29.1.08

Það er komið barn!

Jei, vinum okkar öðlaðist sú mikla hamingja að eignast stúlku þann 28. janúar. Mér fannst það nú svolítið ótrúlegt en við vorum með partý, svona smá afmælispartý, á laugardaginn:

grillaður lax í forrétt
boeff bourgignon í aðalrétt ásamt sellerírótar gratíni
ostar
ilé flotant í eftirrétt.

Við Óli elduðum í 8 tíma með tvemur pásum rétt til að nærast og síðan komu gestirnir. Tvær óléttar konur og þeirra menn. Ég hélt nú að þetta myndi vera svona í rólegri kantinum í ljósi afkvæmisaðstæðna en það var nú ekki. Að 5 vínflöskum, einni tekíla og einni chartreuse loknum klukkan rúmlega 4 um morguninn tíuðu þau sig heim á leið og viti menn! Innan við sólarhring var stúlkubarnið fætt.

Þetta er nú eitthvað til að hafa í huga fyrir óléttar konur. Djamm er greinilega besta leiðin til að koma fæðingu af stað.

24.1.08

Chit chat

Mér finnst einfaldur matur svo góður. Eins og í kvöld, þá var blómkál í matinn. Við borðuðum yfir okkur í öll mál í gær svo í dag var bara súrmjólk í hádeginu og blómkál um kvöldið. Óli var með nostalgíu yfir blómkáli með osti eins og mamma hans gerir. Við flettum að sjálfsögðu upp í nýju matreiðslubókinni 'eldað í dagsins önn'. Þar stakk frúin upp á því að blanda saman sýrðum rjóma, majonesi og karrý-i og setja síðan ost yfir. Það leist mér nú ekki alveg nógu vel á. Sýrður rjómi er svo nineties. Einhverstaðar annarstaðar er stungið upp á bechamel sósu sem mér líst betur á. Betra að fara aftur í aldir en áratugi. Við setjum múskat (nýmalað, mm), sinnep, pipar og smá rifinn ost útí sósuna. Síðan Emmenthaler ofaná og baka þangað til húsið ilmar. Þetta var svo gott. Ég var að enda við að kroppa úr fatinu og gat ekki stillt mig um að tjá mig um þetta góða blómkál. Blómkálið naut sín alveg til fulls og maður fann svaka gott blómkálsbragð sem maður slysast stundum til að sjóða í burtu. Alveg dýrlegt.

Hérna er mynd af mér tekin á nýju myndavélina.



Hyde Park Produce er búin að vera að flytja í stærra húsnæði síðan í sumar. Ætluðu að opna um þakkargjörða hátíðina, síðan um jólin. Enduðu með að opna á afmælinu hans Óla. Við fórum bara í dag. Hálft hverfið var að versla hjá þeim. Enda ekki önnur matveruverslun í hverfinu. 50 þúsund manna hverfi var án matvöruverslunar. Alveg agalegt. Það eru Mexíkanar sem eiga þessa búð. Ótrúlega sætir. Það voru allir svaka hamingjusamir að versla, óskandi strákunum til hamingju. Yfir hálfan vegginn stendur stórum stöfum: Welcome to our dream !!

Óli fékk wii í afmælisgjöf og við spiluðum tennis þangað til okkur verkjaði í handlegginn. Síðan tókum við wii-fitness prófið og ég er með wii aldur 66 en Óli er rétt 39.

Í Chicago er mjög kalt. Tuttugu gráða frost núna í örugglega tvær vikur. Stökk út +20 í -20 á svona 4 dögum. Mann langar alls ekki út. Betra að vera inni í huggulegheitum. Með rauðvín og osta. Til dæmis.


23.1.08

Tvenna fimmtán þá bóndi ber


Þá er ekki úr vegi en að skella inn síðustu myndinni sem fjölskyldumyndavélin okkar mun taka. Því myndavélin er í fyrsta lagi ónýt og í öðru lagi er önnur komin í staðin. En Óli var svo heppinn að fá myndavél í afmælisgjöf frá Óla. Akkúrat eins og hann langaði í og var búinn að óska sér í 6 ár.

22.1.08

"A time comes when silence is betrayal."

Martin Luther King dagurinn var í gær. Þá er kongurinn heiðraður með umræðu og endurflutningi ræðna hans í útvarpinu. Ég hlustaði á ræðuna sem hann flutti fyrir utan Riverside kirkjuna þann 4. apríl 1967. Í henni tilgreindi hann og útskýrði hvers vegna hann var á móti stríðinu í Víetnam. Hann fann sig knúinn til þess að gera það þar sem margir fylgjendur hans skildu þá afstöðu illa. Fannst hann vera að fara út fyrir sína lögsögu.

Þessi ræða er ekkert smá flott. Ég var mjög hrærð. Reyndi að ímynda mér hvernig ég hefði upplifað áheyrnina væri ég svört kona á þessum tíma. Óskaði þess að það væri svona leiðtogi í dag sem ég gæti litið upp til og mundi þá eftir Al Gore. Enginn er fullkominn, en þegar menn leggja hart að sér og gera sitt besta, þá er það aðdáunarvert og ekki hægt að ætlast til meira.

18.1.08

Mjög góð saga:hér.

..."Judd’s business philosophy is much the same as it was when he started Myopic: start out small and stick to your guns. “You know, anything that people have done for thousands of years, you can do,” he says. “It doesn’t mean you can do it well, but you can do it. You can do pottery, you can draw, you can speak, read. Farming is the same way. There’s a sense that the mere fact that you are a human being, the legacy of all that’s come before you is continued in that. "

Ég las líka sögu í tímaritinu the Atlantic sem er ekki ósvipað og íslenska tímaritinu Þjóðmál. Þar var saga um einkaskóla á Indlandi. Fram kemur í henni að um fjórðungur fátækra indveskra barna ganga í einkaskóla sem eru kannski bara ein lítil skólastofa með einum kennara, en þau standa mun betur að vígi námslega séð en börn sem ganga í ríkisreknum skóla. Skólagjöldin eru 2-5 krónur á dag og oftar en ekki veit ríkisstjórnin ekki um tilvist þessara skóla. Mjög merkilegt.

Minnir mann svolítið á micro-lánin. Lausn sem kemur frá fólkinu til fólksins án afskipta ríkisstjórna.

16.1.08

hamingja og bjartsýni komu hönd í hönd

Ha ha, væri ég 12 þá myndi mér finnast þessi fyrirsögn mjög væmin. Sigurdís mín kíkti í kaffi um helgina. Það var sérstaklega indælt að fá að sjá hana aðeins. Við fórum í klifur, á fínan veitingastað og síðan á jazz á Andy´s. Alveg stórkostlegur laugardagur.

Núna er ég á fullu að vinna í verkefninu mínu. Er að búa til nýtt forrit með ögnum sem nú þurfa að átta sig á því hvort þær límast við nágrannaagnir sínar eða ekki. Reyndar er það ekki mikið mál fyrir þær, aðalmálið er fyrir mig, að setja inn flóknar reikniformúlur svo tölvan skilji hvað er í gangi. Þessi tölva er nefnilega frekar einhverf, hún vill bara tölustafi og ákveðin orð en hunsar meiningar og hlýhug.

Já já. Ég er að lesa bók sem ég fékk í jólagjöf. Í henni eru persónur sem segja já já og jæjæ til skiptis. Það finnst mér mjög notalegt. Mér finnst í góðu lagi að segja já já og jæja, en ég hugsa að það þyki tabú. Betra er að hafa gamansögur á vörunum en þessi gamalkunnu orð. Finnst fólki. Ekki mér. Þess vegna kann ég vel við að fara í heimsókn til ömmu og afa, þar er í góðu lagi að segja jæja. Það sem er svo skemmtilegt við jæja er að hægt er að útfæra það á marga mismunandi vegu. Hundrað meiningar í einu litlu orði sem þýðir ekki neitt. Ekki neitt og allt í einu. Awsome!

10.1.08

nei, bjartsýnin hefur ekki látið sjá sig.

Ég hef stöðugar áhyggjur af því að Ísland sé að feta í fótspor þessa lands sem ég nú kalla heima. Ekki nóg með að ný hverfi rísa upp í sveitinni, fjarri allri menningu og þjónustu, pallbílar og mini-vans þykja eðlileg faratæki fyrir fólk, kex jafnt og undirfatnaður fæst í byggingavöruverslunum, sem væri yfir-nóg efni í sjálfstætt reiðikast, heldur er fjármálavit landans að fara sömu leið.

Stíll, fágun, flott og fínt hrópar á mig þegar ég kem til Íslands í dag. Byrjar strax á Leifstöð. Stílhrein flugstöð, með stílhreinum auglýsingum á veggjunum. Kem til Reykjavikur. Klæðaburður, húsgögn, stell, allt er spes og úthugsað, mjög flott. Útlitið er mikilvægt. Mikið er spekúlerað í útlitinu.

Fyrir mér var það mikill léttir að koma aftur til Chicago. Mér fannst mjög þrúgandi þessi krafa um útspekulerað útlit. Það er kannski enginn að segja manni að maður eigi að vera svona eða hinsegin, en þegar maður kemur svona eftir árs (margra ára) fjarveru og allir eru á þessari bylgjulegd og maður ekki, þá er það óþægileg tilfinning og manni líður eins og maður sé að einhverju leiti ófullnægjandi.

Þess vegna er líka mjög notalegt að vera hjá ömmunum sínum. Þar eru hlutirnir ekki jafn útspekuleraðir. Þar eru bara húsgögn, myndir og stell, ekkert mikið úthugsað, bara venjulegir innanstokksmunir. Þar er randalín frá 1750, engar sörur. Ég er algjör afturhaldsseggur, það er alveg greinilegt. En, málið er bara að það er svo augljós sannleikur fyrir mér að margir hlutir voru betri áður og eru verri nú.

Bandaríkjamenn fóru á offorsi inn í framtíðina. Þegar maður lifir og hrærist í þeirra samfélagi hér, þá sér maður mjög greinilega hvað er slæmt og hversu slæmir hlutirnir geta orðið. Því er það mjög sorglegt fyrir mig að sjá Ísland vera að sigla þessa sömu leið þegar afleiðingarnar eru nú þegar ljósar hérna í Bandaríkjunum.

En það var einmitt þessi umfjöllun um skuldir og kreditkortafyrirtæki sem var kveikjan að þessu kasti.

8.1.08

Blómate

Einstaka sinnum stelst ég í teið hennar Liz, nýja prófessorsins okkar. Það mjög gott. Kraftmikið með pínulitlum bláum blómum í. Ljúft er líka að vera komin á skrifstofuna sína, búin að taka til og stroka allt útaf töflunni, enda úrelt. Jei. Gaman þegar nýr kafli byrjar hjá manni. Það er eins og að fá ferskmeti eftir að hafa lifað allan veturinn á niðursuðuvörum.

Annars er veðráttan hér ekki eins og við væri að búast. Hiti í tveggja stafa tölum og úrhelli sem lætur sturtugreyjið fá minnimáttarkend. Mér líst ekki á blikuna þar sem ég sit og les skýrsluna "Age of Consequences" sem fjallar um áhrif hitnunar jarðar á jarðbúa hvað varðar öryggi og heilsu. Afleiðingunum er skipt í 3 flokka: expected, extreme og catastrophic. Expected er 1.3 gráðu hækkun á meðalhitastigi jarðar á næstu 30 árum og afleiðingarnar meiri flóð, þurrkar, hækkandi yfirborð sjávar, uppskerubrestar og sjúkdómar. Extreme er aðeins meiri hitahækkun (spáð með því að taka með í reikninginn jákvæð feedback (sem er ljóst að eru hluti af veðurkerfinu)) og afleiðingarnar enn öfgakenndari.

Catastrophic reiknar með um 5 gráðu hækkun á næstu 50-100 árum. Það sem er í senn ógnvekjandi og áhugaverð mannfræði-pæling, finnst mér, er að miðað við það sem vitað er um hvernig veðurfar bregst við auknum gróðurhúsaloftegundum, þá er það ekki ósennileg niðurstaða. En þrátt fyrir alla þessa kunnáttu, þá vissu (segjum 75% til að vera dipló) sem við höfum um hvað bíður okkar siðmenningu, þá höldum við bara áfram eins og ekkert sé.

Kannski er ekki hægt að gera neitt. Samfélagið verður að ganga. The Show must go on. Það er ekki hægt að setja á pásu meðan orkuvandinn er leystur. Eða meðan Snorri vinnur doktorsverkefnið sitt. Sólveig gefðu Snorra hráa eggjarauðu og lýsi! Þessi veruleiki sem við búum í minnir mig á norsku grænlendingana sem borðuðu síðasta kálfinn sinn, gátu ekki annað, nöguðu síðan beinin uppi í rúmi.

6.1.08

Leiðréttingar

Jáhh, við lestur færslunnar hér að neðan komu í ljós staðreynda villur.

Mig langaði bara að koma því að að hér í Chicago er 14 gráða hiti. Og voru 18 í dag!! Við erum búin að vera með opið upp á gátt að reyna að kæla og fólk úti á götu er á stuttbuxum. Annars er allt gott að frétta. Óli minn eldaði lauksúpu og ég bakaði köku og gerði salat með dressingu í kvöldmatinn. Síðan erum við búin að vera að hlusta á Hjaltalín og erum nokkuð ánægð með. Eitt lagið minnir mig mjög mikið á Sverri Stormsker, muniði.. syngjum öllum sókrates... sálarinnar herkúles... kemur þetta fyrir einhvern annan?

desember 2007

Ég skrifaði ekki neitt á bloggið í desember en hann var einmitt besti mánuður ársins 2007. Þess vegna get ég ekki byrjað þetta blogg ár án þess að hripa niður nokkrar línur um hvers vegna hann var svona góður.

Það byrjaði á því að ég tók og stóðst the long dreaded munnlegu próf. Síðan fórum við Óli út að borða á uppáhalds franska bistroinu mínu í Chi. Stuttu seinna fór ég til San Francisco þar sem ég var með mitt fyrsta munnlega erindi. Og síðast en ekki síst, fór ég í langþráða heimsókn til Íslands. Sú heimsókn var í alla staði yndisleg. Hún byrjaði á afmælisveislu móður minnar, stuttu seinna var útskrift systur minnar, jólin komu og síðan gamlárskvöld.

Gamlárskvöld var alveg svaka. Huggulegheitin hjá Hafdísi voru ótrúleg. Ora ætti að fá uppskriftina hjá henni af rauðkálinu. Skaupið var súper, sérstaklega kunni ég að meta bloggbloggbloggbloggblogg brandarann. Síðan fór klukkan að nálgast 12. Útsýnið úr stofuglugganum hans Odds og veðrið voru eins og best var á kosið. Ég gat fengið lánaðar buxur og girt kjólinn minn ofan í þær, úlpu, húfu, trefil og allt til að ég gæti farið út og upplifað komu nýs árs first hand. Það kom með þrusulátum.

En nú erum við komin aftur heim til Chicago. Árið er 2008 svo ég verð að geyma þessar spekulasjónir því yfirskrift færslunnar er hætt að virka.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?