23.3.06

Ennþá til

Ég get ekki neitað því að ég er svartsýn á framtíðina. Þegar ég hugsa til allrar framþóunnarinnar sem er að eiga sér stað, í vísindum og hagsæld, sé ég fyrir mér tölvur og bíla á færiböndum, risa fyrirtæki með þúsundir starfsfólks í mannskemmandi vinnu, börnin gleymast í sýndarveruleikaheimi, lautarferðir eru útdauðar, hvað er eiginlega útilega?

Þegar maður er svona svartsýnn þá er það notalegasta í heimi að fara með skóna sína til skósmiðsins og sjá þar fyrir gamlan og ofur sætan Grikkja sem situr á kolli á skóvinnustofunni sinni og horfir útum gluggann. Hann er með hár á nefinu eins og afi Siggi og kátur þó svo hann virtist ekki fá marga kúnna nú til dags. Ég vildi að ég ætti fleiri skó sem væru bilaðir.

22.3.06

Syr

Ég fékk skyr í hádegismat í dag. Var það gott? Ójá, það var sko gott. Mmmm. Skyr er svo gott á bragðið. Áferðin er eins og silki. Það er eins og kaldur gustur á heitum sumardegi. Við erum að fara á söngleik í kvöld. Wicked. Ég hlakka svaka til. Fyrst er kvöldmatur með áhrifum frá veitingahúsaferð gærdagsins en við fórum á Frontera grill og fengum nýstárlegan mexíkanskan mat að hætti stjörnukokksins Rick Bayless. Í kvöld verður borðað heima jicama stir-fry og fennel réttur. Báðir þessir réttir koma úr bókinni Vegeterian cooking for everyone eftir Deborah Madison sem er að ég held besta grænmetiskokkabók í heimi.

21.3.06

Fullt hús!

Nei ég er ekki í póker. Tengdó fjölskyldan er í heimsókn. Þau komu á laugardaginn og strax á sunnudaginn fórum við í fjöslkylduboð upp í sveit þar sem ein frænka hans Óla býr og að klifra því það var ákkúrat í leiðinni. Þórður var kátur með það, hann þaut upp um alla veggi og var óstöðvandi en hann er líka búinn að vera þreyttur síðan því þetta er svo mikið puð. Fjölskyldan var hress, þá sérstaklega Bud, sem er árlegur kynnir í þorrablóti Chicago, en það var eitt sem ég vissi ekki og það var það að hann á Hummer. Þetta var í fyrsta sinn sem ég heimsótti fólk sem á Hummer. Það hafðist.

Ég er svaka dugleg að skrifa grein. Beinagrindin er komin og núna er ég að vinna í hverjum hlutanum af örðum. Svaka gaman. En líka erfitt. Ég hef aldrei skrifað neitt áður til þess að birta það opinberlega og það er ekki auðvelt. Til dæmis gerir David það miklu betur en ég og væri þá ekki betra að hann myndi bara skrifa? en það þýðir víst ekki að hugsa þannig. Kannski ég geti lært þessa kúnst.

15.3.06

Politik

Hversu gaman er að lifa í heimi þar sem pólitík er fyndin! Það er einmitt heimurinn sem við búum í. Þessa dagana fá gamlingjar í bandaríkjunum þróunarhjálp frá þróunarlöndum. Þið vitið ekkert um hvað ég er að tala. Forseti Venesúela, sem er kannski ekki þróunarríki en það er allavegana svolítið shaky ástand þar, er að gefa fátæku fólki í norðaustur bandaríkjunum olíu. Það verður til þess að það fólk geti kynt húskynni sín. Bush er alveg hoppandi yfir þessu uppátæki forsetans enda ljóst að hann er bara að reyna að fara í taugarnar á honum.

Mér finnst þetta bráðsniðugt hjá Chavez. Það er ekkert leyndarmál að Bush vill fara í stríð við annað hvert land sem á einhverja olíu og maður fer nú ekki í stríð við lönd sem gefur fólkinu manns olíu. Bush hlýtur að átta sig á því.

Ég sá líka furðulegustu auglýsingu í blaðinu í morgun. Frá peabody (the world's largest private-sector coal company). Þeir vilja meina að kol sé orkulind 21. aldarinnar því hún er svo hrein og ódýr. Ha ha. Á hvaða plánetu býr eiginlega þetta fólk? Hérna er vefsíðan þeirra

Ofnæmi fyrir fluid mechanics

Þetta mun kannski hljóma eins og hvert annað bull en ég held ég hafi verið með ofnæmi fyrir þessu prófi sem ég fór í í gær. Ótrúlegt en satt, undanfarna 10 daga er ég búin að vera slöpp, með svakalega mikið nefrennsli og hnerrandi á fimm mínútna fresti. Þar sem ég geng síðan í út af mínu heimili í gær, á leiðinni í skólann, hverfur nefrennslið eins og dögg fyrir sólu og hef ekki hnerrað síðan. Bara orðin frísk. Ekkert slen, enginn slappleiki.

Það gekk ágætlaega í prófinu. Ég vaknaði reyndar í morgun hugsandi um eina spurninguna og fattaði að ég hefði gert smá villu. Alveg ömurlegt að vakna þannig en samt, ekki hægt að pirra sig yfir því. Ákvað í staðin að reyna að klára ein heimaverkefni sem ég átti alltaf eftir að gera. Svo ég er að vinna í þeim núna. Mér finnst það hundleiðinlegt því þetta eru svo erfið dæmi að þó ég sé með lausnirnar fyrir framan mig þá skil ég samt ekki alveg hvað er að gerast.

En nú fer að taka við fjörugra skeið. Djamm á föstudaginn með vinum okkar Angie og Justin. Við ætlum að gista, þá getum við farið saman í morgunmat líka og fjörið þarf engan endi að taka. Síðan kemur Þórður mágur með foreldra sína á laugardaginn. Vonandi getum við hresst upp á bridds... tjah, hæfileikana? Mér sýnist vorið vera að koma. Allavegana er sólin byrjuð að gægjast fram. Þá er nú gott að lifa.

13.3.06

Yfirum

Já ég er sko að fara yfirum á þessu próflestrar standi.

Óli er að gera sveppasúpu from scratch og soðið í hana ilmar svaka vel. Hann er ekki kominn lengra en þetta lofar mjög góðu.

Ég fór í dag að reyna að redda einhverju skatta máli. Fer í payroll og tala við Pam. Pam í payroll. Um leið og ég heyrði þetta leist mér ekki á blikuna. Ég er alveg sérstaklega léleg í að díla við svona týpur. Óli er mjög góður í því og við förum yfir það sem ég á að gera oft. Hvað á ég að segja, hvað er það sem ég vil fá að vita. Ef hún segir nei, hvernig á ég að bregðast við. Ég er búin að lesa klausur í skattalögunum og til í slaginn.

Ég þarf náttúrulega ekki að útlista það sérstaklega hvernig þetta samtal fór. Ég fór allavegana heim. Hágrátandi. Og það sem meira er, mig langar ekkert að vera góð í því að díla við þennan geira mannkynsins. Ég sé að það myndi vera mjög heppilegt, sérstaklega fyrir mig, líka Óla, ef ég gæti höndlað þetta lið sem er súrt, bullar, vill ekki hlusta á það sem maður hefur að segja og heldur að það geti stjórnað öllu. En í fyrsta lagi þá er ég alltaf að reyna að læra á svona leikrit og gengur ekki neitt og í öðru lagi, þá sýnist mér þetta vera bara venjulegt fólk eins og við hin, en, þau eru í stríði. Við okkur. Þetta skrifstofu fólk heldur náttúrulega að við séum að reyna að klekkja á því og svindla sér eitthvað, annars væri það ekki í svona mikilli vörn og með spjótin úti alltaf. Ég hinsvegar er alltaf með hvíta fánann blaktandi. Hann er bara í höfðinu á mér. Þau sjá hann ekki og stinga mig, beint í hjartað.

12.3.06

Ósanngjarnt!

Við Óli erum bæði að fara í próf á þriðjudaginn. Bæði í kúrs sem okkur finnst svaka erfiður. Hvað haldiði að hafi gerst? Kennarinn hans Óla sendir út bréf. Það hljómar eitthvað á þessa leið:

Kæru nemendur, ég hef verið að hugsa svolítið um þetta próf. Hef ákveðið að sleppa að hafa próf. Þið hafið öll staðið ykkur með mikilli prýði, gáfaðri hóp man ég ekki eftir. Allir fá að sjálfsögðu A.

Þetta bréf hljómar eins og eitthvað sem Jesús myndi skrifa. Dísús. Ég nenni ekki að læra fyrir mitt próf. Gæti ég líka fengið svona bréf plís.

11.3.06

Veðrið hérna í Chicago

er ekki ósvipað veðrinu heima á Íslandi. Algjörlega ófyrirsjáanlegt. Í dag er yndislegt veður. Börn eru á stuttbuxum og fólk situr á bekk að lesa bók. Ég er reyndar inni að læra fyrir próf en það er gott að vita af því hversu gott fólk hefur það í dag. Mér leiðist heldur ekkert að læra fyrir þetta próf, ég er með svaka gott kaffi og smáköku (hér í Ameríku er ein smákaka á við 12 íslenskar). Og ekki nóg með það heldur þegar prófið er búið, þá get ég loksins einbeitt mér að því að skrifa svolítið og því er ég svaka spennt fyrir.

9.3.06

Góðan daginn

Á hverju ári er ein vika í mars sem er svaka hlý. Núna, rétt fyrir níu um morguninn eru 14 gráður. Undanfarið hefur verið um 0 - 2 gráður. Sem er hitastigið sem kyndingin heldur að sé úti. Svo það er geðveikt heitt hjá okkur núna, gluggarnir eru samt galopnir. Ekki um annað að ræða en að vera bara á naríunum eins og vinkona mín hún Carrie Bradshaw. Ég hélt alltaf að hún væri svona fáklædd til að kærastar og eiginmenn vildu horfa á SATC með konunum sínum, en kannski var bara alltaf svona heitt inní stúdíóinu. Þó skárra að vera á naríunum en að svitna og vera þrútinn á skjánum.

3.3.06

Róandi

Er að baka brauð. Óli gaf mér bók um brauðbakstur. Hún er gefin út á fæðingaárinu mínu því það er þema hjá okkur þessa dagana að kaupa notaðar bækur. Allavegana. Ég lærði nokkuð nýtt og það er að, fyrst ég á ekki hrærivél, hræra deigið 300 slög þegar fyrstu tveir bollarnir af hveiti eru komnir í. Einnig lærði ég að fyrstu tveir bollarnir eiga að vera hvítt hveiti. Síðan þegar búið er að slá þessu saman, þá má setja dekkra hveiti.

Þetta hljómar nú eins og voðaleg smáatriði sem skipta engu máli þannig að ég var frekar hissa þegar ég var að hnoða brauðið og það var miklu mýkra og teygjanlegra heldur en áður. Ég hef nefnilega farið algjörlega á mis við þetta í fortíðinni. Þá hef ég varla hrært neitt, bara hnoðað og alltaf sett dökka hveitið fyrst. Meiri vitleysan. Nú sé ég að þetta skiptir öllu máli og er alls ekki smáatriði. En núna er ég að gera bygg brauð og mjög spennt fyrir því að vita hvernig það bragðast. Því mér skilst að það sé með fáu korn tegundum sem vex á Íslandi.

En ástæðan fyrir því að ég er að baka brauð í kringum miðnætti á föstudagskvöldi er margþætt. -Við eigum von á fólki í morgunmat. -Mér finnst hundleiðinlegt að spila póker. -Og þá var svo gaman í skólanum í dag að ég fór ekki heim fyrr en klukkan tíu. Á Hawaii fyllti ég nefnilega flösku af sjó og kom með hana hingað heim til að skoða agnirnar sem í honum er. Og það fór ég að gera í dag. Fékk allskonar tilraunadót lánað, bikar, glærur, pípettur og aðgang að svaka fínni smásjá.

Ég bjóst við að þetta yrði margra viku prósess að setja upp svona athugun en það var nú aldeilis ekki. Ég ráfaði bara eitthvað um deildina í leit að einhverjum sem gæti útvegað mér pípettu og síðan korteri seinna var ég komin með allt sem til þurfti og lykil að labbi. Hrikalega fínt að vera við svona sjálfbjarga stofnun sem er ekki í fjárhagsörðuleikum eða með einhver prótókól. Ég bjóst við að þurfa að fylla út eyðublöð til að mega nota smásjána en það var ekki. Síðan sá ég allskonar agnir, aðalega poop og goo. Á fræðimáli er það fecal pellets og organic carbon. Mest kúl var samt að sjá saltkristalana verða til. Þeir eru teningslaga og glansandi. Og mjög fullkomnir. Þetta var svo gaman að klukkutímarnir gufuðu upp.

2.3.06

Taugastrekkjandi

Er að senda leiðbeinandanum sínum uppkast að grein. En ég er búin að fresta því allt of lengi svo núna kýldi ég bara á það.

Ráðstefnan gekk mjög vel. Ég var með plaggat sem minnti mig á plaggatið sem ég gerði með Ólöfu í jarðfræði 103. Það var hálft grænt, hálft svart og áður en við náðum að hengja það upp settist strákur á það. Það var alveg ljótasta plaggatið í MH. En viðfangsefnið var mest kúl. Svartstrókar og Pompeii ormar. Mitt plaggat var frekar ljótt. Því ekki var nóg með að allir aðrir fóru í einhverja okurbúllu til að láta prenta þeirra plakat, en ég prentaði mitt á eldgömlum prentara sem hangir í deildinni minni, þá rann guli liturinn út í miðju kafi svo helmingurinn af plakatinu er mjög fínn. Hinn helmingurinn er fjólublar, blár, bleikur, ljósfjólublár og lillarauður. En ég gat ekki fengið mig til að prenta það út í þriðja skiptið því í fyrsta þá kom svaka galli sem ekki var hægt að sætta sig við og eins og ég segi, þá gat ég ekki reynt í þriðja skiptið.

En það gerði sitt gagn. Einn gæji var geðveikt spenntur fyrir líkaninu mínu. Spurði mig fram og til baka út í minnstu smáatriði og sagði síðan að hann væri með líkan að líffræðiferli í sjónum og með vandamál sem honum sýnist að mitt líkan muni leysa. Honum hafði bara aldrei dottið í hug að hugsa um agnir eins og ég geri! Jibbí jei. Svo við töluðum um að ég myndi vippa forritinu yfir í fortran og smella því inn í hans. Sem sagt vera með samstarf. Collaboration. Svaka kúl. Ég var svo gáttuð yfir því hversu spenntur hann var. Venjulega er fólk bara "huh! og hvaða máli skiptir það eiginlega?" En agna-klíkunni finnst líkanið mitt kúl og það er jú það sem skiptir máli. Þannig að ráðstefnan var success og nú er bara að vita hvað leiðbeinandanum finnst um uppkastið.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?