31.3.07

Hvað er mikilvægt?

Ég er alltaf í einhverri eilífðar tilvistarkreppu. Hvernig réttlætir maður eyðileggingu mannskepnunnar? Það fer sennilega eftir því hver maður er. Ef maður er vistfræðingur þá segir maður:

"Jú, mannskepnan er "ecological engineer" alveg eins og bjórinn. Bjórinn býr til stíflur til að fanga fisk, það er það eina sem hann kann. Mannskepnan býr til garðyrkjureit, vindmyllu, flugvél ... og hver tegund verður að gera það sem er henni fyrir bestu. Kemur aftur til Darwins, survival of the fittest, við erum bara að gera það sem er eðlilegt, það sem náttúran ætlast til."

Ef maður er ekki vistfræðingur eða bankastarfsmaður þá er maður bara með eilífan höfuðverk yfir allri þessari mengun og eyðileggingu. How to be good? Nick Hornby er með góða sögu um hvernig má fara að því. Ég er ennþá að reyna að finna útúr því.

Hversdagsleikinn kominn á stjá á ný

Að koma heim frá the Bahamas er ekki auðvelt. Á Bahamas er enginn hversdagsleiki. Í Chicago er hann allsráðandi. Í Chicago þarf maður að vaska upp, þvo þvott, kaupa í matinn og vinna. Núna er ég með það verkefni að skrifa styrk-umsókn. Ganni styrk-umsókn. Þetta er æfing í að skrifa styrk umsókn og ég á að skrifa um verkefni sem ég ætla ekkert að vinna í og satt að segja er aðeins skeptísk á. Reyndar er þetta skólabókardæmi um hvernig lífið virkar. Til að fá að gera eitthvað skemmtilegt verður maður að gera eitthvað leiðinlegt. Til að fá að fara til Bahamas þarf maður að skrifa styrk umsókn. Þegar ég set þetta svona fram þá átta ég mig á því að þetta er frekar ódýr ferð til Bahamas. Það er svo sem ekki mikið mál að skrifa styrk umsókn. Ég veit ekki hvað ég er alltaf að barma mér yfir minnstu hlutum.

Við fórum á yndislegan veitingastað í gær og ég fékk kræklinga. Ó hvað ég elska kræklinga. Ég skil ekki í því að Íslendingar skuli ekki borða meira af kræklingum. Þeir eru upp um allar strendur. Þetta var ítalskur fjölskyldu veitingastaður og mér sýndust bara vera mafíósar þar inni. Allt svona nett skuggalegt fólk með yfirvaraskegg eða kryppu og vatsgreitt hár. Síðan fórum við á tónleika og það var sko gaman. Svolítið funky jazz og síðan söng svört kona sem var náttúrulega himnesk.

30.3.07

Hæ hæ!

Frá Chicago er allt ljómandi gott að frétta. Vorið læðist til okkar og við Óli erum sameinuð á ný. Sem er ljómandi ljómandi gott.

Það er svo langt síðan ég hef bloggað að þetta er bara upphitun.

17.3.07

Sunna systir mín

er 19 ára í dag. Stóra litla systir mín. Ég man ekki eftir 19 ára afmælinu mínu. Mér fannst ekki merkilegt að verða 19 ára. 19 er einhvernvegin frekar asnaleg tala. 18 er svaka kúl og 20 má maður fara í ríkið sem er léttir en 19, maður er ekki lengur átján en ekki orðinn tvítugur. En, maður getur huggað sig við það að þetta er síðasta tánings-árið, og það er sko léttir. Eftir að vera búinn að vera táningur í 6 ár á maður skilið að það sjöunda sé það síðasta. Þó það sé í sjálfu sér yndislegt að vera táningur. Eða þannig. Stundum.

16.3.07

Miðnætursnarl

Góðan daginn. Eftir furðulegan dag sit ég við eldhúsborðið og borða rótargrænmeti um miðja nótt. Þar sem ég er að leggja af stað í reisu eftir 3 tíma finnst mér ekki taka því að fara að sofa. Ég er að borða það sem fröken Madison kallar vor-pottrétt: næpur, radísur, gulrætur, sperglar, spergilkál, baunir og laukur allt soðið vel og síðan jurtum bætt útí, sítrónusafa og thats it. Ekkert annað, alveg ljómandi gott með jasmín hrísgrjónum. Ég er alveg hissa á því hversu bragðmikil þessi hrísgrjón eru. Yfirleitt finnast mér hrísgrjón bragðlaus, þessi eru alveg einstök.

Tvær vinkonur mínar úr skólanum komu í mat og almennan gleðskap í gær og þá eldaði ég þennan rétt fyrir þær. Síðan þá er ég búin að borða heilan disk á 4 tíma fresti því þetta er svo létt í maga. Og líka vegna þess að það var svo mikið afgangs. Þess á milli er ég búin að horfa á bíómyndirnar sem ég náði ekki að horfa á meðan ég var lasin en þurfti að skila í dag. Og gat ekki hugsað mér að skila óáhorfnum. Fyrst horfði ég á dagbók Önnu Frank. Hversu ótrúleg var Anna Frank?

Mjög ótrúleg. Ef einhver gæti gefið manni trú á mannkynið, þá væri það hún. Alveg yndisleg mynd og 50 ára gömul. Núna langar mig að lesa bókina, dagbókina. Síðan horfði ég á Bebettes Gæstebud. Hún er líka góð.

Óli er núna búinn að vera víðsfjarri í heila viku. Ég er búin að njóta þess í botn og fá gesti í mat undanfarna 3 daga. Fyrst kom Su Yeon vinkona mín í grænmetis-karrí með kasjú-hnetum (Hagkaups-grænmetisbók Sollu). Mjög góður réttur. Næsta dag kom Angie í afganginn og við höfðum vídjó kvöld. Horfðum á Persuation eftir Jane Austin. Þá fyrst rann það upp fyrir mér að sögurnar hennar eru allar alveg eins. Meira eða minna. Við horðum líka á The Goodbye girl en hættum þegar hún var hálfnuð vegna þess að karekterarnir voru alveg óþolandi. Alltaf að rífast. Og núna í gær komu Emily og Radhika og ég gaf þeim a martini made perfectly. Þær voru nú ekki lítið ánægðar með það. Og ég líka.

Næpur og rófur eru svipaðar og ég verð að segja að ég er mjög hrifin af báðum. Þær eru mjög bragðmiklar og það er flókið bragð. Bæði sætt og beiskt og síðan þetta yndislega rótarbragð.

Í allan dag var ég að telja mér trú um að ég þyrfti að gera þetta eða hitt til að afsaka það að ég kom mér ekki í skólann. Vaska upp eftir gleðskap, þvo þvott, viðra tösku... og lesa dagblaðið. Spjaldanna á milli. Einn pistill fjallaði um vinnualka. Greinarhöfundur var á því að fólk ynni svona mikið til að losna við að taka ákvarðanir. Sálfræðingar segja að of margir möguleikar gerir fólk óhamingjusamt. Hvað ef maður getur valið á milli 280 smákökutegunda? Það er enginn séns að maður velji bestu kökuna eða þá köku sem mann langar í. Bölvað vesen. Allavegana, greinarhöfundur sagðist sjaldan hafa liðið betur en þá mánuði sem hann datt inn í það að vinna dægrana á milli. Síðan var verkefnið búið og hann fór að hafa tíma til að elda mat, vera heima um helgar, hitta börnin. Þá hafði alveg þyrmt yfir hann möguleikum. Hvað eigum við að gera í dag? Hvað á ég að elda? Naut, svín eða kjúkling? Kannski lamb? Kótilettur eða læri? Kartöflur eða hrísgrjón? Basmati eða Jasmín? Endalausar ákvarðanatökur.

Mér finnst þetta merkilegt. Á ted.com sá ég fyrirlestur um tilraun sem kannaði tengsl milli hamingju og vals. Niðurstaðan var að þeir sem ekki höfðu val voru ánægðari með það sem þeir fengu en þeir sem höfðu val. Maður getur líka gert einfalda tilraun með börn. Ef maður býður barni upp á ís verður það himinlifandi. Býður þú því að velja milli þess að fá ís eða gos, en bara annað hvort. Þá er það í hrikalegum vandræðum og síðan ekki nærri því jafn ánægt með ísinn eða gosið eins og hitt barnið sem ekki fékk að velja.

Ég hugsa að það sama eigi við um Önnu Frank. Hún var ekkert undrabarn. Hún var bara venjuleg 13 ára stelpa í aðstæðum sem voru ekki á hennar valdi. Hún hafði ekkert val. Fyrir vikið var hún ánægð með lífið og tilveruna. Er þetta hrokafullt? Á manni bara að finnast Anna Frank vera hetja? Hún var lokuð inni og þurfti að tipla á tánum í tvö ár en var samt sem áður glöð og þakklát. Fólk er bara svo sveigjanlegt, það getur aðlagast hvaða aðstæðum sem er.

11.3.07

Trú

á mannkynið. Er mikilvægt að hafa. Það er ekki alltaf auðvelt. Stundum er hún í lágmarki (undanfarið). Og þá er bara eitt sem getur gerst. Hún eykst. Rétt í þessu var ég að lesa í The Economist að Texas hefði farið fram úr Kaliforníu hvað varðar framleiðslu á raforku með vindorku. Texas. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki mikla trú á Texas til eins eða neins.

Áætlað er að opna tvær etanól verksmiðjur í Texas á þessu ári og þá þriðju á því næsta. Það er skref í rétta átt. Etanól er ekkert súper umhverfisvænt en það er skörinni betra en olía. Á hinn bóginn er á döfinni að opna fleiri en 12 kola-orkuver í Texas, án nýtísku hreinsibúnaðs. Þetta ruglar mann í ríminu. Hver er heildar skoðunin á Texas? Niðurstaðan mín er að það færðist upp um eitt þrep. +2 fyrir vind og ethanól, -1 fyrir kola-orkuver.

10.3.07

Ekki frá því ...

að þetta kjúklingasoð hjálpi. Búin með hátt í líter af kjúklingasoði. Og mér líður betur. Núna verð að verða aðeins frískari svo ég geti farið að halda brjáluð partí!! núna þegar ég er ein í kotinu. Djók Óli minn.

Annars er það helst í fréttum að ég er dottin inní enn eina sjónvarpsseríuna. Sópranós var nú eiginlega þröngvað upp á mig og núna er ég orðin svaka spennt. Búin að horfa á 8 þætti en myndin sem ég er að fara að horfa á núna heitir Antonia. Í röðinni á netflix eru síðan

> Como agua para chocolate (1992)
> Persuasion (1995)
> Babettes gæstebud (1987)
> The Goodbye Girl (1977)

Ég er svo spennt fyrir því að sjá þessar myndir. Þær komu upp þegar ég sagði "Angie´s Movie Genius" að uppáhalds myndirnar mínar eru When Harry met Sally og A room with a view. Angie vinkona mín er búin að vera að vinna í Netflix þrautinni og í leiðinni varð þetta tæki til. Þið getið beðið hana um aðgang til að prófa, gæti komið ykkur skemmtilega á óvart. Ekki hika við að biðja hana um aðgang. Ég er búin að segja henni að ég sé búin að auglýsa þetta á blogginu mínu og hún megi búast við her af Íslendingum að biðja um aðgang.

9.3.07

Kjukklingasoð

Nammi namm.. Hér í Bandaríkjunum ríkir mikil trú á kjúklingasoði. Chicken soup. Það er málið. Þar sem ég er nú búin að vera veik í hátt í viku og horfurnar ekki góðar ákveð ég að reyna á það. Ég á heila fernu af kjúklingasoði og sýð hana alla. Set pínu pipar og helli mér í stórt glas. Ok, ekki stórt, lítið. Mér óar við því að drekka þetta en læt til skarar skríða. Ekki svo slæmt, en mér líður ekki betur, hvar er þolinmæðin? Næst á dagskrá er að stappa þrem vænum kartöflum útí og smá hvítlauk, og sjá hvað gerist. Ég er búin að lifa á dominós, subway og núðlusúpu undanfarna daga svo þetta hlýtur að hrökkva mér í gang.

Maðurinn minn er núna í flugvél á leið til Boston. Þaðan flýgur hann síðan til Íslands og verður í tvær vikur. Það er hundleiðinlegt að vera lasinn einn því er ekki um annað að ræða en að láta sér batna.

7.3.07

Voðalega lasin

Er það sem við hjónin erum núna. Til dundurs milli þess sem við hnerrum og snýtum okkur horfum við á sjónvarp og spilum. Það tók okkur allan daginn að spila Trivial Pursuit. Við eigum upphaflegu útgáfuna sem gefin var út fyrir kannski 20 árum síðan. Það er því mjög mikið af 20 ára gömlum spurningum. Sérstaklega þykja okkur bleiku og appelsínugulu spurningarnar erfiðar. En okkur þykja þær reyndar erfiðar í nýju útgáfunum líka. T.d. þá fékk ég mína bleiku köku með því að giska á nafnið Davis Junior og nú man ég hvorki spurninguna né fyrra nafnið sem Óli gaf mér sem vísbendingu. Það fannst okkur fyndið. Þetta er alveg hrikalega sorglegt ástand hérna á heimilinu.

Um daginn horfðum við á myndina "Idiocracy". Mér fannst hún alveg frábær, Óla fannst hún svona ágæt. Hún gerist í framtíðinni, árið 2505. Ég treysti mér ekki til að útskýra um hvað hún fjallar, vil bara koma því á framfæri að ég mæli með henni. Síðan horfðum við á The Illusionist sem er líka skemmtileg.

3.3.07

Við kærum!

Hún Svava vinkona gaf mér innblástur til að skrifa þennan póst.

Fyrir fimmtán árum síðan þegar ég lærði fyrst um gróðurhússáhrifin voru þau umdeild. Menn sem ekki voru "umhverfishnetur" voru almennt á þeirri skoðun að útblástur mannanna væri ekkert í samanburði við útblástur eldfjalla. Bara dropi í hafið. Það er ekki lengur svo. Núna er fólk almennt sammála um að mennirnir séu að hafa mikil árhrif á veðurfar jarðarinnar. Sumir eru sannfærðari en aðrir.

Inúítar sjá áhrif hitnunar greinilegar en flestir þar sem þeir búa á ís sem er um þessar mundir að bráðna. Þeirra tilvist er í orðsins fyllstu merkingu að renna til sjávar. Bandaríkin eru forystu þjóð þegar kemur að losun gróðurhússlofttegunda og nú hafa Inúítar ákveðið að stefna þeim fyrir mannréttindadómstólum. Inúítar vilja meina að þeirra mannréttindi til lífs og viðurværis, menningu og siða sé ógnað. Þeir vilja meina að með losun fjórðungi allra gróðurhússlofttegunda hafa Bandaríkin beint skert þeirra mannréttindi.

Það verður áhugavert að sjá hvernig þetta mál þróast. Hér er frétt frá Kanada um málið

Efnisorð:


2.3.07

Ohhhh

Ég vil endilega benda lesendum á svaka sætt blogg sem ég rakst á fyrir tilviljun.

1.3.07

CACO3 calcite 1:100 1:100 1:19 1:1

þetta er línan mín í veðurfarslíkaninu!! Jei!

Ég veit ekki hvað ég á að gera af mér núna. Ég var búin að stilla mig inn á það að vera í þunglyndi út vikuna. Kannski ég fari bara og lagi kaffi.

Geðveikt ótrúlegt meiriháttar

Núna er ég sko kjaftstopp. Verkefni sem ég er búin að vera að vinna í í marga mánuði árangurslaust heppnaðist. Ég er búin að vera að reyna að bæta einni breytu inn í risa-skrímslis forrit og það hefur reynst mikið vesen. Jæja. Ekki lengur vesen. Þetta var bara að gerast, ég er í sjokki.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?