31.1.16

Takk fyrir matinn!

Er kannski fyrsta þriggja orða setningin hennar Sólveigar.  Allavega sú sem við skiljum.  Hún er reyndar líka með meiningar um hvort hún vilji fara í buxur eða peysu fyrst og þá segir hún "bi bi fyrst bi bi buxur bi bi bi peysa bi bi bi nei."  Sem maður gæti túlkað sem 12 orða setninguna "áður en ég fer í peysu vil ég fyrst fara í buxur".

Ég beyglaði bílinn.  Ég var að bakka út úr bílastæði í Trader Joes í mjög þröngu bílastæða húsi.  Allar súlurnar eru útrispaðar í bílalakki og við Óli vorkennum alltaf aumingja fólkinu sem passar sig ekki nógu vel þarna inni.  Nema hvað, ég var svo mikið að passa mig að bakka ekki á eitthvað að ég rispaði bílstjórahurðina á einni súlunni.  Agalega svekkjandi.  Þegar ég er að keyra út, þá man ég eftir því að áður en ég fór í Trader var ég í Bed, Bath and Beyond og skildi pokann eftir á bílaplaninu því ég hafði eitthvað verið að skamma Eddu.  Þegar ég kem aftur þangað sé ég að einhver hefur keyrt ofaná pokann minn.  Hann er alveg pikkfastur undir dekkinu.  Við ákveðum að bíða.  Bíðum og bíðum.  Hlustum á endalaust af barnalögum en ekki kemur eigandi bílsins út.  Svo ég fer aftur inn og segi dömunni allt af létta og spyr hana hvort það geti verið að starfsmaður sé á hvítum Porche, því það er örugglega ekki kúnni að versla þarna í 40 mínútur.  Grey konan fékk næstum því flogakast.  Nei, elsku vina, það er alveg á hreinu að enginn starfsmaður hér er á hvítum Porche.  Svo við enduðum á því að fara aftur út og bara rífa allt undan dekkinu.  Það rann allt nokkuð heilt undan því og við drifum okkur heim til þess að lenda ekki í fleiri ævintýrum.

24.1.16

Allt að koma

Litla skinnið er að púslast saman.  Sýklalyf og allskonar pústlyf redduðu málunum og börnin fara bæði í leikskólann á morgun.  Hú ha.  Óli átti afmæli og var það mesta low-key afmæli sem hann hefur átt hugsa ég.  En við vorum samt með morgun-afmæliskaffi og spari kvöldmat, kerti á köku og pakka.  Hann fékk allskonar fínt.  Meðal annars Lego.  Frá konunni sinni.  Það kom honum vel á óvart, enda um 30 ár síðan hann fékk svoleiðis síðast.

Við fórum í smá ferð í Hyde Park í dag.  Ætluðum á vísindasafnið en svo sofnuðu bæði börnin og vöknuðu ekki fyrr en það var að fara að loka.. svo við fórum bara á róló þegar þær vöknuðu og síðan út að borða á the Medici.. sem er ekki alveg jafn sæmilegur og mig minnti en þetta var ágæt ferð niður memory lane fyrir okkur hjónin.

Barnið í mallanum sparkar og dansar um eins og það eigi lífið að leysa.  Ég er farin að óttast að þetta kríli sé svona orkusprengja eins og Edda var, klifrandi upp húsgögnin og sveiflandi sér í ljósakrónunum áður en hún lærði að labba.  Það er að taka vaxtakipp held ég, ég hef ekki við því að borða þessa dagana.  Ég sver það ég var búin að gleyma því hvað það er ýkt að vera óléttur.

18.1.16

Right?

Í Chicago er átakanlega kalt.  -18 í morgun.  Það er líka dagur Martin Luther King, og ætluðum við Óli aldeilis að njóta þess.  Markaðarnir eru nefnilega lokaðir og Óli í fríi.  Leikskólinn er hins vegar ekki lokaður og var planið að skella börnunum þangað og fara síðan í brunch.  Bara við hjónin tvö ein.  En litla skinnið hún Sólveig er komin með lungnabólgu svo það varð ekkert úr þess konar pælingum.  Við, úrvinda smábarnaforeldrarnir, steinsváfum með henni í 3 tíma, frá 11-2 í dag.  En það er eitthvað sem hefur aldrei áður gerst en var ofsalega ljúft.  Síðan fengum við góða gesti og Sólveig greiningu og lyf svo það rættist nú alveg úr þessum degi.  Right?

Þetta er það nýjasta hjá Eddu.  Eftir einhverja staðhæfingu hjá henni "ég ætla að fá mér djús og svolítið vatn" kemur þetta - Right!?  Þetta er það fyndnasta sem ég hef heyrt.  Hún segir þetta með svo miklum hreim.. Ra-æit?  Ég verð að reyna að ná þessu á vídjó.

6.1.16

Áramótaheit

Allt í einu fattaði ég hvert áramótaheitið okkar er í ár.  Það er family outing á sunnudögum.  Eitthvað smá ferðalag, á safn eða í garð, eitthvað sport event..

Síðasta sunnudag (3. jan) fórum við í gróðurhúsa-grasagarð.  Eins og áður hefur komið fram.  Næsti sunnudagur er enn óráðinn en ég er að skipuleggja skíðaferð fyrir okkur til Wisconsin sunnudaginn þar á eftir.

Fyrsta eða annað árið okkar Óla hérna í Chicago vorum við með svona prógram.  Það var ekki lítið skemmtilegt.

Annað skemtilegt sem er að gerast hjá okkur er að Sólveig er að læra að tala.  Edda skilur hana best og er dugleg að tala við hana.  Það er eins og henni finnist hún ekkert endilega segja eintóma þvælu.  Stundum segir hún hluti við hana eins og "Sólveig, spurningin er ekki hvort þetta sé málið, heldur verðuru bara að gera þetta." Og Sólveig segir "da da da da da da pabba da da mamma, Edda mamma"

Og það seinasta skemmtilega sem gerðist var að ég skilaði greininni minni inn.  Hú ha.

3.1.16

Bleyjubörn og samsæriskenningar

Í dag eru formlega engin bleyju börn á heimilinu.   Sólveig er farin að pissa í koppinn.  Í dag, 3. janúar þá vaknaði hún og ég setti hana beint á koppin þar sem hún pissaði stundvíslega.  Korteri seinna var ég inni í eldhúsi að elda hafragraut og þá kom hún með buxurnar á hælunum og sagði voða sætt "piss piss".  Settist á koppinn og sprændi smá bunu.  Síðan aftur og svo setti ég hana á koppinn áður en við fórum út.  Við fórum í gróðurhúsa-grasagarð hérna í nágrenninu og barnið ekki með neina bleyju.  Þegar við vorum búin að vera þar í klukkutíma setti ég hana á koppinn (ferðakoppinn) en það kom engin buna.  Síðan sofnaði skinnið í bílnum og svaf í rúman klukkutíma.  Vaknaði þur.  Beint á koppinn og ekki að spyrja að því: svaka buna.  Svona gekk þetta bara allan daginn þangað til pabbinn skolaði koppinn og gleymdi að setja skálina á sinn stað.  Þá stóð greyið með buxurnar á hælunum og peysuna upp undir höndum, en það er mikilvægt að ýta öllu fatarkyns langt frá miðjusvæðinu og hægt er, og horfði örvæntingafull á koppinn "piss?".  Óli stökk til og kippti málinu í lag og barnið gerði sér lítið fyrir og kúkaði.  Öll fjölskyldan ljómaði alveg yfir þessu þar sem í gær var það upp á eldhúsborði og dagana þar á undan annað hvort í buxurnar eða bleyjuna sem hún fær alltaf á nóttunni og í lúrnum nema í dag.

Ég er svo ánægð með þennan nýja raunveruleika, ég á vart orð til að lýsa hversu stórkostlegt þetta er.  Ég þoli ekki bleyjur.  Af helsta bleyju-koppa sérfræðingi landsins skilst mér að þessi vandræði sem vestrænir foreldrar eru í varðandi að venja börnin á að pissa í kopp sé allt bleyjuframleiðendum að kenna.  Einn virtasti barnalæknir BNA, Dr. Brazelton, skrifar í bók sinni "Touchpoints" sem þykir áreiðanleg heimild um þroska barna, að ekki sé ráðegt að byrja að kenna börnum að pissa í kopp fyrir tveggja ára aldur.  Frumkvæðið verði að vera þeirra.   Og þá er komið að samsæriskenningunni.  Einn helsti styrktaraðili Dr. Brazeltons er Pampers.  Minn helsti go-to sérfræðingur á þessu sviði er Jamie Glowacki en hún hjálpar foreldrum á barmi taugaáfalls við að kenna börnum að pissa í kopp þegar þau eru orðin 4 og 5 ára.  Hún segir að það sé lang auðveldast að kenna börnum undir tveggja að pissa í kopp.  Nú á bara eftir að koma í ljós fyrir mig hvort þetta verði jafn auðvelt með síðasta barnið.  Verð bara að koma því að að bókin hennar Oh Crap! Potty Training er bráðskemmtileg og hefur reynst mér mjög vel, auk þess er hægt að kaupa hana á netinu og fá hana strax í tölvupósti fyrir bara $15.  Sem er um það bil kostnaður við að vera með barn í bleyju í eina viku.

1.1.16

Draumur á nýársnótt

Ég vil ekki að einhver deyji.  Var það fyrsta sem Edda sagði á árinu 2016.  Ég spurði hana hvort hana hefði verið að dreyma eitthvað og hún sagði að sig hefði dreymt hún væri hafmeyja.  Og varstu að synda í sjónum spurði ég.  Nei, leika við pabba og mömmu sagði hún þá.  Og Maríu.  María kyssti mig og við erum vinkonur.  Þetta var draumurinn.  Mjög póetískt.

Nýja árið kom annars bara í róleguheitunum til okkar.  Við vorum með veislu og Óli eldaði beef Wellington.  Sara og börnin voru hjá okkur í nokkra daga og við töldum niður nýja árið þegar það ætti að koma á Íslandi ef klukkan væri rétt en þá er hún 8 hér.  Justin félagi Óla kíkti við eftir kvöldmat þegar hans fjölskylda var öll sofnuð.  Okkar fjölskylda var síðan öll sofnuð fyrir miðnætti.

Það voru ekki strengd mörg nýársheit þessi áramót.  Ég get ekki hugsað mér að takast á við fleiri verkefni en þau sem ég er nú þegar að vinna í.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?