28.6.09

Heimalagaður ostur

Ég er nú aðeins montin yfir því að búa til minn eigin ost. Hann er léttur og mildur, svolítið eins og ricotta nema gulri því mjólkin er gul af allri nýsprettunni. Það er djúpt en milt sveitabragð, ekki goatbutt heldur frekar nýslegið engi og kjarr. Fer einstaklega vel á valhnetubrauði með tómötum og arugula.

Í dag seldi ég næstum öll húsgögnin okkar og gaf allskonar dót. Eins og töpperver og hreinsilögur. Fegin var ég að losna við hreinsilöginn sem okkur var gefið þegar við fluttum til Ameríku. Það kom í ljós að ég nota ekki hreinsilögur. Og núna er ég meira að segja hætt að nota skó. Í bili. Því get ég tvímælalaust mælt með. Það er miklu þægilegra. Tásurnar eru sælari en nokkurn tíman áður.

27.6.09

Fyrsti í ostagerð

Ég er búin að sjóða mjólkina með smá salti, bæta sítrónusafa í og sjá hana hlaupa, sía mysuna frá. Síðasta skrefið er að bíða og sjá. Sjá hvort til verði ostur.

Ostur er náttúrulega ekki bara ostur. Í Frakklandi eru til dæmis 246 mismunandi ostar. Að öllu jöfnu notar maður sýrumyndandi bakteríur til að hleypa mjólkinni og ensím sem gerir kekkina harða, til að osturinn verði harður. Það er heil iðn útaf fyrir sig og ég treysti mér ekki alveg til að vinna með bakteríur því stytti ég mér leið með sítrónusafa. Á móti getur osturinn ekki elst, þar sem hann er ekki lifandi. Og fyrst ég á ekkert rennet þá verður hann ekki harður. En ég hef hvort sem er enga þolinmæði til að bíða fram að jólum eftir ostinum svo ég held að þetta sé betra svona.

Ég átti tvo lítra af mjólk sem var að renna út og mér fannst ekki hægt að láta það gerast. Þessi mjólk kom úr einni kú. Þetta voru engir sjö dropar hverjir úr 7000 kúm. Ein grey kú jórtraði útí haga í heilan dag og framleiddi þessa mjólk. Júgrin hennar þrýstust út þegar leið á kvöldið og sveifluðust til og frá þegar hún var rekin inn. Hvernig er hægt að hella þannig mjólk? Þegar þetta er þar að auki manns eigin kýr. Framlöppin allavegana.

Greint verður frá árangrinum í næsta tölublaði.

20.6.09

Nýjir nágrannar...

Kominn er júní og það er tími útskrifta. Eins og Orri minn og Mæsa. Þau brautskráðust í dag af hjúkrunarfræðideild og lögfræðideild. Ég er mjög stolt systir. Hefði viljað komast í veisluna en mér var ekki boðið. Já ég er ekkert sár.

Allavegana. Hérna í Chicago er júní mánuðurinn þar sem maður flytur. Sennilega því það eru kaflaskipti í lífi fólks. Ég er til dæmis að fara að flytja. Ég er að vona að nýji kaflinn í mínu lífi heitir "síðasti kafli doktorsnámsins". En áður en ég flyt verð ég þess aðnjótandi að eignast nýja nágranna. Nýja nágranna í tvær vikur. Takke gud sko lov. Ég skil ekki hvert málið er með þessa nágranna, þau spila græjurnar í botni. Ha? Allan daginn meira og minna. Og hvað eru þau að spila? Popp. Rokk. Dægurlaga splopp. Ég botna nú bara ekkert í þessu. Hvernig meika þau þetta?

18.6.09

Kína

Skrifstofufélagi minn er frá Meginlandinu. Kínverjar kalla landið sitt Meginlandið. Alveg eins og Bandaríkjamenn kalla sitt land Ameríku. Mér finnst það fyndið. Hann sagðist stundum öfunda mig mjög mikið. Fyrir að hafa óheftan aðgang að netheiminum. Í Kína er það ekki málið. Youtube er bannað og wikipedia. Það má ekki heldur blogga.

Hann segir líka að Kína sé ekki lengur kommúnistaríki. Núna er það bara einræðisríki. Alveg eins og í sögunni um dýrin. Það nýjasta hjá stjórnvöldum er að skipa fyrir að hver tölva skuli vera með njósnabúnað sem sendir upplýsingar um hvað fólk gerir á tölvunni sinni til þeirra. Í þágu öryggis náttúrulega, fyrir börnin. Zuowei heldur að þetta verði dropinn sem fyllir mælinn og að haldið verði upp á 20 ára afmæli ´89-atburðarins fyrir alvöru hvað á hverju.

15.6.09

Viltu búa með mér?

Í dag er síðasti dagurinn sem ég vinn í housing works. Ó hvað það er sorglegt. Óli er að flytja úr lystisemdunum í soho í unglinga hverfið Williamsburg. Við skoðuðum íbúð í gær þar sem tveir tónlistamenn búa í tveggjaherbergja íbúð og Óli leigir annað herbergið. Ég er einnig að hugsa um að búa með roommates í Hyde Park. Einkennilegt að vera svona í rewind mode.

12.6.09

Bakaríið í sohojaskógi

Alls grunlaus um hvað ég átti í vændum keypti ég mér brauð í bakaríinu í næstu götu til að borða í hádegismat. Oft kaupi ég brauð í þessu bakaríi því þetta er fyrsta flokks franskt bakarí og bara hérna handan við hornið.

Ég borgaði fyrir brauðið, brosti og var almennileg eins og mér er von og vísa. Því kom mér það í opna skjöldu er ég bragðaði á brauðinu og fann að það var brim salt. Svo salt að ég átti í vandræðum með að kyngja því. Ég held að bakarinn hljóti að hafa verið að horfa eitthvað á afgreiðslupíurnar þegar hann var að mæla eina teskeið af salti. Ha!

Já, þetta var það áhugaverðasta sem gerðist hjá mér í dag. Ég hugsa að það rætist þó úr daginum því við Óli erum að fara á show í kvöld eftir dosa og thali á suður-indverskum stað sem ég er búin að finna fyrir okkur. Gaman gaman.

En ég fór aftur með brauðið og sagði farir mínar ekki sléttar. Í staðin fékk ég annað brauð, helmingi stærra sem var ljómandi ljómandi gott og passlega salt.

11.6.09

community team work

Vinnustaðurinn hans Óla er með sjálfboðaliða prógram þar sem starfsmenn mega taka einn dag á ári í community team work og fá borgað eins og þeir væru í vinnunni. Það kemur í ljós að þetta er eina vinnustaðapartíið sem mökum er boðið með. Þannig að ég tók mér frí í minni vinnu og fór í sjálfboðavinnu með öllum bankamönnunum og einni bankakonu.

Verkefnið var að eyða deginum með 15 ára unglingum. Hver fullorðinn var paraður við einn ungling. Við spjölluðum svolítið, fórum í leiki og klifruðum upp 30 metra háan vegg. Stofnunin sem skipulagði og sá um daginn heitir outward bound og er sjálfseigna stofnun sem einbeitir sér að því að kynna útiveru fyrir börnum, unglingum og fullorðnum.

Unglingarnir fengu þennan dag í verðlaun fyrir að vera í hóp þeirra 15 nemenda sem stóðu sig best í starfsnámi sem skólinn þeirra býður upp á. Í lok dags sátum við um stórt borð og máttum tjá okkur um daginn. Tvennt af því sem krakkarnir sögðu er mér minnistætt. Annað var að þeim fannst áhugavert að sjá að fullorðið fólk er ekkert ósvipað og krakkar. Hitt var að þeim fannst gaman að vera með fullorðna fólkinu því það kom fram við þau sem jafningjar.

Þetta var alveg stórkostlegur dagur. Það var yndislegt að fá að vera bara manneskja. Ekki í neinu hlutverki. Hvorki nemandi, kennari, vísindamaður, kona, Íslendingur né útlendingur. Bara manneskja.

8.6.09

Sweet home alabama

neeeeii. New York náttúrulega. Ég er komin í heim til New York og hér er rjómablíða. Við Óli erum með smá project í gangi sem er að ganga hringinn. Hringinn í kringum Manhattan. "The great saunter". Við byrjuðum syðst á eyjunni og gengum í vestur. Ég gaf Óla eldgamla bók um hvað er að sjá leiðinni og meðan við göngum segjum við hluti eins og "hér var eitt sinn leynistígur" eða "nú er hér huggulegur garður en áður var hér allt í niðurníðslu." Það er bara gaman. Ýmislegt stendur þó enn.

2.6.09

komin upp í sveit

Þótt ég búi í stórborg í miðri ameríku get ég komist upp í sveit á skotstundu. Ég er svo heppin að þekkja bónda sem selur mér mjólk úr geitunum sínum og hún bragðast eins og Flókadalurinn. Eins og vel melt gras. Og með brauði með heimastrokkuðu smjöri, ha! gerist ekki meira sveit. Nema kannski sveitin sjálf.

Það er alveg útí hött kalt hérna í Chicago. Kominn júní og ég fór út að hlaupa í flíspeysu með vetlinga. Ég hef ekki verið mjög dugleg við að fara út að hlaupa undanfarið. Það sem var aðeins svekkjandi var að ég fékk ipod. Áður þegar ég fór út að hlaupa sá ég að allir voru með ipod og að lokum fannst mér eins og mig langaði kannski líka í ipod. Síðan fékk ég hann. Frá manninum mínum. Mér aldeilis að óvari. Það var ekki það sem var svekkjandi. Það var súper að fá ipod og ég átti ekki einu sinni afmæli. En það sem ég átti heldur ekki var góð hlaupa tónlist. Ég reyndi allt sem mér datt í hug. Rokk, popp, rapp en ekkert virkaði nógu vel. Rappið var kannski skást og þá aðalega Obama-mixið. Ég hljóp áreynslulaust með "Yes we can yes we can yes we can" í eyrunum. En loksins í kvöld, loksins, stokkaðist Vicky uppí ipodinn og það var alveg málið. Ég hljóp hringinn án þess að taka eftir því. Þaut meðfram vatninu, syngjandi með í viðlögunum, hrikalega hamingjusöm. Takk Vicky-stelpur og Orri, diskurinn er súper.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?