31.5.21
Flutt til Íslands
Við fluttum heim síðasta sumar. Ég veit ekki útaf hverju, en ég gat ekki bloggað. Stundum getur maður það bara ekki. En þetta er búið að vera yndislegur tími. Eftir sóttkví bjuggum við hjá mömmu. Börnin fóru á námskeið, Ásta fór í leikskóla og við Óli að vinna í fjarvinnunum okkar. Síðan fór brúnin á Fauci að þyngjast, okkur hætti að lítast á blikuna og tókum, loksins, þessa stóru ákvörðun. Þá hófst heljarmikið kapphlaup að skoða íbúðir og pæla í hverfum og skólum.
Mamma var búin að selja sína íbúð svo við þurftum öll að flytja um miðjan ágúst. Hún fékk inni hjá Oddi bróður sínum og við fengum íbúð í Lindahverfinu í Kópavoginum. Á einni viku fluttum við í Kópavoginn, fundum við stórkostlega íbúð í Hlíðunum, ég dreif mig til Chicago að pakka niður búslóðinni okkar og segja skilið við Chicago íbúðina og stelpurnar byrjuðu í skóla á Íslandi. Þetta var smá þeytingur. Sem betur fer var "heimkomusóttkví" á þessum tíma en ekki einangrunar/sumarbústaða sóttkví svo þetta púslaðist akkúrat saman.
Ég keypti mér líka bíl, lauf - bláa skýjið - ásamt mjög langri framlengingarsnúru sem ég stakk innum eldhúsgluggann í Galtalindinni og gat þannig ferjað börnin milli bæjarhluta með betri samvisku. Við fengum afhent í lok sept og fórum strax í það að fá mannskap til að mála og græja. Ester mætti með kúbein og við rifum niður einn vegg. Síðan fluttum við inn í lok október, fengum gáminn nokkrum vikum seinna og erum enn að taka uppúr kössum.
Við brugðum undir okkur betri fætinum um síðustu helgi. Fórum í Vík í Mýrdal. Skoðuðum Skógafoss, Reynisfjöru og Dyrhólaey. Langþráður draumur frumburðarinns rættist þegar þessi í eldri kantinum skutluðu sér yfir gil í aparólu.
25.5.20
Sóttkví
2.5.20
Milestones
Ekki nóg með þetta heldur erum við fjölskyldan að teygja úr okkur í picnic í Humbolt park í dag og börnin að klifra í tré þegar mér dettur í hug að smella nokkrum myndum af þeim öllum saman upp í tré. Þá heyrist í Ástu "ekki senda nokkrum manni þess mynd af mér!" Sem þýðir að hún er orðin self concious sem er klárlega þroskamerki.
Í gær fórum við í hjólatúr um hverfið enn einu sinni og datt í hug að taka myndir af listinni sem varð á vegi okkar. Svona vegg myndir eru oft svo skemmtilegar. Þessi hundur er reyndar í garðinum okkar en við höfðum aldrei tekið mynd af honum fyrr svo þetta var gott tækifæri.
20.4.20
"Súkkulaði er matur"
Við drifum okkur næstum því út fyrir borgina um helgina. Fórum í skóginn umhverfis Argonne National Laboratory. Það var svaka indælt. Hlýtt og notalegt. Fórum útfyrir stíginn og lékum okkur í skóginum. Þetta var mjög hressandi. Við höfum ekki farið mikið í þessari einangrun. Aðallega bara hjólatúra um hverfið og göngutúra. Síðan lékum við svolítið Mice and Mystics sem stelpunum, öllum nema Ástu, finnst svaka spennandi. Hlutverkaspil í boði pabba.
Ein af mömmunni líka. Páskaeggin komu fyrir páska. Reyndar var bara eitt heilt. Ásta litla beibi fékk það. Hún borðaði allt nammið innan úr því og síðan var hún að reyna að betla nammi af okkur hinum og ég segi eithvað svona hvort hún vilji ekki bara borða páskaeggið sitt. Hún er eitt spurningamerki á svipinn, ha? "Súkkulaði er matur" as in "ekki nammi". Okkur fannst þetta nú aðeins fyndið.
Annars er ekki mikið að frétta. Heimaskólinn gengur ágætlega en ég er ekki mikið að stressa mig á þessu. Þær eru voða mikið í einhverjum mömmu leikjum og hundaleikjum og blómálfaleikjum. Edda á aðra fjölskyldu sem eru öll blómálfar og heldur okkur vel upplýstum um þeirra hagi og hvað er svona helst uppi á teningnum hjá þeim öllum. Kennarinn hennar Sólveigar kom í smá heimsókn í dag að skila inniskóm og fleira dóti. Sólveig var svo glöð að sjá hana. Þetta var mjög indælt.
3.4.20
Þessi vika leið á hálftíma
30.3.20
Zoom
29.3.20
Ásta Guðrún 4 ára
Þetta var svo indælt og við vorum með ljómandi gott partý en á sama tíma aðeins sorglegt að halda upp á 4 ára afmæli mitt í plágunni. En fólk hefur nú haft það verr í gegnum tíðina og við getum ekki kvartað. Búrið er fullt af nauðsinjum og lúxus. Ásta bað um pizzu í kvöldmat og við gerðum allar pizzur, þeirra voru ljómandi góðar en okkar Óla var lang-best. Hún var með pepperoni, ólívum, pickled peppers, sveppum, rauðlauk, gorgonzola, mozzarella og hvítlauk. Þetta var örugglega besta pizza sem ég hef á ævinni fengið. Við vorum með Frozen 2 movie night með pizzunni og afmælisköku í desert. Þetta var toppurinn á tilverunni. Að minnsta kosti covid-tilverunni.