30.12.09

Beyonce

I am... yours.

Tónleikar í Vegas með poppdrottningunni Beyonce. Þann hreyfimyndadisk gaf ég manninum mínum í jólagjöf. Og hann er geðveikt góður. Þetta var nú bara smá grín, ég hafði fengið diskinn í kaupbæti. En öllu gríni fylgir einhver alvara og þessi diskur er alvöru. Hún Beyonce er algjör stjarna. Hún syngur og dansar eins atvinnumanneskja. Dansar og hoppar á pinnahælum og syngur í leiðinni. Tónsvið hennar er engu líkt. Síðan er hún búin að safna heilum her af hæfileikaríkum konum í kring um sig. Alveg stórkostlegt show.

28.12.09

Housing works


Blogg blogg blogg ur nyja simanum. Engir islenskir stafir enn sem komid er. En, mynd!

27.12.09

Yfirlýsing

Jafn áreiðanlega og ég sit hérna í eldhúsinu á sunnudagskvöldi þriðja í jólum í nýju peysunni handprjónaða af móður minni að borða úkraínska gulrótarköku, á ég nú síma. Alvöru símtæki sem hægt er að hringja í og úr, senda tölvupóst í og úr, taka myndir og skrásetja líkamsræktarmarkmið. Símanúmerið er 1 312 543 5209. Ég hlakka til að tala við ykkur í símann!

26.12.09

Randalín

Því miður fengum við ekkert randalín þessi jólin. Það sem ég bakaði varð allt of hart og síðan gafst ekki tími til að baka annað. En það er allt í lagi, það koma jól eftir þessi og núna er ég með uppskriftina hennar ömmu Rúnu tilbúna. Ég fékk nefnilega svo yndislega bók frá ömmu Bíbí og afa: Treasured and Delicious Icelandic Recipes. Og aftast eru tvær línustrikaðar síður þar sem maður getur skrifað eitthvað sjálfur. Og núna er Randalín þar. Phew.

Í kvöld er ég búin að bjóða nokkrum vinum okkar í mat og þá verður lambalæri. Leg of lamb úr nýju bókinni. Svaka spennandi. Graflax og andapate (ef ég get gert það úr afgöngunum) í forrétt, lambalæri, kartöflugratín og rauðkál í aðal, stollen og lebkuchen í eftir. Jei.

23.12.09

Jólasveinar einn og átta

Strákur sem ég hitti líkti bankahruninu við fall Berlínarmúrsins og hryðjuverkaárásanna í New York. Ég hafði einhvernveginn ekki hugsað um það sem svona svakalegan atburð. Kannski vegna þess að ég nenni ekki að lesa fréttir frá landinu mínu og í þau fáu skipti sem ég tala við mömmu í síma þá forðumst við umræðuefnið eins og heitan eldinn. En núna þegar ég hlusta á "það koma vonandi jól" og heyri Vigdísi tala þá hellast yfir mig allar þessar tilfinningar sem Íslendingar eru búnir að vera að díla við í heilt ár. Svaka áfall.

Ég bakaði randalínið allt of lengi svo það breyttist í piparkökur. Jólagjöfin hans Óla var send til Chicago og allt er ómögulegt. Fjölskylda í hafnafirði heldur jólin í myrkri. Ísland er hijacked.

En þetta er svolítið skemmtileg samantekt á árinu, ef einhver er tilbúinn í það.

22.12.09

Jólaundirbúningur í fullum sving

Já, hér í borg gleði og glaums er jólaundirbúningur á hæsta styrk. Lebkuchen eru bakaðar og með glassúr á. 31 jólakort er skrifað, sett í umslag, umslagið stílað á viðtakandann, frímerki límt á og svo mætti lengi telja. Jólakortaskrif er ekki eitthvað sem gert er á einu kvöldi, það er víst. Þrátt fyrir mikla vinnu myndu þetta vera hallærisjólakort. Hallæri í bókstaflegri merkingu, ekki þeirri nýaldar sem unglingar nota gjarnan. Reynt var að notast við efni og hugmyndir innan heimilisins og sem minnst sótt í verslanir.

Við Óli náðum að kaupa skrifborð í gær þrátt fyrir algjör communication breakdown. Leitandi er að jafn ítarlegu communication breakdown-i. Ég á ekki farsíma. Og er það líklega kjarni breakdownsins. Við ákváðum að hittast á "staðnum okkar" á Union Square. Þar sem ég á ekki farsíma verðum við að eiga staði hér og þar um bæinn. Nema hvað þá stend ég á horninu í 20 mínútur og ekki kemur Óli. Svo ég fer og banka upp á hjá stelpunni 15 mín of sein (sem mér finnst ómögulegt) og fæ að hringja í Óla hjá henni. Sé skrifborðið. Svaka fínt. Enginn ans. Sendi honum tölvupóst. Ekkert svar. Hringi aftur án árangurs. Kveð stúlkuna með vonir um að sjást aftur eftir smá stund. Fer á Union Square að leita að Óla. Enginn Óli.

Meðan ég er á þessum hlaupum er Óli á Union Square að bíða eftir mér. Síðan fær hann tölvupóst frá mér og fer til stelpunnar. Sér borðið. Svaka fínt. Sendir mér tölvupóst. Þá er ég farin. Til að gera langa sögu stutta þá héldum við bæði að hitt væri með eina símann sem við eigum og vorum bæði að hringja í hann en hann lá í hleðslu á gólfinu heima hjá okkur. En Óli er svo úrræðagóður að hann keypti borðið, fékk kökusneið hjá stelpunni, fann mann til að keyra sig með borðið og eigum við því núna borð frá West Elm. West Elm er tískuhúsgagnamerki og eitt hornið í svefniherberginu lítur nú út eins og bæklingur frá Crate and Barrel sem er annað húsgagnatískumerki. Tölvan er ekki lengur annað hvort ofaná eða undir eldhúsborðinu og það er meira að segja komið hljómkerfi í eldhúsið.

Skemmtilegu fréttirnar eru þær að við erum að fara að skíða í Hunter Mountain á jóladag. Höfum ekki stigið á skíði í fjögur ár. Heil fjögur ár. Jei. Vonandi handleggsbrýt ég mig ekki. Planið er að taka rútu klukkan hálf sjö. So much fyrir rólegheitsjól.

20.12.09

New York Jólafrí

Vá hvað ég var fegin að komast í jólafrí. Frí frá Chicago. Frí frá skrifstofunni. Frí frá leiðbeinandanum. Hér í New York eru jólin nú þegar byrjuð. Snjónum kyngdi niður í gær. Heilt fet eða þar um bil. Við Óli erum búin að hafa það svaka gott. Höfum heimsótt nokkra uppáhalds veitingastaðina mína, farið að klifra og út að borða á fínasta sushi barnum í bænum með félaga okkar Toh sem er þar fasta gestur. Omakase. Fyrsta skipti fyrir mig. Geveikt, alveg snar, ólýsanlegt. Fengum meðal annars skötuselslifur og ígulker frá báðum ströndum Bandaríkjanna og frá Japan. Sushi meistarinn var búinn að gefa okkur það sem hann ímyndaði sér að væri passlegt og þjónninn spurði okkur hvort við værum orðin södd. Við vorum það en þá segir Toh að ég sé svo hrifin af ígulkeri og það er ég. Ígulker er að mínu mati afródíta hafsins, eins ómótstæðilegt og lífið sjálft. Við fengum þrjá ígulkersfiska og það var svakalegt.

Við vorum búin að vera í Brooklyn boulders allan daginn að klifra. Óli levelleraði upp í V3. Núna klifrar hann V3 bara í bunum en ég er í vandræðum með V2. Ég er samt betri í að klifra (Þetta V3 er skalinn fyrir grjótglímu og til þess að geta eitthvað í henni þarf bara vöðva. Klifur er meira alvöru.) Þegar ég var orðin of þreytt í framhandleggjunum æfði ég mig í línudans. Fyrst gat ég varla tekið neitt skref en í lokin tók ég 6 - 7 skref. Svaka flott! Síðan kom par sem dansaði í alvöru á línunni. Dönsuðu bara fram og aftur, upp og niður, eins og það væri það eðlilegasta í heimi að dansa á línu. Þau tóku tilhlaup og stukku upp á línuna eins og teiknimyndafígúrur. Jæja!

Í kvöld eldaði ég loksins. Gnocchi og soðsteikt fennel með gulrótum og rauðvínssósu. Og Óli bauð upp á rauðvín. Heimurinn er aftur kominn á réttan kjöl.

18.12.09

Lord Mockton komin á stjá

Ég setti inn graf eftir kauða í sumar: sjá hér. Mér fannst það svo kostulegt. Núna er hann, auðvitað, í Kaupmannahöfn með blammeringar og leiðindi og ég bíð eftir því að Egill Helgason bjóði honum í þáttinn sinn sem sérfræðing um allt er varðar veðurfar. Maðurinn er reyndar sérfræðingur á því hvernig á að díla við alnæmi, en það er önnur saga. Hana má lesa á wikipedia.


14.12.09

rússibani research

Lífið mitt er eins og rússibanabuna. Í viku er ég búin að vera að vinna í þessari grein sem við erum að skrifa með stjarneðlisfræðingnum. Runnum rólega af stað, nokkrar léttar hossur í byrjun og síðan skríður hann upp svaka bretti og vvrrrrrúúúúmmm brunar niður með tilheyrandi magaverk. Það var gærdagurinn. Kom í ljós að aðferðin sem ég bjó til og er búin að vera að vinna í vinna í tvö ár. Hún virkar ekki. Bara gefur ekki nákvæmlega sömu niðurstöður og hún á að gera. Svipaðar, en ekki sömu. Guð minn góður. Jæja. Þá kemur dagurinn í dag. Rússibaninn heldur áfram, með allan þennan skriðþunga þá bara húrrast hann upp á ný. Aðferðin er ekki ómöguleg, samanburðurinn var með smá hugsunavillu. Aðferðin virkar vel. Stórvel. Vona að þessi braut sé á enda. Í bili.

12.12.09

Gleðilega aðventu

Jólin koma, jólin koma. Allir fara að hlakka til. Ég hlakka til. Ég hlakka til að fara til New York. Mér finnst ég vera að kafna hérna í Chicago. Kafna í doktorsritgerð.

Við Sara fórum á bændamarkaðinn í morgun. Ég keypti þýska súkkulaðiköku, epli og jerúsalemsk þistilhjörtu. Það er eitthvað sem svipar til kartafla. Þurfa minni suðu og eru aðeins næringaríkari. Í gærkvöldi borðaði ég með Söru. Ég er orðinn kostgangari hjá henni. Leik við barnið meðan hún eldar. Síðan borðum við saman. Það er notalegt. Okkur finnst báðum leiðinlegt að borða án félagsskaps annars fullorðins einstaklings.

Hér er aðeins farið að hlýna, bara rétt neðan við frostmark í dag. Þvílíkur munur. Ég þarf ekki að fá mér matskeið af ólívuolíu þegar það er bara um frostmark.

11.12.09

tími og rúm

Time stays, we go. Mér finnst vikan líða á svona tíu mínútum. Það er alltaf föstudagur. Vikan er alltaf búin. Og hvað gerðist. Í þessari viku byrjaði ég á grein. Er um það bil komin með eitt graf. Vantar kannski svona tvö í viðbót.

Annað sem gerðist. Ég vann eins og geðsjúklingur alla dagana allan daginn nema miðvikudagskvöldið þegar ég fór í mat til Söru. Og á laugardaginn þegar ég fór á jólamarkaðinn og pakkaði síðan inn jólagjöfum. Síðan var ég í herliðinu í tvo tíma. Við höfum aðeins fengið 30 fyrirspurnir á þessum fyrstu fimm dögum Kaupmannahafnarráðstefnunnar. Þannig að 650 vísindamenn í viðbragðsstöðu var smá overkill. Gaman samt.

Á morgun er jólaboð hjá Kára og Bridget. Êg er búin að útvega mér far með nýbúunum. Síðan er málið að klára greinina og fara í jólafrí til New York.

Fyndið hvernig lífið færir manni borgir. Fyrsta borgin sem ég man eftir að hafa fengið var Singapúr. Allt í einu var ég þar, bjó þar, gekk í skóla þar, gekk niður strætin þar, orkídeustrætin. Síðan Dubai. Sandur allstaðar og heitt heitt heitt. Í smá stund fékk ég að njóta þess að kynnast Reykjavík, myrkrinu og ljósunum, ömmunum og öfunum, sögunni minni. Og síðan er ég í Chicago. Öll mín fullorðins ár eru í Chicago. Þekki þessa borg eins og lófann á mér. Núna er New York búin að smeygja sér inn í lífið mitt. Mitt annað heimili. Hver stjórnar þessu. Mér líður eins og strengjabrúðu og leikstjórinn lifir í ævintýraheimi. Hann þeytir hnettinum, lokar augunum og stingur niður títiprjón. Hérna setjum við Tinnu. He he he.

8.12.09

Vaktin búin

fékk ekki eina einustu fyrirspurn. En núna veit ég hvernig hermönnum líður þegar þeir liggja í skurði og bíða eftir loftárás. Kannski ekki. Þetta er ekki jafn akút upp á líf og dauða. Þó það sé það, bara á mismunandi tímaskala.

Helst í fréttum er kannski það að ég notaði nálgun Stirlings í dag. Það var gaman. Ég gat einfaldað dæmi sem var að springa og fengið góða niðurstöðu. Síðan fékk ég íslenska stafi í nýju linux tölvuna. Gaman að vera með linux. Annars er bara létt þunglyndisský yfir öllu hérna. Það er kalt og snjór. Kalt í Chicago þýðir líka þurrt. Svo þurrt að maður er eins og sandpappír og verður að passa að fá ekki neinar edik-sósur á hendurnar því það svíður svaka mikið.

5.12.09

Piparkökuhús

Það er engin venjuleg lognmollu matargerð að elda hús. Hús með sykurpúðum og lakkríspípum meðfram öllum listum og hornum, drjúpandi sykurkurli niðrúr þakskegginu, barnætu norn sem íbúa. Árið í ár var engin undantekning. Húsgerðin byrjaði á því að ég hringdi alveg hoppandi í höfuðstöðvar Treasure Island og skammaði grey símadömuna eins og ég væri mamma hennar. Hvernig þeim dytti í hug að kalla sig evrópskasta súpermarkað Bandaríkjanna og vera ekki með piparkökuhús til sölu. Enginn selfrespecting evrópskur súpermarkaður myndi láta sjá sig án piparkökuhúss á þessum tíma árs. Ég er orðin að þessari norn sem grætti mig forðum daga. Kom í ljós að piparkökuhús var til í Treasure Island og fleiri en ein tegund. Customer service var í ruglinu. Svo ég hjólaði í einum spreng, fann hús og customer service konuna og skammaði hana fyrir að vera í ruglinu.

Brunaði heim og hrærði saman frostingið, raðaði burðarbitum og milliveggjum eins og vera ber. Frosting ofaní sprautupoka og sprautað í öll samskeyti. Smá stress í gangi þar sem ég var með fyrirlestur klukkutíma seinna. Húsinu gat ég haldið saman rétt svo en þakið vildi renna niður. Það vildi eiginlega ekki haldast. Og síðan datt þil. Og þá var bara tímaspursmál hvenær bjálkinn myndi fara. Sekúndu seinna var húsið eitt spýtnabrak.

Hvað sagði Aaliyah við tækifæri sem þetta? If at first you don´t succeed, dust yourself off and try again. You can. You can dust yourself off and try again. Dust yourself off and try again.

Ég var í ágætum tíma. 40 mín í fyrirlestur svo ég byrjaði upp á nýtt, sprautaði meira frosting í öll samskeyti og púslaði húsinu saman á nýjan leik. Hélt grunninum saman þangað til hann virtist vera nokkuð sólíd og leyfði honum að harna svolítið vel. 30 mín í fyrirlestur og ég heima hjá mér sem er 20 mín labb frá skólanum. Ekki um annað að ræða en að dúndra þakinu á. Og það hélt. Það virtist haldast. Eftir smá stund fór önnur þakplatan að renna niður. Ég reyndi að styðja við hana. Á milli hamarshögga úðaði ég í mig hrökkbrauði og granateplafræjum því þetta var í hádeginu og síðan hrundi allt heilaklabbið aftur.

Algjört klúður. Ekkert piparkökuhús þetta árið? 20 mín í fyrirlestur. Á tímum sem þessum gefst ekki rúm til að hugsa málið. Turbo Tinna tók við. Hún katapúltaði sykri úr búrinu á pönnuna. Gasið á hæsta blúss og alvöru piparkökusúperglú er tilbúið á nóinu. Allt frosting skrapað af í tvem handtökum og veggir ofan í bubblandi sykurinn. Einn tveir og bingo. Hús, albeit aðeins skakkt, til. Frosting og skraut hentist sjálft á.

10 mín í fyrirlestur. Bandóð kona þeytist útúr húsi með vettlinga dinglandi á eftir sér í bandi, kápan flaksandi og skakkt Hans og Grétu hús á skurðbretti í báðum höndum. Hún hleypur eins hratt og húsið leyfir útá miðja götu. Stöðvið! Please! Excuse me! Ellis! Gætuð þið keyrt mig á Ellis!? Indælu litlu undergrads stóðu sig þegar mest á reyndi og keyrðu mig í skólann. Piparkökuhúsið var afhent á skrifstofuna og ég komst á fyrirlesturinn minn. Eins klukkutíma og korters fyrirlesturinn minn. Fyrirlesturinn þar sem leiðbeinandinn segir í miðjum fyrirlestri "Það er villa. Þú hlýtur að vera með villu." Hann er búinn að segja þetta í heilan mánuð um þetta atriði.

"Það er ekki villa" segi ég og dreg upp kóðann. Öll grúppan rýnir í kóðann. Skref fyrir skref förum við í gegnum hvert smáatriði. Engin villa. Fleiri jöfnur uppá töflu. Endalausar athugasemdir frá grúppunni. "Er þessi liður fasti við þetta tækifæri?", "Er Gé fall af Té?" Ég kríta og kríta. Tárin fara að trítla niður kinnarnar. Sem betur fer sný ég baki í alla. Niðurstaðan er alltaf sú sama. Diffrun og deiling. Engin villa. Að lokum heyrist í leiðbeinandanum. "Huh". "Já, það lítur út fyrir að þú hafir rétt fyrir þér."

Algjört max í confrontation. Ég var svo búin á því eftir þetta að tvem dögum seinna er ég enn uppgefin. En jólaboðið var success og ég splundraði piparkökuhúsinu með kampavínsflösku. Síðan kíkti ég í kvöldkaffi til Palla og Jóhönnu og gat sagt þeim allt af létta. Það er svo notalegt að koma til þeirra. Jóhanna var með eplabrauð í ofninum og Gréta litla mús gaf mér þau sætustu knús sem maður fær bara frá himnsekum verum. Þetta var eins og í gamladaga þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og fólk sótti hvert annað heim fyrir félagsskap og huggulegheit.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?