28.1.09

Inspírasjón

Væri gott að fá. Ég er að bíða eftir því að sósan sjóði og þá er gott að skrifa blogg. Betra samt hefði maður um eitthvað að skrifa. Eitthvað merkilegt. Procol Harum er undir nálinni því faðir minn hafði mikið dálæti af þeirri hljómsveit og í dag er afmælisdagur hans. Ég er að læra að meta þessa hljómsveit. Hægt og sígandi. Í matinn er graskersbúðingur, sformata di zucca. Soðið spínat með hvítvínssósu með. Þannig að ég varð að opna hvítvínsflösku. Mér finnst það sama um hvítvín og mér finnst um kakó. Hvers vegna að drekka hvítvín/kakó þegar heimurinn hefur upp á rauðvín/kaffi að bjóða?

27.1.09

Stressaðar agnir


Nei, það eru ekki bara stjórnmálamenn og flugumferðastjórar sem þjást af stressi. Þessir sætu svifþörungar verða svaka stressaðir þegar næringaefnin eru af skornum skammti.

Ég fann alveg ljómandi góða grein um hversu límanlegir þessir gæjar eru, sem er eitthvað sem ég er að spá í þessa dagana, og á forsíðunni var þessi mynd. Mér til mikillar undrunar. Svo ég ákvað að hengja hana hérna upp, og ætli það sé þá ekki best að taka fram að hún er teiknuð af Nivi Alroy.

En það er með agnir eins og mennina að þegar lífið tekur beygju suður á bóginn, þá reyna þær að halda hópinn, búa til slím, snúa bökum saman og sameinast í hallærinu.

26.1.09

Til hamingju Ísland!

Vel af sér vikið.

Það góða við að eiga sína eigin bloggsíðu er að maður getur tjáð sig um hvað sem er, hvenær sem maður vill. Núna langar mig til dæmis að tjá mig um fréttavefinn visir.is. Það þykir mér sómafréttavefur og standa sig mun betur en mbl.is.

Í fyrsta lagi finnst mér gott hvað þeir eru með ítarlega umfjöllun. Jafnast náttúrulega ekki á við bestu fréttavefi heims, en því er kannski ekki hægt að búast við. Í öðru lagi er ég ánægð með uppsetninguna. Svipuðum fréttum er hópað saman og rusl-fréttir eru settar í sérstakan ramma. Í þriðja lagi finnst mér yfirskrift fréttanna yfirleitt lýsandi fyrir fréttina og til þess fallin að maður geti áttað sig á því um hvað fréttin snýst.

Á mbl.is er fréttum bara raðað inn í belg og biðu, íþróttafréttir, rugl-fréttir og alvöru fréttir eru bara sitt á hvað. Auk þess virðist sem fréttaritarar mbl.is taki starf sitt ekki alvarlega og setja bara hvaða haus sem er á fréttina, þannig að oft er engin leið að átta sig á um hvað hún snýst. Þetta er náttúrulega óásættanlegt fyrir vef-miðil þar sem fólk þarf að smella á hlekkinn og bíða eftir að síðan hlaðist niður til að geta skoðað fréttina.

Ekki nóg með að Morgunblaðið stendur fyrir lélegum fréttavef þá eru þeir hrokafullir og með engan metnað til að bæta sig. Ég fer alveg sárasjaldan inn á þessa síðu núorðið en fyrir nokkrum árum missti ég alveg þolinmæðina og skrifaði ritstjóranum bréf þar sem ég kvartaði yfir þessu. Hann sá sóma sinn í því að svara mér en það var ekki til að þakka fyrir ábendingar eða neitt í þeim dúr heldur til að rífast í mér um að vefurinn væri í raun góður og metnaðarfullur. Ha! Þá fannst mér ágætt að lesa ruv.is en núna er ég bara ljómandi hrifin af visi. Þeir eru að standa sig.

Og fyrst ég er on a roll þá skil ég ekkert í ummælum fráfarandi formanns stjórnar Fjármálaeftirlitsins um að í hans uppsögn "felist ekki áfellisdómur yfir störfum stjórnarinnar." Það er nákvæmlega það sem hún er. Honum var sagt upp vegna þess að hann stjórnaði stofnuninni illa. Ef hann hefði stjórnað henni vel, þá væri kannski ekki allt í volli. Ég er ekkert smá undrandi á því hversu hrokafullir karlmenn geta verið.

Síðan hugsa ég að Jóhanna verði örugglega góður forsetisráðherra en sérstaklega hugsa ég að Steingrímur verði líka góður ráðherra. Það er ekki seinna vænna en að hans sjónarmiðum verði hrint í framkvæmd. Ef einhver er þjóðernissinni, og það ættu nú allir Íslendingar að vera, þá er að styðja Steingrím. Og Katrrín, hún er von okkar. Hún er Obama Íslands. Hún mun gera fleiri góða hluti á fimm dögum en Sjálfstæðisflokkurinn nokkurn tíman. Um það er ég sannfærð.

En núna er kominn tími til að hita upp afrískan pottrétt.

Sjáðu jökulinn loga

er ein besta setning sem ég kann í dag. Er hún ekki falleg? Hún hljómar svo fallega og lýsir svo mikilli ást til föðurlandsins. Það er líka alveg magnað að sjá allt fólkið á Austurvelli. Fólk lætur ekki bjóða sér það að það og sín þjóð sé höfð að fífli.

En þessi póstur átti ekki að byrja með svona miklum drama. Þetta er nefnilega boðskort. Boðskort í gönguferð eitthvað um landið kæra. Enn á eftir að ákveða leiðina. Það sem er ljóst er að nesti verður borðað á miðri leið og að endað verður í sundi og heita. Málið er að við Óli erum að koma í smá heimsókn í mars og síðast eða þarsíðast þegar við komum í heimsókn skipulagði ég gönguferð í Hveradalinn fyrir lesendur mína ^.^ og var það alveg súper.

Því vona ég að allir sem vettlingi geta valdið taki frá sunnudaginn 1. mars og komi með í svona 2-3 tíma gönguferð uppí sveit.

25.1.09

Lurkum lamin

Við Óli létum loksins verða af því að fara í ísklifur, en það er nokkuð sem við höfum verið spennt fyrir að prófa í svolítinn tíma. Við lögðum af stað í bítið í gær í rútu upp til New Paltz með félaga okkar Toh og hittum þar leiðsögumanninn hann Jason. Hann er mikill fjallamaður og gat kennt okkur the basics eins og hvernig gengur maður niður íshellu með brodda undir fótunum og síðan hvernig ber maður sig að með öxi í sitthvorri hendi við að komast upp lóðréttan vegg hulinn ís og grýlukertum. Það kemur í ljós að ef grýlukertið er nógu svert, þá má höggva í það og hífa sig upp á öxinni sem stendur pikkföst í því. Gaman!

Við klifruðum fjórar brautir. Eftir fyrstu var ég svo "pumped out" að ég hef aldrei upplifað annað eins. Maður klifrar bara í róleguheitunum og það eina sem maður hugsar um er "hvar á ég að höggva næst?", "hvar á ég að stinga broddunum í?", "er einhver lítil dæld til að krækja öxinni í?", "heldur þetta?". Eingin önnur hugsun kemst fyrir. Ekki einu sinni "ætli ég sé að verða eitthvað þreytt?". Maður heldur bara áfram þangað til manni skrifar fótur eða öxin var ekki eins föst og maður hélt, hangir í reipinu og finnur að handleggirnir láta ekki af stjórn, aukabatteríin eru tóm.

Ég hugsaði ekki um vinnuna mína allan daginn. Líkanið, veðurfarsbreytingar, leiðbeinandinn, voru ekki til. Ég veit ekki hvort það sé að hlaupast frá raunveruleikanum eða hvort ég sé svo harðgift vinnunni minni að ég þarf eitthvað meiriháttar til að fá smá breik. Þetta var allavegana geðveikt. Ég hugsa að við séum að fara að selja skíðin og kaupa axir.

20.1.09

Til hamingju heimur

Ég get ekki farið að sofa án þess að skrifa eina línu á bloggið á þessum merka degi. Loksins er ég stolt af stjúplandinu mínu. Og það er allt einum manni að þakka. Einni konu, og kannski líka Axelrod.

Núna er ég bjartsýn. Heimurinn er í góðum höndum. Maðurinn við stýrið er heill. Og bandarískur almenningur kaus hann. Flykktist í sjálfboða vinnu og síðan á kjörstaði.

Sérstaklega fannst mér athyglisvert þegar hann minntist á efnahagsástandið og krísuna. Aldrei áður hefur fólk haft það jafn gott og við höfum það í dag. Við eigum nóg af mat, ferskmeti allt árið um kring, okkur er ekki kalt, við búum við farsælt lýðræði, við erum frjáls. Þetta eru ekki eðlilegir og sjálfsagðir hlutir. Þeir komu ekki óvart. Þetta eru forréttindi og afleiðing þrotlausrar vinnu og fórna forfeðra og mæðra okkar. Svo við getum vitað að ef við höfum þeirra gildi að leiðarljósi, gildi um vinnusemi og heiðarleika, kjark og drengileg vinnubrögð, umburðalyndi og forvitni, tryggð og þjóðernishyggju, þá munum við finna réttu brautina áfram. Veg farsældar. Engin þörf að hringja í vælubílinn.

19.1.09

Draumurinn rætist

Hvað þýðir það fyrir Bandaríkjamenn að Obama er forseti?

"The key thing is there are no more excuses for anybody. It means no matter who you are in this nation that you can rise to the top of whatever it is that you do and that you don't have to feel limited," [Dr. Ben Carson] said.

Mér finnst það við hæfi að taka línu úr Chicago Sun núna þegar ég er komin til Chicago.

Þessi tími í Bandaríkjunum er sögulegur. Það er ótrúlegt að upplifa þetta. Það er svo magnað þegar fólk brýst upp á topp með hugsjón og sannfæringu að leiðarljósi. Úr engu á toppinn. Þetta er ameríski draumurinn. Ameríski raunveruleikinn. Ekki lengur bara draumur.

Ég fyllist lotningar við tilhugsunina um það að svartir menn og konur voru flutt hingað nauðug í þrældóm. Komið var fram við þau eins og skepnur í aldanna rás en smám saman náðu þau að brjótast í gegnum hvern múrinn á fætur öðrum og núna í dag gegnir svartur maður æðstu stöðu farsælasta lýðveldi heims.

Fólk lætur bara ekki kúga sig. Við erum eins og sebrahestar, ekki mikið fyrir að láta temja okkur. Og lýðræði er vettvangur þar sem við blómstrum. Þar sem einstaklingar fá jöfn tækifæri. Það er það eina sem þarf. Þá er hægt að sigrast á hverju sem er. Kemur í ljós.

18.1.09

Frosið í leiðslunum

Já, það hlaut að koma að því. Eftir nær frostmarki hérna í íbúðinni undanfarna 3 daga frusu bara leiðslurnar og ekkert vatn. Ekkert. Kraninn hjá nágrönnunum dropar og það er eitt stórt grýlukerti útúr honum. Ha!

Sem betur fer búum við í siðmenningu svo núna er Óli að kaupa fyrir okkur kaffi því vatns getur maður verið án en ekki kaffi.

14.1.09

Hell Yes

Þetta housing works er svo mikil snilld. Ég sit hérna í kaffinu og deili borði með tvem stelpum og tvem körlum. Þeir eru með hreim eins og Jerry og George. Eða Woody Allen. Ræðandi málin um hvernig þeir geta aflað sér einhverra peninga. Einhvað cash. Hver þarf ekki cash?

Önnur stelpan er að taka viðtal við hina. Hún er málari og ólst upp í Brooklyn, the projects, blokk 255. Byrjaði að mála þegar hún var lítil, hengdi myndirnar upp á vegg í skólanum og utan, útá götu, hvar sem er.

Það er allt fullt hérna. Allir vilja vera í housing. Í hljýjunni. Enda er arctic chill. Loft gusa úr norðri. Alveg svaka kalt. Hrikalega kalt.

11.1.09

Yndisleg helgi

Já, við Óli höfðum það sko notalegt þessa helgi. Byrjuðum helgina með stefnumóti á kaffihúsinu hans Óla, Financier. Þetta er patisserie sem er svo mikið alvöru að maður týnist í tíma og rúmi við að koma þangað inn. Kökugerðamaðurinn fann köllun sína um 14 ára aldur og byrjaði þá að læra hjá kökugerðamanninum J.P. Weiss. Og kaffið og kökurnar. Ólýsanlegar. Eða reyndar: franskar. Síðan fórum við á Il Corallo, en sá staður er í miklu uppáhaldi hjá mér. Að borða þar er eins og að borða hjá ömmu sinni og afa. Manni líður bara vel og maturinn er góður.

Á laugardaginn hitti ég síðan Völu mína eftir allt of mörg ár. Hún er hér í námskeiðiserindum og kom í mat til okkar sem endaði á heitasta barnum í soho. Ha! Það er eins og einhver æðri völd vilji að við Óli lærum inná svona partýstand. Við finnum okkur hérna á pínulítilli eyju sem stanslaust partý er á, allan sólarhringinn, allt árið. Varla þverstígandi fyrir gleðskap.

Í dag buðu Toshi og Yumiko nágrannar okkar okkur í te. Þau komu um daginn færandi hendi með bolla. Yumoko er nefnilega leirlistakona og gerir hún sérstaklega fallega muni. Og sögðu að við ættum endilega að koma í te sem úr varð að við gerðum í dag. Þau eru svo yndæl að orð fá því ekki lýst. Og íbúðin þeirra er heillandi. Það eru munir eftir Yumiko bókstaflega um allt. Toshi er líka listamaður. Hann málar myndirnar á bollana og vasana sem eru með myndum. Hann skrifar og spilar á hljóðfæri. Meðal annars fyrir Dali Lama núna um daginn. Ég heyri hann æfa sig af og til. Hann spilar á einskonar gítar sem er frá Tíbet.

Þannig að ég er bara í sæluvímu yfir þessari yndislegu helgi.

Tinna drukkin


Já, það þarf ekki mikið. Til að ég fari yfir strikið. Ekki meira en að fá Íslending í heimsókn. Jæja, hérna er mynd af pilötuspilarun að spila Willie Nelson.

6.1.09

Feimnismál

Halló. Ég rakst alveg óvænt á bloggið hennar Sigrúnar Davíðsdóttur. Ég var að leita að einhverju sem gæti hjálpað mér að skilja hvort það sé góð íslenska að segja "jafnið ostinum á brauðið" eða "jafnið sveppunum yfir". Þetta er það sem þeir segja í íslensku útgáfunni af silfurskeiðinni. En hana fékk ég, ok við, frá tengdaforeldrum mínum í jólagjöf og jafn góðar og uppskriftirnar eru, þá er hún full af allskonar villum. Ég er búin að elda kannski 6 - 7 uppskriftir og búin að finna villur í þremur. Þeas ef maður getur varla jafnað ostsneiðunum á brauðið. Ég verð að segja að ég kannast ekki við þessa orðanotkun.

En ég ætlaði reyndar að segja eitthvað áhugavert um bloggið hennar Sigrúnar. Því mér þótti það feiknarskemmtilegt. Hún skrifar svo skemmtilega. Núna seinast bókina Feimnismál. Sem ég hef ekki lesið. Og er það mér hulin ráðgáta hvers vegna ekki því af blogginu hennar að dæma er þetta akkúrat bók fyrir mig. Ég held ég myndi kunna að meta hana.

Feimnismál er munúðarfull skáldsaga um einfalda gleðigjafa eins og mat, um kynslóðabilið eins og lesandinn hefur ekki kynnst því áður – um óvæntar kenndir, ómótstæðilegt aðdráttarafl og þær hindranir sem hugurinn býr til.

Ég hugsa að ég sé allavegana í réttri demógrafíu. Reyndar dettur mér í hug að ég hafi ekki sýnt þessari bók áður áhuga hafi ég rekist á hana, því ég kunni ekki nógu vel að meta bækur sem hún skrifaði fyrir unglinga. Við urðarbrunn minnir mig að ein þeirra heiti. Það má þó rekja til þess að bækur fyrir unglinga eru að öllu jöfnu ómögulegar, og vita það allir sem hafa verið svo óheppnir að hafa þær otaðar að sér.

Máltæki eða orðasamband sem ég veit að er til og ég hef svolítið dálæti á er Fátt er svo með öllu illt að ekki boði eitthvað gott. En það á einmitt við um hitastigið í íbúðinni okkar sem ég kann að hafa minnst á að er með lægra móti. Það góða er að það er akkúrat rétt hitastig fyrir vín og þar sem við erum ekki með vínskápinn okkar hér þá virkar íbúðin ljómandi vel.

Í Housing Works var hitastigið akkúrat rétt og ég skrifaði undirkafla í ritgerðinni minni. Hann heitir Fractal Properties of Marine Particles. Það var gaman. Mér finnst ekkert leiðinlegt að skrifa. Þegar þannig liggur á manni, sem er því miður alls ekki alveg nógu oft.

Vá hvað þetta er geðveikt

Þetta Housing Works. Indælis ljómandi ljómi. Íbúðin okkar er náttúrulega eins og frystikista. Frystikista með litlum barbí varðeldi. Því ákvað ég að vinna að heiman í dag og Housing Works varð fyrir valinu. Hér er svaka hlýtt. Ég var líka svo snemma í því að ég fékk besta sætið við ofninn. Hér er líka fallegt. Stórar bókahillur með stigum og svalir fyrir þá sem vilja sita og skoða bækur uppi. Síðan eru jólaljós, ljúf tónlist, indælis fólk að vinna kauplaust, alveg ágæt kaffitería, ró og næði. I´m loving it.

5.1.09

Hversdagsjarm

Er það sem þessi bloggfærsla er. Það eru allskonar smáatriði hérna í New York, nánar tiltekið á horninu á Lafayette og Spring sem mættu betur fara. Til dæmis er svaka kalt. Sem betur fer er ég svo heppin að vera íslensk og á því allskonar lopapeysur og ullarsokka. Hér er líka gas-ofn sem hjálpar. Hitt vandamálið eru óþreyjfullir ökumenn sem flauta daginn út og inn, sérstaklega á kvöldin, þó það sé bannað. Það er $350 sekt sem maður má eiga von á að fá, flauti maður á þessum gatnamótum. Málið er að það er enginn lögga sem stendur í viðbragðsstöðu, tilbúin að sekta þann sem flautar. En. Ég er með lausn á þessu vandamáli. Teóretíska, sennilega ekki praktíska.

Lausnin felst í því að gangandi vegfarendur mega sekta ökumenn. Fyrstur kemur, fyrstur fær. Þá gætu heimilislausir eða aðrið atvinnulausir einstaklingar tekið það að sér að standa á götuhornunum og innheimt $350 frá þeim sem flauta. Þetta er ekki mikið mál þar sem heimilislausir standa nú þegar á götuhornum og betla. Snilldin við þessa lausn er að hún slær tvær flugur í einu höggi. Hávaðamengun og hýbíli heimilislausra.

Já já, annars er ekki mikið að frétta. Við fórum í klifurhúsið í gær og ég klifraði eina svaka erfiða braut. Það var geðveikt. Strákarnir Óli og Guil voru alveg steinhissa. Síðan fengum við okkur pizzu sneiðar á Two Boots, Óli fékk sér Sicillian og ég fékk mér fröken Cleopatra Jones. Saman fengum við okkur eina Tony Clifton. Hún var best. Eftir pizzu fórum við í bíó á Slumdog millionaire sem var alveg æðisleg. Ekki missa af dansatriðinu í lokin. Vá hvað ég væri til í að búa á Indlandi og vera indversk. Það held ég að sé ekki síðra en að vera íslensk. Ef maður fæðist allavegana inní miðstétt. Góður matur, góð tónlist, alltaf dans, hlýtt og notalegt. Ekki það að ég sé eitthvað að kvarta yfir að vera Íslendingur. Það er svosem ágætt.

2.1.09

Gleðilegt ár allir saman

tra la la la... Árið 2009. Já. Það er komið. Velkomið.

Það er alveg ágæt tilhugsun að fá nýtt ár. Þá getur maður sett síðasta ár á botninn á ferðatöskunni. Það ár er búið. Búið og gert. Ekki hægt að gera meira í því. Því ástæðulaust að velta sér uppúr mistökunum og hrösununum sem fylgdu því ári. Þetta ár ætla ég að gera hlutina betur. Vera með hugan við það sem ég er að gera. Ekkert slór eða hálfkák. Einmitt. Alvarlegheit. Jamm. Nýtt ár, nýtt líf. Betra líf.

Frá New York er ekkert mikið að frétta. Hér er frekar kalt. Úti sem inni. Ég hugsa að það hlýni, eftir því sem líður á árið.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?