28.11.07

Húrra!!

Úff, ahhhh.

Ég veit ekki hvað ég á að segja, kannski bara: ég stóðst prófið! Er orðin doktors-kandídat. Fæ launahækkun. Alveg ágætt. Þetta var stressandi. Nefndin mín breyttist í styttur og bara einn gæji brosti og kinkaði kolli, ég reyndi að horfa sem mest á hann. Jæja, best að fara á Le Bouchon. Jei! Nammi namm.

23.11.07

Hátíð gestrisnis og þakklætis

Þakkargjörðahátíðin stendur nú yfir hér á landi. Ég verð að viðurkenna að ég er bara nokkuð hrifin af þessari hátíð. Hún fjallar bara um það að ættingjar komi saman og hafi það huggulegt. Það eru engar gjafir eða skyldur aðrar en þær að elda kalkúninn og garskersböku.

Þetta árið fórum við í tvær samkomur. Sú fyrri byrjaði klukkan níu um morgun á Phoenix í Dim Sum. Per, leiðbeinandinn hans Óla bauð nemendum sínum í morgunmat. Það var mjög huggulegt og ógnarúrval kínverskra smárétta. Um kvöldið var okkur boðið til nýja prófessorsins í deildinni minni, hennar Liz sem er hálfdönsk og því ekki að spyrja að því, huggulegheitin allsráðandi. Kalkúnninn hafði átt hamingjusamt líf þar sem hann hljóp um víðan völl að leik með kynbræðrum sínum í Indiana fylki. Salatið, stappan og sultan var súper. Súpan fór reyndar á gólfið og útum allt eldhús en það kom ekki að sök, nóg var af mat.

Við erum að passa kött. Hana Sasha. Hún er ekki manngefinn köttur. Greyið, ég hálfvorkenni henni að vera alein heima í íbúðinni. Við komum bara við hjá henni daglega til að gefa henni mat og vatn og leika aðeins við hana nema hvað henni finnst ekkert gaman að láta leika við sig. Jæja, hún um það.

21.11.07

Gott að nota smokk

Ef þú ert ekki sannfærð(ur) um það nú þegar þá mæli ég með þessu tónlistamyndmandi. Þetta lag er heilmikið tónverk, ég gæti hlustað á það daginn út og inn.
20.11.07

Duglegir krakkar

Vá, ég er svo imponeruð yfir nýju fyrsta árs nemunum okkar. Þau eru fimm sem eru kínversk og samviskusamara fólk hef ég varla hitt. Þau lesa allt í meiri þaula en ég hefði haldið að væri hægt. Spáð er í hverri einustu setningu og ekki látið staðar numið fyrr en fullkominn skilningur er fyrir hendi.

Það er kominn dagsetning á proposal-fyrirlesturinn minn. Á miðvikudaginn eftir viku. Ég sýndi leiðbeinandanum mínum 20 blaðsíðna skjalið mitt. Hann skoðaði það aðeins og sagði að það liti út eins og proposal skjal og ég ætti að halda fyrirlestur. Þannig að það er næst á dagskrá.

17.11.07

Huggulegheit

Engin skortur er á huggulegheitum hérna í Chicago. Humarsúpa, rauðvín ostar og desert... bara nefna það. Eitthvað var Óli síðan reyndar ósáttur við bíómynd kvöldsins en það var myndin Family Stone, heilmikil gæða mynd sem ég hef dálæti haft af í langan tíma. Sagði þetta vera kellingamynd...

Allavegana, það er svaka gott að mínu mati að það sé komin helgi. Þessi vika var einum of. Þrír fyrirlestrar af minni hálfu og á einun þeirra svaf hálfur salurinn. Það var a first fyrir mig, að hafa sofandi "áheyrendur". Verð að segja að ég er ekki of hrifin af þannig set-up-i. Lítur út fyrir að high-schoolers í suðurhluta Chicago fái ekki góðan nætursvefn. Ég var reyndar byrjuð að þursa yfir þeim klukkan korter í níu, kannski ekki skrítið að menn séu í sibbnari kantnum.

Næsta vika verður rólegri, engir fyrirlestrar, engin kennsla, ekkert skipulagt nema bara skrifa proposal. Og næsta vika þar á eftir eða þeirri á eftir verður proposal talk. Hvað ætla ég að rannsaka svo ég geti skrifað heilsteypta doktorsritgerð. Mmmm...

15.11.07

náttúrulegar ýkjur

Borið hefur á því að náttúrufræðingar og jarðvísindafólk ýki þegar kemur að því að lýsa einhverju. Ekki er óeðlilegt að heyra "fyrir milljón árum gerði ég þetta" eða "hann hefur skrifað milljón greinar".. eitthvað á þessa leið. Ég hef tekið eftir því að þetta getur farið í taugarnar á fólki sem er ekki jarðlega þenkjandi. Það er náttúrulega augljóst hvaðan þessi talsmáti kemur, í jarðvísindum er allt minna en milljón geðveikt lítið. Milljón ár til dæmis í jarðsögunni eru eins og nokkrir mánuðir hjá fólki, milljón kvikindi í rúmmeter af sjó eru örfá kvikindi.

Hinsvegar skil ég líka að annað fólk sé ekki á sama máli. Vísitöluhækkanir um 5 prósentur er svaka mikið. Engar milljónir í gangi þar. Fjöldi barna sem maður er að kenna er kannski 20, ekki gott að vera með milljón. Þannig að það er skiljanlegt að flestum hryllir við töluna milljónir hvað þá milljarða.

11.11.07

Ég er svo hrifin af Ingibjörgu Sólrúnu

Já, þetta er stuðingsyfirlýsing. Ég er líka hrifin af Steingrími. Reyndar er ég hrifnari af honum. Við Óli vorum að horfa á Silfur Egils og Ingibjörg var í lokaatriðinu, þess vegna fær hún titilinn.

Ég er að undirbúa journal club. Það kom á mig að stjórna umræðunni á morgun. Greinin sem varð fyrir valinu er um SOA, secondary organic aerosols, agnir í loftinu sem endurspegla sólarljós. Mjög áhugavert og mikið óvitað um hegðun þessara agna.

Ég er með spurningu fyrir lesendur mína. Hún er svohljóðandi. Er sellerírót til sölu í matvöruverslunum á Íslandi? Sellerírót er nýji uppáhalds maturinn minn. Ég hef verið að elda þessa rót svolítið undanfarið. Fyrst í kartöflugratíni, síðan með öðru grænmeti. Þessi rót er svo góð, hún er unaður. Lærimeistari minn líkir henni við truflum. Ég er sammála henni.

Annars er ekkert að frétta af okkur. Bara þetta sama, vinna, dunda, elda.

5.11.07

Er einhver búinn að sjá nýjustu skýrsluna um

mataræði og heilsu? Óli er búinn að lesa hana og fræða mig um það að til að komast hjá því að fá krabbamein er gott að borða 600 grömm á dag af sterkju-mögru grænmeti. Kartöflur, sætar eða ekki, maís, baunir eru dæmi um grænmeti sem er sterkju-ríkt. Einnig er mælt með því að borða aðeins um 300 gr af rauðu kjöti á viku. Ekki borða orkuríka fæðu, mælt er með því að 100 gr. af mat innihaldi aldrei meira en 150 kaloríur. Skinku og annað reykt kjöt á að forðast. Sjónvarpsgláp veit ekki á gott og reykingar eru náttúrulega no-no númer eitt.

Ég myndi segja að lifnaðarhættir okkar Óla séu svona 60% í samræmi við þessa skýrslu. Við reykjum ekki og hreyfum okkur þónokkuð. Mættum hreyfa okkur meira. Við borðum sennilega svona 300 gr af kjöti á viku en þar er með talin skinka, ósöltuð (það er plús). Við borðum ekki 600 grömm af sterkjulausu grænmeti og ávöxtum á dag, held ég, en ég veit það samt ekki, ég myndi segja 400 gr. Allavegana undanfarnar 2 vikur höfum við reyndar borðað mjög mikið af eplum. Við borðum þónokkuð af brauði, osti, mjólk og hrísgrjónum. Þannig að næsta skrefið hjá okkur í fæðumálum er að borða meira grænt grænmeti.

Fyrsti dagurinn var í dag. Ég eldaði heilan pott af rósakáli sem við borðuðum með karrísósu. Með kálinu var ommuletta með papriku, tómötum og rauðlauk. Eggin voru lífrænt ræktuð og eitt þeirra virtist vera klórað af hænu, það var allt út rispað. Það virtist eins og hún hafði ekki viljað sleppa því. Allavegana, þetta er það sem við spáðum í í dag. IPCC report fyrir krabbamein.

1.11.07

$100

Hundrað dollarar! Það eru peningarnir sem ég fæ fyrir að halda fyrirlestur í barnaskólum borgarinnar. Jei! Mér líður eins og Al Gore. Ég leyfði konunni að bóka mig fyrir annan fyrirlestur hiklaust. Mér finnst ekkert smá gaman að vera komin með nógu mikið sjálfstraust til að geta rúntað um og talað um veðurfarsbreytingar. Enn skemmtilegra er að það er áhugi í heiminum fyrir því að ég geri það.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?