30.10.12

Draugabær

Við erum reyndar ekki búin að fara út en þegar maður lítur út um gluggan er enginn á ferli. Bara rusl og drasl útum allt. Við erum heppin að vera með rafmagn og engin tré inní stofu hjá okkur.

29.10.12

Rok og rigning

Það er svona helst það sem er að frétta héðan. Við erum enn með rafmagn og ekkert markvert hefur gerst sem betur fer. Það eina sem er kannski pínu áhyggjuefni er að það er bara til i eina uppahellingu og smjorid er að verða búið. Hinsvegar virðist allt vera meira og minna i rúst i borginni og nærliggjandi fylkjum og borgum.

Beðið eftir Sandy

Enn aftur erum við búin að taka inn svalahúsgögnin og blómapottana.  Brauðið að hefast.  Nóg til af íslensku lambalæri.  Óli skrifaði niður heimilisfangið á neyðarskýlinu.  Hann komst ekkert í vinnuna í dag þar sem allar samgöngur liggja niðri.  Hér er tiltölulega mikið rok og rigning.  Af og til koma svaka vindhviður.  Ég hugsa að við sofum í stofunni aftur.  Það er of ógnvekjandi að liggja uppvið þessar stóru rúður.

Við fórum í síðasta gögnutúrinn í gærkvöldi fyrir útgöngubannið.  Ætluðum bara að kíkja á auðu göturnar en enduðum á Litlu Hafmeyjunni í smá ostru og humarveislu.  Edda fékk graskerasúpu sem hún var mjög ánægð með.  Hún er svo hamingjusamt barn.  Heillaði alla veitingahúsagestina upp úr skónum með krúsidúllutöktunum sínum.

Núna slökum við hjónin á í nýju hægindastólunum okkar meðan ljúfan sefur og hlustum á 4. sinfóníu Bethóvens.  Óli að lesa og ég að blogga.  Agalega nice.

28.10.12

Þessi tími árs

Skemmtilegt og ekki skemmtilegt að hérna í New York er ný árstíð.  Kom með express frá Flórída.  Hurricane season.  Í fyrra var það Irene.  Í ár er það Sandy.  Subway kerfinu verður lokað kl. 7 í kvöld og óvíst hvenær það opnar aftur.  Sennilega á miðvikudaginn.

Við erum tiltölulega vel viðbúin.  Ég er búin að setja vatn í flöskur  og við eigum tappa í baðið.  Kannski við fyllum það fyrst við eigum tappa.  Í fyrra stakk Mayor Bloomberg upp á því að fólk fyllti baðkerið sitt af vatni til að eiga í klósettkassann ef það yrði vatnslaust.  Þá fórum við útí búð að kaupa tappa en þeir voru löngu uppseldir.

Það er lambalæri í pottinum sem ætti að duga í allavegana tvær eða þrjár máltíðir.  Baunir í bleyti til að gera baunasalat á morgun.  Brauðið er reyndar að verða búið og það var uppselt þegar ég ætlaði að kaupa það áðan.  Kannski maður skelli í eitt brauð til að vera örugg.

24.10.12

Edda að róla


17.10.12

Fyrsti kossinn

Hann heitir Michael.  Og hann kyssti dóttur mína.  Á ennið.  Ofurlaust.  Það var afskaplega sætt og allar konurnar dæstu ohhhh þegar það gerðist.

Edda er eins og fiðrildi í leikfimistímunum sínum.  Kútveltist um á gólfinu, helst í miðjunni, en skríður líka á milli allra barnanna aðeins til að potast í þeim.  Hún byrjaði að spjalla við Michael með ofangreindum afleiðingum.  Sagði hæ og allt.  Hhhæhh.  Síðan fór hún aðeins til Sofiu sem er svolítið minni og spjallaði aðeins við hana.  Zeek horfði stíft á hana spjalla við hina krakkana og þegar hún loks fór til hans greip hann í hana, svaka ánægður með að hún skyldi líka vilja spjalla við hann.  Það var algjört bíó að horfa á Eddu barnið vera svona sosjal.

8.10.12

Coney Island


Á þessari Kólumbusar helgi ákváðum við fjölskyldan að fara á Coney Island.  Það er nú meira stuð pleisið.  Rússibanar og hygge-mad í röðum.  Hérna eru Óli og Edda í lestinni þangað.  Ferðalagið tekur rúman klukkutíma.  Við byrjuðum á því að borða Tonnoto´s pizza.  Hún var sérstaklega góð, eldbökuð með heimalöguðum mozzarella.  Edda fékk að sitja í 80 ára gömlum barnastól.  Hún var sátt við það.  Síðan fékk hún pizza skorpu í fyrsta sinn.  Það fannst henni sko gott.  Þangað til hún var með munninn fullan af munnvatnssósa pizzaskorpu sem hún vissi ekki hvað hún átti að gera við.

Fullorðna fólkið fékk að fara í Cyclone.  Hann er núna 85 ára en peningana virði og meira en það.  Hérna erum við mæðgur á leiðinni heim, saddar og sælar.1.10.12

Skiptar skoðanir

Á ensku er til eitt orð yfir þetta hugtak, controversial.  Mér finnst eins og það hugtak feli í sér smá eldfimi, meðan íslenska hugtakið er hlutlausara.  Jæja.

Það er svo skemmtilegt hve íslensk smábörn eru öll svipuð.  Maður tekur best eftir því þegar maður sér svona mikið af útlenskum börnum eins og eru hérna í Ameríku og hittir síðan annað íslenskt barn. Þau íslensku eru öll svolítið stórgerð og hvít.  Annað sem einkennir íslensk börn er snuddan upp í þeim.

Hérna vestanhafs eru skiptar skoðanir á því hvort gott sé fyrir smábörn að hafa snuð.  Á Íslandi er mikið sagt að "þau hafa svo mikla sogþörf þessi grey" og þannig réttlætt að best sé fyrir börnin að sjúga lítið plast titti.  Náttúran kom þessari sogþörf þarna fyrir til að börnin myndu sjúga brjóstin á mömmu sinni og þannig kemur mjólk í brjóstin og síðan í mallann á börnunum.  Ljómandi vel úthugsað hjá henni.

Vinkona mín sem á þrjú börn, uppkomin og glæsileg, sagði mér að hún héldi að það hafi hjálpað sínum börnum þroskalega að vera ekki með snuddu.  Og núna loksins eru vísindamenn í Wisconsin búnir að spá í þessu og komust að þeirri niðurstöðu að með snuddu upp í sér geta smábörn ekki gert eins mikið af svipbrigðum og án snuddu.  Þau eru í meiri vandræðum með að herma eftir svipbrigðum fullorðinna og mögulega að læra inná tjáningu og tilfinningalíf mannanna.

Hérna er linkur á þessa frétt fyrir áhugasama.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?