27.5.11

Nokkrar myndir af okkur uppá svölum

Það er svo nice að eiga svalir. Það er eiginlega það besta sem ég veit. Hérna er loks stytt upp og við að slaka á með hveitibjór og huggulegheit.


Atli var sáttur og Óli líka.


Við hjónin vorum ánægð með edamamiið. Gat ekki setið á mér að setja þessa ljómandi góðu mynd upp.


Hérna erum við svo með spari svipinn.


Sáum Miðnætti í París í kvöld. Voða indæl mynd. Woody Allen er svo sætur. Fyndnar hugmyndir sem hann er með um að pör séu alltaf eitthvað að kítast. Uppáhalds setningin mín var The present time is always a little disappointing because life is a little disappointing.

26.5.11

Madeleine Albright segir

There is a special place in hell for women who don't help each other.

Hvers ertu virði

Ég var ekkert smá ánægð með að lesa þessa grein á npr.org í dag. Hún fjallar um hvernig internetið hjálpar manni að líða eins og maður sé einskis virði. Ef maður fær ekki like á facebookið sitt. Ekki nógu margir lesa bloggið manns. Maður er bara með 200 vini meðan flestir eru með 500 eða 5000.

Ég verð að viðurkenna að það er stór ástæða þess að ég hætti að vera með facebook síðu. Ég fílaði ekki að láta mæla mig svona. Það er náttúrulega ekki heimurinn sem er að mæla mann heldur maður sjálfur. En öll tækni og tól eru fyrir hendi og það er allt of mikið in your face.

Af hverju ætli fjöldi vina standi svona innan sviga? Er tilgangurinn sá að gera manni kleift að bera saman hvað hver á marga vini? Er það í alvörunni málið? Kannski er það til að kveikja áhuga hjá fólki. Fólk er svo mikið keppnis að það getur ekki staðist freistingarinnar. Getur ekki staðist freistingarinnar að reyna að fá fleiri vini en nágranninn. Eða besta vinkonan. Það er örugglega stór ástæða fyrir því að mannfólkið varð ofaná en ekki Neandertal maðurinn. Hann hefur örugglega ekki verið jafn mikill keppnis maður.

Það sem er af okkur Óla að frétta er að við kvöddum Atla á mánudaginn. Það var svaka fín heimsókn. Við fórum á uppáhalds veitingastaðinn okkar, borðuðum morgunmat á svölunum, fórum með ferjunni að skoða frelsisstyttuna. Gerðum þau mistök að tékka á Staten Island frekar en að fara bara með ferjunni beint til baka eins og maður á að gera. Það sem voru ekki mistök voru óteljandi göngu, hlaupa og hjólaferðir í central park. En núna eru þau hérna Andri og Ragnheiður að skoða New York. Þau komu bara í gær, kát og hress. Við erum að hugsa um að fara í Brooklyn Brewery um helgina.

19.5.11

Tengdapabbi í heimsókn

Það er yndislegt og svaka mikið chill. Við fórum í morgungöngu þvert yfir allan central park og núna erum við að fara á B-cafe í kvöldmat. B-cafe er belgískur bar og veitingahús sem við Óli elskum jafnt og lífið sjálft. Þar fær maður besta bjór í heimi í einstaklega fínum glösum og kræklinga með ef maður kærir sig um. Það er svosem ekki mikið skipulag nema bara njóta lífsins og slaka á. Borða góðan mat og fara kannski á tónleika.

Uppáhaldssvíinn minn þessa dagana er Hans Rosling. Hann er enginn venjulegur maður. Læknir, akademiker, tölfræðingur og gæðablóð. Gapminder er síðan hans þar sem maður getur leikið sér að tölfræði. Ha! Þetta hefði manni ekki dottið í hug í TÖL213, að það væri hægt að leika sér að tölfræði. Mér finnst náttúrulega CO2 emissions leikritið svaka skemmtilegt. Maður getur séð hvernig iðnbyltingin byrjaði í Bretlandi en síðan árið 1905 tóku Bandaríkin frammúr þeim. Annað sem er crazy er að árið 1840 var CO2 útblástur Bretlands (á haus) meiri en flest Afríkuríki í dag. Það er reyndar svolítil óvissa á þessum gögnum um gamla daga en samt. Munurinn er svaka mikill.

16.5.11

You tell me I don't have a hit

But guess what this is it. Vá hvað það er nice að vera heima hjá sér. Það var samt gaman í ferðalaginu. Sérstaklega í Frakklandi og í Brussels. Gott að geta eldað sér mat. Í kvöld er hanger steak sem er sama kjöt og notað er í lundabagga bara nauta ekki lamba. Ég er að marinera hana og síðan er það glóðsteiking. Ég elska að vera með gas ofn. Meðlæti er salat og aspas. Við Óli erum kannski að fara að flytja frá Bandaríkjunum. Komin með nóg af þessu pleisi. Segi svona. Ég á eftir að sakna New York. Get ekki ímyndað mér að við eigum eftir að finna borg með jafn góðri hljómsveit sem eru líka vinir okkar.

11.5.11

Frí búið

Stoppaði bara í einn dag í New York áður en ég feyktist hingað á vesturströndina. Er núna í Portland með svaka jet-lag og sit því í baðkerinu að vinna til að vekja ekki stúlkur sem sofa værum blundi. Fyrst er það ekkert svo óþægilegt en síðan er það kalt og hart.

Við áttum alveg frábæra ferð til Evrópu. Frakklandsreisa með vínsmökkun var náttúrulega alveg frábær og síðan skoðuðum við Lille og skólann hennar Sunnu. Og litla herbergið hennar. Dúlli dúll. Mamma og Óli tóku síðan lest til Parísar en við Sunna urðum eftir og löbbuðum heim til hennar þar sem það var 1. mai og meira að segja lestin gekk ekki. Það tók okkur hátt í tvo tíma en við vorum búnar að fá nóg af því að gera hluti svo það var bara ágætt.

Síðan fór ég til Belgíu. Til Liege á ráðstefnu. Liege er bæði söguleg og falleg borg, sama hvað Belgar halda. Þar er hægt að fá góðar vöfflur og allskonar gott. Á miðri ráðstefnu fóru kennarar í verkfall. Við hefðum kannski ekki tekið mikið eftir því nema að strætóbílstjórar fóru í samstöðuverkfall og síðan fór samlokugæinn líka í samstöðuverkfall. Alveg ótrúlegt.

Á leiðinni til baka stoppaði ég í Bruxelles til að heimsækja Ólöfu. Það var ekkert smá geggjað. Brussels er alveg ótrúleg borg. Lítil og stór, falleg, skemmtileg, allskonar gott, svaka mikið af góðum bjór. Rétt eftir að ég kom gekk heil lúðrasveit niður götuna hennar Ólafar og fullt af fólki á eftir í skrúðgöngu. Upphitun fyrir næstu helgi þegar verður gay pride.

En nú er ég komin til Ameríku og sit í baðkeri og skoða gögn. Blahh.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?