26.1.09

Til hamingju Ísland!

Vel af sér vikið.

Það góða við að eiga sína eigin bloggsíðu er að maður getur tjáð sig um hvað sem er, hvenær sem maður vill. Núna langar mig til dæmis að tjá mig um fréttavefinn visir.is. Það þykir mér sómafréttavefur og standa sig mun betur en mbl.is.

Í fyrsta lagi finnst mér gott hvað þeir eru með ítarlega umfjöllun. Jafnast náttúrulega ekki á við bestu fréttavefi heims, en því er kannski ekki hægt að búast við. Í öðru lagi er ég ánægð með uppsetninguna. Svipuðum fréttum er hópað saman og rusl-fréttir eru settar í sérstakan ramma. Í þriðja lagi finnst mér yfirskrift fréttanna yfirleitt lýsandi fyrir fréttina og til þess fallin að maður geti áttað sig á því um hvað fréttin snýst.

Á mbl.is er fréttum bara raðað inn í belg og biðu, íþróttafréttir, rugl-fréttir og alvöru fréttir eru bara sitt á hvað. Auk þess virðist sem fréttaritarar mbl.is taki starf sitt ekki alvarlega og setja bara hvaða haus sem er á fréttina, þannig að oft er engin leið að átta sig á um hvað hún snýst. Þetta er náttúrulega óásættanlegt fyrir vef-miðil þar sem fólk þarf að smella á hlekkinn og bíða eftir að síðan hlaðist niður til að geta skoðað fréttina.

Ekki nóg með að Morgunblaðið stendur fyrir lélegum fréttavef þá eru þeir hrokafullir og með engan metnað til að bæta sig. Ég fer alveg sárasjaldan inn á þessa síðu núorðið en fyrir nokkrum árum missti ég alveg þolinmæðina og skrifaði ritstjóranum bréf þar sem ég kvartaði yfir þessu. Hann sá sóma sinn í því að svara mér en það var ekki til að þakka fyrir ábendingar eða neitt í þeim dúr heldur til að rífast í mér um að vefurinn væri í raun góður og metnaðarfullur. Ha! Þá fannst mér ágætt að lesa ruv.is en núna er ég bara ljómandi hrifin af visi. Þeir eru að standa sig.

Og fyrst ég er on a roll þá skil ég ekkert í ummælum fráfarandi formanns stjórnar Fjármálaeftirlitsins um að í hans uppsögn "felist ekki áfellisdómur yfir störfum stjórnarinnar." Það er nákvæmlega það sem hún er. Honum var sagt upp vegna þess að hann stjórnaði stofnuninni illa. Ef hann hefði stjórnað henni vel, þá væri kannski ekki allt í volli. Ég er ekkert smá undrandi á því hversu hrokafullir karlmenn geta verið.

Síðan hugsa ég að Jóhanna verði örugglega góður forsetisráðherra en sérstaklega hugsa ég að Steingrímur verði líka góður ráðherra. Það er ekki seinna vænna en að hans sjónarmiðum verði hrint í framkvæmd. Ef einhver er þjóðernissinni, og það ættu nú allir Íslendingar að vera, þá er að styðja Steingrím. Og Katrrín, hún er von okkar. Hún er Obama Íslands. Hún mun gera fleiri góða hluti á fimm dögum en Sjálfstæðisflokkurinn nokkurn tíman. Um það er ég sannfærð.

En núna er kominn tími til að hita upp afrískan pottrétt.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?