11.1.09

Yndisleg helgi

Já, við Óli höfðum það sko notalegt þessa helgi. Byrjuðum helgina með stefnumóti á kaffihúsinu hans Óla, Financier. Þetta er patisserie sem er svo mikið alvöru að maður týnist í tíma og rúmi við að koma þangað inn. Kökugerðamaðurinn fann köllun sína um 14 ára aldur og byrjaði þá að læra hjá kökugerðamanninum J.P. Weiss. Og kaffið og kökurnar. Ólýsanlegar. Eða reyndar: franskar. Síðan fórum við á Il Corallo, en sá staður er í miklu uppáhaldi hjá mér. Að borða þar er eins og að borða hjá ömmu sinni og afa. Manni líður bara vel og maturinn er góður.

Á laugardaginn hitti ég síðan Völu mína eftir allt of mörg ár. Hún er hér í námskeiðiserindum og kom í mat til okkar sem endaði á heitasta barnum í soho. Ha! Það er eins og einhver æðri völd vilji að við Óli lærum inná svona partýstand. Við finnum okkur hérna á pínulítilli eyju sem stanslaust partý er á, allan sólarhringinn, allt árið. Varla þverstígandi fyrir gleðskap.

Í dag buðu Toshi og Yumiko nágrannar okkar okkur í te. Þau komu um daginn færandi hendi með bolla. Yumoko er nefnilega leirlistakona og gerir hún sérstaklega fallega muni. Og sögðu að við ættum endilega að koma í te sem úr varð að við gerðum í dag. Þau eru svo yndæl að orð fá því ekki lýst. Og íbúðin þeirra er heillandi. Það eru munir eftir Yumiko bókstaflega um allt. Toshi er líka listamaður. Hann málar myndirnar á bollana og vasana sem eru með myndum. Hann skrifar og spilar á hljóðfæri. Meðal annars fyrir Dali Lama núna um daginn. Ég heyri hann æfa sig af og til. Hann spilar á einskonar gítar sem er frá Tíbet.

Þannig að ég er bara í sæluvímu yfir þessari yndislegu helgi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?