24.2.11

Gnuplot á tölvunni minni

Þvílíkur léttir. Ég er búin að vera að vinna í því að setja gnuplot inná tölvuna í fleiri fleiri vikur. Alltaf eitthvað vesen. En núna er ég komin með fink og það virkar og þá loksins gat ég sett inn gnuplot. Það er varla hægt að lýsa því hversu mikilvægt það er að vera með gnuplot og hversu góð tilfinning það er líka. Pheew.

Lífið hérna vestanhafs gengur ljómandi vel. Við Óli fórum í vetrarferð upp til Vermont um helgina. Heimsóttum kunningjafólk okkar sem á þar annað heimili í miðjum skógi, rétt við skíðasvæði. Algjör himnasæla. Það var yndislegt að komast útúr borginni og fá smá útiveru. Maður er algjör innipúki.

Á laugardaginn verður þorrablót í New York. Það er víst besta blótið í Ameríku. Fólk hvaðan að kemur til New York til að fá slátur og hákarl. Sigurdís og Rósa eru að koma frá Boston. Það verður gaman að sjá þær. Sigurdís ætlar að koma með gítarinn. Kannski hún geti spilað aðeins fyrir partíið svo ég geti fengið að æfa mig að syngja. Ég kem nefnilega úr svo laglausum fjölskyldum, á báða bóga að ég ætti eiginlega ekki að syngja í mannamótum.

10.2.11

Búdrýgindi

Er kannski ekki alveg rétta lýsingin en við hjónin erum að brugga batch númer tvö í fataskápnum. Það er dimmasti staðurinn í íbúðinni. Batch númer eitt er að gerjast í flöskum. Smökkuðum það rétt aðeins en verðum að bíða í rúma viku til viðbótar. Þetta er ekki lítið spennandi viðfangsefni. Ég gaf Óla brugg-kit í afmælisgjöf. Það fylgdi bygg, rétt ristað og meðhöndlað, humlar og ger. Vonandi kemur að því að við kaupum bygg og ristum það sjálf en þetta er enn á byrjunarstigi.

Það sem er ekki á byrjunarstigi er greinin mín. Komin með 1702 orð og hún má ekki vera lengri en 2000. Þetta er bara "bréf", varla grein. En ekki er einfaldara að skrifa fá orð. Ég hugsa að ég sé búin að skrifa svona fimm sinnum fleiri sem hafa strokast út.

Annað sem er í gangi hérna í New York er að það eru svaka sætir krakkar í heimsókn hjá okkur. Birta heita þau og Árni Freyr. Þau eru svaka spennt fyrir New York og eru að skemmta sér alveg konunglega. Alveg yndislegt.

Ég er að smakka vínið og bíða eftir að maðurinn minn kemur heim úr vinnunni. Það er svaka góður tími til að blogga. Mér finnst gaman að hugsa til þess að það að blogga er frekar gamaldags. Í dag eru menn að læka facebook statusa eða tweeta.

Annars er ekki mikið í fréttum. Ég er að fara í smá skrepp til Chicago í næstu viku. Það verður örugglega ágætt. Gaman að hitta David. Ég sakna hans svo. Núna þegar ég er búin að verja ritgerðina.

3.2.11

Ekki er soðin súpan þótt seyðið sé komið í pottinn

Ég er á súpuskeiðinu. Það er eitt af því sem maður lendir í þegar maður er þrjátíu og eitthvað. Í gær eldaði ég súpu út gulum baunum, með spínati og hrísgrjónum líka. Hún var ágæt en ég átti ekki nóg af baunum og var búin að gleyma því þegar ég setti vatnið. Þannig að hún var því miður aðeins og þunn. Aðrar súpur sem ég eldaði í janúar voru byggsúpa, lauksúpa, grænkálssúpa, pipar/paprikusúpa sem var svo sterk ég var í mestu vandræðum með að borða hana, og gúllassúpa. Allar grænmetissúpurnar eru eftir Deborah Madison. En hún er uppáhaldskokkurinn minn. Súpurnar hennar eru tví-laga. Það er súpa. Og síðan er eitthvað til að gera áferð. Eins og í gær var súpa úr gulum baunum með smá lauk og kóriander og allskonar kryddi og síðan nokkrar skeiðar af hrísgrjónum og spínat til að gera hana meira spennandi. Plús jógúrtsósa ofaná.



Á föstudaginn í tilefni afmæli föður míns fórum við Óli í óperuna. Að sjá Simon Boccanegra. Það er ekki mjög frægt verk eftir Verdi en alveg stórkostlegt. Ég hefði ekki trúað því að það væri svona gaman að fara í óperuna. Þetta var í fyrsta skipti sem ég fer. Í óperunni í New York er textabox í sætisbakinu fyrir framan mann svo maður getur fylgst með hverju orði sem þau syngja. Það var mjög skemmtilegt því textinn í þessu verki var svo fallegur. Og sagan var svo flókin að maður hefði verið ekki skilið baun án hans. Þetta verk var svaka áhrifamikið. Sérstaklega í lokin þegar afinn og pabbinn sættast. Ég man bara þegar pretty woman fór í óperuna og fór að háskæla. Það var mín upplifun. Upp á hár.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?