22.9.10

Hæsta í ordeal

Ég fór heim að sækja dótið sem ég hafði ekki komist með í morgun. Gekk inn í geymslu og hvað!? Ekkert dót á sínum stað. Einhver hafði greinilega komið til að ryksuga og allt dótið mitt var horfið. Ég leitaði útum allt og í ruslinu líka. Bara rusl í ruslinu.

Þá gerðist eitt mjög óvenjulegt. Ég hringdi í eitt af 10 númerum í sambandi við íbúðina og hver ætli hafi svarað annar en sá sem ryksugaði í morgun. Hann hafði sett dótið mitt inn í kompu. Svo ég gat farið í hana og fundið dótið. Og raðað því á hjólið hans Óla sem ég var einmitt líka að sækja.



Hele klabbet hrundi bara tvisvar. Þetta voru ekki nógu góðar teygjur sem ég var með. Það var aðal vandamálið. Hitt var að það var bara ekki nógu góður balans á öllu saman. Síðan þar sem ég er komin af stað með det hele og búin að átta mig á því að ég verð að reiða hjólið kemur arkandi á móti mér dúd. Sem vill endilega hjálpa. Fyrir launum til að borða í tvo daga. Við lentum næstum því í slagsmálum því hann hélt hann gæti hjálpað mér en aðal hjálpin hefði verið í því að láta mig vera. Endaði með því að ég þurfti að gefa honum dollar til að láta mig í friði. Ég var brjáluð og hann varð skíthræddur.

Efst á toppnum dinglar ísvél. Ég er búin að burðast með þessa ísvél milli horna Hyde Park, borðað fullt af ís en aldrei neinn sem ég bý til í ísvélinni. Það eru engin takmörk fyrir því hvað maður getur verðið delusional.

21.9.10

Íbúð í New York

Jei! Óli fann íbúð í New York sem við ætlum að leigja. Svalir, parket, við hliðiná garðinum og með tvö klósett. Mér finnst næstum því eins og það sé stig í því. Ég er að fara á fimmtudaginn að hjálpa manninum að pakka og flytja. Jibbi jibbi jei. Það líst mér á að komast aðeins úr Hyde Park.

101 síða.

17.9.10

Halló

Það gæti verið að ég hafi eitthvað yfir-reagerað á þessum herbergis félaga.

Við Óli erum að leita okkur að íbúð í New York. Það er svo mikill höfuðverkur að það hálfa væri nóg. Sérstaklega fyrir Óla þar sem hann er að standa í því. Við vorum búin að finna íbúð. En síðan datt það uppfyrir svo nú erum við á markaðnum aftur. Jæja.

Ég er komin með 97 síður í ritgerðina mína. Úff. Síðasti kaflinn er eins og er bara 8 síður. Það vantar aðeins í hann en ég er orðin svo uppgefin. Ég veit varla hvað ég heiti lengur. Ég gleymdi meira að segja að fara í nudd-tímann sem ég var búin að panta mér. Gleymdi líka að það er ein nótt sem ég er heimilislaus þegar Liz bauð mér að passa húsið sitt akkúrat þá nótt. Síðan mundi ég það. Það var nú gott.

Á fimmtudaginn er ég að fara til New York að hjálpa Óla að pakka. Vonandi verður hann kominn með íbúð þá. Það er aðeins fáránlegt hvað við erum mikið á-síðustu-stundu-fólk. Við ætlum að leigja plast-kassa til að pakka dótinu okkar í. Jei. Það finnst mér spennandi. Engir pappakassar. Ekkert límband. Bara umhverfisvænt.

14.9.10

Herbergisfélagi

Hún er flutt inn aftur. Stelpa sem býr í herberginu við hliðiná mér. Þvílíkt ofdekraðan krakkasnúð hef ég aldrei áður hitt. Það er komið haust í Chicago. Tvímælalaust peysu veður. Stelpan er búin að vera heima í 10 mínútur þegar hún spyr mig hvort mér sé sama þótt hún kveiki á loftkælingunni. Ég spyr hana af hverju hún opni ekki bara gluggann í herberginu sínu. "Mér er bara alveg brjálæðislega heitt!!" hálf kvæsti hún. Síðan kveikti hún á loftkælingunni sem er algjört skrímsli, þvílík læti og hristingur. Guð minn góður. Hún gekk útum allt hús að loka gluggum, nema inn í herbergið mitt og þegar ég kom þangað inn var þar helmingi kaldara en í stofunni. Vegna þess að það voru bara 18 gráður eða eitthvað úti. Þessi stelpa er algjört fenomenon eins og maður segir.

10.9.10

To be or not to be

Krakkar eru alltaf að spyrja mig á ég að fara í doktorsnám. Ef ég ætti backup af öllum svörunum sem ég hef gefið þá væri þar allur skalinn. Tvímælalaust já og tvímælalaust nei.

Þannig að ég er búin að vera að spá í því. Hvert er raunverulega svarið við þessari spurningu. Og ég hugsa að það sé hvernig lífi villtu lifa. Vegna þess að fara í doktorsnám er eins og að vera unglingur. Það er algjörlega lífsmótandi. Maður er að setja sjálfan sig inní akademíska stofnun og láta móta sig. Maður er með leiðbeinanda sem er hysterískur eins og foreldri um hvað maður er að gera, hvað maður er að hugsa, hvaða ákvarðanir maður tekur, hvaða skoðanir maður er með.

Spurningin er náttúrulega hversu mikinn áhuga hefur maður á því að ganga í gegnum annað unglingstímabil í lífinu. Það sem maður fær útúr því er að skilja svaka vel hvernig lítill hluti af heiminum virkar. Og það er alveg skemmtileg tilfinning. Það er tilfinning eins og að geta andað djúpt í fyrsta sinn. Nýr heimur opnast. Þetta er náttúrulega óttaleg klisja en þannig er það. Það er nýtt herbergi í höfðinu á mér þar sem allskonar er að gerast. Allskonar áhugavert. Eins og að það sé komið skautasvell í þorpið. Það eina sem mann langar til að gera er að fara út á skauta.

Það sem maður fær ekki er að lifa í róleguheitunum. Heimsækja ömmu sína og afa. Sýna þeim nýjasta afkæmið og fara í útilegu á Þingvöllum. Það er nú sennilega það sem ég hefði kosið ef einhver hefði rétt mér multiple choise próf í lífinu. En ég var of ástfangin af Óla mínum og núna gæti ég ekki verið hamingjusamari með valið sem alheimurinn tók fyrir mig.

Forsendan hlýtur samt að vera áhugi. Það sennilega ekki þess virði að taka þátt í svona námi nema maður hafi fáránlega mikinn áhuga á því að skilja betur hvernig eitthvað spliff virkar. Annars er þetta bara kvöl og pína.

7.9.10

Góð helgi með manninum mínum

Já, helgin sem var að líða var verkamanna helgin. Það var nú aldeilis indæl helgi. Þrátt fyrir læti í Earl komst Óli til Chicago á réttum tíma og ég sótti hann á flugvöllinn. Í strætó. Mig langaði bara að sjá hann eins mikið og mögulegt var. Það er ekki hægt að láta bílleysi stöðva sig þegar ástin er annars vegar.

Á laugardaginn fórum við í brúðkaup til pars í deildinni minni sem var alveg dúndur stuð. Þau blönduðu tvem litum af sandi í flösku sem þau eiga síðan að setja á arinhilluna og geyma forever. Þetta er eitthvað móðins núna að búa til svona unity-sand-verk. Síðan var voða fínn matur, opinn bar og dansað fram eftir nóttu. Eitt af því merkilegasta við þetta brúðkaup var að það var haldið á campus HU. Hamburger University. Þangað sem allir sem reka vilja McDonalds búllu verða að fara að læra um hvernig á að rústa heiminum. Við Óli fórum að njósna hvað væri eiginlega í gangi í HU og okkur leist ekki á blikuna.

Síðan chilluðum við bara hérna í Hyde Park, fórum niðrí bæ og í chinatown með vinum okkar að borða og höfðum það ljómandi gott að túrstast um Chicago. Ég leit hvorki í bók né á skjá alla helgina og það var súper.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?