30.11.14

Þegar börnin fara að tala

Það er svo skemmtilegt þegar börnin manns byrja að tala.  Að hluta til vegna þess að það er eins og að fá spegil á sálarlíf manns.  Stundum þegar Edda er að borða segir hún "þetta er voða gott".  Það er fyndið því hún segir það aðeins eins og útlendingur eða páfagaukur.  Það var páfagaukur á heimilinu sem við vorum á í Flórída svo ég er ekkert að búa þetta til.

En síðan eru börn, og sérstaklega mín að mínu mati, svo sæt og þegar þau tala þá er það svo endalaust sætt.  Þau eru svo mjóróma og geta ekki borið fram nema bara annan hvern staf.  Edda segir t.d. T í staðin fyrir K.  Koma verður Toma.  Hún segir L í staðin fyrir R og eins og Japanir vill hún að hvert atvik sé samhljóði og síðan sérhljóði.  Flórída verður þannig Fólída og Klára er Tála  Hún getur hvorki sagt V né G.  Sólveig er Sólíl.

Hún getur samt tjáð sig ágætlega sem kom sér sérstaklega vel núna í kvöld þegar við vorum að setjast við kvöldverðaborðið og Edda var með blautan þvottapoka vafinn um handlegginn.  Þá gat ég bara spurt hana.  Af hverju ertu með þvottapoka um handlegginn Edda?  Og hún gat bara sagt: Til að þurrka kúkinn af erminni.  Okkur fannst þetta stórkostlegar upplýsingar og gátum brugðist við þessu vandamáli áður en við settumst.

Sólveig er líka að byrja að tala.  Hún segir mamma mjög skýrt.  Síðan segir hún af og til dada og banana og nammi.  Það verður spennandi að fylgjast með hennar málþroska.  Hef á tilfinningunni að hann verði samfelldri en Eddu en Edda sagði varla nokkur orð í sumar en er meira og minna altalandi núna, nokkrum mánuðum seinna.  Hún beygir líka, setur í fleirtölu (tvær bækur) og stundum þátíð þegar það á við.

Comments:
Ahaha! Þetta barn er nú nokkrum númerum of dásamlegt! Gott að vera svona lausnamiðuð: kúkur á erminni - þvottapoki í málið.
Kv,
Silla
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?