14.9.12

Huggulegheit

Barnið sefur.  Hú ha.  Í gær var hún sofnuð rétt rúmlega átta og núna, um hálf ellefu næsta morgun, er hún búin að sofa í smá stund.  Hún vaknaði reyndar fyrir allar aldir og fór að hnoðast um en við Óli dormuðum bara í gegnum það.  Núna er ég bara að drekka kaffi og lesa New Yorker og nema hvað, átti pain aux raisin sem ég keypti í gær.  Enginn smá lúxus hér á bæ.

Þessi vika hjá okkur var nokkuð róleg.  Við Edda vorum bara að koma okkur í einhverskonar rútínu eftir sumarleyfi sem varði hálfa ævi barnsins.  Það fólst í því að kaupa allskonar dót.  Byrjuðum á því að kaupa bað, svamp og önd og nú er Edda böðuð á kvöldin kl. 6.  Hún er þvegin hátt og lágt með svampi og leikur sér að öndinni og skvettir heilmikið.  Henni finnst það ekki lítið gaman.  Síðan keyptum við lítil ílát og sílikon skeiðar sem eru mjúkar fyrir mjúka góma og eftir baðið fær Edda að borða.  Graut með grænmeti útí.  Gulrætur eða blómkál hingað til.  Um daginn fékk hún reyndar lax og það fannst henni lang best.  Eftir kvöldmat er hún alveg úrvinda og þá er hátta tími.  Þá lesum við bók og Edda fær smá brjóstamjólk.  Þá er hún tilbúin að fara að sofa.  Ég er búin að vera að reyna að kenna henni að fara að sofa án þess að vera með geirvörtu upp í sér.  Í fyrstu fannst henni ekki mikið um það og orgaði mikið.  Á þriðja degi (í gær) virtist hún bara sátt við það og kjökraði aðeins í nokkrar mínútur en stein sofnaði síðan bara.

Þannig er nú lífið hér á bæ.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?