30.11.14

Þegar börnin fara að tala

Það er svo skemmtilegt þegar börnin manns byrja að tala.  Að hluta til vegna þess að það er eins og að fá spegil á sálarlíf manns.  Stundum þegar Edda er að borða segir hún "þetta er voða gott".  Það er fyndið því hún segir það aðeins eins og útlendingur eða páfagaukur.  Það var páfagaukur á heimilinu sem við vorum á í Flórída svo ég er ekkert að búa þetta til.

En síðan eru börn, og sérstaklega mín að mínu mati, svo sæt og þegar þau tala þá er það svo endalaust sætt.  Þau eru svo mjóróma og geta ekki borið fram nema bara annan hvern staf.  Edda segir t.d. T í staðin fyrir K.  Koma verður Toma.  Hún segir L í staðin fyrir R og eins og Japanir vill hún að hvert atvik sé samhljóði og síðan sérhljóði.  Flórída verður þannig Fólída og Klára er Tála  Hún getur hvorki sagt V né G.  Sólveig er Sólíl.

Hún getur samt tjáð sig ágætlega sem kom sér sérstaklega vel núna í kvöld þegar við vorum að setjast við kvöldverðaborðið og Edda var með blautan þvottapoka vafinn um handlegginn.  Þá gat ég bara spurt hana.  Af hverju ertu með þvottapoka um handlegginn Edda?  Og hún gat bara sagt: Til að þurrka kúkinn af erminni.  Okkur fannst þetta stórkostlegar upplýsingar og gátum brugðist við þessu vandamáli áður en við settumst.

Sólveig er líka að byrja að tala.  Hún segir mamma mjög skýrt.  Síðan segir hún af og til dada og banana og nammi.  Það verður spennandi að fylgjast með hennar málþroska.  Hef á tilfinningunni að hann verði samfelldri en Eddu en Edda sagði varla nokkur orð í sumar en er meira og minna altalandi núna, nokkrum mánuðum seinna.  Hún beygir líka, setur í fleirtölu (tvær bækur) og stundum þátíð þegar það á við.

29.11.14

Flórída

Eða Fólída eins og Edda segir.  Það er orðinn árlegur viðburður hjá okkur að fara suður á bóginn í þakkargjarfrí.  Núna varð St. Pete fyrir valinu.  Heimsóttum Valtý og Lenu og vorum í nokkra daga á ströndinni.  Það er nú frekar mikið chill í St. Pete.  Valtýr og Lena voru líka með smá þakkargjarðarpartý með pókerspili og látum.  Ég tapaði öllu en Óli kom út á sléttu þegar það er tekið með í reikninginn.  Edda var ekki lítið ánægð með að komast í sund en Sólveig er meira og minna sátt við hvað sem maður býður henni upp á.



15.11.14

Þreytt

Við hjónin erum svo bilaðslega þreytt að það er hrikalegt.  Við skiptumst á að sofa.  "Nú ert þú búin að sofa í 2 tíma, þá má ég sofa í tvo tíma".  Þetta er fáránlegt.  Ég vildi óska að börnin mín vöknuðu ekki á miðnætti og klukkan sex á morgnanna.


Efnisorð:


10.11.14

Peek

Þetta var ljómandi góð vika hjá okkur.  Anna og Jason voru í árlegri haust ferð í NY og gistu pínulítið hjá okkur.  Það er ekkert smá heimilislegt og indælt að hafa skyldfólk sitt í heimsókn.  Fyrir þá sem ekki vita það þá erum við náttúrulega með heilt gestaherbergi og finnst huggulegt þegar það er nýtt.

Nýjasta sportið hjá Sólveigu er að standa upp við bekk eða borð og sleppa fyrst annari hendinni og síðan hinni.  Og detta síðan beint á rassinn.  Hún brunar útum allt á fjórum og er algjör kjúkklingur.  Hún elskar að kanna hvern krók og kima hérna.  Sérstaklega skóhilluna, kústana og ruslið.

Edda hernir eftir öllu sem við segjum.  Ef ég segi við Óla "takk fyrir mig beibi" sem er eitthvað sem ég geri.  Þá segir hún "takk fyr-ir mig bei-bi".  Og ef ég er að keyra Eddu í kerrunni og beygi í hugsanaleysi inn vitlausa götu og segi svona meira við sjálfa mig "mamma er nú meiri álfurinn" þá segir Edda "mamma Eddu meiri álfurinn".



4.11.14

Peek of the week

Kennarinn hennar Eddu sendir út svona smá fréttabréf í vikulok um helstu viðburði þeirrar viku.  Mér finnst ekkert lítið gaman að lesa um hvað barnið mitt gerir þegar ég er ekki viðstödd.  Svo fékk ég hugmynd um að kannski væri gaman að skrifa smá blogg um það helsta sem á okkar viku dreif.

Þetta var mjög sérstök vika þar sem við fengum met fjölda af íslenskum gestum.  Fyrst kom Sigurdís mín aðeins við þar sem hún var að fara í starfsviðtal í the Bronx daginn eftir.  Síðan kom Anna frænka okkar aðeins við í hádegismat áður en hún flaug aftur til baka og daginn eftir kom Oddur í langa maraþon helgi.  Svaka skemmtilegt.

Þessa dagana er ég að vinna í að kenna dúllunum að sofna sjálfar.  Sólveig fær ekki lengur að sofna með geirvörtuna uppí sér en hún er í vandræðum með að sofna án þess að fá rugg og söng.  Edda er í agalega miklum vandræðum með að sofna en við vorum að byrja með nýja rútínu sem hefur reynst alveg ágætlega:  Bað kl. hálf sex.  Matur kl. 6.  Bursta tennur kl. hálf sjö og lesa til sjö.  Saga og bænir og slökkva ljósið um sjö.  Undanfarna tvo daga hefur Edda sofnað á met tíma, kannski tíu mínútum.

Við fórum í óperuna á Brúðkaup Fígarós sem var geggjað.  Skemmtilegasta kómedía sem ég hef séð.  Síðan fór ég í aðgerð sem var líka geggjað.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?