6.12.08

Sönnun

Komin. Fyrir því að nágrannar mínir, þeir er ég ekki sé, eru álfar. Íslenskir hnupplgjarnir álfar. Úúps, ætli þeir lesi blogg. Ég semsagt var að koma heim úr ferðalagi. Hvað á maður að gera við lyklana þegar maður er á ferðalagi? Það er svo skrýtið að þurfa ekki á lyklunum að halda. Þeir eru líflínan manns að öllu jöfnu. Tala nú ekki um þegar það er 12 stiga frost. Síðan fer maður í ferðalag og þá er þetta glingur bara áhyggjuvaldandi málmbitar. Maður má ekki týna þeim. Sama hvað.

Svo ég reyni að setja þá á góðan stað. Við fyrsta tækifæri. Það er eitthvað sem ég er að einbeita mér að þessa dagana, að vera með hluti á hreinu: ekki týna dótinu mínu og ekki gleyma hlutum. Það er bara ekki þess virði að týna lyklum í Oregon og þurfa að vandræðast með að brjóstast inn til sín. Núna er ég orðin þrítug. Svona lagað gengur ekki lengur.

Þegar ég kem heim ferðalaginu stend ég fyrir utan útidyrahurðina mína og opna töskuna. Renni frá hólfinu að litla vasanum og bý mig undir það að finna lyklana mína. Nema hvað, lyklar á lyklum ofan. Tvær lyklakippur í hólfinu. Lyklakippan mín og lyklakippan sem týndist í Oregon. Eða, eins og núna kemur í ljós, lyklakippan sem álfarnir fengu að láni. Til að komast inn til sín. Eða hvað, ég skil þetta ekki. Passa hús og vinnulyklar að hólum? Og þá, spyr ég, hvaða hólum? Hvar búa þeir? Það eru engir hólar í Chicago.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?