29.11.09

Mjög þakklát

Ég man ekki eftir jafn indælli þakkargjarðarhátíð og þeirri er lýkur í dag. Óli minn flaug til Chicago og við höfðum húsið fyrir okkur. Það er fjögra hæða hús með tvem stofum, eldhúsi með skúffum og borðplássi, fleiri svefnherbergjum en við getum talið, næstum því jafn mörg baðherbergi, kjallari, skápar, skrifstofur, saumaherbergi. Að ekki sé talað um forstofuna. Hrikalegur lúxus.

Á aðalhátíðisdeginum fórum við til Palla og Jóhönnu sem eru nýflutt í Hyde Park. Það var gaman að hitta þau í stórglæsilegri íslensk-ameríksri veislu. Það hafði lengi verið hugmynd hjá okkur Óla að hjóla til Milwaukee. Frá Chicago er hægt að taka lest hálfa leið og hjóla síðan svona 100 kílómetra. Svona eins og til Selfoss kannski. Þegar á hólminn var komið gugnuðum við, eða ég, og við ákváðum að hjóla frekar til Evanston. Evanston er bær rétt norðan við Chicago. Þar er frægur skóli sem heitir Northwestern. Kári og Bridget búa líka þar.

Fyrst hjóluðum við í klifurhúsið og klifruðum aðeins. Óli mikið, ég aðeins. Ég nennti eiginlega ekkert að klifra en fannst samt gaman að klifra brautir sem einhverjir byrjendur voru að reyna við. Það fór ekkert mikið í taugarnar á þeim. Síðan komum við við í ísbúðinni og fengum smá ís til að hafa orku í að hjóla meir og vorum örugglega í 4 tíma á leiðinni þangað upp eftir. Aðfangastaðurinn var hótel sem áður var heimili kvenna (women´s house) og heitir Margarita Inn. Það er stórglæsilegt hótel sem er enn á fjórða áratugnum. Bara Duke og Benny á fóninum. Eins og að koma í betri stofuna hjá langömmu Sigríði. Nema maður mátti sitja í sófunum. Óli lét reyna á research hæfileikana og fann alveg súper veitingastað fyrir okkur. Lupita´s.

Enn betri mat fengum við samt hjá Söru okkar og Young Jin í gær. Þriggja daga undirbúningur. Tvær týpur af brauði í stuffingið og bæði heimabökuð. Kalkúnn frá bóndanum okkar honum Bruno. Það eina sem ekki var frá Illinois var hveitið, þó það sé reyndar möguleiki, og vínin. Vínin sóttum við til Þýskalands í haust og létum senda frá Frakklandi. Annars var allt local. En það er einmitt filosófían okkar: Local Organic Sustainable. Alveg yndisleg filosófía.

25.11.09

eyjan

Jæja. Ég hugsa að ég sé hætt að lesa eyjuna. Margar ástæður koma til. Í fyrsta lagi get ég ekki lengur þolað það að Egill hvaðhannnúheitir noti áhrif sín til að koma á framfæri fásinna skoðunum sínum um veðurfarsbreytingar. Í öðru lagi meika ég ekki lengur að eiga það á hættu að sjá myndir af Jóni Ásgeiri með morgunkaffinu.

Ætli þetta séu ekki aðalástæðurnar. Ég veit ekki hvaða fréttamiðil ég mun nota. Kannski rúv. Mbl er álíka slæmt og dv. Einhvern tíman skoðaði ég vísi, kannski það sé málið?

Annars er ég að lesa svaka skemmtilega grein þessa dagana úr tímariti stjarneðlisfræðinnar. Er komin á blaðsíðu 7 og ég veit ekki hvað ég kemst mikið lengra. Þeir eru ansi klárir þessir stjarneðlisfræðingar og skrifa allskonar flókið. Það óraði ekki að mér fyrir ári síðan að mínar rannsóknir tengdust stjarneðlisfræði. Kemur í ljós að geimurinn og sjórinn eru bæði þunnar súpur af ögnum.

24.11.09

24 tímar í Boston

Fátt er nú skemmtilegra en að bregða sér aðeins af bæ að heimsækja vini og vandamenn. Um helgina brá ég mér úr Chicago að heimsækja Óla minn í New York og við bruðgum okkur til Boston með Fung Wah. Rútuferðin var stórkostleg. Við vorum með svo gott nesti. Afgangar (eggaldin réttur og pumpkin stappa ala Óli og þorskur og tómatasalat ala Tinna). Eftirréttur var belgísk eplabaka frá financier (fínasta patisserie í bælnum) og, okkur aldeilis að óvörum, Lavazza kaffi sem við fengum in the middle of nowhere. Og auðvitað 3 vikna uppsafnaðar fréttir.

Í Boston hittum við Elliot og Robin og náðum að chilla aðeins með þeim áður en aðalið tók við. Sigurdís að halda upp á þrítugs afmælið sitt með þvílíkum stæl að annað eins hefur varla sést. Íbúðin full af fólki að smjatta á hákarli og renna honum niður með brennivíni. Til merkis um hve fólk var hrifið þá kláruðust tvær eins lítra flöskur. Síðan var haldið í Cambridge á djammið. Svaka stuð dansiklúbbur með súper dj sem spilaði satisfaction okkur til mikillar satisfaction.

Eftir mjög indælan morgunverð héldum við aftur til New York þar sem ekkert mikið frásögufærandi gerðist. Ég náði að vera í svaka stressi með að missa af vélinni þrátt fyrir heit um að vera alltaf í góðum tíma. Og núna er ég í Chicago og allt að færast í rétta átt research lega. Náði nefnilega að lesa svo margar greinar á öllu þessu ferðalagi.

20.11.09

nammi nammi fólk

Ég er stanslaust dolfallin yfir okkur mönnunum. Við erum alveg ótrúleg. Við látum hlutina virka. Við komum hlutum í verk. Okkur verður verk úr hendi.

Líffræði yfir höfuð er ótrúleg. Allt líf og allar tegundir láta hendur standa fram úr ermum og vinna streitulaust allt lífið. Hverja stund erum við, maurar og kisur eitthvað að stússast. Ég hef aldrei séð maur slappa eitthvað af. Þeir eru annað hvort á leiðinni að sækja pínuponsulitla spýtu til að byggja mauraþúfuna eða á leiðinni með spýtuna í mauraþúfuna. Og maðurinn, við. Við slökum varla á í eina mínútu á dag. Ég er að læra á þetta með búddunum í hugleiðslu. Þegar maður loksins sest niður að gera ekkert, hugsa ekkert, þá opnast heimur sem ég vissi bara ekki að væri til. Heimur sem er inní manni en maður fer algjörlega á mis við því maður er alltaf upptekinn af einhverju.

Þrátt fyrir að allt sé brjálað í þessum heimi eru litlar perlur inn á milli sem fólk býr til, hvert fyrir annað. Það ætti að vera markmið okkar að finna þessar perlur sem búnar eru til fyrir okkur af okkur. Ég fann housing works. Óli sýndi mér það reyndar. Backstory í Hyde Park er önnur svona perla. Sarah sýndi mér hana. Það bjargar manni alveg að eiga svona afdrep sem maður getur farið í og bara verið. Maður getur unnið í sínum málum. Borðað. Ekki borðað. Setið, staðið, rölt um, gluggað í bók, horft útí loftið, spjallað við ókunnugt fólk. Bara verið til án þess að vera heima hjá sér eða í vinnunni eða í búð. Þetta eru rými hugsuð fyrir fólk. Ég elska það þegar einhver maður eða stofnun gerir eitthvað með velferð fólks í huga. Það er svo algengt að gróðamarkmið eru sett ofar en við.

14.11.09

Skráð í herinn

Eftir tæpan mánuð verður heljarinnar ráðstefna í Kaupmannahöfn á vegum sameinuðu þjóðanna. Tilefnið er að endurnýja á Kyoto bókunina sem er orðin 12 ára gömul og úrelt. Búist er við mikilli umfjöllun í fjölmiðlum um allt sem viðkemur gróðurhúsaáhrifunum. Til að aðstoða blaðamenn er ameríska jarðeðlisfræðifélagið að skipuleggja vettvang þar sem blaðamenn hafa aðgang að vísindamönnum 24-7 á netinu.

Um fimm vísindamenn verða til taks á hverjum tíma til að svara fyrirspurnum jafnóðum og þær koma inn í þetta net-prógram. Minn tími er á þriðjudaginn 8. des milli 10 og 12 fyrir hádegi. Spennandi!

Síðan mælti ég með vísindamanni að koma í deildina okkar og halda fyrirlestur. Henni var boðið og hún þáði. Þetta er konan sem ég var að vonast til að myndi bjóða mér að halda fyrirlestur á ocean sciences ráðstefnunni í ferúar. Hún gerði það ekki svo ég ákvað bara að bjóða henni í staðin. Ég mun skipuleggja heimsóknina. Við hverja hún talar og hvert við förum með hana að borða. Gaman gaman. Allskonar spennandi í gangi.

10.11.09

leikfimi

Ég er búin að fara í leikfimi í nokkrar vikur hjá skrifstofustjóranum okkar. Kemur í ljós að hann er líka leikfimiskennari, auk þess að vera skrifstofustjóri. Og vá hvað hann lætur okkur þjást. Magaæfingar og lyfta lóðum. Það sem er alveg súper er að það eru engin skref. Ekkert svona tvö til hægri og eitt afturá bak. Það fer alveg með mig.

Núna er alveg prógram hjá mér alla vikuna. Leikfimi - hugleiðsla - klifur. Svona eftir vinnu aktívitet.

Steven Levitt, prófessor við hagfræðideildina, var að gefa út nýja bók: superfreakonomics. Þar spekulerar hann víst í hitnun jarðar og hvernig honum finnst eðlilegt fyrir mannkyn að bregðast við því. Það er eins og hann hafi ekki spekulerað mikið í þessu vandamáli og fór það aðeins fyrir brjóstið á prófessor í deildinni minni, Ray Pierrehumbert. Hér má sjá opið bréf sem Ray skrifar Steve og hér er umfjöllun um bókina og bréf í New Yorker. Ég mæli eindregið með þessu lesefni, það er bráðfyndið. Albeit aðeins sorglegt.

8.11.09

sunnudagur

Sunnudagur hefur verið hvíldardagurinn frá manna minnum. Ég er 100% sammála Guðna Ágústssyni að hann eigi að halda hátíðlega og vera fjölskyldudagur, helst með ofnsteik, sósu og kartöflu gratíni.

Á tímabili fórum við Óli í dagsferðir á sunnudögum. Það var gaman. Einu sinni fórum við í Indiana Dunes, á ströndina. Hún var mjög menguð. Einu sinni fórum við í Frank Lloyd Wright hverfið, einu sinni í Pullman útópíuna. Á tímabili fórum við alltaf að klifra á sunnudögum.

Í dag fór ég út að skokka. Á meðan ég var að skokka brutust allskonar tilfinningar út og ég fór að gráta. Það var óþægilegt. Erfitt er að skokka og gráta á sama tíma. Síðan jafnaði ég mig. Aðallega er ég búin að sitja við skrifborðið að undirbúa fyrirlestur fyrir morgundaginn. Óli er að klifra en hann er líka í New York. Í Chicago er tími peningar. Eða viska. Djók.

Það góða er að Liz er að elda steik. Lambasteik. Ilmar svaka vel. Mmm.

6.11.09

Susan

Ég varð að koma henni ofan í kjallara. Það er ekki hægt að hafa verksummerki svona fyrir allra augu í marga daga. Hægri hendina setti ég inní brjóstholið og hélt um rifin meðan vinstri hendin tók um mænuna rétt ofan við mjaðmagrindina. Lappirnar drógust eftir gólfinu og ég var hrædd um að tásurnar myndu losna svo ég tók á öllu mínu og reyndi að halda henni ofar en þá skall hauskúpan í loftið. Eftir öll þessi ár voru sinarnar allar á sínum stað og ekkert bein losnaði meðan á þessu brölti stóð. Ótrúlegt. Á endanum kom ég henni niður í kjallara og lét hana leggjast endilanga á borð. Þar getur hún hvílt í friði fram á næstu hrekkjavöku. Grey Susan.

3.11.09

Hank and Cupcakes

Á halloween fórum við Óli á tónleika hjá krökkunum sem við bjuggum með í sumar, Hank and Cupcakes. Og vá! Þvílíkt show. Hún spilar á trommur og syngur, hann spilar á bassa. Upprennandi stjörnur. Við spjölluðum líka aðeins við manager sem var að reyna að veiða þau. Hann var klæddur sem sjóræningi. Vonandi er það ekki tánkrænt. Hann var ekkert smá spenntur. Sagði að hún gæti verið næsta Whitney Houston.

Hérna eru þau: linkur á youtube

This page is powered by Blogger. Isn't yours?