20.3.09

Halló

Takk fyrir síðast. Og takk fyrir mig. Takk fyrir morgunkaffi, hádegisverði, kaffiboð, kvöldmat, kvöldkaffi, huggulegheit og knús. Ég hugsa að þetta hafi bara verið með betri heimsóknum til Íslands. Og ég sem hef alltaf haldið að mars sé ómögulegur. Mars er frábær. Alveg súper. Þótt allt sé í volli á Kleppi í mars er allt í glimrandi standi almennt. Það er gott veður og slæmt, bjart og dimmt, afslappelsi og hressileiki, allskonar fjölbreytileiki.

Í fyrsta sinn kaus ég í ríkistjórnarkosningum. Einu sinni áður hef ég reynt að kjósa en setti þá x fyrir aftan V-ið en ekki framan. Mikið var ég svekkt þegar mér var sagt að maður átti að setja það fyrir framan. Núna skrifaði ég bara skýrt V í rammann. Eða eins skýrt og ég gat. Af einhverri ástæðu var ég svolítið skjálfhent, þannig að seinni leggurinn, þessi til hægri, er aðeins með smá haki í. Það sést varla. Ég vona að þessi seðill verði ekki ógiltur eins og sá síðasti.

Ég vona að allir kjósi vinstri græna. Hvað er mikilvægara en sjálfstæði okkar og náttúra? Ha? Þetta er klausa úr stefnuyfirlýsingu vinstri grænna:

Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill beita sér fyrir róttækum þjóðfélagsumbótum almenningi til hagsbóta, hefja vernd náttúru og umhverfis til vegs á Íslandi og treysta byggð um allt land. Hreyfingin er samstarfsvettvangur og baráttutæki þeirra, sem vilja útrýma kynjamisrétti og tryggja jafnrétti, kvenfrelsi og aukinn jöfnuð í samfélaginu.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill byggja upp lýðræðislegt og réttlátt þjóðskipulag grundvallað á virkri þátttöku almennings. Hreyfingin hafnar alræði markaðshyggjunnar og vill varðveita sjálfstæði þjóðarinnar og forræði yfir eigin auðlindum. Vinstrihreyfingin­ – grænt framboð vill binda enda á hersetu í landinu og aðild að hernaðarbandalagi, en leggur áherslu á að eiga gott og friðsamlegt samstarf við allar þjóðir, vernda náttúru og umhverfi landsins og tryggja sjálfbæra þróun samfélagsins.


Ég feitletraði þetta sem mér finnst mikilvægast.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?