28.5.09

Ástandið á manni

Húsnæðislaus hvort í sinni borginni. Leigusamningurinn minn er að renna út og þar sem ég er um það bil að klára þá ætla ég ekki að endurnýja hann. Er að spá í því hvar ég eigi að búa. Veit það ekki alveg. Óli er líka að flytja úr sinni íbúð. Og hann veit heldur ekki hvar hann ætlar að búa. Við erum í ruglinu. Það er alveg ljóst.

Kona sem er ekki í ruglinu er tengdamóðir mín. Hún er að verða skólastjóri. Skólastjóri stærsta skólans á öllu Íslandi. Fyrir utan kannski háskólann.

Leiðbeinandinn minn sagði mér í hundraðasta skipti að ég ætti kannski að gera eina analísu. Ég er nú orðin aðeins leið á því að heyra að ég ætti endilega að gera eitthvað sem ég er löngu búin að gera og segja honum frá því aðra hverja viku. Þá sagði hann að það væri kannski kominn tími fyrir mig að ljúka þessu þá og finna mér einhvern klárari gæja til að vinna með. Því var ég hjartanlega sammála. Þetta er komið gott.

23.5.09

Góðar niðurstöður

Einstaka sinnum gerist það að ég fæ góðar niðurstöður. Þá er gaman. Þá varpa ég öndinni léttar. Enn eitt hænuskrefið komið.

Úff hvað þetta er brattur vegur.

Oft gerist það líka að þegar skrefinu er náð er maður svo feginn að maður getur með engu móti einbeitt sér. Maður er bara eins og sprungin blaðra. "Ó já" hljómar í höfðinu manns og brosið nær eyrnanna á milli. Sæluvíma.

Held ég verði að fara út að skokka.

16.5.09

Eurovision Forever!

Flottasta keppni ever! Rússland er ennþá heimsveldi! Enginn þarf að efast um það í dag. Og voru litlu krakkarnir ekki sætir?

Ég kemst ekki yfir það hvað þessi keppni er mikil snilld. Hún er það besta í öllu Evrópusamstarfinu. Tvímælalaust. Var ekki gaman að sæta Alsou skyldi birtast aftur?

Ég misti reyndar alveg af keppninni í ár. Las um úrslitin í alfræðiritinu áður en ég gat horft. Sem betur fer býður sjónvarpið þegnum lýðveldisins góða þjónustu og ég get horft núna þegar það hentar mér betur. Málið er að í gær hét ég þess að skrifa eina blaðsíðu á dag hvern dag þangað til þessu er lokið. Og ég verð að standa við það því ég er búin að missa þolinmæðina á símanum. Ég bara meika ekki lengur að tala í síma. Ég fæ höfuðverk af því. Enda er ekkert náttúrulegt við það að vera með manneskju að tala inní höfðinu á manni. Þetta er sérstaklega óheppilegt í ljósi þess að einu samskiptin sem ég á við manninn minn eru í gegnum síma.

Góðu fréttirnar eru þær að ég skrifaði heila blaðsíðu í dag. Auk þess sem ég fór á bændamarkaðinn og keypti kjöt, mjólk, egg, morgunkorn, sultu, osta, sápu, lauk, sveppi, sellerírót, mesclun, tómatsúpu, salsa og aspas. Algjört æði. Síðan keypti ég þrjár tómataplöntur og eina papriku og gróðursetti í garðinum okkar Söru. Svo mikið súper.

Ennþá er ég hrifnust af Flor de lis en núna er Jóhanna komin á sviðið. Er hún að syngja um góðærið? Is it true? Is it over? Did I throw it away? Svarið er já, já, já. Ég elska þessa keppni.

14.5.09

Years ago when I was younger...

mér finnst yfirleitt júróvisíón lög sem sungin eru af strákum eða mönnum skemmtilegri. Eistlenska lagið My Star er örugglega all time uppáhalds hjá mér, reyndar í sömu keppni var rússneska lagið Solo líka mjög gott og það var stelpa sem söng það. Nína er all time uppáhalds íslenska lagið mitt, Lordi, Páll Óskar, þarf að segja eitthvað meira? Reyndar eru nokkrar stelpur á listanum einsog Dana International og kannski Selma.

Uppáhaldslagið mitt í ár er hingað til portúgalska lagið, en ég hef reyndar ekki horft á þau öll. Jóhanna er voða sæt en hversu leiðinlegt er þetta lag? Kannski ágætt því ekki væri það nú vænlegt að vinna, í ár.

13.5.09

Contrarians

er fólk sem vill ekki trúa því að veðurfarsbreytingar eru að eiga sér stað af völdum mannanna. Þetta fólk fer nett í taugarnar á vísindamönnum sem rannsaka veðurfarsbreytingar. Á nokkra vikna millibili kemur einhver contrarian fram með nýtt graf sem sýnir að jörðin sé að kólna, ekki hitna. Hérna er einn, sem heitir líka því skemmtilega nafni Monckton og er þar að auki greifi sem á skjaldamerki. Hann er nú meiri karakterinn, teiknar gröf eins og hann sé að æfa sig á reglustiku, lítil lína upp, önnur niður, eina langa hérna... ég veit ekki hvað hann er að hugsa þegar hann teiknar þessi gröf. Hérna er eitt.


og hérna er sama graf, bara rétt. Svarta línan og grái borðinn í þessu grafi samsvarar bleika borðanum í grafinu að ofan. Gistemp eru hitastigs gögn frá bandarísku geimrannsóknastofunni, NASA, og hadCRUT3 eru hitastigsgögn frá bresku veðurstofunni.


Lóðrétti ásinn er meðalhitastig allrar jarðarinnar miðað við meðalhitastig á árunum 1980-1999. T.d. Árið 2005 var um 0.3 gráðum heitara en að meðaltali á tímabilinu 1980-1999. Auðvitað er aðeins einkennilegt að láta grafið byrja árið 2002, fyrir 7 árum síðan, þegar til eru gögn sem fara miklu lengra aftur í tímann.



Ég er bara orðlaus.

Hvernig nennir einhver að standa í þessu, og það greifi! Ég hélt nú að greifar hefðu eitthvað betra við tímann að gera. Hvernig er hægt að hafa það á samviskunni að reyna vísvitandi að afvegaleiða fólk þegar um framtíð þess er að ræða? Það er mér hulin ráðgáta.

9.5.09

"Nobody made a greater mistake than he who did nothing because he could do only a little." -Edmund Burke

Loksins finn ég lífsmottóið mitt á netinu. En gaman.

Núna er ég enginn mannlífsfræðingur en er fólk ekki fyndið? Öll erum við voða svipuð, það sem okkur finnst gott (ís) og skemmtilegt (bíó), leiðinlegt (vaska upp) og sársaukafullt (reka tánna í) er allt meira og minna það sama. Það er smá breytileiki í smáatriðunum en að öllu jöfnu erum við öll mennsk og viljum bara hafa það gott. Samt snýst líf fólks um að keppast við að vera flottara en næsti maður, með fínna dót og fallegri börn.

Það sem ég skil ekki er hvernig gátum við þróast með svona svaka mikið ego? Okkar tegund vann þrátt fyrir mikinn keppnisanda milli einstaklinga. Þrátt fyrir það að vera sífellt að keppast við frænku okkar og frænda þá náðum við að berjast við öll ljónin, tígrisdýrin, styggja fílunum frá og flóðhestunum. Síðan föttuðum við allskonar kúl, tókum aðrar tegundir inn á heimilið og fengum þau til að stjana við okkur: rúlluðum þessu upp. Eina ástæðan fyrir því að ég trúi þessu er að ég er ein af okkur.

Aftur að Burke. Það væri skiljanlegt að ef eina lausnin á vanda heimsins væri fyrir hvert mannsbarn að heimsækja Mars einhverntíman á lífsleiðinni, þá féllist manni kannski hendur. Vandinn er bara ekki svo mikið vesen. Lausnin á vandanum er til. Nýji vandinn er að fólkið nennir ekki að taka þátt í lausninni því það heldur að það sem það geri skipti engu máli. Fólk neitar að skilja að það er bara pínulítill hluti af risa heild. Og að margt smátt gerir eitt stórt. Þetta er örugglega minnst dáði málsháttur okkar menningar. Einhver ætti að gera skoðunakönnun um þennan málshátt og skrifa um það doktorsritgerð.

8.5.09

Yada yada yada

Eins og það sé ekki nógu trámatískt að húsbóndi minn er fluttur að heiman þá er ég að verða búin með Seinfeld diskana mína. Síðan í haust eru Jerry, Elaine, George og Kramer búin að hugga mig og knúsa þegar ég er einmana á kvöldin en núna er ég komin á níundu seríu, búin með fyrsta diskinn. Bara þrír eftir.

Ég dái Jerry Seinfeld og félaga hans. Seinfeld er tvímælalaust uppáhalds sjónvarpsserían mín. Tvímælalaust. Sögurnar eru súper, persónurnar yndislegar. Svo mikil ást og hamingja í þessu spaugi. Alveg einstakt.

Það sem fólk segir og er satt er að Jerry er ekki leikari, "hann er alltaf með eitthvað glott". Málið er að hann er ekki leikari og hann er ekki með neitt glott, hann er bara alltaf að springa úr hlátri yfir því sem er að gerast í kringum hann. Hann kann ekki trikkið hennar Elaine, eða Júlíu, að kreppa hnefana þannig að neglurnar stingast inn í lófana og meiða sig þannig að allur hlátur hverfur manni út huga. Ég er mjög sátt við Jerry en núna veit ég ekki hvað tekur við. Hvað getur huggað mig á kvöldin í sumar?

2.5.09

Bíó með Jim Jarmusch

Eftir við Óli sáum Broken Flowers hef ég sóst eftir því að sjá myndir þessa ágæta leikstjóra og hefur það verið misskemmtileg reynsla. Coffee and Cigarettes kunni ég vel að meta og líka Ghost Dog en ég komst ekki í gegnum Mystery Train. Í gær fórum við Óli á Limits of Control sem reyndi svo sannarlega á sjálfstjórn bíógesta. Í kór létu þeir út eitt stórt andvarp þegar myndin var búin og stundu upp "loksins!".

Óli svaf í lokasprettinum en ég var seinna ánægð með að hafa þraukað. Því er ég lá í rúminu að fara að sofa kom myndin til mín, eins og draugaskip sem siglir í loftinu, og hún var bara ljómandi góð. Ég segi ekkert um hvað hún fjallar, það er það sem gerir áhorfið bærilegt, þegar maður loksins skilur.

Don't be a stranger

Svart fólk er sérlega félagslynt. Ég dáist að því. Núna er ég búin að vera í lest í hátt í 20 tíma og ég er búin að spjalla mjög yfirborðskennt við fjórar manneskjur. Konuna sem sat við hliðiná mér í nótt, við spjölluðum rétt aðeins. Síðan voru hérna tveir Chileanskir gæjar að lina sársaukann með búsi og ég spjallaði við þá þangað til við fórum að tala spænsku og einhver kom og rak þá úr vagninum. Að lokum skiptist ég á nokkrum orðum við konu sem situr núna hinum megin við ganginn. Við vorum eitthvað að vandræðast með eitthvað. Hún er svört.

Nema hvað. í Albany bætist fullt af fólki í lestina. Ég er með allskonar drasl í sætinu mínu til að enginn setjist þar og konan hinum megin er með risa ferðatösku sem fullorðinn maður vippar upp á grindina, sest hjá henni og þau eru búin að skiptast á lífssýn og sögu, búin að spjalla samfellt í tvo tíma. Hún er búin að draga upp möppu með myndum af sér. Þau eru óstöðvandi. Og þetta er ekkert einstakt. Síðast þegar ég var í lest var gamall maður, svartur, fyrir aftan mig. Þegar svört kona sest hjá honum eru þau bara eins og Hans og Gréta. Þekkjast, spjalla um heima og geima. Bara eins og að tala við besta vin sinn. Mér finnst þetta geðveikt merkilegt. Vildi að ég væri svona félagslynd.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?