30.9.11

Ökuskírteini

Við Óli erum loksins loksins komin með ökuskírteini aftur. Ég er búin að vera án þess í að verða ár og Óli í rúmlega hálft. Reyndar er ég búin að vera án ökuskírteinis meira og minna í tvö, þrjú ár nema nokkra mánuði eftir að ég fékk replacement card meðan Óli er búinn að vera með sitt í veskinu þótt það sé útrunnið.

Allavegana. Það er brjálað mál að sækja um ökuskírteini. Maður þarf að hafa heilmikið af skilríkjum, gamla ökuskírteinið, auk kennitölukorts. Augljóslega allskonar vesen fyrir mig þar sem ég er einnig búin að týna kennitölukortinu mínu. En eftir mikla hvatningu frá manninum mínum sendi ég ríkis-ritara Illinois bréf þess efnis hvort hann gæti sent mér bréf um það að ég hefði einu sinni átt ökuskírteini. Okkur til mikillar undrunar sendi hann þannig bréf undir eins. Síðan fór ég á kennitölu-skrifstofuna og bað um bréf þess efnis að ég væri búin að týna kennitölukortinu mínu og fékk það. Samdægurs.

Svo við gátum farið í gær á ökuskírteinis-skrifstofuna, talað við sjö starfsmenn í mismunandi lúgum og, að lokum, fengið ökuskírteini. Sitthvort. Og það tók bara rúma þrjá tíma. Við vorum við öllu búin með sitthvora 1000 blaðsíðna spennusöguna.

Við erum að lesa sömu söguna þessa dagana. Svo samtaka í leik og lífi við hjónin erum. Óli byrjaði að lesa þýska metsölubók sem vinnufélagi hans mælti mikið með og heitir Der Schwarm. Hún fjallar um dularfulla hluti sem eru að gerast í sjónum um allan heim. Hann varð strax alveg hugfanginn og sagði mér frá hinu og þessu sem gerðist og ég varð svo spennt að ég varð að kaupa sömu bók. Á ensku náttúrulega. The Swarm. Og hún er frábær. Eina vandamálið er þegar við förum í langar lestarferðir eða útstáelsi á skrifstofur þarf risa ferðatösku undir lesefnið. En það er ekki svo mikið vandamál svosem.

24.9.11

Level 1

Það gæti verið að ég sé komin upp á level 1 í saumaskap. Það er ekki hægt að setja þvottapokana á hærra en núllta level. En þetta! Barnatreyja er tvímælalaust fyrsta levels stykki.Svona er myndarskapurinn hér á bæ. Já já. Ég er búin að vera með kvef og Óli er búinn að vera að elda. Í gær var pizza með pepperoni og ananas. Heimatilbúin að mestu. Í kvöld er kjúklingur under a brick. Það er eins og við séum í húsmæðrakeppni. (Óli vill meina húsfólks-keppni.) Reyndar eru þetta mjög karlmannlegir réttir sem Óli eldar.

Á morgun erum við að fara til Princeton. Svo yndislegt að kíkja útúr borginni af og til. Þar er margt yndislegt að finna. Náttúrulega Olgu vinkonu mína en síðan er líka ljómandi skemmtileg plötubúð og góð bakarí, smá sveit og ferskt loft.

21.9.11

Fish and chips

Við keyptum ufsa í búðinni og ég grillaði hann og eldaði franskar með. Eða svona skífur, steiktar í olíu. Með salti. Stundum langar mann bara í franskar með fiskinum sínum. Vá hvað þetta var gott. Ufsi er skrýtinn fiskur. Hann er hálf blár eða grár á litinn, en það er víst vegna þess að hann er með svo hátt fituhlutfall. Kjötið er svipað og á þorski og fitan eins og á lax. Algjört dúndur.

Ég er hrifinn af stefnubreytingu Obama en það virðist engu skipta hvað hann gerir, fólk er ósátt. Ég held að demokratar séu bara miklu dómharðari en republikanar. Ég veit ekki hvað málið er. Hann er að standa sig brjálæðislega vel. Allavegana er Elizabeth Warren sátt. Ég er sammála því að hún ætti að verða fyrsti kvenforseti Bandaríkjanna.

Það gengur bara vel að vera ólétt. Ég er komin yfir tímabilið þar sem mig langaði ekki í súkkulaði eða eitthvað svona gott. Núna langar mig stanslaust í kökur, ís, súkkulaði, lakkrískonfekt. Alla malla. Franskar. Ekki með sósu samt. Það finnst mér ekki lekkert.

15.9.11

The Climate Reality Project

Ég er búin að vera að skoða the climate reality project sem grúppan hans Al Gore stendur fyrir. Ég er mjög hrifin af þessu framtaki. Raunar er ég alltaf hrifin af hverju því sem Al Gore tekur upp á. Þetta sumar er búið að vera fyrirmyndar framtíðar-sumar. Svakalega heitt og skógar eldar geysa útum allan heim. Þetta framtak er líka vel tímasett núna í lok sumars og þegar jólasveinarnir hérna í Bandaríkjunum sem berjast um að fara í forsetaframboð keppast um að bulla um að veðurfar er ekkert að breytast.

11.9.11

Magnað

Ég er aðal pípulagningameistari heimilisins. Óli er aðstoðar. Honum finnst ekki spennandi að vasast í pípulagningunum en sættir sig við aðstoðar hlutskiptið. Mér finnst afrakstur pípulagningastúss mjög spennandi. Um daginn skrúfaði ég allar pípurnar á baðherbergisvaskinum í sundur og losaði stíflu sem var búin angra mig í marga mánuði. Gott ef ekki heilt ár. Síðan kom Óli og skrúfaði allt saman því það þarf mikla krafta í það. Og hann er svo sterkur.

Fyrir mörgum mánuðum var ég með yfirumsjá á verkefni í eldhúsinu sem fól í sér að setja upp reverse-osmosis filter system. Það er allskonar ólifnaður í pípunum hérna á Upper West sem ekki er gott að drekka, sérstaklega ekki þegar maður er í the baby making business, og því fjárfesti ég í svona apparati. Það var svaka spennandi verkefni að setja þetta upp. Óli boraði gat í eldhúsbekkinn fyrir kranann og við tengdum fullt af pípum og leiðslum. Ég var með annan fótinn í pípulagnabúðinni að kaupa sér stykki og svona. Fyrir rest púslaðist allt saman og við njótum þess nú að drekka svaka hreint vatn.

Núna rétt í þessu var verkefni að laga krana inni á baði sem lak. Ég horfði á "hvernig á að laga vask sem lekur" video á dummies.com og keypti gúmmí þynnur útí pípulagningabúðinni. Skrúfaði allt í sundur og Óli kom með Þórs kraftinn og losaði mjög fasta ró. Kraninn eins opinn og hann getur verið en engin gúmmí-þynna (washer). Pípulagningameistarinn klórar sér eitthvað í kollinum og skilur ekkert í þessu en skrúfar bara allt saman aftur. Opnar fyrir vatnið og hvað gerist. Enginn leki. Svaka leyndardómsfullt. Ég skil ekkert í þessu.

6.9.11

Samfélags-styrktur landbúnaður

Við Óli erum meðlimir í CSA - community supported agriculture. Það virkar þannig að einu sinni í viku förum við hérna í næstu götu og fáum fullt af grænmeti, ávöxtum og nokkur egg. Það er alveg frábært fyrirkomulag. Allt svaka ferskt og gott. Tvisvar þurfum við að hjálpa til. Í dag fór ég að hjálpa til að koma öllu í stand og vikta salatið. Það var bara gaman. Svaka indælt fólk sem sér um þetta. Þetta CSA fyrirkomulag er svaka sniðugt. Fyrir bóndann er gott að fá borgaða stóra summu í lok veturs svo hann geti skipulagt árið og ráðið fólk og svona. Fyrir kúnnann er þetta æðislegt því maður borgar bara einu sinni og fær síðan bara það sem er ferskt hverju sinni. Maður þarf ekki að velja. Það finnst mér æðislegt. Í dag fengum við brjálæðislega mikið af ávöxtum. Epli, perur, nektarínur og plómur. Fengum líka gulrót, kartöflur, rauðrófur, mais, lauk, sellerí, púrrulauk, papriku, tómat, chili, hvítlauk, salat, myntu og eitthvað grænkál (collard greens) auk eggja. Þvílíkur lúxus. Það er líka boðið upp á mjólkurvörur og kjöt en við tökum ekki þátt í því. Þó það væri gott. Óli tók eftir því að plómurnar eru svolítið komnar á síðasta séns. Hann heldur að það væri gott að gera plómutertu. Það er möguleiki.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?