15.1.07

súr sjór

Annan hvern dag læri ég nýja vídd á vandamálum sem við þurfum að kljást við í tengslum við hversu hratt við erum að dæla koldíoxíð inn í andrúmsloftið. Smá upprifjun fyrir þá sem ekki muna: með brennslu á jarðefnaeldsneyti og breytingum á land notkun fara um 7Gtonn af kolefni á ári í andrúmsloftið. Sjórinn gleypir 2Gtonn, landið (tré) tekur upp önnur 2Gtonn (ekki alveg vitað) og um 3 Giga-tonn verða eftir í andrúmsloftinu og er ástæðan fyrir því að hlutfall (og magn) CO2 í andrúmsloftinu er að aukast og jörðin er að hlýna.

En það sem ég er mikið að spá í þessa dagana, vikurnar, árin er koldíoxíðið sem fer í sjóinn. Þegar CO2 binst við vatn myndast sýra. Vísindamenn hafa séð breytingu á sýristigi sjávar og talið er að það er 0.1 pH gildi lægra en fyrir iðnbyltingu. Þetta er áfall fyrir lífríkið í sjónum, sérstaklega þær tegundir sem búa til kalk-skeljar. Kalk-skelja-myndun er næm fyrir pH gildi sjósins. Mínar rannsóknir byggja á því að kalk skeljar sem svif framleiða auka hraða agna sem sökkva í sjónum og flytja lífrænt kolefni (pakkað CO2) frá yfirborði sjávar inn í djúpsjó. Í djúpsjó dvelst koldíoxíðið í hundruðir ára án þess að koma aftur upp á yfirborðið. En mínar niðurstöður benda til þess að með súrnandi sjó og minni kalk-skelja framleiðslu, þá verði þessi flutningur á lífrænu kolefni með ögnunum minni og því mun koldíoxíð í andrúmsloftinu aukast hraðar eftir því sem meira er af því.

Það sem ég var hinsvegar að læra í gær er önnur afleiðing af súrari sjó. Flestar tegundir dýra sem við þekkjum úr sjónum tróna efst á sinni fæðukeðju. Þorskar, krabbar, hvalir, ... Með súrnun sjávar og erfiðleikum í kalk-skelja myndun hjá heilum flokk sjávardýra og plantna munu þær lífverur sem reiða sig á skeljar ekki getað lifað sómasamlegu lífi. Ekki er vitað hvað verður en að öllum líkindum munu þær smátt og smátt hverfa. Og hvað verður um dýrin efst á fæðukeðjunni þegar fyrsta og annað þrepið er kippt undan þeim? Þau fá ekkert að borða. Disaster fyrir þau. Ég hafði ekki áttað mig á þessu en það er heill hópur haffræðinga sem eru bara búnir að sætta sig við það að framtíð sjávarins eru marglittur og slím. Hversu sorglegt er það?

Fyrirgefiði mér að skrifa stundum svona niðurdrepandi pósta en ég bara get ekki annað. Get ekki lifað með svona hluti inní mér án þess að deila þeim með öðrum. Ef aðeins til þess að þegar þú vaknar upp einn daginn og það er marglitta í soðningunni, ekki þorskur, að þú getir ekki sagt "Tinna! Þú vissir þetta en sagðir okkur ekki, við hefðum reynt að gera eitthvað í málinu hefðum við vitað að þetta væri það sem koma myndi." Ekki hætta samt að lesa bloggið mitt. Ég lofa að ég skal skrifa eitthvað sniðugra næst.

Efnisorð:


This page is powered by Blogger. Isn't yours?