26.9.07

499

Undur og stórmerki gerast endrum og sinnum. Í dag mætti ég í vinnuna klukkan hálf níu. Alveg ótrúlega gott. Er búin að klára eina málsgrein og klukkan ekki orðin níu. Við fórum upp í sveit um helgina, í Northern Illinois að heimsækja Y-J og Söru sem fluttu þangað í hálft ár, hún að rækta grænmeti, hann að skrifa doktorsritgerð. Þar eru stofnanir sem vinna að því að breyta ökrum í prairy (sléttu) landslag. Þær rífa upp allar plöntur sem ekki eru upprunalega frá þessu svæði og sá fræum af upprunalegum plöntum. Svakalega góð tilhugsun að við erum farin að snúa við blaðinu. Engisprettur stukku út um allt og við sáum líka snák, voða lítinn og sætan.

Annars er bara allt í góðu standi hérna. Við að vinna á fullu til að geta útskrifast einhverntíman. Óli er að kenna kúrs með áhugasömum nemendum. Við erum á leiðinni upp í sveit aftur um helgina, þetta skiptið til Wisconsin, Platteville þar sem the Streichs búa. Það er svo yndislegt að fara upp í sveit.

20.9.07

Halló

Ég er alveg hrikalega hrifin af rap og hip hop. Það finnst mér hálf undarlegt því ég er þrítug hvít kona og það passar ekki við steríótýpuna af þeim hópi. En afturámóti þá er ég kannski ekki þessi týpíska þrítuga kona, þar sem enginn er það. Enginn er týpískur. Allavegana enginn sem ég þekki. Anyways, við fórum í sumar á rap-ljóðalestur og mig langar svo að fara á svoleiðis aftur. Það var svo gaman. Einnig fór ég á rap-skemmtun þegar ég var í Danmörku og er það eitt af því skemmtilegasta sem ég hef gert. Það er svo yndislegt að heyra fólk tjá sig á listrænan máta um eitthvað sem því er hugleikið. Það er eitthvað svo inspiring. Og það er svo góð tilfinning að vera inspired. Agalegt þegar maður gleymir móðurmálinu sínu.

13.9.07

huggulegheit

Hérna í Chicago er veðurfar frábrugðið því sem gengur og gerist á Íslandi. Á báðum stöðum myndi ég lýsa því sem öfgakenndu en mismunurinn fellur í því að í Chicago á það við um hitastig, en á Íslandi í vindi. Hérna í Chicago verður mjög heitt á sumrin, yfir 40 gráður stundum og eins svaka kalt á veturna, undir 20 gráðum í frosti. Á Íslandi eru þessar tölur svona 20 og -10. Í Chicago bærist varla hár á höfði manns allt árið um kring. Á Íslandi fær hárið ekki stundarfrið.

Af hverju er ég að tala um veðrið? Það var svo gott veður í dag svo við Óli röltum á franska kaffihúsið í hverfinu og fengum okkur kaffi og bakkelsi. Það var hrikalega huggulegt, en sérstaklega vegna þess hversu gott veðrið var. Það er svo innilega ekkert spennandi að gerast hérna í Chicago. Eins og sést.

Óli er að fara til New York um helgina en ekki ég. Hann er að fara í steggjapartí. Mér finnst það nokk ósangjarnt að strákar fá steggja partí en stelpur bridal shower. Ég hef einu sinni farið í þess konar sturtu og það var sko ekkert til að hrópa húrra yfir.

10.9.07

Evrópskt mataræði

Venjulega finnast mér mánudagar ekkert sérstaklega erfiðir en í dag var sagan önnur. Herlegheitin byrjuðu þegar ég leit á vekjaraklukkuna í morgun og hún var tíu mínútur í ellefu. Agalegt en bara ein leið til að díla við það. Jæja, ég kemst í skólan, dunda eitthvað, skoða niðurstöður keyrslunnar um helgina, hmm, nenni ekki að spekúlera í því núna. Best að reyna að skrifa eitthvað. Nenni því ekki heldur. Hvað er í gangi? Af hverju kem ég engu í verk? Hvað er að? Ég er ekki svöng en mig langar í eitthvað.. hvað gæti það verið?

Kaffi. Ég hafði ekki gefið mér tíma til að laga kaffi í morgun. Rauk bara út. Þegar ég fattaði það lagaði ég súper espresso bolla og gerði úr honum amerikano. Allt féll í ljúfa löð. Ég er búin að skrifa eina setningu og setja inn tilvitnun. Lesa hálfa grein og núna búin að skrifa hálft blogg. Skil ekki hvernig ég gat gleymt því að fá mér kaffibolla.

Allavegana, það sem ég ætlaði að skrifa um voru veitingastaðirnir sem við tékkuðum á um helgina. Á fimmtudaginn ætluðum við á pólskan stað því Chicago er með hæstu höfðatölu Pólverja allra borga í Bandaríkjunum. En við höfum aldrei smakkað pólskan mat. Rennum upp að honum um hálfníuleytið og það er kyrfileg járngrind sem lokar fyrir innganginn og þegar við rýnum innum gluggann (sem er varla hægt vegna þess hversu skýtug rúðan er) sjáum við konu, sem veifar höndunum í gríð og erg. Hvað er að? Óli hringir í hana og kemst að því, eins og hefði mátt geta sér til um, að það er búið að loka. Það lokar klukkan átta.

Eins gott að við erum með bækling í bílnum þar sem tilgreindir eru um 20 súper góðir veitingastaðir eftir hverfum. Gátum við því komist að því að þýskur veitingastaður er í nágrenninu. Brunum við af stað til little-Germany og á svaka sætan þýskan stað. Skjaldamerki upp um alla veggi og jóðl á fóninum. Óla fannst hann vera sjö ára aftur. Hann fékk rouladen en ég kálfakjöt með brúnni sósu. Bæði fengum við sætt rauðkál og spetze. Og stóran bjór með. Eplaböku og snaps í eftirmat. Hrikalega ljúft.

Á laugardaginn gerðum við aðra tilraun til að fá pólskan mat. Komum klukkan fjögur. Fengum epla-bláberja-..berja saft heimatilbúna, rauðrófu-súpu (borscht) og pulsu-súpu, kartöflu-pönnukökur(placki kartoflane) og kartöflu-púrrulauks ravíólí (pierogi). Við vorum mjög ánægð með þennan mat, sérstaklega súpurnar, þær voru alveg súper.

6.9.07

Framfarir

Það er ekki hægt að segja annað en að ég hafi náð framförum í abstrakt skilun. Skilaði í hádeginu, um 5 tímum fyrir skilafrest. Alveg stórgæsilegt.

Nýr repúblikani er kominn í forsetaleikinn. Hann er sjónvarpsstjarna. Sjónvarps-dómari. Allt er nú til í Ameríkunni. Fólk sem er með smágveigilegar deilur getur komið til hans og hann sker úr um hver sé í rétti. Ég heyrði þetta bara í útvarpinu í sturtunni í morgun. Hljómaði eins og mjög týpískur repúblikani. Á móti fóstureyðingum.

Annars er ekkert að gerast í Chicago. Ég veit eiginlega ekki afhverju ég er að blogga, það er frá engu að segja. Nema reyndar að Óli ætlar að elda gaspacho í kvöld. Jei!

3.9.07

Spenna

Undanfarinn mánuð er ég búin að lesa 3 íslenskar spennusögur: Þriðja táknið eftir Yrsu Sigurðardóttur, Konungsbók eftir Arnald Indriðason og Skipið eftir Stefán Mána. Ég get ekki annað sagt en að það hafi verið mjög ánægjulegt og spennandi. Ég hugsa að mér hafi fundist Konungsbók skemmtilegust. Hún var líka best skrifuð. Og það skiptir máli. Skipið er reyndar líka vel skrifuð og persónusköpunin er góð. Þriðja táknið er með smá byrjendabrag en hún er samt spennandi og fyndin aðeins.

Núna er ég byrjuð að lesa Aldingarðinn hans Ólafs Jóhanns. Það er svo gaman þegar maður dettur inní lestrarham. Það er svo gaman að lesa. Marcia, frænka mín (ég segi bara eins og skiptinemabörnin!) skildi eftir allskonar lestrarefni, m.a. fullt af New Yorkers. Núna þegar við erum ekki áskrifendur að dagblaði er gott að eiga 2 mánaða birgðir af skemmtilegu tímariti til að lesa með morgunmatnum.

Annars er ég náttúrulega að skrifa abstrakt. It´s that time of the year again. Það er ágætt nema leiðbeinandinn er að skokka um úti í skógi. Og kemur ekki fyrr en fresturinn er útrunninn. Svo ég veit ekki alveg hvað ég á að skrifa. Eða svona. Það góða er að ég man síðan í fyrra að fresturinn rennur út klukkan 6. Þannig að það verður ekkert stress-panik í ár.

Síðan er í dag verkalýðsdagurinn. Sem er náttúrulega frídagur. Við Óli ætlum í tilefni þess að kíkja aðeins upp í sveit í klifur. Jibbí! En bara þegar ég er búin að skrifa eins og eina til tvær málsgreinar í viðbót.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?