18.9.12

Litla Klifurmús

Barnið tekur framförum á hverri mínútu.  Hún er komin með þrjár tennur.  Eina niðri og tvær uppi.  Hún stendur upp.  Stóð fyrst upp við fætur föður síns þegar hann var í tölvuleik um helgina.  Stóð rígmontin og völt og pabbinn tók ekki eftir neinu.  Síðan þá er hún búin að vera að æfa þennan nýja hæfileika og í dag stóð hún á hnjánum.  Alveg sjálf, án þess að styðja sig.  Og undrunar svipurinn var óborganlegur.  Hann sagði Vá!  Þetta er líka hægt!  Hver eru takmörk lífs míns?

Síðan er hún búin að vera að æfa sig í að klifra upp tröppurnar í stofunni.  Hún kemur skríðandi og setur aðra höndina upp á fyrstu tröppuna þegar hún er nógu nálægt.  Stundum fer hún ekki nógu nálægt.  En þegar það heppnast, þá fylgir hin höndin eftir og hún krýpur á hnjánum við fyrstu tröppuna.  Þá setur hún aðra höndina á næstu tröppu, annan fótinn undir sig, og síðan hina höndina upp og stendur upp alveg.  Þá er hún svaka montin en veit ekki hvað hún á að gera næst.  Stundum teygir hún sig í mig.  En einu sinni reyndi hún að fara með annað hnéð upp á fyrstu tröppuna.  Þá var nú klifurmamma stolt.

En Edda er með allskonar klifur-move sem við Óli vorum í mörg ár að æfa okkur í.  Hún tekur í brúnir með fingurgómunum svo eitthvað sé nefnt.  Hún notar fæturna heilmikið.  Til dæmis ef hún hangir á borðbrún þá setur hún fæturna sitthvoru megin við borðfótinn og reynir að hífa/spyrna sig upp.  Hún reynir að nota viðnám við lófa og fingur ef hún vill standa upp þar sem engin brún er, aðeins veggur.  Það sem hún hefur sem við Óli náðum aldrei er að hún er að stanslaust, frá því að hún vaknar og þangað til hún sofnar.  Í dag var hún svo spennt að æfa sig í þessu öllu að hún var komin með dökka bauga undir augun og fór að skæla í miðju move-i og sofnaði eiginlega þannig.

Það er ekkert smá magnað að fylgjast með barninu manns þroskast og vaxa.  Magnað að öll börn vaxa og þroskast meira og minna eins og allar mæður eru jafn hugfangnar af því.

15.9.12

Við Edda að kaupa í matinn

Þetta er í fyrsta sinn sem Edda fær að sitja í innkaupakerru.  Henni fannst hún svaka fullorðin ímynda ég mér. Svaka chilluð með hendina á stólbakinu.  Okkur Óla finnst barnið okkar svo fullkomið/fyndið/sæt.



14.9.12

Huggulegheit

Barnið sefur.  Hú ha.  Í gær var hún sofnuð rétt rúmlega átta og núna, um hálf ellefu næsta morgun, er hún búin að sofa í smá stund.  Hún vaknaði reyndar fyrir allar aldir og fór að hnoðast um en við Óli dormuðum bara í gegnum það.  Núna er ég bara að drekka kaffi og lesa New Yorker og nema hvað, átti pain aux raisin sem ég keypti í gær.  Enginn smá lúxus hér á bæ.

Þessi vika hjá okkur var nokkuð róleg.  Við Edda vorum bara að koma okkur í einhverskonar rútínu eftir sumarleyfi sem varði hálfa ævi barnsins.  Það fólst í því að kaupa allskonar dót.  Byrjuðum á því að kaupa bað, svamp og önd og nú er Edda böðuð á kvöldin kl. 6.  Hún er þvegin hátt og lágt með svampi og leikur sér að öndinni og skvettir heilmikið.  Henni finnst það ekki lítið gaman.  Síðan keyptum við lítil ílát og sílikon skeiðar sem eru mjúkar fyrir mjúka góma og eftir baðið fær Edda að borða.  Graut með grænmeti útí.  Gulrætur eða blómkál hingað til.  Um daginn fékk hún reyndar lax og það fannst henni lang best.  Eftir kvöldmat er hún alveg úrvinda og þá er hátta tími.  Þá lesum við bók og Edda fær smá brjóstamjólk.  Þá er hún tilbúin að fara að sofa.  Ég er búin að vera að reyna að kenna henni að fara að sofa án þess að vera með geirvörtu upp í sér.  Í fyrstu fannst henni ekki mikið um það og orgaði mikið.  Á þriðja degi (í gær) virtist hún bara sátt við það og kjökraði aðeins í nokkrar mínútur en stein sofnaði síðan bara.

Þannig er nú lífið hér á bæ.

9.9.12

Önnur tönnsla

Er komin.  Beint á móti, í efri góm.  Edda fagnaði með því að bíta pabba sinn í nefið sem snarlega gólaði á!

Við erum komin heim aftur frá Seattle.  Lífið okkar er smám saman að komast á réttan kjöl.  Edda er dugleg í að snúa sólarhringnum rétt.  Hún vaknar hálftíma til klukkutíma fyrr á hverjum morgni og sofnar að sama skapi fyrr á kvöldin.  Mjög kórrétt allt saman.

Síðan á hún núna stól og situr í honum 2-3 á dag og borðar.  Graut með einhverju góðu útí.  Í gær var það lax.  Coho.  Það er vesturstrandar lax sem við sáum hoppa í Seattle.  Þar er stigi fyrir laxinn til að komast aftur á æskuslóðir þegar hann vill hrygna.  Hann myndi ekki komast sjálfur því fyrir á ánni eru lásar til að hleypa bátum upp.  Fyrir rúmum hundrað árum byggði hygginn maður þessa "stiga" fyrir laxinn til hann kæmist og í dag getur maður horft á hann fara stigann.  Við sáum einmitt Svona coho lax og einnig Chinook lax sem heitir líka King lax og þykir öðrum fremri hjá matgæðingum.  Við Óli getum reyndar staðfest það því við fórum á fínasta sjávarrétta stað bæjarins og fengum Kónga lax.  Óli rauðan og ég hvítan.

En nú erum við komin heim og  farin að baby-proofa því Edda fer bara útum allt og kemur sér í bobba.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?