6.1.09

Feimnismál

Halló. Ég rakst alveg óvænt á bloggið hennar Sigrúnar Davíðsdóttur. Ég var að leita að einhverju sem gæti hjálpað mér að skilja hvort það sé góð íslenska að segja "jafnið ostinum á brauðið" eða "jafnið sveppunum yfir". Þetta er það sem þeir segja í íslensku útgáfunni af silfurskeiðinni. En hana fékk ég, ok við, frá tengdaforeldrum mínum í jólagjöf og jafn góðar og uppskriftirnar eru, þá er hún full af allskonar villum. Ég er búin að elda kannski 6 - 7 uppskriftir og búin að finna villur í þremur. Þeas ef maður getur varla jafnað ostsneiðunum á brauðið. Ég verð að segja að ég kannast ekki við þessa orðanotkun.

En ég ætlaði reyndar að segja eitthvað áhugavert um bloggið hennar Sigrúnar. Því mér þótti það feiknarskemmtilegt. Hún skrifar svo skemmtilega. Núna seinast bókina Feimnismál. Sem ég hef ekki lesið. Og er það mér hulin ráðgáta hvers vegna ekki því af blogginu hennar að dæma er þetta akkúrat bók fyrir mig. Ég held ég myndi kunna að meta hana.

Feimnismál er munúðarfull skáldsaga um einfalda gleðigjafa eins og mat, um kynslóðabilið eins og lesandinn hefur ekki kynnst því áður – um óvæntar kenndir, ómótstæðilegt aðdráttarafl og þær hindranir sem hugurinn býr til.

Ég hugsa að ég sé allavegana í réttri demógrafíu. Reyndar dettur mér í hug að ég hafi ekki sýnt þessari bók áður áhuga hafi ég rekist á hana, því ég kunni ekki nógu vel að meta bækur sem hún skrifaði fyrir unglinga. Við urðarbrunn minnir mig að ein þeirra heiti. Það má þó rekja til þess að bækur fyrir unglinga eru að öllu jöfnu ómögulegar, og vita það allir sem hafa verið svo óheppnir að hafa þær otaðar að sér.

Máltæki eða orðasamband sem ég veit að er til og ég hef svolítið dálæti á er Fátt er svo með öllu illt að ekki boði eitthvað gott. En það á einmitt við um hitastigið í íbúðinni okkar sem ég kann að hafa minnst á að er með lægra móti. Það góða er að það er akkúrat rétt hitastig fyrir vín og þar sem við erum ekki með vínskápinn okkar hér þá virkar íbúðin ljómandi vel.

Í Housing Works var hitastigið akkúrat rétt og ég skrifaði undirkafla í ritgerðinni minni. Hann heitir Fractal Properties of Marine Particles. Það var gaman. Mér finnst ekkert leiðinlegt að skrifa. Þegar þannig liggur á manni, sem er því miður alls ekki alveg nógu oft.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?