23.10.11

Quidditch í garðinum

Rölti einn hring í garðinum til að viðra mig og gekk fram á tvo quidditch leiki. Fyrst fékk ég næstum því bludger í mig þar sem ég stóð og gapti yfir tilþrifunum hjá fólkinu. Það voru greinilega engir galdramenn með í spilinu því allir leikmenn héldu bara kústi á milli lappanna og hlupu um. Í seinni leiknum sem ég gekk framhjá var verið að sleppa the snitch og það virtist sem þau áttu ekki alvöru snitch því í stað hans var langur og sprettharður strákur með lítinn bolta hangandi í neti sem var ýtt ofaní buxnastrenginn hans sem lék the snitch. Seekers voru í mestu vandræðum með að ná honum eins og vera ber. Já, þetta var alveg ótrúleg sjón.

Við Óli erum loksins að fara í sumarfrí. Það nær engri átt hvað við getum dregið það lengi að láta verða af einhverju. Getum ekki með góðu móti farið úr landi svo stefnan er sett á Flórída að heimsækja Ameríku-fjölskylduna okkar. Það hugsa ég að verði alveg frábært.

20.10.11

Barokk tónlist

Við Óli fórum í kvöld á tónleikana English Concert. Það var kammerhljómsveit sem spilaði lög eftir bresk tónskáld, sérstaklega Henri Purcell og Biber nokkurn, ekki Justin. Þetta var svaka skemmtilegt. Öll hljóðfærin voru gömul, harpsicord, cello með engu priki og svona. Og einn söngvari. Óli hélt ultra-tenor en ég hélt hann væri geldingur. Ég hef aldrei upplifað annan eins söng. Mikil leikræn tilþrif. Stundum söng hann eins og söngfugl, stundum eins og uppvakningur.

Eftir fyrsta lagið var ég svo hrifin að ég klappaði. Maður myndi halda að það væri í lagi og allur salurinn tók undir og það var svaka lófatak. Síðan kom í ljós að það átti alls ekki að klappa á þessum tímapunkti en eftir þetta klöppuðu allir þegar söngvarinn var búinn að syngja lag og hann var frekar vandræðalegur og það var alveg ljóst að þetta átti ekki að vera svona. Eftir hlé komst allt í samt lag og söngvarinn fékk að syngja og allir sátu á höndunum. Úffa maj.

16.10.11

Sunnudagskvöld

Mér finnst eins og það sé svaka oft sunnudags kvöld. Kannski er það tilfellið. Ég er sífellt að setja sjálfri mér einhvern tímaramma sem er búinn undir eins. Núna er ég að reyna að klára grein sem er búin að vera í undirbúningi í heilt ár. (Vá hvað er erfitt að skrifa grein.) Ég var búin að ákveða að á föstudaginn yrði hún tilbúin til að senda Olgu. Það stóðst. Hún las hana yfir fyrir mig og sendi mér hana strax í hádeginu á laugardaginn. Olga er ekkert venjulega afkastamikil kona. Þá hugsaði ég að ég myndi vera búin að lagfæra eftir hennar kommentum á sunnudagskvöld og nú er, enn einu sinni, komið sunnudagskvöld og ég er ekki búin að komast í gegnum þetta.

Allavegana þá komumst við á sýninguna hans Marcosar í gær að sjá augað. Í Chelsea Art Museum. Það var skemmtilegt. Risa risa auga að horfa á mann og stundum eitthvað út í loftið.

10.10.11

Tengdaforeldrar

mínir voru í heimsókn í síðustu viku. Fyrst kom Atli og við Óli sóttum hann á flugvöllinn með ferðatöskuna okkar. Leigðum bíl og héldum beint upp í sveit. Komum við á frábærum ítölskum veitingastað við hliðiná JFK, Don Peppe, sem er svona Queens institution sem ég fann á Urban Spoon.

Við keyrðum útum allt á Long Island. Alla leið á North Fork þar sem búið er að breyta kartöflugörðum í víngarða og bara ljómandi góð víngerð sem þar fer fram. Skilst mér. Kíktum líka í the Hamptons eins og sönnum Manhattanites sæmir og leist bara svona í meðallagi vel á það pleis.

Við gistum við Pipes Cove þar sem ræktaðar eru ostrur og gestgjafinn kom færandi hendi með 50 ostrur í ísbaði. Þeir feðgarnir svifu um svo mikil var hamingjan. Í aðalrétt grilluðum við nautasteik sem ræktuð var í næsta garði og pinot noir með frá sama búgarði. Alveg geggjað. Svaka hugsjónamaður/auðkýfingur sem stendur í þessum bissness. Finnst ekkert betra en nautasteik með Pinot noir og er bara með garð á Long Island og býr til hvort tveggja. Þó svo jarðvegur sé ekki réttur fyrir pinot. En gengur bara ágætlega hjá honum þrátt fyrir það. Þegar við komum var verið að venja 9 mánaða gamlan kálf af spenanum og hann var ekki sáttur. Stóð með hinum nautunum í girðingu og baulaði og baulaði. Greyjið litla.

Síðan keyrðum við aftur á JFK og sóttum Gíu. Hún var svaka mikið á ráðstefnu en við fengum að hitta hana af og til samt. Síðasta daginn voru allir í fríi og við fórum í morgunmat á Sarabeth, smá uppáhalds staður, aðeins í bókbúð og síðan að skoða egýpska fornmuni í the Met og á New York Ballettinn um kvöldið. Svaka gaman í New York. Sófi hérna í stofunni sem er meira og minna ónýttur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?