31.1.16

Takk fyrir matinn!

Er kannski fyrsta þriggja orða setningin hennar Sólveigar.  Allavega sú sem við skiljum.  Hún er reyndar líka með meiningar um hvort hún vilji fara í buxur eða peysu fyrst og þá segir hún "bi bi fyrst bi bi buxur bi bi bi peysa bi bi bi nei."  Sem maður gæti túlkað sem 12 orða setninguna "áður en ég fer í peysu vil ég fyrst fara í buxur".

Ég beyglaði bílinn.  Ég var að bakka út úr bílastæði í Trader Joes í mjög þröngu bílastæða húsi.  Allar súlurnar eru útrispaðar í bílalakki og við Óli vorkennum alltaf aumingja fólkinu sem passar sig ekki nógu vel þarna inni.  Nema hvað, ég var svo mikið að passa mig að bakka ekki á eitthvað að ég rispaði bílstjórahurðina á einni súlunni.  Agalega svekkjandi.  Þegar ég er að keyra út, þá man ég eftir því að áður en ég fór í Trader var ég í Bed, Bath and Beyond og skildi pokann eftir á bílaplaninu því ég hafði eitthvað verið að skamma Eddu.  Þegar ég kem aftur þangað sé ég að einhver hefur keyrt ofaná pokann minn.  Hann er alveg pikkfastur undir dekkinu.  Við ákveðum að bíða.  Bíðum og bíðum.  Hlustum á endalaust af barnalögum en ekki kemur eigandi bílsins út.  Svo ég fer aftur inn og segi dömunni allt af létta og spyr hana hvort það geti verið að starfsmaður sé á hvítum Porche, því það er örugglega ekki kúnni að versla þarna í 40 mínútur.  Grey konan fékk næstum því flogakast.  Nei, elsku vina, það er alveg á hreinu að enginn starfsmaður hér er á hvítum Porche.  Svo við enduðum á því að fara aftur út og bara rífa allt undan dekkinu.  Það rann allt nokkuð heilt undan því og við drifum okkur heim til þess að lenda ekki í fleiri ævintýrum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?