29.4.07

1 UP

Ég komst upp um level! Er alveg örugglega á 10. leveli. Núna skil ég Super Mario. Það er ekkert smá gaman að levella.

Við fórum í klifurhúsið í gær og klifruðum ekkert nema tíur. Erum búin að vera að klifra níur og níu plús alveg svakalega lengi. Ég klifraði fyrst eina 10.b, síðan 10.a, síðan aftur 10.b og síðan eina 10.c og í lokin komst ég hálf leið upp 10.b. Ekkert smá flott. Við fórum með franskri stelpu sem er í sumarvinnu í deildinni minni en hefur klifrað síðan hún man eftir sér í ölpunum. Hún var náttúrulega svaka góð en við Óli vorum líka mjög góð.

Það er svo gaman að klifra. Ég fæ fiðring í lófana við að hugsa um það að klifra. Eins og þegar maður er skotinn í einhverjum og fær fiðring í magann, þetta er alveg eins. Eftir prelims er fyrirhugað hjá okkur Óla að fara til Kentucky. Alveg nauðsinlegt að hafa eitthvað til að hlakka til þegar maður er að fara í prelims.

24.4.07

Prelims!!

Það hlaut að koma að því að ég myndi taka "the prelims", en það eru einskonar inntökupróf í doktors-prógrammið. Þau verða í næstu viku svo ég er á skrilljón að læra og undirbúa mig. Þessi próf virka þannig að prófessorarnir í nefndinni mans gefa manni eina spurningu hver og maður fær tvo tíma til að svara hverri. Ég er með 4 prófessora í nefndinni minni svo það gera 8 tímar í próf. Svolítið klikk.

Prófessorarnir hér eru mis chillaðir svona eins og gengur. Einn þeirra chilluðustu sagði mér frá tvemur spurningum og að ég mætti velja eina. Ég gerði það og núna er ég að reyna að mynda mér skoðun á því af hverju koldíoxíð hækkar stundum á undan og stundum á eftir rúmmál íss á jörðu (í jöklum og íshellum). Upplýsingar um magn CO2 í andrúmsloftinu í gegnum aldirnar er varðveitt í ískjörnum og rúmmál íshellanna er varðveitt í neðansjávar setlagakjörnum. Þegar menn bera þessi gögn saman kemur í ljós að stundum (á sumum jökulskeiðum) byrjar CO2 að lækka og síðan eykst umfang íss á landi en stundum byrjar umfang íss að aukast áður en CO2 lækkar. Þetta er búið að valda vísindamönnum hugarangur í þónokkuð mörg ár og það sem ég á að gera fyrir þennan prófessor er að mynda mér skoðun á því hvers vegna þetta er málið. Svolítið gaman.

Annars fórum við Óli að klifra í gær og það var alveg klikk gaman. Ég klifraði fullt af brautum og var ekki í neinum vandræðum með það nema þegar kom að seinasta kubbnum. Í mörgum brautum get ég ekki seinasta kubbinn og það er ekki af því að ég get það ekki punktur. Það er af því að einhver rödd inní mér segir mér að þessi kubbur sé geðveikt langt í burtu og ég geti örugglega ekki náð í hann. Og þá er ég bara, "æhh, ég get örugglega ekki náð þessum kubb..." Og þá næ ég honum ekki. Geðveikt pirrandi. En það sem var gaman að við erum orðin svo góð að við erum ekki lengur lélegust. Núna erum við þetta fólk sem reynum við einhverja braut sem byrjendurnir eru að reyna við aftur og aftur og getum hana í fyrstu eða annari tilraun. Ég heyrði meira að segja eina stelpu segja "vá, hún lætur þetta líta út fyrir að vera svo auðvelt" þegar ég var að klifra eina braut. Ha ha, ekkert smá gaman.

14.4.07

Almáttugur góður guð á himnum

Oftar sem áður þá er ég í sjokki þegar ég byrja að blogga. Þetta er sagan mín.

Ég er að vinna verkefni (svakalega spennandi og cutting edge verkefni) með virtasta prófessornum. Hann er, eins og margir virtir prófessorar, sérvitringur og kemur ekki vel saman við hvern sem er. Nema hvað. Mitt verkefni er búið að vera það að reikna correlation dimension fyrir fraktala sem ég hef búið til. Ekkert nema gott mál. Hann gefur mér tvo pappíra sem hann skrifaði þegar ég var á leikskóla og ég reyni að stauta mig í gegnum þá. Síðan fer ég að reikna. Byrja á einföldu dæmi. Reikna í höndunum til að byrja með. Fæ ekki rétt svar. Kóða upp vandamálið, kannski er málið að ég var ekki með nógu marga punkta. Nei, virkar ekki enn. Mana mig upp í að segja prófessornum frá vandamálinu, hann verður strax súr. Segir samt að ég sé að gera rétt, kannski villa í kóðanum, ætti að virka vel. Ég ætti að byrja á ofureinföldu dæmi. Aftur við skrifborðið, reyni einföld dæmi, reyni mismunandi fraktala, kannski er þessi eini fraktall eitthvað frábrugðinn. Nei, ekki málið. Er að grípa í þetta endrum og sinnum því hann er aldrei við en David er alltaf við svo mér finnst meira áríðandi að hann sé ánægður. Mánuður liðinn og ekki komin lausn á vandamálinu. Og það versta er að hvar sem maður heyrir minnst á þessa aðferð byrja menn á að segja "það besta við þessa aðferð er hvað hún er einföld og létt að kóða hana". Ég byrja að íhuga að hætta í doktorsnámi. Gengur ekki betur við það. Alveg að missa vitið. Fer á netið, skoða á mismunandi síðum hvernig menn reikna þetta spliff. Hmmm, samanlagður fjöldi punkta ekki samanlagðar vegalengdir. Lausnin komin. Ég hafði mislesið eitt orð. Guð minn góður. Hverskonar misskilningur. Æ æ æ. Þvílíkur léttir. Nú get ég farið og talað við prófessorinn: velkominn aftur! Já já, löngu búin að finna útúr þessu, minnsta málið, það besta við þessa aðferð er hvað það er létt að kóða hana.

10.4.07

Forsetinn okkar

Er geðveikt kúl gæi. Ég verð hrifnari og hrifnari af honum. Núna síðast sá ég smá grein í TIME magasín um hvað hann er að spekúlera og það er nú ekkert lítið. Ólafur Ragnar er forsetinn sem Bandaríkin misstu af. Hann minnir mig á Al Gore. Enda segist hann hafa fengið innblástur frá honum. Alveg súper.

8.4.07

Gleðilega páska!

Ég vona að allir hafi fengið páskaegg því mér finnast páskaegg æðisleg.

Það fer ekki mikið fyrir páskunum hérna í Chicago. Ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki einu sinni að það væru að koma páskar fyrr en ég spjallaði við mömmu í síma og hún lýsti yfir hneikslan sinni á því að það væri unnið á föstudaginn langa.

Við vorum samt ekki í vandræðum með að vippa fram veislu og í morgunmat var heitt kakó (úr alvöru súkkulaði) en það er hefð sem maðurinn minn kemur með inn í heimilishaldið okkar. Sem er bara gott mál. Síðan vorum við líka með reyktan silung sem minnti mig svo mikið á föðurlandið mitt að ég táraðist í öllum hátíðleikanum.

En nú verð ég að fara út því ég get ekki hætt að borða páskaeggið og mér er orðið illt í maganum.

5.4.07

Upplifun

Hversu mikilvæg er upplifun fyrir skilning og viðhorf?

Ég held að upplifun sé lykilatriði. Í hvert sinn sem maður upplifir eitthvað nýtt breytast viðhorf manns. Fordómar eru hjá þeim sem ekki vita neitt um málið. Upphaflega er maður með ranghugmyndir um allt og eftir því sem maður kynnist heiminum áttar maður sig á betur og betur á því. En það er einmitt hugmyndin með skiptinema prógrömmin. Að brjóta niður fordóma með því að kynnast heiminum. Jæja, hvert leiða þessar heimspekilegu pælingar?

Í frumskóginn, þar sem Tinna sýndi það sem við fyrstu sýn virtist vera hugrekki en reyndist einungis vera forvitni, og tók risa-könguló í lófann. Við Óli vorum í gær að skoða á bak við tjöldin í Field safninu. Það er risa risa stórt safn. Tugir ef ekki hundruðir vísindamenn stunda þar allskonar rannsóknir og sýndu gestum í gær ýmislegt í sambandi við þær. Og þar var einmitt einn vísindamaður með tarantúlu.

Fyrst stökk ég upp af hræðslu við hana en þegar ég sá öll sjö ára börnin sem voru að halda á henni þá langaði mig líka að halda á henni. Ég var svona aðeins var um mig, leist ekkert alveg á blikuna en um leið og hún skreið á mig þá breyttist allt. Hún var svo mjúk og létt. Og sæt og krúttleg. Um leið og ég hélt á henni fannst mér hún ekki lengur ógnandi heldur fann ég frekar til væntumþykju. Þetta var mjög merkileg upplifun fyrir mig.

Maður er alltaf að reyna að vera svo meðvitaður. Ekki vera með fordóma gagnvart þjóðflokkum eða þjóðfélagsstéttum. Sagan kennir manni það. Hins vegar lærir maður hvergi réttu afstöðuna til margfætlinga. Það er "í lagi" að vera með fordóma gagnvart skorkvikindum eða kongulóm. Þannig að maður finnur það miklu sterkar þegar þannig fordómar brotna niður, maður er ekki meðvitað að berjast við þá. Mér fannst þetta alveg æðislegt. Svo góð tilfinning að heill flokkur tilfinninga (tilfinningar gagnvart margfætlingum) sé núna búinn að breytast úr því að vera mest megnis neikvæðar í að vera jákvæðar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?