31.1.07

Huggulegheit ofar öllu

Ég get bara ekki orða bundist yfir því hvað það er huggulegt hjá mér. Ég þurfti að flytja út úr einka-skrifstofunni minni og inn í skrifstofuna hans Young Jins. Ekki leist mér vel á það í byrjum því hann er með svo svakalega mikið drasl að það þyrmir alveg yfir mann þegar maður lítur inn í þessa skrifstofu. En ég er búin að henda fullt af dóti, sópa og koma mér nokkuð vel fyrir. Þannig að núna sit ég á fútoninum með grjónapúða til að styðja við bakið, í ullarsokkum og lopapeysu, drekkandi heitt te og með engifersmákökur, að lesa grein á lap-toppinu sem hvílir í kjöltu minni og vermir mín köldu læri. Hversu gott getur lífið orðið?

Betra og betra held ég. Á eftir er ég á leiðinni á fund til að athuga hvort ég komist með í ferðalag í Karabískahafið í mars. Jei. Ég er reyndar núþegar búin að ákveða að ég kemst með. Svo spennandi. Þetta ferðalag er svona vettvangsferð og markmiðið er að læra eitthvað um jarðlög og jarðsögu. Meira um það seinna. Vonandi.

29.1.07

Hello igulkers-kitty

Vinur minn Hiro er fra Japan. Alltaf thegar hann kemur aftur ur frii faerir hann mer eitthvad saett, einhverja saeta Hello Kitty. Einu sinni fekk eg Hello Kitty i snjohusi, I thetta sinn situr Hello Kitty i sushi bakka med igulker i stadin fyrir haus. Oj oj oj, litla saeta Hello Kitty.

Helgin gekk ad hluta til afallalaust fyrir sig. Eg rotadi mig naestum vid broomball spil en nadi mer thegar leid a laugardaginn. Thad var eins gott thvi vid hjonin heldum svo storglaesilega matarveislu ad annad eins hefur ekki gerst. Og hefdi ekki gerst hefdi eg verid rotud. Thad var 5 retta. Nybakad braud med fyrsta forrett sem var pulsa med fennel-myntu-thistiljartar-salsa. I annan forrett var skata, ponnusteikt og ljuffeng. I adalrett var gullas med hra-u raudkali. Sidan var ostabakki og i eftirrett var negro-y-blanco sem er sitronu-kanil is med espresso hellt yfir og hnetusmakaka med-onum. Thetta var allt mjog ljuffengt og vinin sem voru med ekki sidri. Eitt Borolo, eitt PN fra Sonoma og sidan eitt Mombassiac med isnum. Thetta var i raun yfirgengilegt. En vid buum ju i yfirgengilegu samfelagi svo thad var ohjakvaemilegt.

I economist kemur thad fram ad republikanar nota meira rafmagn, a mann, en demokratar. Hversu fyndid er thad.

Thetta er fyrsta bloggid sem eg skrifa a nyja linux boxinu minu. Thess vegna eru engir islenskir stafir. Baett verdur ur thvi eins fljott og audid er.

25.1.07

Sportlegheit í háveigum höfð

Undanfarin vika, frá fimmtudegi til fimmtudags hefur verið svona: tækjasalur - broomball - klifur - jóga - jóga (fimmtudagur - föstudagur - laugardagur - mánudagur - miðvikudagur). Fimm leikfimisdæmi á sjö dögum. Geri aðrir betur.

Fyrir þá sem ekki vita hvað broomball er get ég útskýrt það. Leikvangurinn er skautasvell en skautarnir eru íþróttaskór. Hver leikmaður er með kylfu sem er eins og kústur og síðan er appelsínugulur bolti sem reynt er að sópa í mark andstæðingsins. Í hverju liði eru 4 stelpur og 4 strákar, ef spilað er co-ed. Það er ekki hlaupið að því að gera nokkurn skapaðan hlut svo það er ekki auðvelt að sjá hver er góður og hver er lélegur sem er einmitt ástæðan fyrir því að við Óli erum bara ágæt í broomball. Og finnst svaka gaman að spila.

En ég er ekki bara í þróttum fyrir líkamann, sálin þarf líka næringu. Þar kemur Rokland Hallgríms Helgasonar inn í spilið. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið bók eftir hann áður og hef misst af miklu, er ég að komast að núna. Þessi bók er þvílíkt sælgæti að ég hef sjaldan lent í öðru eins. Orðaleikirnir og pælingarnar skilja mig eftir mállausa og agndofa. Hann Böddi maður. Hann er kostulegur. Ég mæli svoleiðis með þessari bók. Hún er klikk geðveikt góð.

Í sambandi við hafrakexið. Það leið ekki á löngu en að maðurinn minn áttaði sig á guðdómlegheitum þessara smákaka. Áður en ég vissi af voru þær horfnar og við erum bara tvö í heimili svo það var ekki erfitt fyrir mig að átta mig á því hvað gerðist.
Vona að þið hafið það gott elskurnar mínar og passiði upp á landið mitt.
Ykkar Tinna

23.1.07

Hafrakex

Hann Óli á afmæli í dag og er sem betur fer enn "in his twenties" eins og maður segir hérna í Ameríku. Að venju snæddum við hátíðar morgunverð og Óli fékk pakka frá mér. Tvö spil og executive sokka. Ég hafði bakað í tilefni dagsins. Ég baka svona núll til einu sinni á ári og það er alltaf afmælis-eitthvað fyrir Óla. Hingað til hef ég komist að því að Óli er hvorki hrifinn af súkkulaðiköku né rjómatertu. Þetta árið reyndi ég fyrir mér í smákökuiðnaðinum og bakaði hafrakex. En þeir sem þekkja hana ömmu mína Rúnu vita að hafrakex er með því betra sem þessi heimur býður uppá. En það kom í ljós að Óli er ekki mjög hrifinn af smákökum og því fór ég með heilan dunk í skólann og bauð krökkunum uppá með kaffinu. Þar var einmitt einn strákur, Alexis (sem er bæði stelpu og strákanafn), sem er mikið fyrir bakkelski og honum fannst hafrakexið svo gott að hann í fyrsta lagi gat ekki hætt að borða það og í öðru lagi gat ekki hætt að tala um það. Svaka gaman. Ég komst að þeirri niðurstöðu að hann sé sú manneskja sem þykir þetta hafrakex best af öllum sem ég þekki. Ég hugsa að honum finnist það betra en mér. Nema að hann sé með svona yfirgnæfandi hátt í ameríkuheitum sem er að ýkja það svaka mikið um hversu gott manni finnst eitthvað, en ég þekki hann nokkuð vel og hann er ekki þannig. Hann var allavegana mjög ánægður með að vera sú manneskja og vildi endilega fá uppskriftina. Það sagði ég að yrði lítið mál því ég ætti hana. Og þannig var það. Kexið vakti lukku eftir allt saman. En fegnust er ég að eiga heilan dunk heima hjá mér af nýbökuðu hafrakexi sem ég þarf ekki að hafa áhyggjur af að muni hverfa ofaní annan malla en minn eigin.

19.1.07

Ný kenning

Um daginn greindu danskir vísindamenn frá nýrri kenningu um koldíoxíð og hlutverk hafíss að flytja það niður í sjóinn. Hér er linkur á greinina. Mér finnst þetta mjög áhugavert. Þeir eru að segja að þeir séu búnir að finna nýja leið, sem mönnum hafði ekki dottið í hug áður, fyrir koldíoxíð að flytjast í sjóinn.

Þegar ís frýs þá festist loft inn á milli vatns-sameindanna. Tær ís, sem er bara vatn, er glær en ef loft er inná milli, þá verður hann hvítur. Þannig að í hafís er fullt af lofti sem vill komast út úr ísnum þegar hann nær ákveðið lágu hitastigi. Alveg eins og gosflaska sem sett er í frost, tappinn skrúfast af því loftið vill komast út. Þannig að það sem þessir vísindamenn eru að segja er að ísinn verður til við -1.8 gráður C og stækkar eftir því sem hitastigið lækkar. Síðan þegar það nær -6 gráðum C þá fer loftið sem festist inní ísnum komast út. Og þar sem 90% af ísnum er undir sjávarborði þá fer 90% af loftinu í sjóinn. Svona skil ég þetta allavegana.

Síðan er vandamálið náttúrulega að ísinn er að hverfa. Á hverju ári er ísinn á norðurpólnum minni en árið á undan, allavegana á sumrin. Þá minnkar það hversu mikið CO2 þrýstist niður í djúpsjó. Meiri CO2 í andrúmsloftinu, enn meiri hlýnun, enn minni ís, þetta veit ekki á gott.

Svaka spennandi pælingar. Ég hlakka til að heyra meira um þær. Vandamálin eru kannski nokkur. Í fyrsta lagi er ekki ljóst að svo mikið loft festist inni í ísnum. Ég bar þessa hugmynd upp við Doug sem er aðal ís gæjinn okkar og hann virtist ekki vera á því að mikið loft festist í ískristöllunum. Það er samt svolítið og það kemur úr sjónum, frá sama stað og vatnið sem ísinn er búinn til úr. Sem þýðir að það er þá spurning hversu miklu máli það skiptir að loft úr sjónum fari inn í ísinn og síðan útúr honum aftur inn í sjóinn. Þetta eru pælingar sem við verðum að heyra meira um.

Efnisorð:


17.1.07

Hvað er að gerast í Chicago

Ekki svo mikið þessa dagana satt að segja. Verkefnið mitt er að fá nýjar víddir. David sagði að greinin mín væri stórglæsileg og birtingarhæf en ... En það væri kannski ekki úr vegi að bæta við smá fítus í kalk-eyðinguna til að hún yrði nytsamlegri og yrði frekar vitnað í hana. Mér líst að sjálfsögðu svaka vel á það.

Við erum með sturtuútvarp. Í sturtunni í morgun var viðtal við konu úr senatinu. Ég náði ekki hvað hún heitir en hún var ekkert smá pirruð útí Bush og Íraksmálið og þegar fréttakonan sagði "But, failure is not an option" sem er einmitt eitt af slagorðunum hans Bush, þá urraði hún úr pirringi "hlutirnir gerast ekki á slagorðum, urrgh". Ég hafði fulla samúð með þessari konu þar sem ég stóð og þvoði mér. Ekkert smá pirrandi að vera á þingi og yfirmaðurinn þinn heldur að hann sé galdrakarl sem þarf bara að segja svona galdraþulur og þá lagast allt.

15.1.07

súr sjór

Annan hvern dag læri ég nýja vídd á vandamálum sem við þurfum að kljást við í tengslum við hversu hratt við erum að dæla koldíoxíð inn í andrúmsloftið. Smá upprifjun fyrir þá sem ekki muna: með brennslu á jarðefnaeldsneyti og breytingum á land notkun fara um 7Gtonn af kolefni á ári í andrúmsloftið. Sjórinn gleypir 2Gtonn, landið (tré) tekur upp önnur 2Gtonn (ekki alveg vitað) og um 3 Giga-tonn verða eftir í andrúmsloftinu og er ástæðan fyrir því að hlutfall (og magn) CO2 í andrúmsloftinu er að aukast og jörðin er að hlýna.

En það sem ég er mikið að spá í þessa dagana, vikurnar, árin er koldíoxíðið sem fer í sjóinn. Þegar CO2 binst við vatn myndast sýra. Vísindamenn hafa séð breytingu á sýristigi sjávar og talið er að það er 0.1 pH gildi lægra en fyrir iðnbyltingu. Þetta er áfall fyrir lífríkið í sjónum, sérstaklega þær tegundir sem búa til kalk-skeljar. Kalk-skelja-myndun er næm fyrir pH gildi sjósins. Mínar rannsóknir byggja á því að kalk skeljar sem svif framleiða auka hraða agna sem sökkva í sjónum og flytja lífrænt kolefni (pakkað CO2) frá yfirborði sjávar inn í djúpsjó. Í djúpsjó dvelst koldíoxíðið í hundruðir ára án þess að koma aftur upp á yfirborðið. En mínar niðurstöður benda til þess að með súrnandi sjó og minni kalk-skelja framleiðslu, þá verði þessi flutningur á lífrænu kolefni með ögnunum minni og því mun koldíoxíð í andrúmsloftinu aukast hraðar eftir því sem meira er af því.

Það sem ég var hinsvegar að læra í gær er önnur afleiðing af súrari sjó. Flestar tegundir dýra sem við þekkjum úr sjónum tróna efst á sinni fæðukeðju. Þorskar, krabbar, hvalir, ... Með súrnun sjávar og erfiðleikum í kalk-skelja myndun hjá heilum flokk sjávardýra og plantna munu þær lífverur sem reiða sig á skeljar ekki getað lifað sómasamlegu lífi. Ekki er vitað hvað verður en að öllum líkindum munu þær smátt og smátt hverfa. Og hvað verður um dýrin efst á fæðukeðjunni þegar fyrsta og annað þrepið er kippt undan þeim? Þau fá ekkert að borða. Disaster fyrir þau. Ég hafði ekki áttað mig á þessu en það er heill hópur haffræðinga sem eru bara búnir að sætta sig við það að framtíð sjávarins eru marglittur og slím. Hversu sorglegt er það?

Fyrirgefiði mér að skrifa stundum svona niðurdrepandi pósta en ég bara get ekki annað. Get ekki lifað með svona hluti inní mér án þess að deila þeim með öðrum. Ef aðeins til þess að þegar þú vaknar upp einn daginn og það er marglitta í soðningunni, ekki þorskur, að þú getir ekki sagt "Tinna! Þú vissir þetta en sagðir okkur ekki, við hefðum reynt að gera eitthvað í málinu hefðum við vitað að þetta væri það sem koma myndi." Ekki hætta samt að lesa bloggið mitt. Ég lofa að ég skal skrifa eitthvað sniðugra næst.

Efnisorð:


12.1.07

Góðan daginn

Það er svo langt síðan ég hef bloggað að fyrir utan að dauðskammast mín fyrir það þá veit ég ekki hvað ég á að segja.

Nema Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir öll þau gömlu!! Takk fyrir samveruna um jólin, takk fyrir huggulegheit og notalegheit. Afsakið hvað ég var léleg í að hringja í vini mína og setja upp stefnumót og takk fyrir að hringja í mig og hitta mig, bjóða mér í mat, kaffi, sjúss og/eða spil. Takk fyrir jólakortin og afsakið að ég sendi ekki jólakort. Mér þykir mjög gaman að fá jólakveðjur þó ég sýni það ekki í verki.

Við Óli erum komin til Chicago. Það er ágætt að vera komin heim til sín á ný en ég var svo utanvið mig að ég bauð einni flensu með mér og er búin að liggja nær dauða en lífi í rúminu síðan. Alveg ómögulegt en er öll að braggast sérstaklega núna þegar ég er búin að fá batni-þér-skjótt-ástin-mín-blóm og heilsteiktur kjúklingur með hvítlauks-rósmarín-blóðbergs-mauki undir skinninu og spínat-tómat rétt í meðlæti er í ofninum.

Til þess að stytta mér stundir hef ég horft á fyrirlestra af ted-ráðstefnunni. ted-talks Mér finnst þetta sniðugt framtak. Að halda ráðstefnu til að hjálpa hugmyndum að verða til. Fólki í öllum mögulegum greinum heldur fyrirlestra fyrir fólk í öllum mögulegum greinum, sjóndeildarhringurinn víkkar og fólk kemur auga á eitthvað sem það annars myndi ekki sjá. Dan Gilbert var með sérstaklega áhugaverðan fyrirlestur. Um hamingjuna. Eitthvað sem allir eru að spá í. Hvernig verð ég hamingjusamur? Nú þarf maður ekki lengur að velta því fyrir sér því þessi maður er búinn að fatta'ða.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?