlestur sem ég hélt í deildinni í vor og er búinn að vera spenntur fyrir aðferðinni minni )sem er einnig einstök, að við höldum). Í dag kom hann úr sumarfríi og við fórum beint að funda um hvernig aðferðin mín virkar nákvæmlega og hvort hún gæti hugsanlega virkað fyrir hann. Ha! Þetta er ekki lítið spennandi. Við vorum öll þrjú svaka spennt og æst! En það er tiltölulega sjaldan sem það gerist. Yfirleitt er maður að reyna að finna útúr því útaf hverju það sem maður gerir virkar ekki nógu vel. Hvert er vandamálið? Hvernig getum við útskýrt þetta? Það er ekki svo oft að einhver hafi áhuga á því sem maður er að gera, hvað þá að það hafi eitthvað notagildi fyrir viðkomandi.

24.7.09

Brooklyn

Þá er Óli fluttur til Brooklyn og það er ekkert eins og í sex and the city. Reyndar býr hann í Williamsburg með ameríksum MH-ingunum, ekki í Prospect Heights eins og Miranda. Ég fór í heimsókn núna um helgina og fékk að upplifa þá súper-stemmningu sem ræður þar ríkjum.

Við fórum á tónleika. Keyptum okkur inn á eitthvað band sem við þekktum náttúrulega ekki og það kom í ljós að upphitunar-bandið var 100 sinnum skemmtilegra. Það var hljómsveitin Gordon Voidwell og þeir krakkar voru ekkert smá hressir. Þau spiluðu tölvu og trommu tónlist og sungu. Eitt lagið er meira að segja um brauð! En síðan þegar þau voru búin að spila heillengi og voru í miðju lagi skiptu þau öll um pláss og hljóðfæri. Lagið hélt áfram en takturinn breyttist aðeins og melódían pínu líka. Alveg stórkostlegt.

Herbergisfélagar Óla eru hljómsveitin Hank and Cupcakes. Þau eru par frá Ísrael. Hún syngur og spilar á trommur. Hann spilar á bassa og synthesiser. Þau eru að spila í kvöld en ég í Chicago og missi því af þeim. Kannski fer Óli.

22.7.09

ascii

Þessi færsla er um tölvuspliff.

Því hefði ég ekki trúað að svona lagað gæti gerst á 21. öldinni en núna í kvöld forritaði ég með ascii. Málið var að ég er með tvo gagnagrunna. Það sem þeir eiga sameiginlegt er tímasetning og ég þurfti að splæsa þessum gögnum saman. Nema hvað, í öðrum er tíma einingin dagar (td. 151.6458223 þýðir 31. mai, 29 mínútum yfir 3 eftir hádegið plús einhverjar sekúndur) en í hinum stóð 03:29PM.

Fortran lendir í heilmiklum vandræðum þegar það sér tvípunkt og því ekki um annað að gera en að lesa 03:29 sem streng og taka hann síðan í sundur, breyta hverjum staf í tölu og bæta 48 við. Ég sé enga aðra lausn.. nema kannski nota matlab en því nenni ég bara alls ekki.

Þegar maður býr einn getur maður lent í því að verða aðeins sjálfhverfur þar sem maður er svo mikið með sjálfum sér. Í fari sjálfsmíns hef tekið eftir því undanfarið að ég er farin að snobba fyrir allskonar gömlu. Í gær leitaði ég í hólf og gólf að kistu til að skipa tækjunum í til Oregon. Að lokum fann ég þá réttu í kjallaranum. Ekki frásögufærandi nema hún er 100 ára gömul, ef ekki meira. Addressan er skrifuð á hana með skrautskrift. Ha! En hún er úr harðvið, vel smíðuð og af réttri stærð. Allar uppáhaldskökurnar mínar eru úr uppskriftabók sem var handskrifuð, einnig með skrautskrift, á svipuðum tíma. Nunnur í Hyde Park svo hrukkóttar og litlar að maður sér þær næstum ekki baka svipaðar kökur. Mér fannst allavegana gaman að forrita og leggja 48 við sem virðist algjörlega handahófskennt ef maður er ekki tölvunarfræðingur kominn á eftirlaun.

Sasha


16.7.09

Á labbinu

Enn eitt tímabil í lífinu þar sem ég finn mig á rannsóknastofu. Í þetta sinn er það ekki svo slæmt. Ég náði að búa til spliff sem lagar vandamál í tækinu. Spliffið er hitaskiljari. Frekar einfalt. Koparleiðsla rúlluð upp og sett í vatnsbað með thermostat. Þannig að þegar "fiskurinn" er á hafsbotni og dælir upp ísköldum sjó þá er hann hitaður að herbergishita áður en hann fer í tækið. Við föttuðum nefnilega að tækið fílar ekki kaldan sjó. Og hver getur ljáð því það?

Svo núna er ég að gera allskonar test. Og stara á tækið meðan það vinnur. En síðan er mér boðið í mat. Það er einn plús við að búa einn. Fólk sér aumur á manni og býður manni í mat.

9.7.09

The little things

Ég lánaði Christian vini mínum hjólin okkar Óla því foreldrar hans voru að koma í heimsókn. Í kvöld kom hann með þau aftur og hvað ætli ég hafi fundið í hliðartöskunni þegar ég var að setja þau í hjólageymsluna? Toblerone af stærstu gerð!

Ég hef aldrei fengið svona stórt toblerone og það er geðveikt. Geðveikt gaman að fá svona stórt toblerone. Ekki því ég ímynda mér hvað það verður gott að borða það. Það er eitthvað sérstakt við toblerone. Eitthvað gamalt og gott. Toblerone minnir mig á ömmu og afa, heimkomu þeirra frá útlöndum. Það var alltaf tilhlökkunarefni að amma og afi kæmu heim úr utanlandsferð. Það er bara betra að hafa þau í Bjarmalandinu (Miðleitinu) eða Stóragerðinu. Einn af örfáu föstu punktunum í tilverunni.

Annað sem ég er að upplifa þessa dagana er að ganga með veski. Ég hef veigrað mér frá því að ganga með veski þar sem ég týni hlutum sem ég á með reglulegu millibili og því fannst mér ekki gáfulegt að setja öll eggin mín í eina körfu. En núna er ég að vona að tímabilinu í lífinu þar sem ég týni hlutum sé lokið og því keypti ég mér veski um daginn í New York. Það er gaman að upplifa það að vera með veski. Það er svo fullt af dóti að ég þarf að grammsa í því vel og lengi til að finna lyklana mína. Það finnst mér geðveikt. Ég fíla mig eins og kvikmyndastjörnu þegar ég stend fyrir utan húsið að grammsa í veskinu sem ég keypti í New York.

7.7.09

Yndislegt ævintýri

Við Óli ákváðum að hittast um þjóðhátíðarhelgina í Kentucky og fara saman í klifurferð. Áttum að lenda með þriggja mínútna millibili í Cincinnati. Til er amerískt máltæli sem er á þá leið að ef eitthvað hljómar of gott til að vera satt, þá er það það líklega. 3 mínútur lengdust í sólarhring og ég var föst í Cincinnati.

Cincinnati er meðal stór borg í Bandaríkjunum. Ég á enn eftir að kynnast meðalstórri borg sem jafnframt er eitthvað áhugavert að gerast í. Sjá til dæmis Pittsburg. Það varð úr að ég fór í 10 tíma göngutúr í leit að Whole Foods. Ég gekk yfir fljót og ár, upp á fjall, gegnum skóg og inn í fátæktra hverfið. Þar kíkti ég inní matvöruverslun sem minnti á kaupfélagið í Dalasýslu fyrir 25 árum. Ég var með kort og komst smám saman nær Whole Foods þangað til ég gekk útúr kortinu. Ég vissi svosem að það myndi gerast á endanum. Síðan gerðist það. Á fjallstindinum.

Eftst á fjallinu var ég að kæla mig í sturtum sem eru þar við sætustu sundlaug sem ég hef á ævinni séð að hugsa um það hvernig ég eigi að halda áfram án þess að vita neitt um það hvert ég sé að fara. Eins og sönnum pílagrímsfara sæmir ákvað ég að halda áfram og labba bara í áttina að Whole Foods. Það var þá sem ég hitti konuna. Svarta gullfallega konu sem var engli líkust. Við vorum að ganga í sömu átt og fórum að spjalla. Hún útskýrði fyrir mér örugglega tíu sinnum hvaða götur ég ætti að ganga niður og í hvaða átt ég ætti að beygja og hvaða vegatálmar væru við þær beygjur. Þetta var of flókið fyrir mig. Ég náði þessu ekki. Svo við löbbuðum bara áfram og hún sagði mér frá dóttur sinni sem er 15 ára og ég sagði henni frá manninum sem ég hafði ætlað að hitta á flugvellinum deginum áður. Við gengum niður fjallið, í gegnum skóg, framhjá fiðrildagarðinum og gosbrunninum, upp og niður fleiri hæðir og yfir brú. Við löbbuðum örugglega saman í klukkutíma þar til að því kom að það voru bara þrjár götur og þrjár beygjur sem ég átti að taka til að komast á veginn sem Whole Foods er við. Hún var á leiðinni á Mc Donalds að kaupa franskar. Leiðir skildust og ég hélt áfram með nógu einfaldar leiðbeiningar til að komast klakklaust á Madison Avenue.

Að lokum komst ég á áfangastað. Ég keypti fyrir okkur mat og Óli lenti loksins í Cincinnati, fékk bíl og kom að sækja mig. Vá hvað það var yndislegt að sjá sæta Óla minn. Síðan fórum við til Kentucky, í Red River Gorge, og klifruðum í Muir Valley. Óli levellaði og við erum bæði í 5.10. Við klifruðum nokkrar 10a og eina 10b. Það var geðveikt. Hún heitir Little Viper. Dynabolt Gold var líka uppáhalds og Rat Stew.

1.7.09

Eldhús súper

Lífið er eins og veðrið: flókið, illskiljanlegt og hverfult. Hvað sem er getur gerst. Maður reynir að skipuleggja og taka ákvarðanir sem eiga að leiða að óska-takmarkinu, en staðreyndin sú að maður hefur enga stjórn á þessu. Lífið er seigfljótandi og maður er fastur í sýrópinu.

Ég var að flytja inn í íbúð sem ég hélt að væri bara svona meðal undergrad kommúna. En, það var surprise. Það kom í ljós að eldhúsið í þessari annars venjulegu íbúð er með áður óþekkt aðdráttarafl. Það lokkar fólk til sín og seiðkraftur þess fær fólk til að elda sérstaklega góðan mat.

Ég var alveg uppgefin eftir að vera búin að flytja stanslaust í tvo daga. Ég hugsaði með mér að ég ætti að kíkja til Söru og athuga hvort hún væri ekki að elda. Síðan hugsaði ég að ég ætti kannski bara að hita upp súpu sem ég keypti á farmers. Ég gekk inn í eldhúsið og leit aðeins ofaní pokana sem ég kom með. Sá þar sæta kartöflu. Hmm, ætti ég að gera eitthvað með þessa kartöflu. Þá sá ég steinseljurótina og aspasinn. Tannhjólin tifuðust aðeins. Spínat, hvítlaukur og engifer. Karrípaste, tómatpúrre, salt og pipar. Byggflögur til að drýgja. Hálftíma seinna ljúffengur kvöldmatur. Ristabrauð með jurtum og nýstrokkuðu smjöri í meðlæti

Í gær fékk ég tyrkneska soppu hjá Arik og hún var ekki síðri. Sætur púrrulaukur með gulrótum, hrísgrjónum og sítrónugrasi til að vega á móti púrrunni. Brauð með geitaosti og grillaðri papriku í meðlæti. Í hádeginu eldar Ian sér alltaf eitthvað stir fry og það ilmar alveg guðdómlega. Ég er í skýjunum með þetta eldhús.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?