30.12.08

The long thaw

Bók. Þetta er linkur á bók sem leiðbeinandinn minn er nýbúinn að skrifa. Hún fjallar um veðurfars-afleiðingar aukins CO2 í andrúmsloftinu. Ég mæli með henni ef einhver hefur áhuga á svoleiðis spekulasjónum. Hún er skrifuð með það í huga að foreldrar manns geti skilið hana. Þeas. einhver sem er ekki sérfræðingur.

Síðan get ég nú ekki orða bundist yfir ummæli einnar konu er stundar nám í höfuðborg Bandaríkjanna í sambandi við fjárskort og lélegt fjárflæði frá lánasjóði námsmanna. En hún sagði, alveg dauðhneyksluð og reið, að hún hefði þurft að nota tepokana sína tvisvar! Tvisvar. Mér finnst þetta fyndið því fyrir flestum er það nú bara eðlilegur hlutur að nota tepokana tvisvar. Þeir duga alveg í tvo bolla. Það er að fleygja verðmætum útum gluggan að fleygja hálfnotuðum tepoka. Við Óli lágum í kasti yfir þessari dekursnót og vinkonu hennar sem fór að skæla. Tvisvar. Hvernig ætlar þú að komast af núna í vetur þegar þú átt bara fyrir leigu og rafmagni? Spyr Kastjóss konan. Herja á fjölskylduna. Svaraði greyið áður en gráthrina númer tvö skall á. Það er svo margt sem ég skil ekki í sambandi við þetta. Í fyrsta lagi. Yndislegt að eiga fjölskyldu sem lætur sig um mann varða og hjálpar manni í neyð/vanda. Í öðru lagi, ef viðkomandi á ekki efni á að stunda nám erlendis, af hverju hættir hann þá ekki, eða flytur heim þar sem það er ódýrara að læra? Það er eins og fólk hafi aðeins blindast af þessum sýndarveruleika sem er búinn að þekja Ísland síðastliðin tíu ár eða svo. Fyrir bara nokkrum áratugum þótti ekkert sjálfsagt að fara erlendis í nám. Spyrjið bara hana ömmu mína Bíbí. Eða hálfa heimsbyggðina. Hún myndi segja það forréttindi að fá að læra í sínu heimalandi. Spyrjið mig sem er búin að vera í sömu leppunum svo lengi að þeir eru komnir aftur í tísku. Ég borða svo mikið af karöflum og brauði að þegar ég elda almennilegan mat er ég svo hamingjusöm að ég þarf að útvarpa því á Netinu. Ég er ekkert smá hneyksluð á þessum ofdekruðu velmegunarstúdentum. Að láta svona eins og smábörn.

29.12.08

Hver vill elska lítinn spörfugl?

Byrjar fallegt lag Símonar og Garfúnkels. Það er svona þema hjá mér í New York að hlusta á S og G þegar ég elda. Ásamt einu rauðvínsglasi er þetta yndisleg stund. Ég elska að elda. Elska það. Vildi að ég gæti ræktað sjálf grös og dót í meira magni en ég geri. Þyrfti líka að komast í kynni við bændur í nágrenni NY.

Við mættum nágrannakonunni í stigagangnum í gær. Hún býr á hæðinni fyrir neðan okkur og spurði hvort við værum byrjuð að æfa dans. Við vorum bara uhhhh? Jah, mér bara heyrist þið vera að dansa svaka mikið. Ég sagði henni að Óli hefði fengið trommusett í jólagjöf og það væri örugglega í því sem hún heyrði. Eeek. Þau eru japönskt og því náttúrulega með aðrar kurteisisvenjur en við, Íslendingarnir. Sem erum varla með neinar. Sér í lagi skildum við ekki hvað þetta gæti þýtt. Eru of mikil læti í okkur? Mér datt það helst í hug. Dreif mig að setja heimilisreglu: ekkert Guitar Hero eftir klukkan tíu. Seinna um kvöldið kom maðurinn með tvo bolla að gefa okkur í jólagjöf. Bollar sem konan hans gerði úr leir. Hún er potter. Og þeir eru svaka flottir. Svaka gott að drekka kaffi úr þeim. Og te.

27.12.08

Jól gítars, trommu og hetja

Maðurinn minn fékk honum alls að óvörum trommusett, gítar og hljóðnema í jólagjöf frá eiginkonu sinni. Ásamt tölvuspilinu gítar híró og var hann í hæstu skýjum ánægður. Ég var líka ánægð því mér þykir bara gaman að hamast á trommunum og skemmtum við okkur ágætlega yfir þessu. Við erum með band með þokkafullum og léttklæddum rokkurum sem standa sig svona í meðallagi vel. Þau fá kannski einhverstaðar á milli tuttugu og hundrað dollara fyrir hvert lag. Yfirleitt fær Óli Rok borgað meira en Tinna en hann er líka hard meðan ég er easy.

Það er ekkert smá hvað Óli er með mikla náttúrulega hæfileika til að spila á hljóðfæri. Ég er bara alveg gapandi yfir þessu. Og heilluð. Upp úr skónum.

Við erum semsagt búin að hafa það mjög notalegt yfir jólin. Öndin og rauðkálið var gott. Bóndadóttirin stóð fyrir sínu og randalínið er alveg að verða búið. Það eina sem vantaði var jóladagsboð í Stóró og settlers með frændsystkynunum.

Á morgun er jólaklifur með klifurfélögunum úr vinnunni. Síðan bara back to work. This is it. Jólin búin. Rétt korteri eftir að þau byrjuðu.

24.12.08

Öndin í ofninum


og Óli búinn að gera krem á randalínið.

Gleðileg jól



Bara smá jólakveðja, kortin eru á leiðinni. Hérna er mynd af jólatrénu okkar og mér að skenkja kjötsúpu í fyrradag. Síðan er linkur á uppáhaldsjólalagið mitt (!) núna í ár. Það er úkraínskt og ég sé það núna þegar ég er að leita að því á youtube að það er orðið hálf cult eitthvað. En hérna er það með Fred Waring and his Pennsylvanians sem er sú útgáfa sem ég á líka og er að hlusta á. Carol of bells heitir það.


22.12.08

Borgin sem aldrei sefur

Það er miðnótt og ég er með jet-lag. Get ekki sofið. Að hluta til vegna þess að það er verið að taka upp eitthvað drama á götuhorninu sem við búum á. Akkúrat núna. Á Lafayette og Spring. Kastarar lýsa allt upp og menn hrópa action og cut milli þess sem kona og maður garga og æpa hvort á annað.

Annars er bara allt gott að frétta héðan. Mér er ekki að takast vel að taka New York lífsstílinn opnum örmum og eldaði kjötsúpu í kvöld. Annað skiptið í þessum mánuði. Ég verð að segja að við vorum aðeins skúffuð með hana. Kjötið var ekki nógu gott. Enda bara amerískt. Hvorki lókal né frá bóndabæ. Það veit ekki á gott. Hver myndi kaupa franskt vín. Það verður að vera frá einhverjum ákveðnum framleiðanda eða allavegana héraði. Ég veit ekki hvað ég var að spá. Ég hugsa að það verði take-out á morgun.

18.12.08

Jólin koma, jólin koma

Ég man ekki hvenær ég var jafn spennt fyrir jólunum og ég er núna. Ég er búin að skrifa 30 jólakort. Hlusta á jólaplöturnar og kom meira að segja með jólatré sem er núna í hótelherberginu okkar Katie. Ég er búin að fá jólaglögg, borða piparkökur að ég tali nú ekki um piparkökuhúsið sem ég lét kínversku strákana hlaupa 10 blokkir eftir. Metnaður í jólahygge. Síðan er ég búin að ákveða að baka randalín. Brúna. Mmmm. Það sem er spes er að við Óli verðum saman um jólin. Ohhh, en sætt. Eins og það er nú yndislegt að vera með mömmu og hele genget þá er alveg spes að vera með elskunni sinni á jólunum.

Plaggats sýningin mín gekk svaka vel. Fullt af fólki kom og var svaka spennt. Það var gaman. Nokkrir gæjar spurðu mig spjörunum úr. Gaman þegar vinnunni manns er sýnd áhuga. Það gerist ekki svo oft. Og á morgun er ég komin með boð í kvöldmat. Jess.

17.12.08

Voða mikið knús frá San Francisco

Mmmmm, ég fíla San Francisco frekar vel. Hún er svo kósí. Akkúrat núna sit ég á starbucks sem er nokkuð sem ég reyni að forðast en í kvöld varð ég endilega að komast í tiltölulega fría internet tengingu til að tékka á nokkrum hlutum í sambandi við líkanið mitt. Ráðstefnan gengur svaka vel. Ég er búin að vera svaka dugleg að skoða annara manna plaggöt og rakst á nokkur sem gáfu mér góðar hugmyndir varðandi mitt research. Það er æði, ég hef eiginlega ekki upplifað það áður. Hef verið meira upptekin af því útskýra mitt research fyrir öðrum og fá feedback frá því.

Síðan hitti ég Íslending. Rétt eftir að ég fór að plaggatinu hennar Sigurlaugar og sá þar ekki annað fyrir en auðan vegg. Það var notalegt, landið mitt ekki alveg í molum. Þeas að hitta Íslendinginn, ekki auða vegginn hennar Sigurlaugar. Íslendingurinn var Benni sem ég var einu sinni með í stjórn Stiguls. Hann fræddi mig um ris og sig Heklu. Næsta gosi spáð eftir ár eða tvö. Spennandi.

Síðan hitti ég Andreas, samstarfsmanninn minn í Oregon. Við vorum bæði aðeins vandræðaleg í eina sekúndu því við höfum ekkert verið í sambandi eða unnið í verkefninu okkar í heilt ár. Og okkur finnst báðum eins og það sé okkur að kenna. En síðan establisheruðum við að við værum bæði upptekin og því ekki komist í þetta, og þá leið okkur báðum betur. Eða það held ég allavegana.

Jæja, líkanið búið að keyra heilt ár. Það er nóg. Gleðilega aðventu og knús frá SF, ykkar Tinna

12.12.08

Vatn og brauð

er það sem ég lifi á þessa dagana. Í dag fékk ég brauð með brie í morgunmat, brauð með brie í hádegismat og brauð með smjöri og sultu í kvöldmat. Smjörið fann ég í einum ískáp og sultuna í öðrum. Reyndar er Pam búin að vera að leika jólasvein undanfarna daga. Í dag fengum við appelsínu. Í gær súkkulaði. Daginn þar áður kex. Hún kemur með fullan poka af góðgæti og deilir á milli greyjanna sem eru að stressa sig við að fá og skilja niðurstöðurnar sínar. Voða huggulegt. Síðan gaf Emilia mér epli og banana svo ég er nú bara nokkuð vel haldin. En ég hlakka samt til að fara á vesturstöndina og fá kóreanskan mat. Mmmmm.

11.12.08

Svo lukkuleg

Já, ég var svo lukkuleg með að vera boðið á sinfóníutónleika í fyrradag. Kínversku strákarnir í deildinni, Zuowei og Da, voru að fara með strák frá Beijing sem forfallaðist svo þeir buðu mér í staðin. Við sátum fyrir aftan hljómsveitina og sáum 80 ára gamlan stjórnandann vel. Þau spiluðu Haydn og Bruckner, fyrsta stóra verkið hans sem hann skrifaði seint á ferlinum í kringum andlát Wagners.

Síðan hlupum við eins og fætur toguðu gegnum allt downtown til að komast í Trader að kaupa piparkökuhús. Seint um kvöld skreytti ég svo blessaða piparkökuhúsið og púslaði því saman. Fór með það í skólann til þess eins að splundra því við fagnaðarlátum. En þetta er um það bil að verða hefð hérna í deildinni, að stúta piparkökuhúsi með kampavínsflösku í jólaboðinu. Frekar góð hefð að mínu mati.

Forritið er smám saman að taka á sig AGU mynd. Svo geðveikt spennandi. Ég sit hérna á stólbríkinni að keyra mismunandi scenario og fá flottar myndir. Ef ég bara gæti sett eina hér inn...



Tókst! Þessi mynd lýsir hversu hratt agnirnar sökkva með dýpi. Dýpi er á lóðrétta ásnum og stærð agna er á lárétta. Efst er yfirborð sjávar, neðst sjávarbotn. Til vinstri eru litlar agnir, til hægri stórar. Heitu litirnir eru agnir sem sökkva hratt, köldu litirnir sökkva hægt. Úr myndinni má því lesa að stórar agnir sem eru á meira dýpi sökkva hraðar en litlar agnir á litlu dýpi. Ha!

9.12.08

Allt að verða til fyrir AGU

Núna eru bakteríur komnar inn í líkanið mitt. Bakteríur eru mjög mikilvægur hluti af lífi á jörðunni, sem og öðrum plánetum. Þær eru fólki til dæmis lífsnauðsinlegar og mögulega eru þær líka mikilvægur hlekkur í ögnum sem sökkva í sjónum. Ég er núna að reyna að átta mig á því.

Annars er bara allt í góðu standi í Chicago. Ég skrifaði nokkur jólakort um helgina, borðaði hafrakex og hafði það almennt mjög notalegt. Hér er búið að vera hrikalega kalt en í dag er hlýrra og rigning. Kuldanum blés til New York. Til Óla míns.

Árlegt jólaboð er í deildinni á morgun. Ég ætla að skreyta piparkökuhús. Maður getur keypt útmældar og skornar plötur í Trader Joes sem er það sem ég ætla að gera í kvöld. Ég kom einu sinni með piparkökuhús og það vakti heilmikla lukku. Sérstaklega þegar ég stútaði því að hætti fjölskyldunnar í Ofanleitinu með viskí flösku, þar sem engan kjöthamar var að finna í bítibúrinu. Fólk átti ekki von á svo afdrifaríkum endalokum sæta Hans og Grétu hússins.

7.12.08

Annar í aðventu

og það er alveg svaka jólalegt hjá mér. Jólasería komin upp í glugga. Meira að segja smá jólatré með seríu. Jólapakkar innpakkaðir. Rjúkandi kjötsúpa. Íslensk kjötsúpa, með Illinóísku lambi. Og jólatónlist. Falalalala..

Við Zuowei fórum í jólaleiðangur í gær. Það er að segja þá leiddi ég Zuowei í gegnum jólajól í gær. Í hrikalegu frosti og snjófjúki. Fyrst fórum við á þýska jólamarkaðinn, skoðuðum skprellijólasveina og glerkúlur og fengum jólaglögg og sykraðar möndlur. Síðan sýndi ég honum the magnificent mile. Við fórum inn við hvert tækifæri að hlýja okkar frosnu nef og putta. Ég gat fundið allskonar fínheit fyrir mína nánustu. Zuowei fannst jólahefðin tilkomumikil. Loks tókum við strætó og lest á Logan Square þangað sem Rob býr og var einmitt með Sánkti Nikulásar partý. Alveg súper.

Kjötsúpuna eldaði ég á föstudaginn. Fyrir Söru og Young Jin. Hún heppnaðist svo vel. Ég hef ekki fengið jafngóðan mat síðan á thanksgiving þegar við Óli grilluðum lamabalærið. Ég hugsa að ég fari að elda kjötsúpu einu sinni í viku hérmeð. Alveg dýrindis. Og mergurinn. Young Jin saug hann með tilþrifum. Mér leið bara eins og ég væri komin upp í Stóró í eldhúsinu og afi Siggi við endann. Slurp-hljóðin og ánægjustunurnar voru þær sömu.

Síðan er ég með hafrakex í desert. Ömmu Rúnu hafrakex ala Tinna. Haframjölið hafði loks klárast í endalausar hafragrautsmáltíðir. En, ég átti rúgmjöl og bygg. Haframjöl er náttúrulega rangnefni. Haframjöl er ekki mjöl heldur flögur. Pressað korn. Rúgurinn og byggið er pressað í flögur. Það er mikilvægt. Og það virkar svaka vel. En hve lífið er dásamlegt.

6.12.08

Sönnun

Komin. Fyrir því að nágrannar mínir, þeir er ég ekki sé, eru álfar. Íslenskir hnupplgjarnir álfar. Úúps, ætli þeir lesi blogg. Ég semsagt var að koma heim úr ferðalagi. Hvað á maður að gera við lyklana þegar maður er á ferðalagi? Það er svo skrýtið að þurfa ekki á lyklunum að halda. Þeir eru líflínan manns að öllu jöfnu. Tala nú ekki um þegar það er 12 stiga frost. Síðan fer maður í ferðalag og þá er þetta glingur bara áhyggjuvaldandi málmbitar. Maður má ekki týna þeim. Sama hvað.

Svo ég reyni að setja þá á góðan stað. Við fyrsta tækifæri. Það er eitthvað sem ég er að einbeita mér að þessa dagana, að vera með hluti á hreinu: ekki týna dótinu mínu og ekki gleyma hlutum. Það er bara ekki þess virði að týna lyklum í Oregon og þurfa að vandræðast með að brjóstast inn til sín. Núna er ég orðin þrítug. Svona lagað gengur ekki lengur.

Þegar ég kem heim ferðalaginu stend ég fyrir utan útidyrahurðina mína og opna töskuna. Renni frá hólfinu að litla vasanum og bý mig undir það að finna lyklana mína. Nema hvað, lyklar á lyklum ofan. Tvær lyklakippur í hólfinu. Lyklakippan mín og lyklakippan sem týndist í Oregon. Eða, eins og núna kemur í ljós, lyklakippan sem álfarnir fengu að láni. Til að komast inn til sín. Eða hvað, ég skil þetta ekki. Passa hús og vinnulyklar að hólum? Og þá, spyr ég, hvaða hólum? Hvar búa þeir? Það eru engir hólar í Chicago.

1.12.08

Jó jó

Muniði þegar heill her af fólki kom í Hvassó að kynna nýtt jó jó? Kók jó jó in. Vá hvað það er almennilegt, að kynna fyrir íslenskum sveitakrökkum nýjustu þróun í dóti. Amma Bíbí fékk að smakka kók í Austurbæjarskóla á sínum tíma. Hún var nú ekki hrifin af því. Skiljanlega. En það er hughreystandi að vita að kók menn passa upp á okkur. Passa að við séum ekki útá þekju. Ég held að ég hafi verið nokkuð hrifin af jó jó. Æfði mig allavegana þónokkuð. Tiltölulega árangurslaust.

En þetta var nú ekki það sem ég ætlaði að skrifa um. Mér líður bara eins og jó jó i þessa dagana. Þeytist á milli Hyde Park og Soho. Ofganna á milli. Ég er núna að vona að ég nái vélinni til Chicago á morgun, í bítið. Milli þess sem ég hræri í kveðjuhrísgrjónagraut. Og hlusta kveðjuhlustun á Bítlaplötuna mína. Já. Gæti það verið að það markverðesta við þessa New York ferð var það að ég eignaðist mína fyrstu Bítlaplötu? Keypti hana sjálf. Fyrir eigin pening. Eigin dollara seðla. Tvo. Engin rispa. Bara je je je. She loves me. Je je je.

Þetta var sérstaklega róleg New York dvöl. Við elduðum íslenskt lambalæri. Upp á nineties mátann. Þá sker maður hæfilega djúpar rákir í lærið og stingur hvítlauksgeirum, rósmarín og öðrum kryddjurtum sem maður á í. Ekki inn að beini (70´s) og maður lætur það ekki grillast ofaná kartöflum eða lauk (nútíminn) (skilst mér) (veit náttúrulega ekki mikið um hann) (lambalærislega séð).

Við fórum líka að klifra. Það var ágætt. Við fórum að rífast. Eða ég, fór eitthvað að rífast í Óla. Síðan lagaðist það í sánunni. Við Sigurdís lærðum það úr þunnu lofti að vera í sauna. Vorum í heilan klukkutíma, eða hálftíma, í sánunni. Þangað til við misstum nær meðvitund. Það var upplifun. Mig var búið að dreyma um að fara í sánu aftur eftir það. Trixið er að vera lengi. Svaka lengi. Hafa með vatn og svitna fullt. Fá allt kvikasilfrið og öll eiturefnin úr manni. Ahh, hlakka til að fara í sauna í Chicago. En núna er maðurinn minn kominn. Verð að hætta.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?