31.3.14

Sólveig þriggja viknaLitla ljósið verður þriggja vikna á morgun.  Hún heldur áfram að vera draumabarn.  Hefur í rauninni bara grátið einu sinni þetta skinn.  Ég veit ekki alveg hvað var að angra hana þá en hún jafnði sig þegar ég vafði teppinu kyrfilega um hana.  Litli anginn.

Mamma er hérna hjá mér sem er yndislegt.  Mér finnst svona fjölkynslóðabúskapur svaka heillandi. Fólki kemur líka oft best saman við þá sem eru einni kynslóð frá, eins og barnabarni og ömmu eða afa.  Síðan er líka mikilvægt að fá visku og siði frá næstu kynslóð fyrir ofan foreldra sína.  Bæði fyrir börnin og samfélagið allt.

24.3.14

Sólveig Óladóttir Draumabarn

Teoretískt þá vissi ég að það eru til svona börn.  Sem sjúga brjóstið og sofa.  Vakna í korter rétt til að hægt sé að dást að því hvað þau hjala sætt og lognast síðan útaf.  Ég trúði því hins vegar ekki að ég gæti eignast þannig barn því Edda var akkúrat andstæðan við þessa lýsingu.  Hún orgaði samfleytt í tvo tíma daglega eða tvisvar á dag.  Hún stóð í vegi fyrir því að móðir hennar gæti farið í sturtu í rólegheitum í rúmt ár.  Hún vildi láta halda á sér allan sólarhringinn og vaknaði iðulega korteri eftir að maður lagði hana niður í þægilegasta og notalegasta fleti sem hægt er að hugsa sér.

Fæðist Sólveig.  Hún svaf meira og minna fyrstu 10 dagana milli þess sem hún drakk af áfergju.  Síðan fékk hún magapest.  Við mæðgurnar, ég og Edda fengum magapest og síðan Sólveig.  Í tvo daga var hún alveg ómöguleg, vildi bara vera í fanginu að sjúga brjóstið.  Ég hélt náttúrulega að þetta hefði bara verið smá sýnidæmi frá alheiminum og nú tæki raunveruleikinn við.  En þá jafnaði anginn sig af magapestinni og er búin að sofa í allan dag.  Ég trúi þessu í alvörunni ekki.

Edda er alveg í skýjunum yfir systur sinni.  Hún vill halda á henni, klappa henni og gefa henni loft-kossa allan daginn.  Það er svakalega sætt.  Þegar hún grætur togar hún í bolinn minn svo ég fatti að nú vilji hún fá að drekka.

12.3.14

Litla barnið mætt í heiminn

Önnur dóttir okkar Óla leit dagsins ljós í gær.  Hún er eins og gefur að skilja einstaklega falleg og yndisleg.  Aðeins áþekk systur sinni.  Fæðingin var að sumu leiti svipuð.  Ég var með samdrætti alla nóttina og við vorum komin uppá fæðingardeild klukkan 7 um morguninn. Þá var eg komin með 6 í útvíkkun og Georgia svaka ánægð. Við ákveðum að eg fái mænudeyfingu því hún hefur betri reynslu af því fyrir VBAC. Og það var algjört bliss. Fyrir utan hvað manni liður eins og skjaldböku sem rúllaði á bakið.  Eitthvað eftir hádegi er eg komin með fulla útvíkkun og þá er mál að ýta. Ég ýti og ýti og barnið mjakast niður á jarðfræðilegum hraða. 2cm á ári eða þar um bil. Síðan fer eg að þreytast og ekki fer barnið neðar. Ég fer að efast um að þetta eigi eftir að takast. Nema hvað, þá birtist læknir sem er svolítið celebrity hér á sjúkrahúsinu. Ljósan mín og læknir sem var aðeins búin að vera að spá í mér kiknuðu í hnjálidunum en mönuðu sig loks uppí að spyrja hann hvort hann væri tilbúinn í að sækja eitt barn. Sérsvið þessa manns er einmitt að sækja börn í móðurkviði sem vilja ekki koma út með töngum.  Og þannig kom litli anginn í heiminn. En það er satt sem fólk segir um lækninn, hann er einstaklega fær og það sér ekki á barninu.  Sem þarf nú að fá að drekka. Ljúfa líf.

8.3.14

Leikskólapælingar - í miklum smáatriðum

Það er svo sniðugt að vera foreldri.  Maður upplifir allskonar nýtt sem maður hefði annars alls ekki fengið að kynnast.  Í þessari viku unnum við hjónin að því að koma barninu inná leikskóla.  Fólk talar um að það sé svo bilaðslega erfitt að finna leikskólapláss á Upper West Side.  Það skráir börnin sín áður en þau fæðast, eða með ársfyrirvara áður en þau byrja.  Það sækir um í 6 skólum um von að barnið komist inn á einum.  Það skoðar og skoðar, á netinu og síðan skólana sjálfa.  Börnin fara í stöðupróf eða mat í skólunum.  Eins og tveggja ára.  Fyrir mér var þetta svo yfirþyrmandi prósess að ég lagði ekki í að byrja.

En stundum þarf maður bara smá pot.  Við Ágústa vorum að ganga útúr fótsnyrtingu og ég nefni að við Óli erum spennt að senda Eddu í skólann sem öll íslensku börnin hérna í hverfinu hafa verið á.  Við erum nota bene búin að vera með það á bak við eyrað í heilt ár.  Hún segir eitthvað svona "jah, af hverju röltirðu ekki við og talar við þau, núna er lok skráningatímabilsins."  Svo ég geri það.  Rölti bara þarna uppeftir.  Konan segir mér að fylla út umsókn á netinu.  Ég geri það.  Fæ tölvupóst um hvort við hjónin viljum koma í túr eftir 3 daga.  Við viljum það.  Skoðum.  Líst vel á.  Hvort Edda vilji koma í playdate daginn eftir.  Hún vill það.  Stendur sig eins og hetja.  Síðan kemur sprengjan.  Hún kemst inn í 5-daga í viku prógrammið for sure en verður að vera á biðlista á 3-daga í viku prógrammið.  Pælum í þessu fram og til baka en höfðum bara einn dag til að ákveða.  Klukkan 11 um kvöld sendi ég dömunni póst þess efnis að við ákváðum 3 daga.  Daginn eftir, fyrir klukkan 7 um morguninn fæ ég staðfestingu um að barnið sé komið inn.  Hún var bara að reyna að selja okkur 5 daga prógrammið.  Anyways.  Þetta er lexía sem ég læri af og til.  Maður miklar einhverju fyrir sér sem er ekkert mál.

Fyrsta inntökupróf (playdate) Eddu var svaka skemmtilegt.  Fyrir okkur báðar held ég.  Edda stóð sig eins og hetja.  Hún þorði reyndar ekki alveg að fara inn í stofuna í fyrstu, ég þurfti að bera hana inn því hún hélt að ég ætlaði að skilja sig eftir.  Um leið og við erum komnar inn fer hún að dótinu, velur sér bakka með reiknings-dóti (Montessori skóli) og sest á gólfið að vinna í verkefninu.  Kennari hjálpar henni og útskýrir hvað á að gera (setja réttan fjölda af mörgæsum á spjöld með myndum af mörgæsum).  Síðan fær hún leið á þessu og finnur sér nýtt verkefni.  Skilar reyndar ekki mörgæsunum (-1 stig).  Sest við borð og fer að skera niður grænmeti úr tré.  Handleikur tréhnífinn af mikilli kúnst.  Síðan er hún búin að skera.  Skilar bakkanum.  Finnur nýjann.  Kennarinn þarf að fara að sinna barni sem kvartar yfir því að vera búinn að kúka í bleyjuna.  Edda stingur prikum af kostgæfni ofan í krukku með litlum götum á lokinu.  Gott ef hún finnur sér ekki enn eitt verkefnið til að vinna í áður en prófinu er lokið.  Spáir ekkert í mömmu sinni.  Lætur reyndar truflast af stelpu sem er að skæla og horfir á hana með samúðarsvip (+2 stig).  Ég er bara að djóka með þessi stig.  Það eru örugglega engin stig.  En barnið rústaði þessu viðtali.

1.3.14

Einhverjar vangaveltur

Mig langar að skrifa eitthvað en ég veit ekki alveg um hvað ég á að tjá mig í dag.  Mér finnst ég ekki hafa frá miklu áhugaverðu að segja.  Við fengum mæðgur í heimsókn í morgun.  Vinkona vinar okkar og dóttur hennar sem er rétt tæplega tveggja.  Sú var svaka skemmtileg.  Söng og dansaði hérna stanslaust.  Eddu leist ekkert á að lána henni dótið sitt og virtist ekki njóta þess að vera með gest.

Við fórum á Degustation í tasting menu dinner í vikunni.  Það var svaka skemmtilegt en hafði því miður ekki tilætlaðan árangur.  Sennilega þar sem skammtarnir voru margir mjög naumir.  Sumir réttirnir voru bara einn munnbiti og við enduðum á að kaupa einn auka rétt því við vorum ekki södd.  Pælingin er náttúrulega að borða yfir sig.  En gaman að fara á þennan stað.  Maður fær að horfa á kokkana elda matinn og búa til mini-listaverk.  Mjög áreynslulaust.  Og án þess að subba neitt út eða búa til haug af óhreinu leirtaui.

Edda er orðin spennt fyrir því að eignast lítið systkyn.  Litla systur.  Hún setti smekk á litlu stelpuna sem kom hérna í morgun og klæddi hana í húfu og setti á hana hettuna þegar hún var að fara.  Síðan hjálpar hún foreldrum sínum að muna hvernig það er að eiga smábarn með því að skríða um gólfin "grenjandi".  Ég held hún læri þetta af smábörnunum sem eru í skólanum með henni.  Voða fyndið.  "Uhuhu uhuhu" volar hún og finnst hún svaka sniðug.

Ég er ekkert smá spennt að sjá hvernig hún bregst við nýju systur sinni.  Við erum búin að tala heilmikið um það og lesa bók sem ég keypti um nýtt barn.  En það jafnast nú aldrei neitt á við praktík.

Hérna er alveg ömurlegt veður.  Ískalt dag eftir dag og viku eftir viku.  Við erum nokkurn vegin að bilast á þessu.  "Feels like" -18 í gær.  En það mældust kannski -10.  Þetta "feels like" er voða thing hérna.  Það er allavegana fáránlega kalt og ekkert hægt að gera úti.  Eitthvað annað en undanfarin tvö ár þegar enginn vetur kom.  Þá hef ég officially ekkert meira að segja, núna þegar ég er farin að kvarta yfir veðrinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?