24.3.14

Sólveig Óladóttir Draumabarn

Teoretískt þá vissi ég að það eru til svona börn.  Sem sjúga brjóstið og sofa.  Vakna í korter rétt til að hægt sé að dást að því hvað þau hjala sætt og lognast síðan útaf.  Ég trúði því hins vegar ekki að ég gæti eignast þannig barn því Edda var akkúrat andstæðan við þessa lýsingu.  Hún orgaði samfleytt í tvo tíma daglega eða tvisvar á dag.  Hún stóð í vegi fyrir því að móðir hennar gæti farið í sturtu í rólegheitum í rúmt ár.  Hún vildi láta halda á sér allan sólarhringinn og vaknaði iðulega korteri eftir að maður lagði hana niður í þægilegasta og notalegasta fleti sem hægt er að hugsa sér.

Fæðist Sólveig.  Hún svaf meira og minna fyrstu 10 dagana milli þess sem hún drakk af áfergju.  Síðan fékk hún magapest.  Við mæðgurnar, ég og Edda fengum magapest og síðan Sólveig.  Í tvo daga var hún alveg ómöguleg, vildi bara vera í fanginu að sjúga brjóstið.  Ég hélt náttúrulega að þetta hefði bara verið smá sýnidæmi frá alheiminum og nú tæki raunveruleikinn við.  En þá jafnaði anginn sig af magapestinni og er búin að sofa í allan dag.  Ég trúi þessu í alvörunni ekki.

Edda er alveg í skýjunum yfir systur sinni.  Hún vill halda á henni, klappa henni og gefa henni loft-kossa allan daginn.  Það er svakalega sætt.  Þegar hún grætur togar hún í bolinn minn svo ég fatti að nú vilji hún fá að drekka.

Comments:
Yndislegt Tinna mín. Innilega til hamingju með nafnið, það er fallegt:)
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?