25.1.13

Foreldrahlutverkið

Þetta er nú kannski ekki ákveðið hlutverk.  Maður er bara sá sem maður er en síðan er ný manneskja og maður lærir smám saman inn á hana.

Edda er búin að læra að segja ba ba og það er nú ekki bara eitthvert bull.  Baba þýðir pabbi.  Það er ekki lítið sætt þegar hún segir baba.  Hún horfir á útidyrnar og segir baba! eins og hún sé að segja "kannski fer pabbi að koma heim núna".  Sérstaklega ef einhver er að koma heim neðar í stigagangnum.

Í kvöld borðaði hún kvöldmat og það lá í loftinu að hún væri að fara í háttinn.  Að lokum segi ég jæja, eigum við að fara upp og hátta?  Þá lítur litla stýrið á útidyrahurðina og segir ámátlega baba babababa?  Pabbi er ennþá í vinnunni segi ég og við förum upp.  Svaka hamingjubros kemur á dömuna þegar nokkrum mínútum síðar heyrum við í Óla koma heim.  Loksins.  Ég hugsa að hún hafi verið að bíða eftir honum í allan dag.

22.1.13

Ba ba ba ba ba

Edda lærði nýtt orð um helgina.  Það er orðið ba.  Núna segir hún ba ba ba ba ba ba ba við hverju sem er.  Eigum við að lesa bók?  Ba. Ba ba ba.  Núna ætlar mamma að klæða Eddu í útigallann.  Ba ba ba ba ba ba.  Núna förum við út.  Ba ba.  Okkur Óla finnst þetta skemmtilegt.  Einnig ágætis tilbreyting við Aaaaaaaaaaaa, aaaaaaaaaaa, aaaaaaaaaaa.

Edda er líka um það bil að byrja að labba.  Hún tekur einstaka sinnum skref ein og óstudd. Það er samt eins og hún sé ekkert mikið að spá í það, gerir það bara óvart.

15.1.13

Edda íþróttaálfur

Já, það var og.  Um leið og barnið leit dagsins ljós getur Tinna ekki um annað hugsað, talað né skrifað en Edda þetta Edda hitt.  Og í gær þá klifraði Edda upp allar tröppurnar heim til sín.  Þetta eru fimm eða sex hæðir, eftir því á hvernig málið er litið.

Er hún ekki dugleg litla dúllan?  Og annað sem gerðist var að Edda tók sitt fyrsta skref.

Hún stóð við stól og hélt sér í.  Síðan sleppti hún takinu og stóð bara alveg stöðug.  Við Cris, barnfóstran hennar Eddu, sátum sitthvoru megin við hana og biðum eftir því hvað myndi gerast næst.  Edda horfir á Cris og Cris heldur höndunum að Eddu og segir komdu, komdu hingað.  Og þá gerðist það.  Edda tók eitt skref til Cris og lét sig síðan falla í fang hennar.  Litla snúllan.

14.1.13

Barnið er að byrja í leikskóla

Edda litla Óladóttir mun hefja sína skólagöngu í þessari viku.  Það líst mér mjög vel á.  Þá ætla ég út að skokka og forrita og skrifa grein.  Hú ha.  Þessi skóli er hérna í næsta húsi.  Voða lítill og sætur.

Amma mín Rúna á handknúna kaffikvörn, sérstaklega falleg og rómantísk.  Ég er búin að dáðst að henni uppí hillu í mörg ár meðan ég drekk kaffi með ömmu.  Þegar Óli síðan með reglulegu millibili segist langa í nýja kvörn sem mylur baunir með því að kremja þær frekar en saxa, eins og kvörnin okkar gerir, þá byrja ég á langri sögu um einfaldari tíma og rómantík sem endar á því að mig langi bara í kvörn eins og amma Rúna á.  Þangað til sé ég ánægð með söxunina, þrátt fyrir alla vankanta þeirrar aðferðar.

Líður nú og bíður.  Við Óli söxum kaffibaunirnar okkar með tilheyrandi eim af keim af beiskleika í kaffinu okkar.  Þangað til núna.  Óli gaf mér handknúna kaffikvörn í jólagjöf og það er nú meiri munurinn.  Það tekur svona 3-4 mínútúr að mala kaffi í eina litla vél.  Maður bara stendur, eða situr, í þennan tíma og snýr sveifinni.  Það er ekki hægt að gera neitt annað á meðan.  Kannski spjalla aðeins við Eddu.  Annars þarf maður bara að vera í sínum eigin þönkum.  Yndislegt.  Ég er ekki ein um að fíla svona græju.  Þessi gæji á alveg eins kvörn og ég.

8.1.13

Gleðilegt nýtt ár!

Takk fyrir það gamla.



Þá erum við komin aftur til New York.  Jólafríið á enda.  Fyrstu jólin hennar Eddu voru alveg yndisleg.  Við náðum að hitta mjög marga og áttum góðar stundir með fjölskyldu og vinum.  Hvað er betra en það?

Núna er hversdagsleikinn og einfaldleiki í matargerð tekin við.  Það er nú gott.  Grænkál og grasker í gær.  Kjúklingur með hrísgrjónum og grænmeti í dag.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?