19.4.13

Feminismi

Hillary Clinton sagði nokkuð sem ég er mjög hrifin af.  Hún sagði:
   "At the end of the day, at the very least, every woman should have the ability and the confidence and the choice to make whatever decision she wants to make that are right for her and not be judged by it."

Það þykir ekki mjög kúl að vera heimavinnandi húsmóðir í nútímasamfélagi.  Fólk spyr mig "hvað gerirðu eiginlega á daginn?" með áherslu a gerirðu.  Staðreyndin er sú að ég hef aldrei verið jafn þreytt á kvöldin.  Það er fullt starf að vera með smábarn, sjá um heimilið og elda mat.

Je ne regrette rien, eins og Edith Piaf sagði.  Þó mér finnist mikilvægt að vinna að betri skilning á veðurkerfinu og hlýnun jarðar þá finnst mér enn mikilvægara að sjá um dóttur mína og elda fyrir fjölskylduna.  Fjölskyldan er hornsteinn samfélag mannana og heimalagaður matur tengir okkur við siðmenninguna.  Michael Pollan er náttúrulega með þetta á hreinu.  Ég get ekki beðið eftir því að lesa nýjustu bókina hans í góðu tómi.  Á meðan maður bíður getur maður lesið pistil eftir Mark Bittman.


13.4.13

Viðrar vel til kosninga

Við Óli og Edda fórum til ræðismanns og kusum í dag.  Það var frábært.  Við kusum bæði svaka vel.    Í morgun hélt ég að ég myndi kjósa vinstri græna eins og venjulega en síðan fékk ég samantekt á nýjustu fréttum og þá hætti ég snarlega við það.  Ég verð að segja að mér finnst ég hafa verið svikin af flokknum mínum og ætla að segja mig úr honum snarlega.

Þannig að ég kaus bara bjarta framtíð.  Hver kýs ekki bjarta framtíð?  Það er erfitt.  Þegar við vorum búin að skrifa stafinn okkar á kjörseðilinn og kveðja dömuna á skrifstofunni fórum við beint á pósthúsið og settum atkvæði okkar í póst.  Vonandi berast þau í tæka tíð.  Vonandi reddast þessar kosningar.

3.4.13

Tungumálið

Um daginn benti frænka mín mér á nýjustu þróun í íslenskri tungu.  Hún er sú að segja allar sagnir í nafnhætti.  Þetta er sennilega ekki nýjasta nýtt fyrir þá sem geta lesið þessi orð en ég hafði ekki tekið eftir þessu fyrr.  Núna hinsvegar heyri ég alla tala svona og fólk skrifar svona líka.  Virðulegt fólk sem hefur hingað til talað rétt og fallega.

Við hjónin erum í átaki að reyna að sporna við þessum talhætti hjá okkur.  Ég myndi segja að Óli er ívið lélegri en ég hvað þetta varðar svo ég fæ að leiðrétta hann í tíma og ótíma sem mér leiðist alls ekki. Hann er svona tiltölulega að bilast á mér.  Í staðin leiðréttir hann mig þegar ég nota ekki rétt fall.  Þetta er agalega skemmtilegt.

Við Edda fórum í ferðalag austur og síðan suður í morgun.  Við tókum cross-town strætóinn á austurhliðina og skiptum skóm í strite rite - fengum voða fína sandala í staðin fyrir vetraskó.  Síðan fórum við strax í sex-lestina suður á Spring Street í Housing Works á Story Time.  Þær eru tvær svaka skemmtilegar stelpur sem syngja og segja sögur þar á miðvikudagsmorgnum.  Það er svo sannarlega ferðalagsins virði.  Amy syngur lög svipuð og Raffi og Jo les um litlu lirfuna og fleiri sniðug fyrirbæri.  Sérstaklega gert fyrir 0-3 ára.  Edda skilur ekki mikið í sögunum en henni finnst skemmtilegt að vera með hinum börnunum og syngja og klappa saman lófunum.  Eftir sögustund ætlaði Edda að fá nýja bleiju.. nema hvað mamman hafði gleymt hreinni bleiju svo barnið var bara commando í buxunum sínum á leiðinni heim og pissaði í skóna áður en við komumst á leiðarenda.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?