16.3.07

Miðnætursnarl

Góðan daginn. Eftir furðulegan dag sit ég við eldhúsborðið og borða rótargrænmeti um miðja nótt. Þar sem ég er að leggja af stað í reisu eftir 3 tíma finnst mér ekki taka því að fara að sofa. Ég er að borða það sem fröken Madison kallar vor-pottrétt: næpur, radísur, gulrætur, sperglar, spergilkál, baunir og laukur allt soðið vel og síðan jurtum bætt útí, sítrónusafa og thats it. Ekkert annað, alveg ljómandi gott með jasmín hrísgrjónum. Ég er alveg hissa á því hversu bragðmikil þessi hrísgrjón eru. Yfirleitt finnast mér hrísgrjón bragðlaus, þessi eru alveg einstök.

Tvær vinkonur mínar úr skólanum komu í mat og almennan gleðskap í gær og þá eldaði ég þennan rétt fyrir þær. Síðan þá er ég búin að borða heilan disk á 4 tíma fresti því þetta er svo létt í maga. Og líka vegna þess að það var svo mikið afgangs. Þess á milli er ég búin að horfa á bíómyndirnar sem ég náði ekki að horfa á meðan ég var lasin en þurfti að skila í dag. Og gat ekki hugsað mér að skila óáhorfnum. Fyrst horfði ég á dagbók Önnu Frank. Hversu ótrúleg var Anna Frank?

Mjög ótrúleg. Ef einhver gæti gefið manni trú á mannkynið, þá væri það hún. Alveg yndisleg mynd og 50 ára gömul. Núna langar mig að lesa bókina, dagbókina. Síðan horfði ég á Bebettes Gæstebud. Hún er líka góð.

Óli er núna búinn að vera víðsfjarri í heila viku. Ég er búin að njóta þess í botn og fá gesti í mat undanfarna 3 daga. Fyrst kom Su Yeon vinkona mín í grænmetis-karrí með kasjú-hnetum (Hagkaups-grænmetisbók Sollu). Mjög góður réttur. Næsta dag kom Angie í afganginn og við höfðum vídjó kvöld. Horfðum á Persuation eftir Jane Austin. Þá fyrst rann það upp fyrir mér að sögurnar hennar eru allar alveg eins. Meira eða minna. Við horðum líka á The Goodbye girl en hættum þegar hún var hálfnuð vegna þess að karekterarnir voru alveg óþolandi. Alltaf að rífast. Og núna í gær komu Emily og Radhika og ég gaf þeim a martini made perfectly. Þær voru nú ekki lítið ánægðar með það. Og ég líka.

Næpur og rófur eru svipaðar og ég verð að segja að ég er mjög hrifin af báðum. Þær eru mjög bragðmiklar og það er flókið bragð. Bæði sætt og beiskt og síðan þetta yndislega rótarbragð.

Í allan dag var ég að telja mér trú um að ég þyrfti að gera þetta eða hitt til að afsaka það að ég kom mér ekki í skólann. Vaska upp eftir gleðskap, þvo þvott, viðra tösku... og lesa dagblaðið. Spjaldanna á milli. Einn pistill fjallaði um vinnualka. Greinarhöfundur var á því að fólk ynni svona mikið til að losna við að taka ákvarðanir. Sálfræðingar segja að of margir möguleikar gerir fólk óhamingjusamt. Hvað ef maður getur valið á milli 280 smákökutegunda? Það er enginn séns að maður velji bestu kökuna eða þá köku sem mann langar í. Bölvað vesen. Allavegana, greinarhöfundur sagðist sjaldan hafa liðið betur en þá mánuði sem hann datt inn í það að vinna dægrana á milli. Síðan var verkefnið búið og hann fór að hafa tíma til að elda mat, vera heima um helgar, hitta börnin. Þá hafði alveg þyrmt yfir hann möguleikum. Hvað eigum við að gera í dag? Hvað á ég að elda? Naut, svín eða kjúkling? Kannski lamb? Kótilettur eða læri? Kartöflur eða hrísgrjón? Basmati eða Jasmín? Endalausar ákvarðanatökur.

Mér finnst þetta merkilegt. Á ted.com sá ég fyrirlestur um tilraun sem kannaði tengsl milli hamingju og vals. Niðurstaðan var að þeir sem ekki höfðu val voru ánægðari með það sem þeir fengu en þeir sem höfðu val. Maður getur líka gert einfalda tilraun með börn. Ef maður býður barni upp á ís verður það himinlifandi. Býður þú því að velja milli þess að fá ís eða gos, en bara annað hvort. Þá er það í hrikalegum vandræðum og síðan ekki nærri því jafn ánægt með ísinn eða gosið eins og hitt barnið sem ekki fékk að velja.

Ég hugsa að það sama eigi við um Önnu Frank. Hún var ekkert undrabarn. Hún var bara venjuleg 13 ára stelpa í aðstæðum sem voru ekki á hennar valdi. Hún hafði ekkert val. Fyrir vikið var hún ánægð með lífið og tilveruna. Er þetta hrokafullt? Á manni bara að finnast Anna Frank vera hetja? Hún var lokuð inni og þurfti að tipla á tánum í tvö ár en var samt sem áður glöð og þakklát. Fólk er bara svo sveigjanlegt, það getur aðlagast hvaða aðstæðum sem er.

Comments:
Betra er seint en aldrei þetta með Jane Austin...
 
jane austen skrifaði samt um konur á þessum tíma (sem er mjög óvenjulegt), af þeirri stétt sem hún þekkti, og þeirra valkostir voru ekkert svakalega fjölbreyttir. þannig að ef sögurnar eru að einhverju leyti svipaðar þá er það í sjálfu sér ekkert skrýtið, heldur e.t.v. frekar áhugavert..
 
Ahh, góður punktur um Jane Austen. Auðvitað eru sögurnar hennar ekki eins. Manni finnst það bara vegna þess að þær fjalla allar um konur á 19. öldinni.
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?