11.5.11

Frí búið

Stoppaði bara í einn dag í New York áður en ég feyktist hingað á vesturströndina. Er núna í Portland með svaka jet-lag og sit því í baðkerinu að vinna til að vekja ekki stúlkur sem sofa værum blundi. Fyrst er það ekkert svo óþægilegt en síðan er það kalt og hart.

Við áttum alveg frábæra ferð til Evrópu. Frakklandsreisa með vínsmökkun var náttúrulega alveg frábær og síðan skoðuðum við Lille og skólann hennar Sunnu. Og litla herbergið hennar. Dúlli dúll. Mamma og Óli tóku síðan lest til Parísar en við Sunna urðum eftir og löbbuðum heim til hennar þar sem það var 1. mai og meira að segja lestin gekk ekki. Það tók okkur hátt í tvo tíma en við vorum búnar að fá nóg af því að gera hluti svo það var bara ágætt.

Síðan fór ég til Belgíu. Til Liege á ráðstefnu. Liege er bæði söguleg og falleg borg, sama hvað Belgar halda. Þar er hægt að fá góðar vöfflur og allskonar gott. Á miðri ráðstefnu fóru kennarar í verkfall. Við hefðum kannski ekki tekið mikið eftir því nema að strætóbílstjórar fóru í samstöðuverkfall og síðan fór samlokugæinn líka í samstöðuverkfall. Alveg ótrúlegt.

Á leiðinni til baka stoppaði ég í Bruxelles til að heimsækja Ólöfu. Það var ekkert smá geggjað. Brussels er alveg ótrúleg borg. Lítil og stór, falleg, skemmtileg, allskonar gott, svaka mikið af góðum bjór. Rétt eftir að ég kom gekk heil lúðrasveit niður götuna hennar Ólafar og fullt af fólki á eftir í skrúðgöngu. Upphitun fyrir næstu helgi þegar verður gay pride.

En nú er ég komin til Ameríku og sit í baðkeri og skoða gögn. Blahh.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?