28.2.06

Komin heim fra chill-fylkinu mikla

Ég nenni ekki alveg að skrifa um Hawaii í augnablikinu. Rástefnan/fríið var heljarinnar mikið success en ég er svo þreytt núna að mig langar bara að skrifa um hrísgrjónagrautinn sem ég lagaði í kvöld.

Kanillinn var búinn og grauturinn var til. Ég vildi ekki kaupa kanildós á okurverði í sjoppunni fyrir utan svo ég gramsa í kryddskápnum og finn kanelstangir sem voru afgangs frá jólaglögginu. Í sumar gaf mamma mér mortel svo eftir tíu mínútna puð var komið dýrindis kanel duft sem við gátum blandað með sykri og stráð yfir grautinn. Og ég sver það, ef grillið myndi bjóða upp á grjónagraut með rúsínum, þá væri hann svona. Fallegri kanel-agnir hef ég ekki séð, þetta var eins og listaverk. Mæli með því að mylja sinn eiginn kanel. Húsið fyllist líka af kanel lykt. Mjög yndislegt.

19.2.06

Júróvisjón lengi lifi

Meðan ég bíð eftir Young Jin, sem er ALLTAF á síðustu stundu með allt, þá skemmti ég mér við að skoða júróvisjón lögin. Mér finnst þau flest mjög góð og mér finnst Silvía Nótt dúndurgóð, alveg jafn góð og Gleðibankinn fyrir 20 árum. Eru það í alvöru 20 ár! Ég skil nú ekkert í mér að samþykkja að vera samferða Young Jin á flugvöllinn en það var annað hvort það eða að taka strætó. Jæja, best að setja EMINEM á til að róa mig.

Á leið til Hawaii

Ég vildi að ég gæti bloggað um eitthvað áhugaverðara en þetta er bara það eina sem ég get hugsað um á þessari stundu. Jei. Enn eina ferðina fer ég til San Fransisco án þess að fara þangað. Ég er nú ekkert að svekkja mig á því en það sem er svekkjandi er að það er rigningatíminn á Hawaii og veðurkortið er alveg hvanngrænt yfir öllu.

Talandi um veðrið þá er búið að vera hrikalega kalt í Chicago. -20 gráður í gær og fyrradag. Það er fáránlega kalt. Í dag eru -12, það er alveg nógu kalt og Óli í Wisconsin á snjóbretti með vinum okkar Angie og Justin. Ég vona að þau nái að halda á sér hita. Og komi heim í heilu lagi. Þau eru að fara í fyrsta skipti.

16.2.06

Tússpenni með jarðaberjalykt...mmmm

Núna skrifa ég bara með bleikum tússpenna því það er svo góð lyktin af honum, plast-jarðaberjalykt. Svona rétt fyrir ráðstefnuna er svaka fjör á deildinni, allir að fatta hvað rannsóknirnar þeirra leiða í ljós. Ég var búin að skrifa allskonar á plaggatið mitt síðan fraus forritið. Það var ekki svo gaman. En allt í lagi samt.

Ég trúði því ekki þegar mér var sagt að þegar gifsið yrði tekið þá yrði ég öll loðin með svört hár á hendinni. En núna er ég búin að sjá það með eigin augum á eigin hendi, sem hefur í 27 ár verið slétt sem barnsrass, að gifs hefur svona líka örvandi áhrif á hárvöxt. Mér finnst ekki í lagi að vera með hár á hendinni, langleiðina niðrað lillaputta. Það er bara fyrir karlmenn. Og apaketti. Hvað á ég að gera í þessu, vaxana? Mamma mía, og ég að fara til Hawaii. Molokai. Reyndar ekki Molokai en mér finnst það bara svo flott nafn að ég varð að skrifa það. Við erum búin að vera að venja okkur á Hawaii með því að drekka kaffi þaðan. Ekki frá Kona eldfjallinu reyndar, frá Kahaui, það er ódýrara. Ég skil ekki hvers vegna þetta Konu kaffi er svona dýrt. Ég get bara ekki ímyndað mér að það sé mikið öðruvísi en það frá Kahaui. En það ætla ég að athuga, vel og gaumgæfilega eftir nokkra daga.

14.2.06

Íslensk Ýsa

Í costco fórum við um helgina, (ég ekki af fúsum og frjálsum vilja, Óli sáttur, tveir drengir voru með í för sem vildu það endilega) og fundum þar fisk á góðu verði. Það var ekki annað en haddock from Iceland sem er einmitt Ýsa frá Íslandi og sem Íslendingum fannst okkur við ekki geta gengið frá henni svo við erum búin að vera með steiktan fisk í matinn tvo daga í röð. Ég var alveg búin að gleyma því hvað ýsa er góð, mamma var alveg hætt að gera ýsu, það var bara silungur og lax eða þorskur. (Eða fiskur í orly). En við Óli erum svo mikið lúxus fólk að með ýsunni var franskt sælkerasmjör (steinselja, hvítlaukur og sítrónu blandað saman við smjör), ferskt salat með mexíkóskum gulum lífrænt ræktuðum peru tómötum, soðnar kartöflur og brokkolí og síðan hvítvín. Við fáum ekki mjög oft fisk en þegar það gerist, þá er maður bara hamingjusamur vikum saman á eftir. Fiskur er nú bara það besta sem ég veit.

Um helgina spiluðum við annað spilanna sem ég gaf manninum mínum í afmælisgjöf. Game of Thrones. Það er einmitt spil eftir bókaseríunni sem við erum að lesa, song of ice and fire. Frábærar bækur og líka gott spil. Fyrir utan það kannski að það er ekki mjög vinvætt. Það snýst um að lemja á hinum og tekur langan tíma svo undir lokin þegar sólin er farin að rísa, er hætta á því að menn verði súrir útí hvern annan. Það er því gott að við erum fullorðið og skynsamt fólk sem ekki lætur spil hafa áhrif á okkur.

En þetta ljóð hérna á undan orti einn sem mælir 57. stræti þegar ég gekk framhjá honum í gær og þótti mér fyndið mjög.

13.2.06

Óður frá heimilislausum

Help the homeless
Laugh at the homeless
Smile to the homeless
Shoot the homeless
Throw the homeless out the window

8.2.06

Snjóar uppávið

Byggingin sem ég er í er mjög furðuleg og það myndast einhverjir óvenjulegir straumar í kringum hana því þegar ég lít út um gluggan sé ég snjó detta upp. Mér líður svolítið eins og Dísu í undralandi þegar það gerist. Það er kúl.

Annars get ég ekki orða bundist yfir þessu teiknimynda veseni. Ég held eiginlega að þessi vandræði hafa ekki svo mikið með teiknimyndirnar að gera sem slíkar. Menn finna sér bara eitthvað til að vera súrir útí vegna þess að þeir vilja vera súrir. Kannski hefur einhverjum fundist þetta vera að gera gys að trúnni en aðallega kraumar ósætti og óánægja og því þarf ekki nema smá áreiti til að allt fari í háaloft. Hinsvegar er þetta alveg hrikalegt ástand og svolítið ógnvekjandi finnst mér.

6.2.06

Pönnukökuævintýri

Þetta byrjaði allt saman á föstudagskvöldinu. Sex manns voru samankomin á heimili Tinnu og Óla í suðurhluta Chicago borgar að spila eitt spil Settlers. Þarna voru fastakúnnarnir Young Jin og Sara. Matthew félagi þeirra var líka með og síðan snót frá vesturströndinni Solla nokkur einnig kölluð Sóla. Stuðið var þvílíkt að ekki vildi fólkið tía sig heim fyrr en klukkan að ganga þrjú. Var þá hugmyndin að skutla Sollu heim og ég hugsaði með mér að ég gæti alveg farið í smá bíltúr, þetta yrði í mesta lagi klukkutími og ég búin að drekka of mikið kaffi fyrr um kvöldið þannig að ólíklegt var að ég myndi sofna og það væri líka kósí fyrir Óla að hafa félagsskap á leiðinni heim. Nema hvað. Northwestern er lengst lengst upp í sveit. Og um fjögurleytið voru sumir orðnir svangir á ný svo það var stoppað á Zaiga, og bragðað á besta pakistanska matnum í bænum. Lambakjöt með zucchini. Sem sagt. Við fórum ekki að sofa fyrr en klukkan fimm, sem er alveg vonlaust fyrir svona fólk eins og okkur sem vaknar klukkan níu á hverjum morgni.

Það var því úr að við vöknuðum klukkan tvö og ég eyddi öllum laugardeginum í að baka pönnukökur. Fékk reyndar smá kaffipásu. En það var allt í lagi. Ég staflaði pönnukökunum í píramýda eins og maður gerir þegar maður er búinn að rúlla þeim upp með sykri, setti smá sellófan yfir og út í bíl. Beint í aftursætið. Höldum við hjónin þá af stað í Andersonville með smá stopp í Binna búð og Óli sækir bjór. Hann áttar sig ekki á því að ég lagði pönnukökurnar í aftursætið og skellir bjórnum beint ofan á staflan. Ó Ó Ó, dagafraksturinn að engu, tárin byrja að flæða en úps, eitthvað voru þetta harðgerar pönnukökur og þeim verður ekki svo illt af. Kokkurinn jafnar sig og við höldum áfram. Þegar við komum á partýstaðinn fer ég beina leið inn í eldhús með pönnsurnar, læt kokkinn fá þær og fer síðan beint í brennivínið. Hann kemur út eftir nokkrar mínútur og tjáir mér að diskurinn hafi runnið til og allt út um allt, ekki hægt að servera pönnukökurnar mínar.

Ég var nú ekkert hissa á þessu eftir öllu sem var á undan gengið og tók fréttunum með ró. DJÓK segir kokkurinn, allt í lagi með pönnsurnar, yfirkokkurinn hafði bara aldrei séð jafn fallegar pönnsur, og þegar ég hef tíma, gæti ég komið inn í eldhús og verið með smá tölu um hvernig maður gerir svona fínar pönnkökur. Þeir baka nefnilega sænskar pönnukökur á sænska pönnukökuhúsinu og aldrei séð jafn fallegar pönnukökur. Halló! Hei hó jibbíjei. Ég varð ekkert smá montin. Heyrðuði þetta!

Það varð náttúrulega úr að mínar pönnukökur voru lang glæsilegastar (það var fullt af öðrum pönnukökum í desert) og þær kláruðust líka fyrst! JIBBÍ! Geðveikt gaman. Þetta hef ég nú beint frá henni ömmu minni Bíbí sem gerir flottasta mat í heimi, sérstaklega punga, pönnukökur, grauta og súpur. Og líka ýmislegt annað, nema kannski saltkjöt, en geðveikt gott skyr.

5.2.06

Þorrablót 2006 Chicago

Var haldið í Andersonville, norðvestur Chicago, í gær. Við Óli höfum aldrei þorað að fara á þorrablót áður en fengum kjarkinn þetta árið. Það var einsgott því þvílíkt dúndurstuð hef ég sjaldan upplifað. Ég fékk meira að segja að vera með í kórnum! Við hittum fullt af Íslendingum þar á meðal frænku hans Óla, Brynhildi Gunnarsdóttur. Einnig myndlistamanninn Arnór Bieltvedt sem er með sýningu á skólavörðustíg 1a frá 18. febrúar til 4. mars. Smá auglýsing. Það var að sjálfsögðu boðið upp á allskonar góðgæti: svið og lifrapylsu, rúllupylsu og harðfisk, Óli smakkaði hvalspikið en ég lagði ekki í það. Í eftirmat voru kleinur, pönnsur, nóakonfekt og hrísgrjónagrautur. Ég bjó til langflottustu pönnsurnar og það er sko saga að segja frá því. Hún kemur í næsta tölublaði.

1.2.06

Grænmeti og sjávardýr örsmá

Ég hélt fyrst að geimverur hefðu rænt eiginmanninum mínum. Síðan mundi ég eftir málshættinum "einhvern tíman er allt fyrst". Óli minn eldaði um helgina Ragout aux Legumes, en það þýðist yfir á íslensku hugsanlega sem grænmetis pottréttur. Í honum voru tvennskonar grænar baunir, blómkál, salathjörtu, þistilhjörtu, kartöflur og rófur og gerlaus grænmetisteningur frá Raptunzel. Þið vitið þessi sem Sóla notar, fínustu grænmetisteningarnir. Allt grænmetið er látið sjóða/gufusjóða í hálftíma. Þegar það er tekið uppúr þá er eftir pínulítið af vatninu sem er hvann grænt. Það er það besta sem ég hef á ævinni smakkað. Nú erum við semsagt búin að borða grænmeti í öll mál í fleiri fleiri daga og er það vel.

Núna er ég á fullu að fatta hvað ég ætla að skrifa á plaggatið. Allavegana eitthvað um hvaða áhrif aukið koldíoxíð hefur á sjávarlíf (það veit ég því annað fólk er búið að vera að spá í því) en síðan hvernig dílar mitt líkan við það. Það er kúl því ég var bara að fatta að það að það hermir vel eftir gögnunum (the data), þeas. því sem mælingar finna. Fyrst fékk ég alltaf öfugt við það sem mælingar segja, en síðan fattaði ég að ég væri að gera eitt vitlaust, og núna stemmir allt.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?